Sjómannadagurinn, dagur minninga og fyrirbæna

Sjómannadagurinn, dagur minninga og fyrirbæna

Á bakvið stjörnurnar fjórar í fána sjómannadagsins, sem minna á þau sem hafið tók, eru slíkar spurningar og angistaróp sorgar og harma. Hugur okkar er hjá þeim sem syrgja og sakna, við sendum þeim kveðju samúðar og samstöðu úr helgidóminum. Við eigum ekki svörin, nema það svar sem umhyggjan gefur og samhygðin, það er svar kærleikans.

Til hamingju með daginn, gleðilega hátíð! Guð blessi sjómannadaginn og allt sem hann stendur fyrir í minningu og sögu lands og þjóðar. Sjómannadagur er dagur minninga og fyrirbæna, og hátíð samstöðu og samhugar með þeim sem sækja sjó og fjölskyldum þeirra, sem og þeim sem vinna að hagsmunum sjómanna, umfram allt slysavörnum og öryggismálum til sjós og lands. Þar er sannkallaður hetjuher í þágu lífsins. Sjómannadagur er þakkarsveigur þjóðar, þakkarsveigur og virðingar. Við erum háð hafinu og því sem það gefur. Já, og í því sem tengist sjó, sjósókn og glímunni við Ægi, liggja rætur sjálfsmyndar, auðs og ákvörðunar þjóðarinnar. Sjómannadagur er mikilvæg áminning um þá staðreynd. Á sjómannadegi eru margar minningar og reynslusögur rifjaðar upp og sagðar. Sjósóknin er svo samofin lífi og örlögum íslensku þjóðarinnar að ekki aðeins nærfellt hvert byggðarlag heldur nánast hver einasta fjölskylda í landinu á sögur og minningar sem tengjast hafinu með einhverjum hætti, hetjusögur og harma, og þær minna á sig í dag. Svo tölum við um tímans haf og lífsins ólgusjó, um dauðans haf og haf eilífðarinnar. Sálmurinn sem hér var sunginn í upphafi, færeyskur sálmur, yndislegur, slær á þá strengi, lífið sem háskaför á litlum báti, „undan mig rekur ... áralausan að kalla.“ „..en vinarins hönd er viss og föst, vitinn á ströndu logar.“ Slíkar samlíkingar eiga sterkan hljómgrunn í hjörtum okkar allra. -Við vottum frændum okkar í Færeyjum virðingu á sjómannadegi, þakklát fyrir samhug og vináttu í áranna rás. En hér eru með okkur í kirkjunni í dag auðfúsugestir úr Færeyjum, borgarstjórinn í Þórshöfn og fulltrúar færeyskra sjómanna. Verið hjartanlega velkomin! Myndmál sálmsins er sótt til reynslu færeysku sjómannanna í þröngum og straumhörðum sundunum milli eyjanna, og þeirrar trúar sem gaf þeim afl og djörfung, kjark og trú. Og það var líka veigurinn í lífsmótun íslenskra sjómanna, og ástvina þeirra um aldir, lind huggunar og vonar.

Sagan sem sögð er í guðspjalli dagsins um bátsverjana sem æðruðust í ofviðrinu, og hann sem stóð upp og hastaði á vindinn og vatnið, er kafli í þeirri sögu sem gefur allri okkar sögu mynstur og merkingu, lífi okkar og líka hel, og lýkur því upp og varpar bjarma eilífðar yfir það allt. Það er fagnaðarerindið um frelsarann krossfesta og upprisna, Jesú Krist og návist hans. „Þótt bátur sé smár og báran há, þá brosir hans land fyrir stafni.“ segir sálmurinn, færeyski.

