Paradís

Paradís

Í samanburði við þorra mannkyns búum við á Íslandi í Paradís, eða að minnsta kosti eins nálægt hliðinu sem engillinn gætir eins og kostur er. Paradís er hinn altæki staður vegna þess að öll látum við freistast eins og konan sem heitir Líf og maðurinn sem heitir Jörð.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag, fyrsta sunnudag í föstu, er brugðið upp fyrir okkur mynd af Paradís, upphaflegu ástandi manneskjunnar. Paradís er draumstaður frumþarfanna, staðurinn þar sem nóg er til af fæðu og vatni og hreinu lofti, staður öryggis og hvíldar, unaðar líkamans og náinna tengsla.

Flest eigum við einhverjar hugmyndir til um slíka Paradís, ekki síst á tímaskeiðum þegar líf okkar er fullt af streitu og óöryggi, vanheilsu og baráttunni fyrir brauðinu. Flest okkar eigum okkur óræðan draum um hið fullkomna líf, þar sem enginn er svangur, þreyttur eða vansæll. Slíkar væntingar eru oft kallaðar útópíur. U topos þýðir enginn staður. Enginn staður uppfyllir allar þessar væntingar. En öll eigum við þær og þess vegna tilheyra þær líka öllum stöðum og öllum draumum.

„Adam var ekki lengi í Paradís“, segir máltækið. Og í dag erum við erum leidd inn í sögu sem hefur haft ríkari áhrif á vestræna kristnir og heimsmynd en flestar aðrar. Við horfum yfir græna dali setta friðsælum lendum, og frjósamar ár fullar af fiski. Í miðjum garðinum stendur tré lífsins og tré þekkingarinnar þar skammt frá. Drottinn Guð hefur nýlega skapað manneskjurnar og þær mega valsa um garðinn eftir hjartans lyst. Það eina sem þær mega alls ekki gera er að ná sér í ávöxt af tré þekkingarinnar. Og auðvitað er það niðurstaðan sem sagan leiðir okkur til, hún segir okkur frá freistingu og falli. Manneskjan má ekki lengur búa í Eden,heldur var henni komið fyrir austan Edenar þar sem hún þarf að strita allar götur sínar í sveita síns andlitis. Og Guð setti engil með logandi sverð til að gæta þess að Adam og Eva kæmust aldrei aftur inn í Eden.

Sagan af Adam og Evu fjallar um ástæður þess að þau óhlýðnuðust þessu einfalda boði og hvaða afleiðingar óhlýðnin hafði. Sagan af Adam og Evu verður ekki aðeins saga af tveimur manneskjum í garði, heldur grundvallandi saga fyrir okkar eigið líf, orsakir og tilgang. Þannig beinir sagan af fyrsta fallinu okkur leið inn í föstuna, inn í heim iðrunar og íhugunar sem undirbýr okkur fyrir gleði páskana.

II.

Þegar við veltum fyrir okkur boðskap sögunnar og hvað við getum tekið með okkur inn í næstu viku, skulum við staldra við textann sjálfan. Hvað getur þessi saga sagt okkur? Hvernig kemur hún okkur við? Hvað getum við tekið með okkur úr þessum texta sem mun nýtast okkur í hversdagslífinu?

Við getum kannski byrjað á því sem er ekki í sögunni. Ef þið berið saman söguna eins og hún kemur fyrir í þriðja kafla fyrstu Mósebókar saman við það sem þið munið af því að hafa heyrt hana þúsund sinnum í uppvexti ykkar, þá leiðir samanburðurinn fljótlega í ljós að einn grunsamlegan ávöxt vantar, þ.e. eplið. Það er ekki minnst á epli í sögunni um Adam og Evu! Hins vegar sá Eva ávöxt á trénu og át hann, en enginn veit hvers konar ávöxtur það var.

