Lífið er gjöf

Lífið er gjöf

Góðu fréttir kristinnar trúar eru að við þurfum ekki láta sorg og sút vera ráðandi afl í lífi okkar, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður. Heimurinn á ekki síðasta orðið, „heift kúgarans“ (Jes 51.13) eru settar skorður því allt er í hendi Guðs, haf og jörð og himinn, Guðs sem skýlir þér í skugga handar sinnar (Jes 51.16). Ekkert meðal er máttugra gegn hræðslunni við dauðann, hvort sem er eigin dauða eða annarra, óttanum við það sem koma skal, ógninni sem okkur stendur af hinu óþekkta.

Hver ert þú? Hver ert þú sem óttast? Hver ert þú sem „óttast dauðlega menn og mannanna börn sem falla sem grasið“ (Jes 51.12)?

Hver ert þú? Hver ert þú sem gleymir? Hver ert þú sem „gleymir Drottni, skapara þínum, sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni“ (Jes 51.13)?

Að óttast og gleyma. Það er lífsins saga. En sögunni þarf ekki að ljúka þannig. Ótti og gleymska eru tímanlegir hlutir, eitthvað sem er bundið í okkar veraldlegu og takmörkuðu tilveru hér á jörð. Þvílík gleði að það skuli ekki vera eina hlutskipti okkar – að við skulum líka tilheyra annarri vídd, andlegri vídd, yfirskilvitlegri veröld Guðs þar sem ótti og gleymska missa vald sitt yfir okkur. Við sem svo kjósum erum hin „endurkeyptu Drottins.“ Við erum þau sem „snúa aftur og koma fagnandi til Síonar.“ Eilíf gleði fer fyrir okkur, fögnuður og gleði fylgja okkur, en „sorg og sút leggja á flótta“ eins og segir í fyrri ritningarlestri dagsins, hjá Jesaja spámanni (Jes 51.11).

Við sem svo kjósum. Nú eru kosningar til Alþingis í nánd; á annan tug flokka í boði sums staðar um land. Hvaða bókstaf sem við veljum að krossa við í þetta sinn mun hafa áhrif á hvaða fólk tekur ákvarðanir fyrir hönd okkar hinna næstu fjögur árin. Öll byggja þau á einhverri stefnu, stefnu síns flokks en líka sinni eigin lífsstefnu.

Um leið og við nýtum okkur kosningaréttinn gætum við nýtt þetta tækifæri til að spyrja okkur sjálf: Hvaða stefnu hef ég kosið mér fyrir mitt eigið líf? Hvað er það sem ég byggi ekki bara ákvarðanir mínar á heldur lífið sjálft? Hver er ég, hvaðan er ég – og hvert stefni ég?

Líf í fullri gnægð Í dag heyrum við frásögn úr Jóhannesarguðspjalli (Jóh 4.46-53). Þar segir frá öðru tákni Jesú í Kana í Galíleu með vísun í fyrsta táknið hans, þegar hann gerði vatn að víni og það yfirfljótandi eðalvíni (Jóh 2.1-11). Tökum eftir því að Jóhannes guðspjallamaður notar frekar orðið tákn en kraftaverk til að lýsa því þegar Jesús mætir manneskjunni á yfirnáttúrulegan hátt. Máttarverkið sjálft er ekki aðalatriði heldur að það birtir hver Jesús er og hvað hann gefur: Líf, líf í fullri gnægð (Jóh 10.10).

Hér höfum við mann, konungsmann, væntanlega virtan mann við hirð Heródesar Antipasar. Hann verður ekki á vegi Jesú fyrir tilviljun heldur fer gagngert úr einum bæ í annan til að hitta Meistarann. Hann er sem sagt í fyrsta lagi að gera nokkuð sem varla var manni í hans stöðu sæmandi, leita sér hjálpar hjá óbreyttum farandprédikara. Í öðru lagi leggur hann á sig ferðalag árla dags neðan frá Kapernaúm við Galíleuvatn upp í fjalllendið þar sem Kana mun hafa verið. Það sýnir að hann hefur fulla trú á því að Jesús geti hjálpað. Í hinum guðspjöllunum eru margar frásögur af kraftaverkum sem Jesús vann í Kapernaúm en þar settist hann að um tíma (Matt 4. 13) og læknaði meðal annars tengdamóður Símonar Péturs (Mark 1.29-31). Konungsmaðurinn hefur því heyrt og jafnvel séð sjálfur hvernig Jesús endurreisti heilsu og líf fólks. Hann sendir ekki einn af þjónum sínum heldur fer sjálfur, enda er líf barnsins hans í húfi.

