„Lífið er mjög langt“

„Lífið er mjög langt“

Þriðji og lokaþáttur Fjölskyldunnar er eðlilega átakamestur. Framan af vegur groddaleg gamansemi salt við innri sársauka og meinsemdir eins og í fyrri þáttum, en brestirnir í fari persónanna koma betur í ljós. Og fjölskylduleyndarmál skjóta upp kolli sem eitrað hafa út frá sér í gegnum tíðina. Gjálífi og svall hafa reynst verri en náttúruhamfarir.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
09. nóvember 2009

Fjölskyldan

,,Milli frumkvæðis og framtaks. Milli ástríðu og atlota fellur skugginn. Lífið er mjög langt.“ Ljóð T.S. Eliots ,,Eyðilandið“ og ,,Holmennin“, þar sem þessar staðhæfingar er að finna, eru Beverly Weston hugleikin, fjölskylduföðurnum í leikritinu, Fjölskyldunni, sem sýnt er í Borgarleikhúsinu við góða undirtektir enda mikið drama, grimmt og gráglettið í senn.

Höfundur verksins, Tracy Letts sló fyrst í gegn með leikriti sínu ,,Killer Joe“ um siðblinda leynilöggu sem er leigumorðingi í hjáverkum. Fjölskyldan er líkt og það hrjúft í framsetningu þótt á annan veg sé. Letts segir sjálfur um þetta verk sitt: ,,Leikritið er birtingarmynd samfélags í algjöru ójafnvægi, í stöðugri vímu, eins konar sjálfsdýrkun til þess að þurfa ekki að horfast í augu við sín eigin mistök, samfélagsleg og stjórnmálaleg.“ Fjölskyldan ber jafnframt augljósan keim af átakaverkum merkra amerískra leikskálda, O‘Neills, T. Williams og einnig Tsjekhovs hins rússneska.

Leikritið heitir á frummálinu ,,August: Osage County“, Ágúst í Osage sýslu. Lífið sem óx að vori er að skrælna í ágústhitunum og jarðvegur sprunginn af þurrki. ,,Fjölskyldan“ kemur saman í þessu umhverfi á ættaróðalinu, þar sem rætur liggja, en þær hafa mjög trosnað vegna fjarlægðar og sökum þess að þær nærðust ekki sem skyldi í uppvextinum.

Lífsgleði og listhneigð, umhyggja og elska togast á við niðurrifsöfl sem marka sálarlíf og samskipti, lífsleiða, sár og sorgir, hömluleysi, áfengissýki og lyfjaneyslu, yfirgang og ofríki, kúgun og kynlífsfíkn, græðgi og eyðandi firringu frá æðri merkingu og samhengi lífsins.

Sviðmyndin er hin sama í öllum þremur þáttunum, opið hús/húsgrind á þremur hæðum, sem birtir fremur ríkmannlegt heimili með góðum bókakosti. Í því innhverfa rými gerist margt og mikið á þeim nærri fjórum tímum, sem leiksýningin tekur með tveimur hléum, er hvíla bæði leikara og áhorfendur. Og það sem hrífur er ekki verkið sjálft, efni þess og inntak heldur fremur afburða frammistaða leikaranna sem gerir sýninguna eftirminnilega. Farið er yfir tilfinningaskalann eins og leikið sé ómstrítt á hljóðfæri, tónninn er skerandi, átökin yfirþyrmandi en brotin upp með kostulegum setningum og látbragði sem vekja hlátur og deyfa sár.

Pétur Einarsson leikur Beverly og dregur upp mynd af þreyttum og útlifuðum manni, sem er aðalpersónan, þótt hverfi fljótt af sviðinu. Verkið snýst um brotthvarf hans eða fremur um áhrif þau sem líf hans hafði og dauði hans hefur á fjölskyldu hans, eiginkonu og þrjár dætur og þá sem fylgja þeim á vettvang.

