Ein leið til frelsis?

Ein leið til frelsis?

Óttinn við að vera ein án félagslegra tengsla lætur okkur oftar en ekki fallast á mun minna í lífinu en við eigum í raun og veru skilið. Það aftur á móti skilar okkur engri lífshamingju, að minnka okkur til að aðrir í kringum okkur stækki. Innst inni í hjartanu vitum við betur en að fallast á slík skipti.

Flutt 18. febrúar 2018 í Hjallakirkju

Andstæður

Ég skrifa aðeins út frá mér
en þú lest það allt
með hliðsjón af þér
eða því sem ég hef sagt
og gert, jafnvel látið í ljós
að sé með svofelldum hætti.

Þess vegna eigum við
ólíkan samastað
með vísun á báða bóga
og vitund um það
að í veröld okkar liggja
vegirnir sitt á hvað.

Þetta ljóð söngvaskáldsins Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar lýsir á áhugaverðan hátt því sem gerist þegar samskipti milli einstaklinga eru flókin og erfið, þegar það vantar þennan heilbrigða vinkil sem felst í því að taka fólki eins og það er, með kostum þess og göllum og stunda virka hlustun eftir því sem fólk er að segja eða hefur fram að færa.

Hér er því líst þegar fólk tekur sér það vald að skilgreina annað fólk út frá sér eða sínum aðstæðum og tilfinningum og ákveða um leið að eitthvað í fari annarra sé með einum eða öðrum hætti án þess að spyrja beint eða leyfa fólki að njóta vafans.

Þegar samskipti verða með þessum hætti, þá er niðurstaðan eftirfarandi: Við eigum ekki sama samastað í lífinu, því þegar við tökum okkur það vald að skilgreina annað fólk án þekkingar á raunverulegum aðstæðum þess, þá finnum við okkur ósjálfrátt í ólíkum heimum, veröld sem liggur samhliða en myndar ekki eina heild þar sem ríkir skilningur, heiðarlegt samtal og kærleikur.

Ég hugsa að það séu ófáir sem eiga þessa reynslu, að upplifa það að annað fólk tali um það, aðstæður þess og líf án þess að hafa möguleikann á að rétta sinn hlut eða koma vörnum við. Og ef að það er reynt, þá er fólk nú þegar búið að mynda sér skoðun út frá annarlegum sjónarmiðum, þannig að þú stendur varnalaus gagnvart því sem sagt er eða miðlað hefur verið um þig og þitt líf.

Aðstæður sem þessar eru því miður of algengar í dag, þar sem við sjáum þetta á samfélagsmiðlum gagnvart þekktum sem óþekktum einstaklingum og komentakerfi fjölmiðla eru full af sérfræðingum sem vita allt betur um líf þeirra sem verið er að fjalla um hverju sinni.

Afþreyingariðnaðurinn þrífst á sögusögnum um fræga einstaklinga og sýndarveruleikinn er einhvern veginn áhugaverðari en raunveruleikinn hverju sinni. Hugsanlega er hann bara of hversdagslegur og venjulegur til að við nennum að leggja við hlustir. Það þarf alltaf smá krydd til að við höfum áhuga á að fylgjast með.

Sams konar aðstæður geta líka spillt vinasamböndum og heilu fjölskyldunum, þar sem fólk tekur sér það sama vald að ákveða hvernig lífi sinna nánustu er háttað hverju sinni án þess að leita sannleikans fyrst.

Að vera í þessari stöðu er full af sársauka og varnaleysi. Svolítið eins og að vera staddur í óbyggðum þar sem þú hefur engan til að treysta á nema þig og þitt eigið hyggjuvit og hjarta.

Freistingarnar geta verið nokkrar í slíkum aðstæðum þar sem þig langar til að losna við sársaukann og óvissuna, hrópa í eyðimörkinni, sannfæra heiminn um það að þú sért í lagi, það sem hefur verið sagt og metið sé ekki rétt. Þú heilt yfir standir þig og sért góð og heilbrigð manneskja.

Þannig ertu til í að ganga á þitt sjálf, minnka þig og veru þína, með það að markmiði að þóknast öðrum, þó að í hjartanu vitirðu að þú eigir að bregðast allt öðru vísi við, vernda þig og þína nánustu og standa gegn straumnum og almannarómnum sem yfirtekur allt og alla.

Aðstæður sem þessar geta orðið þín eigin eyðimerkuganga í lífinu, erfið og grimm en stundum er hún nauðsynleg til að þú verðir heil eða heill.