Eins og víðar í guðspjöllunum heyrum við hvernig Jesús verður ekki umorðalaust við beiðni mannsins. Það er eins og Jesús þurfi að prófa einlægni viðkomandi; hvort nokkuð annað búi að baki en einföld bæn um hjálp. En konungsmanninum gengur ekkert annað til en að lífi barnsins verði bjargað. Ítrekuð bón hans um að Jesús komi til hjálpar sýnir að hrópið kemur frá innstu hjartans rótum: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“ Kom. Kom þú, Drottinn Jesú, kom með gjöf lífsins.

Og svar Jesú er einfalt: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Einmitt á þeirri stundu fer hitinn úr barninu, eins og þjónar konungsmannsins sem hann mætir daginn eftir á leið sinni ofan eftir, frá Kana til Kapernaúm, eru til vitnis um. „Og hann tók trú og allt hans heimafólk“ (Jóh 4.53).

Kom þú Kom þú, Jesús, kom með líf, getum við líka sagt og horfst í augu við Jesú, fundið anda nálægðar Guðs inn streyma. Og einmitt á þeirri stundu, verður lífið að eilífu okkar. Þegar Guð talar sitt líf inn í okkar líf verður umbreytingin frá andlegum dauða til lífs með Guði fyrir Orð Guðs sem er Jesús Kristur. Það Orð leggur okkur orð í munn (Jes 51.16), mælir við okkur: Far þú, far þú og ber lífinu vitni í öllu sem þú ert, veittu með þér af lífinu sem þú hefur nú þegið.

Þannig eru frásögur guðspjallanna sístæðar; ekki bara vitnisburður um eitthvað sem einu sinni var og fjöldamörg vitni voru að, heldur tækifæri til innlifunar fyrir okkur, að sjá og heyra og skynja eins og værum við sjálf viðstödd. Þetta kunni Hallgrímur Pétursson og horfðist í augu við Jesú og heyrði orð hans sem töluð til sín, til dæmis í fimmta Passíusálmi:

Þegar mig særir sótt eða kvöl, sorgleg fátækt og heimsins böl, ég veit þú segir: Eg er hann, Jesús, sem lækna vill og kann. Auðlegð á himnum áttu víst; eymd þín og hryggð í fögnuð snýst. Heiminn sigraði eg, hræðstu síst. -

Eymd og hryggð er hlutskipti svo margra í heimi hér en góðu fréttir kristinnar trúar eru að við þurfum ekki láta sorg og sút vera ráðandi afl í lífi okkar, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður. Heimurinn á ekki síðasta orðið, „heift kúgarans“ (Jes 51.13) eru settar skorður því allt er í hendi Guðs, haf og jörð og himinn, Guðs sem skýlir þér í skugga handar sinnar (Jes 51.16). Ekkert meðal er máttugra gegn hræðslunni við dauðann, hvort sem er eigin dauða eða annarra, óttanum við það sem koma skal, ógninni sem okkur stendur af hinu óþekkta, enda segir skáldpresturinn:

Á dauðastund og dómsins tíð, Drottinn, það skal mín huggun blíð, orð þitt er sama: Eg em hann, sem inn þig leiði í himnarann; þjón minn skal vera þar ég er. - Því hefur þú, Jesú, lofað mér. Glaður ég þá í friði fer.

Glöð í friði Glaður ég þá í friði fer, segir Hallgrímur. Það er andspænis dauðanum sem við gerum okkur grein fyrir gildi lífsins. Sé lífinu lifað undir formerkjum gleði og friðar getum við farið á sama hátt, farið glöð í friði „yfrí sælli veröld“ eins og Þórbergur kvað. Mér kemur iðulega í hug eldri herramaður á Dvalarheimilinu Felli hér í sókninni fyrir tuttugu árum sem minnti á að við ættum að lifa hvert augnablik þannig að við værum reiðubúin að mæta frelsara okkar. Það gefur lífinu gildi – og hjálpar okkur að vanda okkur.