Samleið Jesú Krists og sjómanna er löng. Fyrstu fylgismenn hans voru einmitt sjómenn, fiskimenn. Það voru fiskimenn, sem sátu við báta sína og dyttuðu að netunum þegar Jesús gekk þar hjá og kallaði á þá að fylgja sér. Og þeir stóðu upp og fylgdu honum. Þar með hófst kristin kirkja, ferðin langa sem leiddi þig hér inn í helgidóminn í dag, ferðin sem beinir nú bæn þinni til Guðs á sjómannadegi. Hvers vegna valdi Kristur þá forðum? Var það ekki vegna þess að það voru menn sem þekktu lífsháskann, höfðu staðið augliti til auglitis við hel, í daglegum fangbrögðum við náttúruöflin? Þeir voru menn sem vissu að það er andrá ein sem skilur á milli, fótmál eitt milli fjörs og feigðar. Þeir voru menn sem þekktu skelfinguna þegar ógnarhrammur hafsins rís og slær. Þeir höfðu séð á bak feðrum, bræðrum, nágrönnum skipsfélögum í djúpið dimma. Þeir vissu hvað lífið er, vegna þess að þeir höfðu horft í gin heljar. Jesús gerði konur líka að fyrstu vottum sínum, af sömu ástæðu vafalaust, þær þekkja þetta nefnilega líka, konurnar, sem eru í stöðugri nánd við leyndardóma lífs og dauða. Þessvegna kallar Jesús á einmitt sjómenn og konur til að fylgja sér og verða vitni að björgunarstarfi sínu, hjálpræðisverkinu, er hann ræðst til atlögu við dauðann í sérhverri mynd, kastar sér út í ólgandi flóð voðans, til þess að frelsa, til að bjarga. - Sjómannadagurinn minnir sannarlega á þakkarskuld þjóðar við íslensku sjómannskonuna, bæn hennar, trú, von og kærleika! - Jesús kallar á sjómennina og konurnar ekki síst vegna þess að hann treystir og veit að þau vita hvað um er að tefla: að lífið er barátta á landamærum lífs og dauða. Og stormarnir og brotsjóirnir, það er ekki bara það sem geysar í hinu ytra, heldur ekki síður það sem innifyrir er, og fer hamförum, syndin, óttinn, sorgin, heljarnauðir allar. Þau sem það vita þekkja líka feginleikann, gleðina, léttinn, lausnina.

Öll höfum við einhvern tíma hrópað eins og þeir á bátnum forðum: „Bjarga þú! Ég ferst! Þetta þekkjum við öll. Og við höfum í vanmætti okkar andvarpað: „Hvers vegna?“ „Af hverju?“ Á bakvið stjörnurnar fjórar í fána sjómannadagsins, sem minna á þau sem hafið tók, eru slíkar spurningar og angistaróp sorgar og harma. Hugur okkar er hjá þeim sem syrgja og sakna, við sendum þeim kveðju samúðar og samstöðu úr helgidóminum. Við eigum ekki svörin, nema það svar sem umhyggjan gefur og samhygðin, það er svar kærleikans. Guðspjallið bendir á hann sem er kærleikur og hvar hjálpin er og hvar svörin er að finna. Og margvíslegir eru þeir englarnir sem Guð sendir til verndar og bjargar. Hann lýsti því hollenski ferðamaðurinn sem hrapaði við Dyrhólaey. Þegar björgunarmaðurinn birtist og lagði hönd sína á öxl hans og þar hvíldi hún, þessi trausta, hughreystandi hönd. Svona sögur eru alltaf að gerast, og mikið eiga margir mikið að þakka vökulum, styrkum, viðbragðsskjótum og hjartahlýjum björgunarmönnum og gæslumönnum. Svo má ekki gleyma tæknibúnaði og margvíslegum öryggisbúnaði, sem er óumræðileg blessun. En búnaður og tækni er ekki einhlítt. Það er styrkur mannsins, líkamlegt og andlegt atgervi og hjartalag sem úrslitum veldur.

