Von

Von

Aðfararnótt miðvikudags lágum við á jörðinni við litla flugbraut í Jacmel, án teppa með ferðatöskur sem kodda og hlustuðum á þúsundir íbúa Haiti sem höfðu misst allt, syngja lofsöngva, biðja, gráta og aðstoða hvort annað burtséð frá litarhafti, stétt eða stöðu.
fullname - andlitsmynd Halldór Elías Guðmundsson
15. janúar 2010

Það er skrítið að upplifa von í augum íbúa í aðstæðum sem virðast vonlausar. Aðfararnótt miðvikudags lágum við á jörðinni við litla flugbraut í Jacmel, án teppa með ferðatöskur sem kodda og hlustuðum á þúsundir íbúa Haiti sem höfðu misst allt, syngja lofsöngva, biðja, gráta og aðstoða hvort annað burtséð frá litarhafti, stétt eða stöðu. Við höfum notið ótrúlegrar vináttu, gestrisni og samfélags með fólki í erfiðustu aðstæðum sem hægt er að hugsa sér. Það er skrítið að yfirgefa vini í aðstæðum sem þessum en við sem ferðumst hér saman erum meðvituð um að vera okkar hér núna er byrði á góðum vinum sem eiga mikið verk fyrir höndum.

Við gerum best með því að halda heim og kalla eftir stuðningi allra sem við þekkjum í því risavaxna verkefni sem er framundan hér í Haiti. Hvenær við komumst héðan er þó enn óvíst en vegurinn frá Jacmel þar sem við höldum til er enn ófær.

Það eru margar leiðir til að koma aðstoð til Haiti. Hægt er að hringja í hjálparsíma Rauða Krossins eða Hjálparstarfs kirkjunnar, senda framlag til SOS barnaþorpa, UNICEF er með mikið starf hér og Barnaheill. Síðustu tvo sólarhringa hefur líf mitt bókstaflega verið í höndum frábærra einstaklinga sem starfa fyrir Haiti Timoun Foundation (http://www.hopeinhaiti.org/). Ef til vill viltu treysta þeim fyrir framlagi þínu. Íbúar Haiti þurfa á þér að halda núna. Finndu einhvern sem þú treystir til að koma þínu framlagi þangað sem það nýtist best.

Halldór Elías Guðmundsson djákni var staddur á Haiti ásamt hópi guðfræðinema frá háskóla í Ohio þegar jarðskjálftinn reið þar yfir.