Hagfræði 107

Hagfræði 107

Þó orð Jesú beinist að smápeningunum tveimur er þessi hagfræði hans ekki öll þar sem hún er séð. Hið agnarsmáa verður ekki meira hinu risastóra, bara fyrir eina hendingu, því önnur verðmæti eru varanlegri.

Hún vissi alveg aura sinna tal þessi ekkja sem sagan segir frá í guðspjalli dagsins. Smápeningar hennar voru tveir talsins og höfðu verðgildi eins eyris. Þeir voru ekki til marks um mikinn auð heldur mikinn skort. Og þegar hún gaf, þá gaf hún af skorti sínum eins og Kristur benti á.

Skortstaða

Það er eitthvað við þessa sögu sem snertir okkur og kippir jafnvel aðeins í réttlætiskennd okkar. Af hverju átti hún að gefa það litla sem hún átti? Hvað var lofsvert við það? Hvernig gat nokkur verið svo fátækur að klinkið sem hún lagði í baukinn í samkunduhúsinu væri ekki betur geymt áfram í fórum hennar sjálfrar?

Kristur snýr stundum öllu á haus. Já, það er eins og hann sjái eitthvað allt annað en aðrir sem voru í kringum hann. Mörg dæmi má nefna um það. Sá hinn mesti og fremsti skyldi verða allra þjónn. Enginn kæmist inn í Guðs ríki nema sem barn. Tollheimtumaðurinn Sakkeus fékk athygli hans og með honum sat hann til borðs. Þeir sem þóttu óhreinir og óverðugir voru uppi á hinum æðsta stalli í augum Krists. Og nú heyrum við af því að tveir litlir smápeningar fátækrar konu feli í sér meira ríkidæmi en háar fjárhæðir sem ríkir og voldugir menn gáfu af sér.

Kristur tekur gjarnan skortinn fram yfir auðlegðina og skorturinn getur verið af ýmsum toga. Í þessari sögu birtist hann í sinni hefðbundnu mynd - þar sem hinn veraldegi auður er af skornum skammti.

I didn't see it coming

Við fáum kynni af himneskri hagfræði í guðspjalli dagsins sem er ólík ýmsu af því sem við tökum gildu. Erum við þó ýmsu vön úr ranni þeirrar fræðigreinar. Nýverið kom út bók eftir Alan Greenspan fyrrum seðlabankastjóra í Bandaríkjunum. Hann ríkti áratuginn á undan hruninu mikla og er sá sem mótaði hagfræði þá sem einkennt hefur Vesturlönd á þessari öld. Honum fallast nánast hendur er hann reynir að gera grein fyrir því hvernig allt fór sem fór. Ég sá það ekki gerast – I didn‘t see it coming, segir hann og gefur til kynna að sú jarðneska hagfræði sem við höfum miðað við sé svo götótt að hún haldi hvorki vindum né vatni. Í málsvörn hans ber ekki á öðru en að mælistikurnar hafi verið ranglega kvarðaðar og allt sem fróðustu menn vissu um peninga væri á sandi byggt.

Vel má vera að nútímamaðurinn sem hefur horft upp á spariféð rýrna og lánin bólgna geti alveg skilið það að eyrir sé þegar á allt er litið jafn lítils eða mikils virði og himinháar fjárhæðir auðmanna. Ekkert er eins hverfult og aurarnir og þar eru mælikvarðarnir svo mjög á reiki að við erum tilbúin að trúa næstum hverju sem er. Ævisparnaður verður ekki einu sinni að einum eyri þegar risarnir falla og lítil lán vaxa upp í fjallaháar skuldir. Sannarlega er ekki allt sem sýnist í peningamálum og víst ættum við að minnast eigin takmarkana þegar við vegum og metum hina himnesku hagfræði.

Himnesk hagfræði

Þó orð Jesú beinist að smápeningunum tveimur er þessi hagfræði hans ekki öll þar sem hún er séð. Hið agnarsmáa verður ekki meira hinu risastóra, bara fyrir eina hendingu, því önnur verðmæti eru varanlegri. Og þangað beinast sjónir hagfræðingsins Krists sem leggur þar í einni andrá mat á verðmæti þess fjár sem ekkjan fátæka lét ofan í baukinn. Því ef hægt er að lýsa verðmætamati fagnaðarerindisins með einhverjum hætti þá býr það í orðum Jesú: „Þar sem hjarta þitt er, þar mun og fjársjóður þinn vera“.

Framlag ekkjunnar fátæku sem Kristur hrósaði svo á erindi til okkar allra. Þegar kemur að framlagi okkar þá er það litlu meira en það sem hún hafði að gefa. Við færum heiminum af skorti okkar þegar kemur að því að vinna það verk sem Guð ætlar okkur að vinna. Í raun er öll hjálpræðissagan frásögn af því hvernig takmarkað fólk lætur sitt af hendi rakna til þess að vinna að framgangi Guðs ríkisins.

Drengurinn sem kom með smáfiska og brauð til Jesú hafði lítið meðferðis. Fjöldi fólks var þar úti í auðninni og átti ekkert að eta. Var þetta ekki gjöf af skorti? Og kraftaverkið varð, fjöldinn varð mettur þó ekki væri framlagið mikið. Himnesk hagfræði.

Þeir voru ekki burðugir lærisveinarnir sem fengu að heyra hvatningarorðin uppi á fjallinu: Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum. Þessi litli hópur? Átti hann að halda út með boðskapinn og gera allar þjóðir að lærisveinum? Fiskimenn, tollheimtumenn, fátækir og lítt lærðir í þessum útjaðri heimsveldisins fengu verkefni sem hefði átt að teljast svo tröllaukið að það hlyti að teljast óráð að ætla þeim slíkt.

En þeir gerðu eins og ekkjan fátæka í sögunni. Þeir gáfu af því litla sem þeir áttu og það var allt sem þeir áttu. Framlag þeirra var svo stórt að boðskapur Krists um sigur lífsins á dauðanum átti eftir að teygja sig út til endimarka jarðar. Allar þjóðir hafa fengið að heyra þann boðskap og áfram er honum miðlað eins og ljós í myrkri.

Smápeningarnir okkar

Þetta er hagfræði himnanna. Að baki býr allt önnur sýn á verðmætin og framlagið en okkur kann að gruna í fyrstu. Þar er ekki horft á magnið í þeim hlutföllum sem okkur hætti að gera. Við vitum það þó að jafnvel samkvæmt jarðbundnustu hagfræði eru þeir mælikvarðar hverfulir og þeir sem eiga að hafa þekkinguna og stjórnina geta reynst grunlausir um það sem bíður. En vöxturinn sem verður í þeim verðmætum er ósvikinn.

Hagfræði himnanna lítur á tvo smápeninga fátækrar ekkju og segir – hún gaf meira en allir hinir. Og smápeningar okkar eru líka svo merkilegir þegar við leggjum þá fram – hvert og eitt svo smá í mannhafi fjöldans og svo vanmáttug gagnvart guðleysi og illsku samtíma okkar. En um leið breytist ekki neitt ef við sjálf erum ekki tilbúin að leggja okkar af mörkum.

Ekkert sýnir betur þann vöxt en framgangur Guðs ríkisins sem stendur og fellur með þeim smápeningum sem við hvert og eitt leggjum þar til okkur til blessunar og náunganum til farsældar.