„Ojjj, hvernig er hægt að drekka svona vatn“

„Ojjj, hvernig er hægt að drekka svona vatn“

Látum framtak og dugnað fermingarbarna fylla okkur krafti og bjartsýni. Tökum undir með þeim, „hingað og ekki lengra“ enginn á að þurfa að líða vegna vatnsskorts. Gerum það sem við getum og tökum vel á móti fermingarbörnunum.
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
10. nóvember 2009

Vatn úr brunni

Yfirskriftin er tekin úr munni fermingarbarns sem var nýbúið að sjá myndir af drykkjarvatni í Úganda. Við slíkum viðbrögðum er bara eitt svar. Vatn er lífsnauðsynlegt og ef aðeins er í boði óhreint vatn þá drekkur maður það annars er dauðinn vís. En þarf þetta að vera svona?

Í fræðslunni til fermingarbarna um vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, kemur fram að þetta þarf alls ekki að vera svona. Það er hægt að safna rigningarvatni í tanka, grafa og bora brunna og þannig gjörbreyta aðstæðum til hins betra. En er það okkar ábyrgð að hugsa um barn sem líður vatnsskort í fjarlægri álfu langt í burtu.

Ég var á frábærri ráðstefnu um helgina í Neskirkju, Global Leadership Summit. Á ráðstefnunni var sýnt viðtal við Bono söngvara U2. Hann hefur beitt sér mjög fyrir málstað hinna fátæku. Hann sagði að það væri óásættanlegt fyrir kristinn mann að líta framhjá neyð náungans bara af því að hann er langt í burtu. Ábyrgðin snýst um að bæta úr neyð en ekki hvar sá er staddur sem er í neyð. Ábyrgð okkar sem höfum það betra er að hjálpa hinum verst settu.

Bono vildi meina að við gætum ekki útrýmt allri fátækt en það væri fullkomlega raunhæft að hjálpa hinum allra verst settu. Enginn ætti að þurfa að líða hungur og skort á vatni.

Fermingarbörn eru sannarlega sammála Bono og ekki nóg með það heldur grípa þau til aðgerða og gera eitthvað í málinu. Mánudag (9.) og þriðjudag (10.) ganga þau í hús um allt land milli 17:30-21 og safna til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu, Malaví, Úganda og Mósambík. Þannig gefa þau okkur hinum tækifæri til að leggja okkar af mörkum til aðstoðar þeim sem ekki hafa aðgang að hreinu vatni.

Það eru tímar uppgjörs og nýrra ákvarðana á Íslandi. Fermingarbörn hafa á sin hátt sagt „hingað og ekki lengra, við getum ekki horft framhjá náunga okkar í neyð“ og svo bjóða þau okkur hinum að vera með. Um leið og þetta er barátta fyrir þau mannréttindi að hafa aðgang að hreinu vatni er þetta jafnréttisbarátta, vegna þess að það eru konur og stúlkur sem bera ábyrgð á að sækja vatn og nota víða til þess marga klukkutíma daglega. Þegar brunnur er kominn í nágrennið fer lítill tími í að sækja vatn og stúlkur fá líka möguleika til að ganga í skóla. Menntun stuðlar að jafnrétti.

Látum framtak og dugnað fermingarbarna fylla okkur krafti og bjartsýni. Tökum undir með þeim, „hingað og ekki lengra“ enginn á að þurfa að líða vegna vatnsskorts. Gerum það sem við getum og tökum vel á móti fermingarbörnunum. Framtíðin getur ekki annað en verið björt með börn og unglinga sem sýna fórnfýsi og ábyrgð eins og raun ber vitni. Sannarlega góðar fyrirmyndir í kristilegu hugarfari þar sem trúin leiðir til athafna.