Beverly vakti athygli fyrrum sem efnilegt ljóðskáld og háskólakennari, er hafði tileinkað Violetu, (Margrét Helga Jóhannsdóttir) eiginkonu sinni, ljóðabók, sem fékk góðar viðtökur. Samræður hans í upphafi leiks við Johnnu, unga konu af indíánaættum (Unnur Ösp Stefánsdóttir), er kemur inn á heimili þeirra til að hlúa að Violetu, sem er með krabbamein í munni, gefur margt til kynna.

Meinsemdin setur mark á Violetu en þó ekki síður innri gremja og sárindi sem hvatvísi hennar og óvægin orð vitna um. ,,Konan mín er með kalt blóð, því hefur hún ekki þörf fyrir loftkælingu. Hún er kaktus í mannsmynd.“ Beverly vitnar í Eliot en lýsir jafnframt samskiptum og samkomulagi þeirra Violetu. ,,Hún tekur pillur. Ég drekk. Bakkus er síðasta athvarf mitt en margt er farið að þvælast fyrir drykkjunni.“ Johnna má lesa allar bækurnar í stóru bókaskápunum þótt Beverly bendi henni á að lesa Eliot. Þunglynt raunsæi hans sé sannarra en skrif annarra höfunda enda endurspegli þau reynslu Beverlys sjálfs af því að ,,Lífið er mjög langt.“

Beverly hverfur. Ivy, miðdóttirin (Jóhanna Vigdís Arnardóttir), kemur fyrst ,,heim“ enda skammt undan og aumkast yfir móður sína sem finnur samt að því að hún sé ómáluð með slétt hár og í karlmannsfötum (buxnadragt). Systir Violetu, Mattie Fae Aiken (Hanna María Karlsdóttir), kemur rétt á eftir og Charlie maður hennar (Theodór Júlíusson), sem hún hefur greinilega góð tök á og segir um, að lesi aldrei neina bók enda einfaldur. ,,Það þarf að vera vel gefinn til að vera margbrotinn.“

Bátur Beverlys finnst mannlaus á veiðivatninu þegar hann hefur verið týndur í fimm daga. Barbara, elsta dóttir hans, kemur í þann mund (Sigrún Edda Björnsdóttir) og Bill maður hennar (Ellert A. Ingimundarson) og Jean, unglingsdóttir þeirra (Guðrún Bjarnadóttir). Hún er sakleysið uppmálað en reykir hass uppi á lofti hjá Johnnu og segir henni frá því að foreldrar hennar séu að skilja.

Þegar Deon, lögreglustjóri (Þröstur Leó Gunnarsson), hefur tilkynnt, að lík Beverlys sé fundið við vatnið og allt bendi til þess, að hann hafi gengið frá sér, kemur yngsta dóttirin, Karen (Nína Dögg Filippusdóttir), með Steve, tilvonandi eiginmann (Rúnar Freyr Gíslason), upp á arminn og hamingjuna í fanginu að því er virðist og háttu og heimsbrag sjálfumglaðs þotuliðs.

Síðastur og ekki fyrr en á útfarardaginn og eftir útförina, mætir sonur Mattiear, litli Charlie Aiken (Hallgrímur Ólafsson), þrjátíu og sjö ára, uppburðarlítill og niðurlútur enda allt of seint á ferðinni. Faðir hans aumkast yfir hann og greiðir hár hans og snurfusar, en móðir hans Mattie segir, að það sé ekki nýtt að hann sé utanveltu og bregðist. Það sannast enda áþreifanlega þegar hann kemur inn með pottréttinn, sem hún hefur gert, að matarborðinu þar sem fjölskyldan er saman komin. Johnna hefur eldað lystugan málsverð og gengur um og hlúir að hverjum og einum. Hún er enda jarðtengd, hefur hluta af eigin naflastreng í hálsfesti sem hún skilur ekki við sig að hætti Cheyenne indíána.

