Ég er tengd – þess vegna er ég til

Ég er tengd – þess vegna er ég til

,,Hnakkasamfélagið” er afsprengi einstaklingshyggjunnar þar sem hver kirkjugestur hefur aðeins möguleika á augnsambandi við prestinn og hugsanlega kórfólkið. Mörgum þykir kannski þægilegt að koma til kirkju og vera útaf fyrir sig, gott og vel, en við þurfum líka að bjóða upp á samfélagseflingu og vettvang fyrir samtal.

Mörg okkar kannast við fræga tilvitnun í heimspekinginn Descartes: Cogito ergo sum. Ég hugsa, þess vegna er ég til, á ensku: I think therefore I am. Tilvera mín grundvallast á hugsun minni. Ýmis afbrigði þessara fleygu orða hafa verið sett fram í gegn um tíðina. Eitt þeirra er orðaleikur við ensku útgáfu orða Descartes: I am linked therefore I am. Ég er tengd(ur), þess vegna er ég til. Það er félagssálfræðingurinn Kenneth J. Gergen sem setur þetta fram í grein frá árinu 2002 (www.swarthmore.edu/Documents/faculty/gergen/Self_and_Community_in_the_New_Floating_Worlds.pdf). Greinin fjallar um þau jákvæðu áhrif sem nútíma tækni, t.d. farsímar, getur haft á samskipti og tengsl á milli fólks.

Með þessum orðum vill Gergen leggja áherslu á að manneskjan sé fyrst og fremst tengslavera. Hugmyndir upplýsingatímans um manneskjuna sem fram koma í orðtæki Descartes undirbyggja einstaklingshyggju og þeirri hyggju vill Gergen andæfa.

Rofin tengsl Biblíutextar dagsins fjalla allir um rofin tengsl. Bæði í lexíu (Jes 64.3-8), pistli (1Tim 1.12-17) og guðspjalli (Lúk 15.11-32) er talað um synd. Hjá Jesaja er syndinni lýst þannig að við manneskjurnar risum upp gegn Guði frá fyrstu tíð, að við leitumst ekki eftir að gera það sem kærleikans er í hverjum aðstæðum. Synd Páls postula er á sama hátt brot gegn kærleiksríkum samskiptum með lastmælum, ofsóknum og smánun. Ef hægt er að tala um eðli syndar hlýtur það að vera sundrung, rof, frávik frá því sem er gott og rétt. Synd í biblíulegri merkingu er rof á einhverskonar tengslum, tengslum við Guð, tengslum við annað fólk, tengslum við sjálfa(n) sig.

Dæmisaga Jesú í guðspjalli dagins lýsir þessu mjög vel. Við erum vön að tala um ,,týnda” eða jafnvel ,,glataða” soninn og leggja þar með áherslu á rofnu tengslin. Stundum verða ófyrirsjáanlegir atburðir til þess að tengsl rofna á milli fólks. Oftar en ekki er þó um að kenna röngum, mannlegum ákvörðunum. Hér höfum við ungan mann sem sýnir einbeittan vilja til að rjúfa tengslin við fjölskyldu sína. Hann er fullur af útþrá, skeytir engu um fortíð né framtíð og eyðir öll sem hann á í vafasömum félagsskap.

Nú er ekkert rangt við það í sjálfu sér að fara burt í fjarlægt land. Við höfum líklega flest skroppið eitthvað út fyrir landsteinana á undanförnum árum, þrátt fyrir kreppu og versnandi hag heimilanna. Hin ranga ákvörðun er rofið við fjölskylduna sem er lýst með sóun eigna hennar. Ef litið er á eigninar sem mynd fyrir félagsauð og fjölskyldukærleika sem kastað er á glæ skiljum við kannski eldri soninn betur. Hann er sár vegna þess að kærleikanum sem yngri sonurinn hefur þegið fyrirhafnarlaust frá fjölskyldu sinni er sóað á óábyrgan hátt með aðkeyptum félagsskap, innantómum samskiptum sem skilja ekkert eftir nema hungur eftir raunverulegum tengslum.

Manneskjan sem tengslavera Orð Guðs í mynd föðurins í dæmisögu Jesú lýsa þessum sönnu tengslum sem manneskjuna hungrar eftir: ,,Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt”. Í móðurkviði vorum við skilyrt til að finna ró og öryggi í nærveru annarrar persónu. Flest börn þrá snertingu umfram annað og fræg er tilraun þar sem apaungar voru sveltir á tvennan hátt. Hópurinn sem fékk ekki nægjanlega líkamlega næringu en naut umhyggju og elsku þroskaðist eðlilega. Hinn hópurinn sem naut engrar athygli eða aðhlynningar annarrar en matar og drykkjar veslaðist upp. Kærleikurinn er grundvöllur lífsins.

Í stað yfirskriftarinnar ,,Týndi sonurinn” eða ,,Tveir synir” eins og stundum sést sem kaflaheiti á guðspjalli dagsins í biblíuþýðingum gætum við lagt áherslu á kærleikann sem tengir aftur saman það sem var rofið. ,,Hann er minn ástríki faðir” segir í fallegum lofsöng og þannig er Guði einmitt lýst hér í guðspjallinu. Ást Guðs er sterkari en rofið sem syndin veldur. Það var tilhugsunin um kærleika föðurins sem fékk soninn til að ,,koma til sjálfs sín” eins og það er orðað hjá Lúkasi.

