Sköpunarverkið á förnum vegi

Sköpunarverkið á förnum vegi

Það tekur tíma að venjast fríinu en eftir tveggja daga veru í óbyggðum er eins og maður verði hluti af náttúrunni. Upplifunin er einstök. Áður en ákvarðanir eru teknar um að mannshöndin fái að raska viðlíka ósnortnum víðernum er óhjákvæmilegt að upplifunin sé reiknuð inn í dæmið. Gígawattstundir og unaðsstundir takast á. Ég er alltaf að verða sannfærðari og sannfærðari um að verðmætið er margfalt meira í hinum síðarnefndu.
fullname - andlitsmynd Óskar Hafsteinn Óskarsson
23. september 2006

Ég er á skrifstofunni, sit við tölvuna og þrái að komast í sumarfrí. Dreyminn horfi ég út um gluggann. Játning liggur fyrir. Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Þegar ég horfi yfir spegilsléttan Eyjafjörðinn, Vaðlaheiðina, náttúruna allt um kring, ,,hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?"

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Upphaf á sumarfríi

Það var hestaferð um hálendið sem markaði upphaf sumarfrísins. Alveg hreint magnað að ríða um hálendið, ósnortin náttúran snertir við strengjum. Það tekur tíma að venjast fríinu en eftir tveggja daga veru í óbyggðum er eins og maður verði hluti af náttúrunni. Upplifunin er einstök. Áður en ákvarðanir eru teknar um að mannshöndin fái að raska viðlíka ósnortnum víðernum er óhjákvæmilegt að upplifunin sé reiknuð inn í dæmið. Gígawattstundir og unaðsstundir takast á. Ég er alltaf að verða sannfærðari og sannfærðari um að verðmætið er margfalt meira í hinum síðarnefndu. Hugsa sér allar unaðsstundirnar sem búið er að ýta burt og bráðum sökkva á svæðinu í kringum Kárahnjúka. En gert er gert. Mistök eru til að læra af þeim en landið til að njóta þess. Í upphafi skapaði Guð og hann fól manneskjunni að yrkja og gæta jarðarinnar. Flóknara er það nú ekki.

Á leið til London

Ég er einn af þeim sem lúsles dagblöðin þegar ég kemst í flugvél. Á leiðinni til London nú í sumar las ég athyglisverða fréttaskýringu um lífræna ræktun. Rætt var við norskan sérfræðing sem var í heimsókn hér á landi. Þar kemur fram að hlutfall vottaðs nytjalands í lífrænni ræktun er 0,3 % á Íslandi en til samanburðar má benda á að þetta hlutfall er tífalt hærra í Noregi og svo þarf að fimmtíufalda töluna til að ná Svíum. Þetta kom mér verulega á óvart. Augljóst er að hér höfum við Íslendingar sofið á verðinum og skákað í því skjólinu að landið okkar sé svo hreint og ómengað að óþarft sé að sinna lífrænni ræktun. Þessum sjónarmiðum varar norski sérfræðingurinn við og talar þar af reynslu frá heimalandinu. Þegar fram líða stundir er ekki ólíklegt að neytandinn geri kröfu um að vita hvar varan sé ræktuð og hvernig hún er framleidd. Auknar kröfur neytenda um heilnæmar matvörur og vaxandi umhverfis- og heilsufarsvandamál, m.a. vegna eiturefnanotkunar, kalla á að lífræn ræktun fái aukna athygli meðal þjóðanna. Möguleikar Íslands á þessu sviði eru ótvíræðir. Að lifa í sátt við náttúruna hlýtur að vera eftirsóknarvert og beinlínis heilög skylda okkar. Að nýta og njóta þannig að komandi kynslóðir megi einnig nýta og njóta. Þetta heitir að yrkja og gæta jarðarinnar eins og það er orðað svo snilldarlega í sköpunarsögunni.

Erfðabreytt tilvera

Í framhaldi af lífrænum pælingum fór ég að kynna mér umræður um erfðabreytt matvæli. Óhikað hefur því verið haldið fram að erfðabreytingar í lífríkinu séu nákvæmlega það sama og kynbætur. Hið síðarnefnda er eitthvað sem fylgt hefur mannkyni alveg frá öndverðu og flestir telja hluta af eðlilegri þróun og framvindu. Erfðabreytingar eru hins vegar árás inn í innsta eðli lífríkisins. Þegar farið er að gramsa í genamengjum þá er um að ræða róttækt inngrip mannsins í lífsins leyndardóma með algjörlega ófyrirséðum afleiðingum. Verður raunar ekki betur séð en manneskjan setji sig þar í hlutverk skaparans. Guð varð vissulega maður en ekki öfugt. Nýjustu uppgötvanir í vísindum breyta engu þar um.

Erfðabreytingar eru gerðar m.a. undir því yfirskini að auka framleiðslu og minnka eiturefnanotkun. Þær takmörkuðu rannsóknir sem liggja fyrir benda þó ótvírætt til þess að hér þurfi að stíga varlega til jarðar. Áhrif erfðabreyttra matvæla liggja ekki fyrir, m.a. vegna þess að hagsmunaaðliar hafa komið í veg fyrir að matvælin séu sérstaklega merkt.

Á meðan ríki í Evrópu vakna til lífsins um mikilvægi þess að loka löndum sínum fyrir erfðabreyttum matvælum og ræktun á því sviði virðist svefnhöfgi yfir Íslendingum. Tilraunir með erfðabreytta ræktun eru þegar hafnar hér á landi og erfðabreytt matvæli eru ómerkt í verslunum.

Líkust Kristi

Nú síðsumars tók ég þátt í brúðkaupi í Einarsstaðakirkju í Reykjadal. Yndislegar þessar gömlu sveitakirkjur. Nándin er eitthvað svo mikil. Maður kemst í tengsl við upprunan með grösin, bæina og skepnurnar út um gluggann. Og svo þessi ótrúlega altaristafla. Hinn merki bóndi og athafnamaður Jón heitinn á Laxamýri sagði að Kristsmyndin í Einarsstaðakirkju væri líkust Kristi sjálfum af þeim altarismyndum sem hann hafði séð. Ég er eiginlega sammála honum.

Hvarvetna verður sköpunarverkið á vegi manns. Margs er að njóta en um leið er svo margt að varast. Skammtímahagsmunir eru verstu óvinir náttúrunnar. Erfðabreytt land og örum skorið er harla lítils virði. Það verður hlegið út af borðinu, eins og stundum er sagt. Hvaða stefnu íslensk þjóð velur í umhverfismálum og náttúruvernd er eitthvert stærsta viðfangsefni samtímans. Guðfræðin á erindi inn í þá umræðu. Leiðin er vissulega vandrötuð. Sköpunarsagan og altaristaflan í Einarsstaðakirkju eru leiðarvísar. Að yrkja og gæta, vera sem líkust Kristi.

Ég er á skrifstofunni, sit við tölvuna og þrái að komast út í haustfegurðina. Dreyminn horfi ég út um gluggann. Haustlitirnir í Vaðlaheiðinni blasa við. Ég játa, enn um sinn.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!