Umburðarlyndi!

Umburðarlyndi!

Á Íslandi ríkir trúfrelsi. Fólk getur valið að standa innan ólíkra trúfélaga eða utan allra trúfélaga. Kristin kirkja styður trúfrelsi og viðurkennir tilvist annarra trúarbragða.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
01. maí 2009

Á Íslandi ríkir trúfrelsi. Fólk getur valið að standa innan ólíkra trúfélaga eða utan allra trúfélaga. Kristin kirkja styður trúfrelsi og viðurkennir tilvist annarra trúarbragða.

Lisbet Christoffersen lagaprófessor við háskólann í Kaupmannahöfn hefur ritað greinar um trúarbragðarétt og trúfrelsi. Hún hefur borið saman ýmis samfélagsmódel í nútíð og fortíð með áherslu á ofangreind atriði. Auk þess hefur hún rannsakað lagaumhverfi og stöðu ólíkra hópa í ýmsum löndum nútímans svo sem Tyrklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Norðurlöndum. Ein af hennar niðurstöðum er sú að trúfrelsi virðist mest varið og tryggt í ríkjum heimsins þar sem þjóðkirkja hefur verið ríkjandi fyrirkomulag, eins og á Norðurlöndum.(1)

Það eru fólgin samfélagsverðmæti í því að slíkt umburðarlyndi sé okkur Íslendingum í blóð borið. Það er ekki svo að öll trúarbrögð heimsins séu fylgjandi trúfrelsi.

Ólík trúarbrögð hafa í auknum mæli rutt sér til rúms á Íslandi síðustu áratugi. Það er ekki sjálfgefið að þau trúarbrögð sem eru mótfallin trúfrelsi fái framgang í íslensku samfélagi. Hvert á rými þeirra að vera hér á landi? Ég hef ekkert einfalt svar við því en spurningin finnst mér mikilvæg og svarið enn mikilvægara.

Trúfrelsi er einkenni á íslensku samfélagi og hluti af íslenskri hefð. Það væri slys ef við myndum tapa þeim verðmætum úr okkar menningu.

(1) Christoffersen Lisbet Kirke og Kultur. Offentlig Religion i Staten. Om nordiske retlige betingelser for at være statens offentlige religion. 2005.