Hvernig er sjónin?

Hvernig er sjónin?

Það skiptir máli hvernig við kjósum, hvernig stjórnmálamenn, hvernig forseta, áhrifavalda og kennimenn. Við eigum að temja okkur andlegt hreinlæti og sjá Guð í öllu fólki.

[audio:http://db.tt/L0UYJB5J] Timburhúsaborg er að rísa þessa daga við Melaskólann. Ásláttarhögg hafa hljómað. Tugir hamra hafa verið á lofti og naglamúsíkin hefur oft verið með salsatakti. Ég fór á fimmtudaginn að “húsvitja” hjá kofafólkinu. Smiðirnir eru ungir. Húsin þeirra eru flest vel gerð og mörg með skarsúð á þaki. Presturinn vildi fá að vita hvað þau gerðu þegar þau fengju flís í puttann. “Við förum bara inn í skóla og náum í flísatöng” sögðu þau. Þau töldu prestinn svolítið skrítinn, þegar hann spurði hvort þau hefðu nokkuð fengið flís í augað. “Ne-hei!” og skríktu. Ég hef líka heyrt til þeirra, þegar ég hef staðið við altarið í athöfnum. Það er vekjandi að hlusta á slíka ungmennamúsik.

Málmflís í auga Guðspjallstextinn fjallar m.a. um augnstungu. Ég minnist þess þegar ég varð fyrir augnmeiðslum á unglngsárum. Ég var í sveit fyrir norðan og var að brýna risastórt skerablað í smergel þegar glóandi málmflís flaug og festist í augnhimnuna. Þetta var fyrir tíma hlífðargleraugna. Ég var sendur suður til að ná flísinni út. Bergsveinn Ólafsson var lengi að verki. Það var óþægileg reynsla, þegar fíngerð nálin kroppaði í augað og mér lá við yfirliði. Allt gekk þó sem í sögu. Bergsveinn var góður augnlæknir og flísin stóð ekki það djúpt að skera yrði. Nægilegt var að plokka. Ég hef síðan upplifað líkingu Jesú næsta líkamlega, hugsað um textann og fengið verk í augað!

Jesúboðskapur Versin til skoðunar eru úr ræðu Jesú og eiga sér hliðstæðu víðar, t.d. í einni kunnustu ræðu hans, Fjallræðunni. Fræðimennirnir, sem skoða allt og jafnvel smáflísarnar í Biblíunni, eru flestir sammála um, að þetta sé ein af grunnsögunum, sem örugglega eru frá Jesú komnar. John Dominic Crossan, einn kunnasti Nýja testismentis-fræðingur samtímans, telur að versaknippið og þar með líkingin af flís og bjálka sé einn af 37 bútum, sem örugglega komi frá Jesú. Þetta kalla fræðingarnir Q-heimildina (eftir þýska orðinu Quelle – uppspretta) og var til nota þegar evangelistarnir rituðu guðspjöllin, sem við þekkjum í Nýja testamenntinu. Þessi ræðuhluti er líka í mikilvægu Jesúriti, svonefndu Tómasarguðspjalli, sem reyndar er ekki í Biblíunni.

Dæmið ekki Í textanum hvetur Jesús til að við dæmum ekki. Hann á auðvitað ekki við að við leggjum niður dómstóla eða að við hættum að beita skynsemi okkar og tökum ákvörðun í málum lífsins. Hann á við að við eigum að efla með okkur heilbrigða dómgreind en leggja af dómsýki. Við eigum ekki að hrapa að sleggjudómum. Við eigum að temja okkur andlegt hreinlæti. Við megum sjá Guð í öllu fólki og huga að því guðlega í öðrum.

Jesús minnir á, að það er innra samhengi í því sem við gerum og hvernig með okkur er farið. Kristnir menn hafa löngum talið, að það sé samhengi í líferni og lífshætti og hvernig mönnum vegnar fyrir efsta dómi. Grunnur þeirrar hugsunar er, að heimurinn sé réttlátur. Vegna hvers? Jú, vegna þess að Guð er réttlátur. Þegar öll kurl koma til grafar og lífsdæmin eru öll gerð upp fyrir Guði hljóti sannleikurinn að verða og koma í ljós. Málagjöld eigi að vera makleg. En hvaða lög verða notuð fyrir þeim dómstól og hvernig dæmt er verður ekki rætt í dag. Eitt er víst, að það verða lög elsku og lífs en engra fordóma. Pistill dagsins fjallar dóminn.

Sátt og fyrirgefning Jesús hvetur menn til sáttfýsi og fyrirgefningar til að þeim sjálfum verði fyrirgefið. Hann minnir á, að menn þurfi góða sjón til að vera leiðbeinendur annarra annars falli menn bara ofan í gryfju! Jesús vísar til meistarakerfis fornaldar. Það skipti máli og gerir enn, að fólk velji sér góða kennara, fyrirmyndir. Það skiptir máli hvernig vald við kjósum okkur, hvernig stjórnmálamenn, hvernig forseta, hvernig áhrifavalda og hvernig kennimenn. Og svo koma þessi orð Jesú um, að við eigum ekki að snúa okkur að flísinni í auga annarra heldur skoða okkar eigin bjálka fyrst. Þegar við erum búin að ná honum út ættum við að geta betur séð til flísdráttar.

