Ljós og skuggi vega salt.

Ljós og skuggi vega salt.

Drottinn þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.
fullname - andlitsmynd Þorbjörn Hlynur Árnason
05. apríl 2020

Drottinn þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.  Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.  Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur þér mannanna börn“. Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.  Þú hrífur þau burt sem í svefni, þau er að morgni eru sem gróandi gras. Að morgni blómgast það og grær, að kvöldi fölnar það og visnar.... Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.

 Þetta er ljóð um fallvaltleika lífsins.  Um það hversu lífið er stutt, ófyrirséð og undarlegt og stundum grimmt. Bjartur dagur snýst í svarta nótt og nú reyna margir örvæntingu og kvíða.

Og þetta er Davíðsálmur sem varð Matthíasi Jochumssyni innblástur er hann orti þjóðsöng okkar.  Lofsönginn.

Þjóðsöngur okkar er trúarleg lofgjörð, söngur sem aðgreinir sig rækilega frá flestum öðrum þjóðsöngvum, þar sem ágæti þjóðar og fósturjarðar er vegsamað og sagt meira en með öðrum þjóðum, oft innblásið af rembingi, hernaðarhyggju og hinu sterka, grófa hampað.

Við erum þjóð – eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr.

Við erum smá, segir Matthías, en í smæðinni erum við stór: okkar andartak er hluti af þúsund árum, tár okkar eru partur af eilífðinni, sem væri ekki söm, ef þar væru ekki okkar tár.

Og það dýrmætasta er að þekkja mörk sín, kunna þá list að telja dagana, eiga viturt hjarta. 

Hjarta sem slær með bræðrum okkar og systrum, skynjar þarfir og vanmátt annarra, virkjar hendur okkar og huga til að leggja þeim lið sem bágt eiga.

Vera öðrum ljós, biðja, vona, uppörva – að enginn fari einn um dimman dal.

Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár.  Þannig er rétt að vera. Þannig er gott að vera.  Þannig erum við heil og sönn. 

Í vanmætti okkar styrk, í veikleikanum máttug.