Annað sem vantar í þessa alþekktu sögu, og við höldum að sé þar er djöfullinn. Það er ekkert talað um djöfulinn í fyrstu Mósebók. Í sögunni er rætt um höggorm sem er slægur, en hann er ekki manngerður eða gerður að tælandi djöfli. Ef Adam og Eva standa fyrir manneskjuna í sköpuninni, er höggormurinn tákn þess sem stendur utan hins mannlega. Hann talar og beinir Evu að trénu og hún tekur eplið af trénu. En sjálfur er hann dýr sem skríður um í aldingarðinum. Höggormurinn er sköpun guðs og ein af skepnum guðdómsins og hvorki með horn né þrífork.

Það er alltaf áhugavert þegar við skoðum gamalkunna sögu í nýju ljósi að velta fyrir sér hvað það er sem við erum að lesa inn í söguna, það sem við höldum að sé þar en er ekki. Hitt er engu síður mikilvægt að líta eftir því sem á einhvern hátt hneykslar okkur við söguna. Kannski erum við búin að heyra hana og lesa svo oft að hún hættir að hneyksla okkur og ergja okkur. Kannski erum við orðin dofin fyrir þessari sögu. Og til þess að uppgötva eitthvað nýtt um okkur sjálf og þá ritningartexta sem okkur eru lesnir hvern sunnudag í kirkjunni, þurfum við að geta nálgast textana út frá nýju og fersku sjónarhorni.

Og það er alveg hægt að fá áfall við að lesa söguna um Adam og Evu. Þar er okkur greint frá eftirtöldum atriðum:

Að konur finni til við barnsfæðingar vegna þess að Eva lét glepjast af höggorminum.

Að snákar bíti manneskjur vegna syndafallsins.

Að karlmaðurinn eigi að drottna yfir konunni sem refsingu fyrir það að hún hlýddi höggorminum.

Að akurlendið sé bölvað vegna syndafallsins.

Að dauðann megi rekja til þess að Adam og Eva óhlýðnuðust.

Allt út af einu epli, sem er ekki einu sinni að finna í sögunni.

III.

Það eru þrjár ástæður fyrir því að þau atriði sem ég nefndi hér áðan gera mér erfitt fyrir að prédika út frá sögunum. Sú fyrsta fjallar um jafnrétti, önnur um stéttskiptingu og sú þriðja um umhverfismál.

Fyrsta ástæðan er sú að ég trúi því ekki að Guð vilji að annað kynið sé undirokað hinu. Ég trúi því ekki að stelpur eigi að vera undirskipaðar strákum á nokkurn hátt og ég trúi því ekki að Guði finnist það heldur. Í Nýja testamentinu er sagt að fyrir Guði séu allir jafnir, Gyðingar og Grikkir, þrælar og frjálsir menn, karlar og konur. Fyrir hvern þann sem trúir á það að allar manneskjur séu jafnar fyrir Guði er erfitt að lesa texta eins og þennan, sem finnur rökstuðning fyrir því að konur eigi að hlýða körlum í því að Eva hafi bitið í ávöxt og sagt manni sínum að gera slíkt hið sama.

Önnur ástæðan er sú að ég trúi því ekki að þrældómur austan Edenar sé endilega Guði þóknanlegur. Ég held að Guð geti alveg unnt öllum mönnum að hvílast og eiga frí. Þess vegna er hvíldardagurinn svo mikilvægur og að unna sér hvíldar einstöku sinnum. Það er auðveldlega hægt að nota þennan texta til að réttlæta þrældóm á fátæku fólki, með því að líta svo á að þrældómurinn sé okkar daglega hlutskipti allt frá syndafallinu.

Þriðja ástæðan fyrir því að mér finnst erfitt að lesa þennan texta fyrir ykkur í dag, er það viðhorf sem hann birtir gegn daglegu lífi á plánetunni jörð. Okkur er sagt að þjáningar kvenna við barnsburð séu refsing vegna óhlýðni Evu. Okkur er sagt að dauðinn sé afleiðing syndarinnar og þetta stef er endurtekið hjá Páli postula í Nýja testamentinu. Okkur er sagt að akurlendið sé bölvað vegna misgjörðar Adams. Ég hef sjálf fætt af mér þrjú börn og hef aldrei skilið neitt í þeirri hugsun að almættið geti refsað konum sérstaklega með hríðum og leggangaútvíkkunum. Og ég er hrædd um að hugmyndir um að akurlendið sé bölvað vegna syndar sé ekki til þess fallið að auka mönnum þá ást og umhyggju fyrir jörðinni sem við þurfum svo sárlega á að halda í nútímanum.