Borðhaldið byrjar fallega og kristilega. Violet biður Charlie, sem nú sé höfuð fjölskyldunnar, að fara með borðbæn og allir takast í hendur. Bænin er í lengra lagi og fer út af spori þegar farsími Steves hringir og ,,andskotinn“ hrekkur af vörum Charlies. Umræðurnar gefa enda til kynna, að fjandinn sé kominn í spilið. Violet er ekki deyfð af lyfjum sem fyrr og hátt uppi. Hún segist hafa kosið að kistan hefði verið opin í útförinni, en er bent á, að líkið hafi verið illa útlitandi, vatnsrekið. Það dugar ekki sem rök fyrir hana og hún hreytir út úr sér lýsingum á eiginmanninum sálaða í þessum dúr: ,,Maðurinn minn var alkahólisti í hálfa öld og oft illa útlítandi, líka þegar hann hélt fyrirlestra blindfullur.“ Og Steve er síðan tekinn fyrir og verður að kannast við það að hafa verið kvæntur þrisvar sinnum.

Jean litla, sem borðar ekki kjöt þótt reyki hass, fær athygli, þegar hún segir að sláturdýrin dæli angist/adrenalíni út um skrokkinn á sér, þegar þau séu líflátin. Er nema von að standi í Charlie, sem er að kyngja munnfylli af angist. Erfðaskráin kemst til umræðu enda hefur henni verið breytt svo að allt renni til Violetu, sem telur þó sjálfsagt að halda uppboð á silfrinu, en það fáist ókeypis, þegar hún sé dauð. Skilnaður Barböru og Bills fær ekki að vera í friði fyrir Violetu: ,,Enginn leynir mig neinu. Þú keppir við ofurefli Barbara þar sem ung kona er í spilinu. Miðaldra konur eins og þú verða fljótt ljótar.“ Þegar Barbara kvartar yfir því að móðir hennar ráðist á alla í fjölskyldunni, minnir Violet hana á: ,,Ef einhvern tímann hefur verið ráðist á þína sykursætu tilveru hefur þessi kona komið þér til bjargar“ og Violet rifjar upp sársaukafulla æsku sína og föður stúlknanna, sem hafi fórnað öllu fyrir þær. ,,Þið genguð menntaveginn en hvað varð úr ykkur?Þið stóðuð aldrei frammi fyrir raunveruleikanum, sannleikanum.“ Violet er óvægin og beinskeytt og leynir því ekki að hún sé háð lyfjum og pillum. Borðhald og annar þáttur leiksins endar í háværri ,,pillurassíu.“

Þriðji og lokaþáttur leiksins er eðlilega átakamestur. Framan af vegur groddaleg gamansemi salt við innri sársauka og meinsemdir eins og í fyrri þáttum, en brestirnir í fari ,,persónanna“ koma betur í ljós. Og fjölskylduleyndarmál skjóta upp kolli sem eitrað hafa út frá sér í gegnum tíðina. ,,Gjálífi og svall hafa reynst verri en náttúruhamfarir.“

Komufólkið hverfur á braut hvert af öðru. Steve og Karen fyrst enda hefur hann sýnt á sér vafasamar hliðar og fengið fyrir það steikarpönnu Johnnu í hausinn. Mæðginin Bill og Jean fara líka. Barbara er eftir í sárum og missir tökin á sjálfri sér. Þær mæðgur verða þá býsna líkar, og Barbara rifjar það upp við lögreglustjórann, vel hífuð, að þau hafi látið vel hvort að öðru á unglingsárum. Mattie og Carlie fara, þegar leyndarmál hennar liggur ekki lengur í þagnargildi og Ivy og Charlie litli líka, er draumar þeirra rekast á óvæginn veruleikann. Og Barbara fer loksins einnig á burt, þegar hún áttar sig á því að móðir hennar veit meira um dauða föður hennar en hún hefur látið í veðri vaka.

