Að læra um lífið á lifandi hátt

Að læra um lífið á lifandi hátt

Þetta var innihaldsrík og gefandi samvera með ungu fólki sem var staðráðið í að nota þetta tækifæri til að upplifa og læra um trúna, lífið og sig sjálft í öruggu og skemmtilegu umhverfi.

Fermingarbörn úr Hafnarfirði heimsækja Skálholt

Um allt land er fermingarstarf kirkjunnar hafið. Í borg og bæ nota unglingar á fjórtánda ári tækifærið á fermingarnámskeiðum kirkjunnar til að læra um trúna, lífið og sjálfa sig.

Undanfarin ár hafa sumarnámskeið fermingarbarna rutt sér til rúms og eru skemmtileg viðbót við hefðbundna fermingarfræðslu sem fer t.d. fram í vikulegum kennslustundum eftir skóla. Formið á sumarnámskeiðunum er ólíkt - sumstaðar er farið með krakkana út úr bænum í nokkra daga og annarsstaðar er húsnæði safnaðanna breytt í fermingarskóla í heila viku. Algengt er að síðasta vikan fyrir upphaf skólastarfs sé notuð í þessum tilgangi og hefur það reynst vel. Almennt er sumarleyfi foreldra lokið um miðjan ágúst og krakkar sem eru að byrja í 8. bekk eru fæst í vinnu.

Ég sinnti fræðslu á sumarnámskeiði fermingarbarna í Hafnarfirði í síðustu viku. Þar tóku tveir söfnuðir höndum saman og héldu námskeið sameiginlega í húsnæði Hafnarfjarðarkirkju. Hafnarfjarðarsókn og Ástjarnarsókn ná sameiginlega yfir 5 grunnskólahverfi og því var fermingarbörnum úr þessum hverfum boðið að sinna þessum hluta fermingarstarfsins í sameiningu.

Námskeiðið byggði á fræðsluefni sem nær yfir hefðbundin atriði sem námskrá fermingarstarfsins gerir ráð fyrir að fermingarbörnin læri. Þar ber hæst fræðsla um Biblíuna, trúarlífið og samfélagið í kirkjunni. Hlutir eins og bænin, messan, líf Jesú og sköpunin eru rædd ut frá sýn og reynslu fermingarbarnanna og þau leidd inn í kristna samtalshefð í öruggu umhverfi.

Kennarar á námskeiðinu voru prestar og starfsfólk safnaðanna sem hefur mikla reynslu af því að vinna með ungu fólki í kirkjulegu samhengi. Dagskráin stóð yfir frá morgni fram yfir hádegi og fengu þátttakendur heita máltíð um miðjan dag. Um miðbik vikunnar var hefðbundið fræðslustarf brotið upp og haldið í dagsferð í Skálholt. Þar var haldið áfram að vinna með viðfangsefni fermingarfræðslunnar í ríku umhverfi sögu og hefðar, ekki síst nutu fermingarbörnin helgi og sérleika Skálholtsdómkirkju.

Kostirnir við þetta form sumarnámskeiðanna eru margir. Það er kostur að geta nýtt tímann áður en skólastarf hefst og mætt þannig þörf og áhuga unglinganna á að hafa eitthvað fyrir stafni. Þau eru spræk og glöð eftir sumarið og aldeilis ósnortin af skólaþreytunni sem gerir stundum vart við sig. Þá er íslensk náttúra í sumarbúningi ekki ónýt umgjörð fyrir samveru í fallegu umhverfi. Síðast en ekki síst býður námskeið sem haldið er í nokkra daga samfleytt upp á innihaldsríka og gefandi samveru með ungu fólki sem er staðráðið í að nota þetta tækifæri til að upplifa og læra um trúna, lífið og sig sjálft í öruggu og skemmtilegu umhverfi.