Hið dýrmæta í því smáa og umkomulausa

Hið dýrmæta í því smáa og umkomulausa

fullname - andlitsmynd Gísli Gunnarsson
25. desember 2007
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Birta jólanna sé hjá yður og með yður öllum. Amen.

Öll höfum við einhvern tíman heyrt sagt frá jólahaldi eins og það tíðkaðist hér áður fyrr á Íslandi. Sögur frá gömlu jólunum, þar sem fátækt alþýðufólk gerði sér dagamun með því að lýsa bæinn meira en venja var og fara í nýja flík, í tilefni hátíðarinnar.

Sum okkar eiga jafnvel minningar frá slíkum jólum. Í bókinni Íslenskir þjóðhættir segir Guðmundur frá Egilsá svo um jól bernskunnar: "Ekki voru jólagjafir komnar til sögu, þegar ég var barn. Oft var þó reynt að koma upp einhverri nýrri flík, þó ekki væri annað en íleppar í skóna. - Jól bernsku minnar finnst mér, að hafi einkennst af nægjusemi og einfald-leika. - Enn í dag man ég hve glaður ég var, þegar ég hélt á jólakertinu mínu og horfði á þetta fallega ljós."

Yngra fólki kann að virðast að þessar minningar séu aftan úr grárri forneskju, en í raun og veru er ekki svo langt síðan að jól íslensks alþýðuflólks voru með þessu sniði og sú kynslóð sem nú er komin á efri ár man vel slík jól.

Það er eftirtektarvert hvað þessi fátæklegu hátíðarhöld höfðu mikil áhrif á barnið, áhrif sem fylgdu því alla ævi, jólaljósið sem lýsti upp sálina um leið og myrkrið í baðstofunni hörfaði um stund. Það var heilög stund, ljósið frá Betlehem lýsti upp vetrarmyrkrið og ylur þess var táknrænn fyrir þann kærleika sem hátíðin boðaði.

Jólaguðspjallið, frásagan af fæðingu frelsarans sem lagður var í jötu talaði einnig vel inn í þær aðstæður sem börnin þekktu. Fjárhúsið var hluti af tilverunni og einmitt á jólum var stundum erfitt að bíða eftir því að hinir fullorðnu lykju gegningum áður en jólahátíðin gekk í garð. Og meðan beðið var, þá var jafnvel hægt að sjá fyrir sér fæðingu Jesú í fjárhúsi, ekki síst ef jólastjarnan var sjáanleg þar yfir.

Þannig gekk Guð inn í mannleg kjör. "Sá Guð, er ræður himni háum, hann hvílir nú í dýrastalli lágum." Hann valdi hið fátæka og smáa, hið einfalda og umkomulausa. Segir það okkur ekki eitthvað um kærleika Guðs? Voru ekki störf og boðskapur Jesú til varnar hinum veiku og umkomulausu. Hann sem sagði: "Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér."

Ekki er ég rifja upp gömlu jólin til þess að halda því fram að allt hafi verið betra þá en nú er. Síður en svo. Enginn mundi kjósa að hverfa aftur til þeirra híbýla sem þá voru og til þeirrar fátæktar sem landlæg var. Það segir sig sjálft. En kannski getum við staldrað við og hugleitt þær breytingar sem orðið hafa og spurt hvort eitthvað hafi tapast sem var dýrmætt og heilagt hér áður fyrr.

Oft leynist eitthvað dýrmætt í því smáa og umkomulausa. Nýlega sá ég auglýstan disk með hinum þekktu Stikluþáttum sjónvarpsins og var þá sýnt brot af viðtali við Gísla á Uppsölum sem varð landsfrægur á einu kvöldi þegar þátturinn um hann var sýndur. Allt í fari hans var öðruvísi en fólk átti að venjast. Klæðnaður hans, málfar og híbýli var með þeim hætti að fólk gerði góðlátlegt grín að þessum einstæðingi, en um leið þá eignaðist hann einhvern óræðan sess í þjóðarsálinni. Kannski var hann andstæðan við það sem allir keppast eftir og hann minnti okkur á gamla tímann. Minnti okkur á forfeður okkar og hvar rætur okkar liggja.