Í allri Íslandssögunni er rauður þráður óslitinn í meir en þúsund ár og allt til þessa dags: Bænin og trúin í Jesú nafni. Fyrrum mótaði það líf og dagfar almennings á Íslandi vegna meðvitaðrar ræktar og uppeldis. Við þekkjum mörg dæmi þess. Með signingu heilsuðu menn dagsbirtunni og lögðust til svefns að kveldi. Í Jesú nafni var bátum ýtt úr vör, frá örófi alda úr hverri verstöð um land allt. Það var föst venja, að þegar skipshöfnin tók á og ýtti bátnum á flot sögðu menn: „Í Jesú nafni.“ Og áður en lagst var á árar tóku menn ofan höfuðföt sín og fóru með sjóferðarbænina. Menn telja sig vita upp á dag hvenær sá siður lagðist af. Þegar mótorbátarnir komu hættu menn að fela sig Guði - upphátt. Ef til vill var viðhorfið eins og hjá karlinum sem sá spólurokkinn og sagði: „Mikil eru verk Guðs, en meiri eru mannanna.“

Rýmdi fagnaðarerindi vélaraflsins og tækninnar út orði og atferli trúarinnar? Nei. Bænin hefur ekki þagnað, trúarþörfin er söm við sig, af því að Guð er Guð, og laðar og kallar á sérhverja manns sál. Vélardynurinn yfirgnæfði og hinn nýi hraði taktur tímans ruddi fornum trúarháttum úr vegi. En trúarþörfin er söm, þörfin fyrir að staldra við, þagna hið innra og hlusta á hlusta á Guð, eilífan, góðan Guð. Hann er enn til staðar, raunverulegur, lifandi, og laðar og kallar. Og við erum sköpuð fyrir hann, samfélag trúar og bænar við hann. Það skortir því miður gjarna á meðvitaða rækt og uppeldi, og kerfisbundið virðist unnið af því að víkja því til hliðar, áhrifaöfl og valdastofnanir samfélagsins leitast við að þrýsta trúnni út á jaðarinn og í afkima einkalífsins. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

„Eitt skipbrotslíf starir í sorgarsæinn, Sökkvir augun í hjarta síns eymd, Þess auður er týndur, þess ákvörðun gleymd.“

- orti Einar Benediktsson forðum.

Sorglegt ef auður okkar og ákvörðun væri týnd, gleymt og glatað allt sem best og fegurst var ort og tjáð, kennt og numið: trúin, vonin og kærleikurinn. Þá væri þjóðarskútan á grunn gengin, þjóðin komin á vonarvöl. Af því að styrkur þjóðar felst ekki í veraldarauði og valdi, yfirburðum tækni og véla, heldur í skaphöfn og innræti einstaklinganna sem þjóðina mynda, dyggðum, göfgi, aga og andlegu atgervi. Gjaldmiðill okkar í þeim efnum virðist um þessar mundir æði veikburða og laskaður, því miður, við höfum um of lotið að því lága og ljóta, og því sem kitlar lægstu hvatir, og því er þjóðarsálin íslenska í háska stödd. Við þurfum ný og skýr viðmið, annað gengi á meginverðmætum. Ég er ekki í vafa um í hverju þau viðmið og verðmæti eru fólgin. Það trúin sem hefur mótað og nært hið besta og fegursta í menningu okkar og samfélagi, og er enn hamingjuleið og heilla einstaklingum og þjóð.

Gömul saga segir frá betlara sem stóð við fjölfarið stræti og beiddist ölmusu. Eftir efnum og ástæðum létu vegfarendur mjölhnefa eða nokkur hveitikorn falla í skálina hans. Þá kom þar gullinn glæsivagn. Í vagninum sat hinn æðsti konungur. Konungurinn rétti út hönd sína um leið og hann fór hjá, og spurði betlarann: Hvað viltu gefa mér? Betlarinn var þrumu lostinn, en tók minnsta kornið úr betliskálinni sinni og rétti konunginum að gjöf. Konungurinn lét það falla aftur í skálina og hélt sína leið. Þegar betlarinn tæmdi skálina sína um kvöldið sá hann í mjölinu sem hann hafði betlað um daginn glitra gullmola. Litla kornið sem hann hafði lagt í lófa konungsins varð að gulli. Betlarinn grét óhuggandi: Bara ég hefði gefið konunginum alla skálina, bara ég hefði gefið honum allt!