Getum við heyrt? Hver er tilbúinn að viðurkenna að hann eða hún sé gallagripur? Mín reynsla er einföld í þeimi efnum. Þau, sem helst þyrftu að heyra, eru jafnan síðust til að viðurkenna vandann. Þau, sem hafa verstu brestina, vilja ekki heyra á þá minnst. Þau, sem valda mestum skaða í mannlegum samskiptum, harðneita sök. Það eru hins vegar “góða fólkið,” sem er fljótast að viðurkenna að enn megi bæta. Það, sem vandar sig mest í samskiptum við aðra er tilbúið að viðurkenna mistök sín.

Ég er viss um að fæst ykkar, sem eruð samankomin í kirkju í dag, eruð illa haldin af hleypidómum. Hins vegar er það ljóst að það varðar andlega hreinsun og heilsurækt að fara reglulega yfir timburbúskap augna og anda. Er eitthvað í okkur, sem elur vanda? Er eitthvað í þér, sem veldur því að þú dæmir aðra hart? Er eitthvað í þér, sem niðurlægir og misvirðir fólk? Er eitthvað í þér, sem hreykir sér upp á annarra kostnað? Er einhver smáborgari, sem leitar að brestum nágranna og óförum samborgara? Svona spurningar eru heldur hvimleiðar en nauðsynlegar.

Fordómar eru líka timbur Hvað verstu bjálkarnir í lífi fólks eru fordómar af vonda taginu. Vegna lífshamingju verðum við að koma okkur upp hjálpartækjum til að meta og vega það, sem fyrir okkur ber og við mætum. Þetta eru gildin, forsendur okkar og viðmið, sem við notum til að hjálpa okkur að greina á milli kosta og velja í lífinu. En aðalatriðið er að gera ekki sleggjudóma að grunni ákvarðana okkar og dóma.

Ég hlustaði einu sinni á góðan vin minn lýsa því fjálglega hvernig einn kynþáttur í veröldinni væri öðrum langt að baki. Maðurinn var vel heima og upplýstur, en gekk með fordóm af vonda taginu, sem litaði síðan afskipti hans af fólki af þessum kynþætti. Fordómar hans voru grundvallaðir á alhæfingu og klisjum, sem höfðu ekkert með einstaklinga að gera.

Öll höfum við einhverja fordóma í pólitík, í tísku, gagnvart tónlist, tækni, skemmtanaháttum fólks, nágrönnum okkar, félögum og hreyfingum. En kannski er verst, þegar fordómar verða til að við sjáum ekki fólk sem fólk, heldur lítum niður á það, hræðumst það eða þolum það ekki. Fordómar niðurlægja aðra af því að sá sem er fordómafullur þolir ekki að hann, hún eða þau séu öðru vísi.

Frumforsendan og samhengið er Guð Boðskapur Jesú er að við hugum að dómum okkar og hröpum ekki að neinu. Boðskapur hans hefur síðan verið færður í grunnbækur og stjórnarskrár veraldar og mannskilningur Jesú hefur litað löggjöf og mannréttindasáttmála. En hræðsla, þótti, sjálfselska, valdsdýrkun og illska stríðir gegn þeirri mannhugsun og náungakærleika. Og við erum aðilar að þessari baráttu. Jesús minnir okkur alltaf á að setja Guð í miðju manntengsla og veraldarafstöðu. Þar er frumuppspretta alls og líka gilda og breytni. “Verið miskunnsöm eins og yðar himneski faðir er miskunnsamur.” Burt með fordóma, burt með flísar. “Við förum bara inn í skóla og náum í flísatöngina” sögðu krakkarnir. Kristnir menn hlaupa til Guðs og biðja um að bjálkar fordóma séu dregnir út og þá hverfa flísarnar líka.

Flutt í Neskirkju 1. júlí, 2012. 4. sunnud. e. þrenningarhátíð.

Textaröð: A Lexía: Jer 7.1-7 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Taktu þér stöðu við hliðið að húsi Drottins, flyttu þar þessa ræðu og segðu: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, sem gangið inn um þetta hlið til að tilbiðja Drottin. Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“ Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.

Pistill: Róm 14.7-13 Því að enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins. Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi. En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Öll munum við verða að standa frammi fyrir dómstóli Guðs. Því að ritað er: „Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skal hvert kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.“ Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér. Dæmum því ekki framar hvert annað. Hitt skuluð þið ákveða að verða trúsystkinum ykkar ekki til ásteytingar eða falls.

Guðspjall: Lúk 6.36-42 Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur. Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ Þá sagði Jesús þeim og líkingu: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.