Heimþing Alkirkjuráðsins í S-Kóreu, þriðji pistill

Heimþing Alkirkjuráðsins í S-Kóreu, þriðji pistill

Manneskjan má aldrei vera til sölu og græðgi má ekki vera höfuðdyggðin, sagði hún. Hún sagði kirkjuna þurfa að orða þessi erfiðu mál í bæn, því þöggun má heldur ekki viðgangast. Hún kynnti ,,pastoral work of woman“ í Suður Ameríku, og rætt var um að kirkjan þyrfti að vera ,,the healing place“, þar sem sannleikurinn má heyrast, réttlæti og kærleikur séu grundvallandi fyrir sáttargjörð, endurreisn, upprisu og frið.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
04. nóvember 2013

Kirkjurnar tvær, sem við heimsóttum um helgina, voru fullar af fólki. Prédikunin var löng og allir viðstaddir fylgdust með í Biblíunni þegar textinn var lesinn og prédikun flutt, en í útleggingunni lagði presturinn áherslu á þakklætið. Athöfnin var þýdd á ensku, en án þýðingar hefðum við ekki skilið eitt einansta orð. Aðstaða fyrir börn og fjölskyldur var til fyrirmyndar, en um var að ræða Prestbyterian kirkjur, en kristni var fyrst kynnt hér í landinu á 19. öld, samkvæmt mínum heimildum.

Busan er helsta hafnarborg S-Kóreu, sem gerir borgina mikilvæga í tengslum þjóðarinnar við umheiminn. Hér búa um 3,6 milljónir íbúa og var áhugavert að fara skoðunarferð um borgina því andstæður eru miklar. Hér er gríðarlega stór brú, sem minnir á brúna í San Francisco og litlir kofar sem virðast byggðir af vanefnum, og allt þar á milli. Ljósaskiltin á hótelum og verslunarmiðstöðvum minnir á aðalgötuna í Las Vegas, en gestrisni heimamanna minnir mig hins vegar á frændur okkar í Færeyjum.

Biblíulesturinn í dag var úr Postulasögunni 8:26-40 þar sem Filippus er sendur af engli og hitti á ferð sinni háttsettan hirðmann frá Eþíópíu. Tveir í leshópnum mínum voru einmitt frá Eþíópíu og ef við hefðum verið á Íslandi, þá hefðum við án efa farið að tala um ættfræði og hugsanleg tengsl þeirra við hirðmanninn í Postulasögunni. Það var áhugavert að hlusta á og deila sjónarmiðum við allt þetta öfluga fólk í hópnum, sem kemur frá öllum heimshornum.

Þema dagsins var kristniboð og ályktun kynnt sem bar yfirskriftina: ,,Mission: A call to life giving witness“. Frábærar ræður voru haldnar og talaði séra Cecilia frá Chile, á spænsku, um stöðu kvenna í Suður- Ameríku. Hún sagði kirkjuna reyna að stjórna líkama kvenna, fjölskyldumynstrum, kyni og fleiru. Hún sagði kvenréttindi vanvirt á grunni þess hvernig við skiljum Biblíuna. Manneskjan má aldrei vera til sölu og græðgi má ekki vera höfuðdyggðin, sagði hún. Hún sagði kirkjuna þurfa að orða þessi erfiðu mál í bæn, því þöggun má heldur ekki viðgangast. Hún kynnti ,,pastoral work of woman“ í Suður Ameríku, og rætt var um að kirkjan þyrfti að vera ,,the healing place“, þar sem sannleikurinn má heyrast, réttlæti og kærleikur séu grundvallandi fyrir sáttargjörð, endurreisn, upprisu og frið.

Fulltrúar annarra trúarbragða ávörpuðu þingið í dag og tóku þátt í umræðum um samkirkjuleg málefni. Forseti lútherska heimssambandsins (LWF) ávarpaði einnig þingið og kynnti sambandið og um leið stöðu sína sem biskup kristinna í Jerúsalem, sem er minnihlutakirkja í landi þar sem Gyðingar og Múslimar eru nær 98% af íbúunum. Hann gerði að umtalsefni ástandið í Ísrael og Jerúsalem og sagðist styðja tveggja ríkja lausnina, ríki Ísraels og ríki Palestínu, þar sem öll þrjú stóru trúarbrögðin gætu átt sína heimilisfesti. Í sama streng tók múslimskur guðfræðingur, Mr. Idris Tawfiq, sem tók þátt í ,,interfaith dialogue“ ásamt fleiri fulltrúum frá múslimum og einnig gyðingum.

Vinnustofur dagsins báru yfirskriftina ,,Madang Workshops“ og var ýmislegt í boði. Madang er Kóreanskt hugtak yfir húsagarðinn þar sem fólk kemur saman til að gleðjast, ræða saman og kynnast. Við lifðum okkur inn í þá umgjörð þótt vinnustofan hafi farið fram í nútímalegum ráðstefnusal, sem minnti mig helst á kennslustofu í HR. Samkirkjulegu umræðurnar voru gríðarlega gefandi, æfingarnar skemmtilegar og virðing ríkjandi fyrir ólíkri afstöðu fólks.

Á dagskránni í dag voru kosningar, en ákveðið var að fjölmiðlar fengju ekki aðgang að þeim dagskrárlið. Kosnir voru forsetar sambandsins frá hverju svæði, átta alls, en fyrir Evrópu var erkibiskup Svía, Anders Wejryd, kosinn. Hins vegar náðist ekki að klára kosningu í miðstjórn (Central committee). Mikil umræða var um hvernig valið væri á lista, en svo virðist sem Evrópa leggi mest að mörkum til að kynjakvótanum sé náð og vakti biskup preses þeirra Norðmanna, meðal annars máls á því. Málið verður á dagskrá síðar í vikunni.

Deginum lauk á níunda tímanum í kvöld á kröftugri bænastund að hætti hvítasunnumanna.

Hér er fjölbreytni ríkjandi. Fjölbreytni í tónlist og söng, klæðaburði og helgisiðum, mat og drykk. Reynslusögurnar eru líka margar átakanlegar og þau lífsskilyrði sem fólk býr við, en einingin er sterk og samhugur ríkandi.

Í vinnustofu dagsins var rætt um hvað „ást“ merkir, og hugsun mín barst hinum megin á hnöttinn, til fjölskyldunnar. Það var merkilegt að heyra fulltrúa ólíkra trúarbragða tjá sig, því innihaldið var í stórum dráttum það sama, hjá öllum, þótt útfærslan og orðanotkunin hafi verið ólík. Að heyra þessa umræðu um kærleika og ást fékk mig til að hugsa um umfjöllun fjölmiðla á trúarbrögðum. Margir höfðu orð á vanhæfni fjölmiðla í umræðu um trúmál og kirkju, sá vandi er því ekki aðeins bundinn við eyjuna okkar fögru. http://wcc2013.info/en