Konungur konunganna, Kristur Jesús, nemur staðar hjá þér. Hver stund sem þú gefur honum verður gull í eilífðinni, eilífð hans. Og það að trúa, vona og elska Guð í Jesú Kristi er að eiga hlutdeild í þeim heilaga fögnuði sem skapaði himinn og jörð og laðaði lífið fram í gleðisöng, og braut viðjar heljar, og mun um síðir þerra hvert tár af hvörmum. Sjómannadagur er dagur samstöðu og fyrirbæna vegna þeirra sem farist hafa á sjó og þeirra sem eiga um sárt að binda. Hér í Dómkirkjunni, eins og víða í helgidómum við sjávarsíðuna er safnast saman á sjómannadegi til að tjá virðingu og þökk í auðmýkt gagnvart því hve lífsbjörg íslenskrar þjóðar er enn sem fyrr dýru verði goldin. Hér í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík er áhrifaríkur minnisvarði um þau sem hlutu hina votu gröf. Þar má líta fjölmörg nöfn. Og þar standa þessi orð Jesaja: „Svo segir Drottinn, sá er skóp þig: Óttastu ekki, ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni. Þú ert minn.“ Þetta er orð Guðs til þín og þinna. Orð sem stendur í fullu gildi, ávallt og alls staðar. Á fána sjómannadagsins eru að þessu sinni fjórar stjörnur sem tákna þá sem fórust á sjó á umliðnu ári, þar af þrír skipverjar á Hallgrími sem fórst við Noreg. Á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði. Við rísum úr sætum í virðingu og þökk.

MINNING - TÓNLIST

Veit þeim, ó Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár. Í Jesú náðar nafni. Amen.

Kirkjubæn á sjómannadegi 2011

Biðjum saman í Jesú nafni. Blessa, Drottinn, kirkju þína hér á landi og um víða veröld. Blessa boðun hennar og vitnisburð. Ver í verki með öllum þeim sem bera þér vitni með trú sinni, von og kærleika. Fyrir Jesú Krist..

Vér biðjum þig, Drottinn, fyrir þjóð vorri og fósturjörð. Blessa forseta Íslands, ríkisstjórn, alþingi og dómstóla, sveitastjórnir, fjölmiðla, löggæslu og aðrar stofnanir sem vald og áhrif hafa á líf og heill vor allra. Gef frið og einingu í þjóðlífinu. Vak yfir byggðum landsins og börnum þess öllum og umvef vernd þinni og náð. Fyrir Jesú Krist..

Á sjómannnadegi þökkum vér þér, Drottinn, að þú hefur gefið oss auðug fiskimið. Vér minnumst sjómanna og sæfarenda og biðjum þig að vaka yfir þeim í hættum og erfiðleikum og bjarga úr öllum háska og leiða heila heim til hafnar. Vér biðjum fyrir björgunarsveitum um land allt, fyrir Landhelgisgæslunni og þeim sem að þeim málum koma, vaktu yfir þeim og vernda. Fyrir Jesú Krist..

Vér biðjum þig, Drottinn, rétt út hönd þína til allra sem eru í háska stödd. Styrk þau sem áhyggjur þjaka vegna atvinnu og lífsafkomu, hugga þau sem syrgja, vitja þeirra sem eru í fangelsi. Lækna sjúka og líkna þeim sem eru við dauðans dyr. Gef frið á jörðu og hjörtum vorum þann sanna frið sem heimurinn megnar hvorki að veita né frá oss taka. Fyrir Jesú Krist..

Vér felum þér þau öll sem vér elskum, nær og fjær og allt sem á oss hvílir og vér felum þér hvert og eitt í hljóðri bæn…… Þú heyrir hverja bæn og andvörpin öll sem vér felum þér í orðum bænar Drottins er vér biðjum og segjum í Jesú nafni, Faðir vor….