Málið er það, að viljirðu tilheyra einhverju á raunverulegan hátt, þá er það andleg iðkun og sú iðkun felst í því að þú verður að finna að þú tilheyrir sjálfri/sjálfum þér á svo djúpstæðan hátt, að þú öðlist þannig frelsi til að sýna öðrum þitt sanna sjálf og finna um leið heilagleikann í því að vera bæði hluti af einhverju og um leið hafa hugrekki til að standa stundum einn eða ein í óbyggðunum.

Það að tilheyra einhverju eða einhverjum raunverulega, krefst þess ekki af þér að þú breytir þér í takt við almannaróm eða almenningsálit. Það krefst þess að þú sért nákvæmlega þú, með öllu sem þér tilheyrir.

Það felur í sér að stundum verðum við að standa ein, draga okkur út úr aðstæðum sem meiða okkur og persónu okkar. Stundum er það val sáraukafullt og felur í sér að við þurfum að skera á tengsl við vini eða fjölskyldu en þegar sálarheill og lífsgleði okkar er í húfi þá verðum við oft að taka þetta skref, þó að fórnarkostnaðurinn sé hár hverju sinni. Stundum er hann ein leið til frelsis.

Málið er það að ætlum við að fara í gegnum lífið leitandi að staðfestingu á því að við eigum engan samastað, þá munum við finna þá staðfestingu, því að við höfum gert þá leit að markmiði okkar.

Ætlum við að fara í gegnum lífið leitandi að vísbendingu í andlitum fólks að við séum ekki nóg, þá munum við finna þær, því við höfum gert það að markmiði okkar að fá þá staðfestingu.

Það að tilheyra einhverju eða einhverjum og okkar virði í lífinu er og verður aldrei samningsatriði við umheiminn.

Sannleikurinn um það hver þú ert, er nú þegar til og lifir í þínu hjarta.

Hugrekki okkar felst í því að vernda okkur sjálf gagnvart stöðugu utanaðkomandi mati eða sögusögnum um það hver við erum.

Jesú tekst á við þetta sama þegar honum eru boðin öll heimsins gæði í óbyggðunum gagnvart því að hann beygi sig og afsali sjálfum sér og persónu sinni.

Djöfullinn eða hið illa á sér margar birtingarmyndir og birtist oftar en ekki í því þegar mennskan þín og virði er dregin í efa af umhverfinu þínu og mistökin þín negld á kross, óafturkærf, stöðug áminning um að þú sért ekki heil eða heill.

Jesús hafnar þessu, hann bíður illskunni birginn. Hann gengur í gengum sársaukann sem því fylgir, einn en að leiðarlokum hefur hann sigur því hann veit að hann er elskað guðsbarn, og minnir okkur um leið á það að við erum það líka.

Við erum aldrei ein, jafnvel þegar við erum sjálf stödd í óbyggðunum, hrædd og varnarlaus og freistingin um að kasta virði okkar og mennsku fyrir róða er meiri en löngunin til að standa af sér storminn.

Óttinn við að vera ein án félagslegra tengsla lætur okkur oftar en ekki fallast á mun minna í lífinu en við eigum í raun og veru skilið.
Það aftur á móti skilar okkur engri lífshamingju, að minnka okkur til að aðrir í kringum okkur stækki. Innst inni í hjartanu vitum við betur en að fallast á slík skipti.

Jesús kom nefnilega ekki í heiminn til að bjarga okkur frá okkar eigin mennsku. Hann gefur okkur ekki útgönguleið frá lífinu og öllu því sem fylgir. Það var ekki verkefnið sem honum var falið. Trúin skrifar ekki burt það vonda og ekki hið illa, heldur gefur okkur kjark til að standa í miðju stormsins, í óbyggðunum.

Ekki einungis til að lifa af, heldur til að við getum blómstrað í lífinu og orðið það sem okkur er ætlað að verða. Jesú gekk á undan okkur, í gegnum það sama í óbyggðunum og þekkir þess vegna baráttuna og um leið það að hafa sigur.

Jesús sem býður okkur að finna vonina og hugrekkið í Guði, sem kallaði hann og okkur öll, elskuð börn sín, þannig að við gætum uppgötvað hver við erum og öðlast þannig um leið hugrekki til að vera trú okkur sjálfum með því að fylgja hjartanu, jafnvel þó slík trú dragi okkur endrum eins út í óbyggðirnar.

Það er á þeim stað sem heimurinn verður heill, því þó það feli í sér að við þurfum að standa stundum ein, með sjálfum okkur, full ótta og efa um hæfni okkar til að fara inn í slíka óvissu og varnarleysi.

Þá skaltu vita að það er á þeim stað, ef þú trúir og fylgir hjartanu þínu, sem þú verður heil/heill og veröldin þín breytist um leið, því það ert þú sem ræður ferðinni í þínu lífi.

Það er á þeim stað sem kraftaverkin gerast og lífið, gleðin og vonin verða til.

Amen.