Þetta er sterkt biblíulegt stef. Páll postuli spyr (Róm 2.4),,Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?” eða ,,afturhvarfs” eins og segir í biblíuþýðingunni frá 2007. Það er gæska Guðs sem á frumkvæðið, ástin sem er sterkari en nokkur mannlegur skortur. ,,En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði, og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem veitist í Kristi Jesú”, segir í pistli dagsins. Guð er kærleikur (1Jóh 4.16) og tekur á móti okkur með opnum faðmi sem er sterk mynd hinna endurreistu tengsla sem kristin trú boðar.

Minnkum einstaklingshyggjuna, aukum tengslin! Sálfræðingurinn Gergen sem minnst var á hér í upphafi gerir sér fulla grein fyrir því að þrátt fyrir greiðari samskipti nútímans með gemsum og Skype og alls kyns samskiptaforritum sem hafa komið fram á sjónarsviðið síðan hann skrifaði grein sína er einstaklingshyggjan þó alls ekki á undanhaldi. Andóf gegn einstaklingshyggju er samt ekki efni þessarar prédikunar heldur að minna á mikilvægi tengsla og gæða þeirra í mannlegum samskiptum. Enginn er eyland, við erum öll háð hvert öðru í daglegu lífi og við hljótum að leita leiða til að styrkja tengslin á milli fólks.

Í uppeldis- og menntunarfræðum hafa á liðnum árum skotið upp kollinum kenningar og aðferðir sem byggja m.a. á tengslakenningum Gergens. Þar er hugsunin sú að hvorki hin hefðbundna leið sem miðar að því að koma sem mestum upplýsingum til nemendahópsins né hin leiðin sem gerir hverjum nemenda hátt undir höfði með einstaklingsmiðuðu námi dugi. Þriðja leiðin hefur verið kynnt til sögunnar og undirbyggð mörgum rannsóknum (sjá t.d. www.relationellpedagogik.se þar sem vitnað er í rannsóknir sænska kennslufræðingsins Jonas Aspelin). Hún snýst um að rækta með nemendum færni í samskiptum með t.d. áherslu á samtal og úrvinnslu námsefnis og lífsreynslu í stórum eða litlum hópum. Þessi leið í kennslu fer mjög vel með því sem kallað er speglaðir kennsluhættir (e. flipped classroom, sjá t.d. www.menntamalaraduneydi.is/radherra/raedur/nr/7609) en þar eru fyrirlestrar, þ.e. miðlun upplýsinga, sendir út á netinu og gert ráð fyrir að nemendur hafi tileinkað sér námsefnið áður en í skólastofuna er komið. Þá gefst tími til að þjálfa hin verðmætu mannlegu samskipti í skólanum með ýmsum aðferðum.

Samskipti og samtal á 21. öldinni Á ráðstefnu sem ég sótti í liðinni viku á Menntavísindasviði var rætt um trúarbragðafræðikennslu, einkum á Norðurlöndum og Englandi. Var mál fræðafólksins þar að oft hafi verið þörf en nú nauðsyn á að efla kennaramenntun á þessu sviði og þar með kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Við erum hluti af hinum stóra heimi og þurfum að mennta börnin okkar og ungmennin til að vera borgarar í hinu alþjóðlega samhengi. Fræðsla um og færni í að eiga samskipti um trú og siði er þar eitt af grundvallaratriðunum.

Hér á Íslandi vantar algjörlega alla þjálfun í samtali um trú þar sem fæst ungmenni læra nokkuð um kristna trú eða trúarbrögð almennt frá því þau eru um fermingu. Kennarar sem útskrifast úr kennaranáminu í HÍ hafa fæstir lært nokkuð um kennslu trúarbragða, nema þau fáu sem valið hafa fagið Trúarbragðafræðsla og margbreytileiki sem heyrir undir Samfélagsgreinar. Til að efla unga fólkið okkar í því samtali sem er óumflýjanlegt í heimi þar sem margvísleg trúarhugsun setur sannanlega mark sitt á umræðu og atferli fólks þurfum við sérstaklega að efla trúarbragðafræðikennslu á framhaldsskólastigi og þar með einnig í kennaranámi. En meira um það í næstu prédikun.

Samtalið í kirkjunni Aðferðafræði okkar sem störfum í kristinni kirkju hlýtur einnig að taka mið af breyttum aðstæðum. Einstefnumiðlun – eins og sú sem ykkur er boðið upp á hér í dag – ætti að minnka og hópeflið að aukast! ,,Hnakkasamfélagið” er afsprengi einstaklingshyggjunnar þar sem hver kirkjugestur hefur aðeins möguleika á augnsambandi við prestinn og hugsanlega kórfólkið. Mörgum þykir kannski þægilegt að koma til kirkju og vera útaf fyrir sig, gott og vel, en við þurfum líka að bjóða upp á samfélagseflingu og vettvang fyrir samtal. Það gerum við auðvitað í messukaffinu sem víða er boðið upp á með ýmsu sniði en við þurfum sannarlega líka að efla smáhópastarf af ýmsu tagi. Það hefur sýnt sig að vera grundvallaratriði þegar kemur að safnaðaruppbyggingu (sbr. Náttúrulega safnaðaruppbyggingu).

Biblíuleshópar, bænahópar og heimahópar með ýmsu sniði hafa lengi einkennt kirkjur utan þjóðkirkjunnar. Ýmis konar fullorðinsfræðsla var komin á gott skrið fyrir hrun, t.d. með Leikmannaskóla þjóðkirkjunnar sem hefur starfað í rúm tuttugu ár og heitir nú Starfs- og leikmannaskóli þjóðkirkjunnar. Það er tilfinning mín að nú hafi tilboðunum fækkað nokkuð og við þurfum að efla samfélagið að nýju. Verum dugleg að ræða saman um trú og daglegt líf og rækta kærleikann hvert til annars því án tengsla fáum við ekki þrifist.