Hvað á að gera við jafn umdeildan og tvíbentan texta og þann sem hér er um að ræða? Eigum við að reyna að skauta hratt yfir verstu atriðin í sögunni um Adam og Evu, láta eins og þau séu ekki til? Eigum við ef til vill að líta svo á að sagan eigi ekkert erindi við almenning og taka hana út af borðinu? Eða eigum við að reyna þriðju leiðina, láta hana hneyksla okkur, glíma við hana og athuga hvort hún getur fært okkur eitthvað nýtt eftir allt saman?

IV.

Hugur minn ber mig út úr aldingarðinum og yfir í andstæðu hans, skraufþurra auðn þar sem hvergi er hægt að sjá stingandi strá. Þetta er staðurinn sem Jesús leitaði til þegar hann vildi vera einn með sjálfum sér. Í það skipti sem guðspjallið okkar segir okkur frá átti hann í erfiðri baráttu. Okkur er sagt að hann hafi mætt djöflinum. Og okkur er í sjálfsvald sett hvort við viljum setja þann djöful með horn og klaufir andspænis Jesú í frumspekilegu drama, eða hvort við sjáum það fyrir okkur að Jesús hafi barist inni í sjálfum sér.

Auðnin og staðurinn austan Edenar eru ólíkir staðir. Og þó eru þeir báðir staðir frelsunar, frelsunar sem kallar Adam og Evu til að vera frjáls og full þekkingar, frelsunar sem hjálpar Jesú að einbeita sér að ætlunarverki sínu sem er að boða guðsríkið og frelsa alla menn. Í þeim báðum er til dauði, hætta og sársauki sem hluti af lífinu. Og hvort tveggja eru staðir þar sem Guð mætir þér og mér, fyllir okkur kjarki, frelsi og friði og gerir okkur kleift að lifa lífinu á þann veg að það særi ekki aðra og byggi sjálf okkur upp.

Ég sé frelsarann fyrir mér, þar sem hann situr á jörðinni með krosslagða fætur og talar við fuglana, dýrin og jurtirnar um það sem framundan er. Í trú hans og baráttu sé ég Paradís. Ekki þá Paradís þar sem ekkert gerist, heldur Paradísina þar sem ungur maður verður fullorðinn og finnur þann mátt sem hann þarf til að vinna sitt góða verk. Hann berst við hindranir og þröskulda, hann langar mest af öllu inn í gömlu Eden, inn í draumsýnina þar sem hann þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu og ekki að hugsa um neitt. Djöfullinn sem talar við hann lofar honum völdum, öryggi og nægri fæðu. Og Jesús svarar: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns. Svo hverfur hið vonda honum sýnum, freistingin er farin og hann tekur til við að frelsa alla menn austan við Eden.

V.

Ég held að það væri gott að hugsa um söguna um Adam og Evu sem táknsögu, sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á kristnina en var ekki endilega rituð í því augnmiði. Sagan þarf ekki endilega að segja okkur allt. Hún er tilraun til að tala um og útskýra lífið á jörðinni, því að Eva merkir líf og Adam merkir jörð á hebresku.

Og ég hugsa um það hvað það væri gott að upplifa sögu þar sem sköpunin er ekki aðeins leiksvið fallsins, heldur staðurinn þar sem Drottinn frelsar.

Frelsun í slíkri sögu er ekki aðeins frelsun frá tilteknum stöðum og aðstæðum, heldur frelsun í tilteknum aðstæðum og á tilteknum stöðum. Ekki frá sköpun, heldur í sköpun. Í slíkri sögu eru þjáningar barnsburðarins eðlilegur hluti af því að koma nýju lífi í heiminn að gefa rými, opna göng og rembast fyrir þetta nýja líf. Þar er dauðinn sjálfsagður hluti af lífinu, ekki afleiðing syndarinnar eða andstæða lífsins. Og þar er vinnan hluti af því að vera til, ekki afleiðing óhlýðni eða refsing. Erfiði, sársauki og dauði eru ekki neikvæðir hlutir í sjálfu sér, heldur mikilvægir þættir í því að vera til í samfélagi annarra manneskja.