Violet hefur sannað styrk sinn þrátt fyrir veikindin en bitið jafnframt alla af sér nema Johnnu sem umhyggjusöm og fórnfús gætir enn að henni og hún á líka athvarf í pillunum, en ,,enginn er traustari en þær.“

Hvað segja svo þessi galsafengnu ólæti á sviðinu? Hefur leikritið boðskap að flytja? Ekki uppbyggilegan, en það lýsir grátbroslega og afhjúpar rótleysi einstaklinga og samfélags í ,,God´s own country.“ Guðs eigin landi. Sigur í heimsstyrjöld, efnahagsleg ítök og stjórn víða um heim, stríðsrekstur í Víetnam og víðar og síðar þótt ekki komi beint við sögu í leikritinu, og eyðandi auðhyggjan sem drifkraftur framkvæmda og viðmiðanna, kunna allt að hafa leitt til þess ,,samfélags sjálfsdýrkunar og siðferðilegs doða, sem er blint á eigin mistök“ (T.L.) og áhrifin þaðan hafa breiðst út um heiminn með ,,sigri“ auðhyggjunnar.

,,Fjölskyldan“ dregur fram áhrif og afleiðingar þeirrar veraldarhyggju, sem mótað hefur hugarfar og hátterni í „síð nútíma“ í vesturálfu, hér á landi og víða um heim og hampar óheftu frelsi til athafna og æðis en leiðir til glundroða, tilgangsleysis og leiðinda. Hún virðir ekki samhengi lífsins, reglu þess og innra gangverk sem Guðstrúin vitnar um, kristni og kirkja, ef hún gætir þess að berast ekki alfarið með tíðaranda og straumi. Trúin er til staðar í leikverkinu sem umgjörð útfarar og neyðarleg tilraun til að biðja borðbænar en hún nær ekki undir yfirborðið, snertir ekki kviku lífs til að móta það svo nokkru nemi. Skáldskapur og bækur í hillum hafa ekki borið með sér boðskap sem blæs innihaldi í lífið. Leiðandi skáld lýsa eyðilandi, holmennum og kaktustilveru. Í þessu andrúmi verða fjölskyldubönd og skyldleiki frekar tilfallandi niðurröðun frumna, og því laus í sér, en órjúfandi blóð -og einingarbönd, svo sem leikritið ýjar að. Rætur hafa rofnað, tengsl við Guð, sköpunarverk og náttúru, undur lífs og leyndardóma sem glæða auðmýkt og aðgát, þrautseigju og þolgæði.

Johnna býr ólíkt öðrum persónum leikverksins að traustum rótum í tilveru sinni og siðferðilegum styrk með naflastreng sinn undir brjósti og orð hennar og gjörðir eru af öðrum toga en hinna sem eru mjög upptekin af sjálfum sér. Fórnfús gætir hún að líðan og hag ,,heimilisfólksins“ , vandar verk sín á heimilinu, hlustar og huggar og tekur einnig af skarið, þegar þörf er á til að bægja frá voða og flýr ekki af hólmi í lokin.

Auðvitað er hæpið að draga skírar línur milli trúar og vantrúar, sambands og sambandsleysis enda sagt í leikritinu, að ,,ekkert sé bara rétt og rangt, ljúft og sárt, svart og hvítt, klippt og skorið.“ Trúaðir menn hrærast í umhverfi veraldarhyggjunnar og glíma sem aðrir við áhrif hennar og margs konar fíknir og meinsemdir og geta einnig misst tökin á tilveru sinni, en trúarljósið lýsir samt réttan veg. Til að fylgja því þarf þó að iðrast og snúa við, afneita fíkn og fjötrum og innantómu villuráfi og þrá og leita lífsfyllingar í nærandi tengslum við lifanda Guð og sköpun hans og rækta ábyrg og gefandi samskipti og styrkja fjölskyldubönd í anda hans og kærleikskrafti. Þannig er hægt að forðast að vera innantómt holmenni sem missir af innihaldi lífsins og íþyngist svo af byrðum þess og skuggum að ,,það verður mjög langt.“ Hrósa ber forsvarsmönnum Borgarleikhússins fyrir að vera með á nótunum og setja þetta nýja leikrit svo fljótt á svið og vel sem raun ber vitni. Fjölskylda Tracy Letts vísar til sígildra leikverka og endurspeglar þann tíðaranda og lífshætti í samtíðinni sem mjög hafa mótað ferð og á því brýnt erindi.

Leikritinu Fjölskyldunni gef ég *** og leikstjóra Hilmi Snæ Guðnasyni og leikurum *****.