Ég sé þig!

Ég sé þig!

Frelsisverk Krists er stærsta yfirlýsing Guðs „Ég sé þig, ég fórnaði öllu fyrir þig. Og nú er það Hann sem í okkar velmegunar- og efnishyggjusamfélagi, kallar „sjáðu mig, ekki gleyma mér, ég er kominn til þín í Kristi“.

Texti: Matt. 20. 20-28

Til að þjóna og gefa Þá kom móðir þeirra Sebedeussona til Jesú með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar. Jesús spyr hana: „Hvað viltu?“ Hún segir: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu hvorn til sinnar handar, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús svarar: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik sem ég á að drekka?“ Þeir segja við hann: „Það getum við.“ Hann segir við þá: „Kaleik minn munuð þið drekka en ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem faðir minn hefur ákveðið.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við bræðurna tvo. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“

Ég sé þig Í textanum sem var lesinn hér áðan úr Jesaja segir (Jes. 58,7): „að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann“ og síðar sagði (Jes 58,10): réttir hugruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á,“.

Sjáið þið hvað þessi gamli texti á beint við í dag í þeim vanda sem blasir við Evrópu með síauknum flóttamannastraumi og mikilli neyð og dauða við bæjardyr okkar. Munum að -Jesús var líka flóttamaður, Jósef, María og Jesús nýfæddur flúðu til Egyptalands undan lífsháska, nú flýja menn frá Egyptalandi vegna ófriðar og slæms ástands þar. Ég held að hlutskipti flóttamanna í dag væri örðuvísi ef við sæjum Krist í hverjum einstaklingi. Jesús sagði (Matt. 25,40): „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ Jesús segir í guðspjalli dagsins (Matt 20,26-28): „..heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. Mannsonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“.

Jesús segir líka (Jóh. 15), „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“. En Jesús talaði ekki bara hann lifði og dó samkvæmt því sem hann sagði allt til dauða á krossi og svo reis hann upp á þriðja degi og sigraði dauðann, eins og við játuðum áðan í trúarjátningunni. Tökum eftir því að Jesús dæmdi ekki Jakob og Jóhanness Sebedeussyni fyrir beiðni þeirra. Hann veit að það er mannlegt og vanalegt að hafa metnað og vilja klifra upp metorðastigann, fá að sitja við hlið konungsins og fá aðdáun og að aðrir þurfi að lúta. Gyðingar væntu messíasar sem mynd ríkja eins og veraldegur konungur sem sigrar óvininn með valdi og mætti. En hann bendir á að þannig er það ekki með hann og hans ríki. Þar er mikilleiki ekki fólginn í að ráða yfir, skipa fyrir og láta mæta sínum þörfum. Heldur þveröfugt að þjóna, gera gott og elska náunga sinn. Jesús vissi og hafði sagt lærisveinum sínum að hann átti eftir að ganga erfiðan veg alla leið upp á Golgatahæð og hann spyr: „Getið þið drukkið þan kaleik sem ég á að drekka?“ Tökum eftir því að Jakob og Jóhannes voru viljugir til þess þó að þeir hafi líklega ekki vitað til fulls í hverju það fólst. Hlutskipti þeirra í lífinu varð mjög ólíkt, Jakob var fyrsti postulinn sem dó píslarvættisdauða en Jóhannes varð langlífur og dó í hárri elli.

Kaleikur Krists var að þjóna og hann spyr þig og mig ert þú til í að drekka af þessum kaleik með mér? Þ.e.a.s. að við þjónum og elskum eins og hann?Að við keppum eftir því að líkjast honum í þjónustu við náunga okkar. Guð hefur blessað okkur hjónin ríkulega, við eigum fimm börn. Þegar ég átti „bara“ þrjú börn og dóttir mín var 6 ára, tók ég upp vídeó af þeim þar sem hún var að leika sér með yngri bræðrum sínu. Hún spurði mig nokkrum sinnum, „pabbi sérðu mig“, hún vildi vera örugg á því að hún væri í mynd. Mér koma oft þessi orð hennar, sérðu mig, í hug þegar ég er á ferðinni í tenglsum við verkefni Hjálparstarsfsins til dæmis í Eþíópíu þar sem við erum með verkefni á einangruðu svæði. Fólkið þar hefur sagt við okkur „við erum gleymd, enginn sér okkur, það er enginn annar að vinna á þessu svæði, þakka ykkur fyrir að muna eftir okkur“. Sömu skilaboð fáum við frá mörgum sem leita aðstoðar á Íslandi, „við erum útundan í kerfinu, það er enginn sem sér okkur“ og sama á við um flóttamennina. Við sjáum í viðtölum í fjömiðlum þar sem flóttafólk lýsir ömurlegum aðstæðum og kallar „við er manneskjur, við erum hér, sjáið okkur, meðhöndlið okkur sem manneskjur“. Þau eru að kalla okkur til ábyrgðar.

Frelsisverk Krists er stærsta yfirlýsing Guðs „Ég sé þig, ég fórnaði öllu fyrir þig. Og nú er það Hann sem í okkar velmegunar- og efnishyggjusamfélagi, kallar „sjáðu mig, ekki gleyma mér, ég er kominn til þín í Kristi“. Jesús er ekki leiðtogi sem vill undiroka og fá virðingu og lotningu, vera ofar okkur. Nei, hann beygir sig niður á hnén og horfir í auga okkar og segir „ég sé þig“ og þjónar okkur. Hann vill eiga samfélag við okkur, það er það sem hann þráir.

Það segir í textanum úr Jesaja (58,10) „þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur“. Það er þetta sem gerist þegar hann sem sagði: „Ég er ljós heimsins“ verður ljós í hjarta mínu, þegar ég játast honum. Þá verður hann umbreytandi kraftur og frelsari sem lýsir upp myrkrið, ekki endilega þannig að allt verði létt og engin þjáning hér og nú – en hann er með á göngunni og hann þekkir þjáningu og þraut og kærelikur hans og friður veitir tilgang og kraft til að þjóna öðrum, taka inn á sig þjáningu og byrðar annarra, til að þeir meigi bjargast og eiganst betra líf.

Vandamálið með Jesú (ef vandamál skyldi kalla) er að hann er svo persónulegur, hann sagði við Pétur „elskar þú mig“, og við lærisveinana „fylg þú mér“ og hann segir það sama við þig og mig í dag. Hvert er þitt svar? Hann vill ekki bara vera ljós heimsins eða frelsari heimsins. Heldur ljós þitt og frelsari þinn Og hann vill að við tökum ábyrgð hvert og eitt okkar, þjónum náunga okkar í kærleika og verki.