Þessi okkar minnsti bróðir samdi fallega bæn, sem mér er til efs að margir sem búa við betra atlæti gætu leikið eftir. Bænin hans hljóðar þannig:

"Þegar raunir þjaka mig / þróttur andans dvínar. Þegar ég á aðeins þig, / einn með sorgir mínar. Gef mér kærleik, gef mér trú, / gef mér skilning hér og nú. Ljúfi Drottinn lýstu mér, / svo lífsins veg ég finni. Láttu ætíð ljós frá þér, / ljóma í sálu minni."

Þessi bæn er vissulega bæn jólanna. Og þó að jólahátíðin sé fyrst og fremst hátíð gleði og friðar, þá er ekki látið eins og raunir og sorgir séu ekki til. Þær eru okkur nálægar, - einnig á jólum, en við erum minnt á að fela þær Guði og treysta því að hann muni vel fyrir sjá. Á það minna einnig jólasálmarnir: "Í dag er glatt í döprum hjörtum," og "Gleð þig særða sál, lífsins þrautum þyngd."

Jólin koma með helgi sína og blessun hvernig sem ástatt er í lífi okkar. Það er einmitt leyndardómur jólanna. Og þá er sérstakur vitjunartími, sem við eigum að nota til uppbyggingar. Til þess að laga það sem aflaga hefur farið og gera heilt á ný það sem hefur laskast, innan fjölskyldna eða í samkiptum okkar við annað fólk.

Þannig starfar kærleikur Guðs, sem jólin vitna um.   Sumum virðist mikið í mun að minna á það að jólin hafi verið haldin hátíðleg löngu fyrir fæðingu Jesú og að kirkjan  hafi nánast tekið þau ófrjálsri hendi. Enginn neitar því að löngum hefur mannkyn fagnað því þegar sól hækkar aftur á lofti og daginn tekur að lengja.

En með fæðingu Jesú Krists fékk hátíðin nýtt innihald, rétt eins og páskahátíð gyðinga fékka nýja þýðingu með upprisu Jesú. Fæðing Jesú var upphaf að nýrri trú, von og kærleika sem mótað hefur kynslóðir vesturlanda allt til þessa. Menning og listir aldanna er einnig mótuð af þessum boðskap.

En það sem skiptir mestu er það, að þessi boðskapur, trúin, vonin og kærleikurinn móti okkur. Að við finnum það innst inni að trúin er okkur dýrmæt og mikilvæg. Að hún gefi okkur styrk og gleði og frið og æðruleysi. Það er gleði jólanna.

Það er sú gleði sem fyrri kynslóðir fundu þrátt fyrir fátæklega ytri umgjörð og jafnvel örbyrgð. Og sú gleði má ekki tapast í allsnægtum samtímans og jafnvel óhófi. Kannski þarf að hægja aðeins á, og vera glöð á jólum þó við fáum ekki úr í jólagjöf sem kostar hálfa milljón. 

Hin sanna gleði tengist því sem er lifandi, fólkinu sem okkur er kært og á jólum skulum við þakka fyrir allt það sem er gott í lífi okkar. - Margir kannast við það, að þegar þeir verða fyrir mótlæti og áföllum í lífinu, vaknar gjarnan spurningin: Af hverju ég. Af hverju hendir þetta mig?

Sú spurning vaknar síður þegar allt gengur okkur í hag og allt fer á þá leið sem við höfðum vænst og þegar hamingjan brosir við okkur. Af hverju ég? Hvað hef ég unnið til þess að fá slíkar gjafir?

Við skulum þakka Guði fyrir allar góðar gjafir í lífi okkar og biðjum hann að blessa þau öll sem áhyggjur þjaka og líkna þeim sem sjúkir eru. Guð gefi öllum gleðileg jól.

Ljúfi Drottinn lýstu mér, svo lífsins veg ég finni. Láttu ætíð ljós frá þér, ljóma í sálu minni.

Í Jesú nafni. Amen.