En auðvitað er svo margt sem mætir okkur í þessu lífi sem truflar frið okkar og gleði, já skekur líf okkar. Sjúkdómar og dauði eru þar framarlega eins og í frásögu dagsins af pabbanum sem barðist fyrir lífi sonar síns. Í dag er dagur heilbrigðisþjónustunnar haldinn innan þjóðkirkjunnar í þriðja sinn. Hann á sér fyrirmynd í „Healthcare Sunday“ á Bretlandi sem er nálægt degi Lúkasar guðspjallamanns og læknis, 18. október. Heilbrigðisþjónustan er okkur mjög mikilvæg þegar eitthvað bjátar á, hvort sem um er að ræða slys eða veikindi, geðræn og líkamleg, og líka til að fyrirbyggja sjúkdóma, til dæmis með bólusetningum. Við biðjum hér á eftir fyrir þeim sem starfa innan heilbrigðisþjónustunnar, þeim sem þjónustuna þiggja og líka þeim sem sinna leiðtogastörfum og taka vandasamar ákvarðanir sem lúta að heilbrigðismálum, eins og segir í hvatningu frá biskupi Íslands til þjóðkirkjupresta.

Í bréfi biskups segir líka:

Kristin kirkja bendir á nálgun Jesú þar sem hann í allri sinni framgöngu mætti manneskjunni og hennar þörfum í heild sinni. Sú umhyggja sem hann sýndi er hvatinn að þeirri umhyggju sem okkur ber að sýna og á að einkenna allt samfélag okkar sem og heilbrigðisþjónustu. [...] Guð sendir okkur hjálpara í öðru fólki, hjálpfúsar hendur sem bjarga og færa blessun Guðs. Í þeim hópi eru þau mörgu er starfa við heilbrigðismál.

Mikið sjálfboðastarf er líka unnið á sviði heilbrigðismála. Til dæmis eru krabbameinsfélög um allt land sem styðja við starfsemi heilbrigðisstofnana, sjúklinga og fjölskyldna þeirra með ýmsum hætti. Nú í október stendur yfir árleg söfnun Krabbameinsfélagsins sem kennd er við Bleika slaufu og var bleika litinn víða að sjá á föstudaginn var í leikskólum, skólum og á vinnustöðum. Við hér í Háteigskirkju höfum ákveðið að samskotin í messunum í október renni til þessarar fjáröflunar sem verður varið til endurnýjunar tækjabúnaðar fyrir brjóstakrabbameinsleit.

Að styrkjast í Drottni og í krafti máttar hans Í síðari ritningarlestri dagsins, pistlinum úr Efesusbréfinu, fáum við mjög myndræna lýsingu á því hvernig við getum varist ýmsum vágestum, þessa heims og annars. Við erum hvött til að standa „gyrt sannleika um lendar, klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið.“ Sannleikur, réttlæti, friður. Sannarlega eru það allt stór og mikilvæg hugtök til að byggja líf sitt á. Um það er sennilega allt vel meinandi fólk sammála, hverrar lífsskoðunar, flokks eða þjóðar sem er. Og svo segir postulinn okkur að taka „skjöld trúarinnar“ sem við getum slökkt með „öll logandi skeyti hins vonda“, setja upp „hjálm hjálpræðisins“ og grípa „sverð andans“.

Trúin, hjálpræðið og andinn. Þau hugtök tilheyra andlega veruleikanum okkar, Guðsríkinu, því mikilsverða sviði sem gerir okkur kleift að nálgast sannleika, réttlæti og frið, þrátt fyrir okkar eigin takmarkanir og ófriðinn allt um kring. Á því sviði missa tímanlegu hlutirnir vald yfir okkur, dauðinn á ekki lengur síðasta orðið, eins og segir í páskasálminum og ég hugsa oft um í hauststormunum: „Þótt hann æði, þótt hann hræði, það ei framar skaðvænt er.“

Hver ert þú, kæri áheyrandi? Hver er ég? Hver erum við sem óttumst, óttumst dauðann í ýmsum formum, eigin endanleika sem birtist á svo margvíslegan hátt? Hver erum við sem gleymum, gleymum Guði sem gefur lífið hér og nú og inn í þá vídd sem ekkert okkar skilur til fullnustu? Hvaða stefnu kjósum við okkur? Hverju treystum við? Mætti líf okkar stefna til og traust okkar hvíla á Guði sem allt gefur, á Jesú Kristi, „sem allt varð til fyrir og við fyrir hann“ (1Kor 8.6). Mættum við taka undir með Hallgrími í friði og gleði hjartans, þakklát Guði sem lífið gefur:

Ég segi á móti: Ég er hann, Jesú, sem þér af hjarta ann. - Orð þitt lát vera eins við mig: Elska ég, seg þú, líka þig. - Eilíft það samtal okkar sé uppbyrjað hér á jörðunni. Amen, ég bið, svo skyldi ske.
Amen.