Íreneus kirkjufaðir á annarri öld eftir Krist talaði um Adam og Evu í aldingarðinum sem börn. Það var ákvörðunin um að eta ávöxtinn sem gerði þau fullorðin og gerði það að verkum að þau þurftu að finna sér klæði og felast fyrir Guði. Ef við fylgjum túlkun Íreneusar, þá lítum við ekki lengur á það sem Eva og Adam gerðu sem brotið sem ýtti okkur út úr aldingarðinum. Engin frjáls manneskja getur verið í aldingarðinum frekar en fóstur getur lengi þrifist í kviði móður sinnar. Einn dag tökum við til óspilltra málanna sem frjálsar, fullvalda manneskjur og við flytjum út. Þeirri ákvörðun fylgir sársauki, kvíði, dauði og erfiði. Það er líka hluti af því að vera manneskja. Og í því ástandi, austur af Eden mætir Drottinn okkur, ekki til að leiða okkur aftur inn í lundinn, heldur til að hjálpa okkur til að iðka frelsi okkar í kærleik til Guðs og til annars fólks og frelsa okkur til frelsis.

Og því er Paradís útópía, enginn staður og allur staður. Hún er allur staður vegna þess að frumþarfirnar eru okkur mikilvægar. Vatnið, andardrátturinn, fæðan, líkaminn eru undirstaða þess að við getum lifað heilbrigðu lífi. Og við gerðum vel í því á þessari föstu að velta því fyrir okkur hversu fá okkar hafa aðgang að slíkum gæðum. Það eru svo margir sem hafa helsta tengingu við náttúruna í óhreina pollinum á götunni, svo margir sem ekki eiga vatn og mat eða búa við sæmilegt öryggi. Í samanburði við þorra mannkyns búum við á Íslandi í Paradís, eða að minnsta kosti eins nálægt hliðinu sem engillinn gætir eins og kostur er. Paradís er hinn altæki staður vegna þess að öll látum við freistast eins og konan sem heitir Líf og maðurinn sem heitir Jörð.

Samt er Paradís líka staðurinn sem hvergi er til, staðurinn sem við þurfum að yfirgefa til þess að verða við sjálf, gera okkar mistök og þroskast til fullorðinsára. Án gelgjuskeiðsins yrðum við aldrei sjálfstæðar manneskjur, sem tökum sjálfstæðar ákvarðanir. Án göngunnar út úr Paradís væri ekki til neitt frelsi og enginn þroski.

Þannig verður sagan um Adam og Evu okkur uppspretta að hugleiðingu um okkur sjálf, freistingar okkar og þroska, Paradísir okkar og þann stað austan Edenar sem við þurfum að byggja sem myndugar manneskjur. Við þurfum ekki Guð til að bjarga okkur frá þeim stað og senda okkur aftur inn í Paradís. Við þurfum Guð til að frelsa okkur í þeim aðstæðum sem við lifum hvert og eitt með eplin okkar í hendinni, hjálpa okkur til að gera staðinn austan Edenar byggilegri og hlýlegri fyrir okkur sjálf og allar manneskjur. Í stað óendanlegrar fæðu, auðlinda og vatns, þurfum við að læra að skipta með okkur takmörkuðum gæðum. Dauðinn er ekki framar óvinur okkar heldur erum við mold og moldin er hluti af því sem við erum adamah, jörð.

Guð gefi okkur kærleika og réttlæti til að lifa sem jörð á jörðu,

í jafnrétti, án stéttskiptingar og í sátt við umhverfið.

Guð gefi okkur kjark og elju til að vinna að því

að þrár annarra um vatn, mat, öryggi og húsaskjól megi verða að veruleika

og að greina milli þess freistinga sem hamla okkur þroska

og hinna sem gera okkur að myndugum manneskjum.

Guð gefi okkur innihaldsríka og íhugandi föstu austan við Eden.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.