Málhalti leiðtoginn

Málhalti leiðtoginn

Boðorðin eru yfirlýsing um siðferði, grunngildi sem ekki má stíga út fyrir. Í því umhverfi birtist leiðtoginn okkur hvað skýrast. Boðskapurinn sem við tökum með okkur er á þá leið að mannkostir, líkamsburðir, mælska og gáfur hafa lítið að segja ef markmiðið er ekki annað en að auka vægi leiðtogans sjálfs. Hinn málhalti stendur slíkum einstaklingum langtum framar ef orð hans og erindi eru grundvölluð á æðri gildum.

Leiðtogar eru víðar en okkur kann að gruna. Margir þeirra baða sig í sviðsljósinu, hvort heldur það er á líðandi stundu eða á spjöldum sögunnar. Aðrir láta minna fara fyrir sér – en gegna engu að síður mikilvægum hlutverkum.


Yfirburðamaður en enginn leiðtogi

 

Leiðtogar birtast okkur á síðum Biblíunnar. Þeir eru af ýmsum toga. Sumir þeirra fá harða dóma. Fyrsti konungur Ísraels – Sál sem var uppi í kringum árið 1000 fyrir Krist er til að mynda dreginn upp í afar neikvæðu ljósi. Hann er sífellt borinn saman við Davíð og samanburðurinn verður honum ítrekað í óhag.

 

Af hverju? jú Sál var valinn til embættisins vegna líkamburða sinna, hann bar höfuð og herðar yfir aðra þá sem komu til greina, í orðsins fyllstu merkingu. Persónan þótti á hinn bóginn illa hæf til að gegna forystu og kom þar margt til. Hann þótti ragur, óviljugur til að vinna fyrir þjóð sína og þegar mest á reyndi, varð hann hvikull og óstöðugur.

 

Svo lesum við um aðra einstaklinga sem hafa valist til þessa vandasama hlutverks af öðrum ástæðum. Þeirra frægastur er sjálfsagt sá sem nefndur er í öllum textum þessa dags – það er hann Móse. Hann á að hafa ritað sjálf boðorðin tíu á steintöflur og fært fólkinu. Töflur þessar urðu einhvers konar samnefnari fyrir tilvist þjóðarinnar. Þær ritaði hann á þeim tíma þegar hann vann annað vandasamt verk – sem var að leiða þjóðina í gegnum eyðimörkina frá þrælahúsinu í Egyptalandi, gegnum eyðimörkina, og yfir til þess sem hinir fornu textar kalla Fyrirheitna landið.


Málhaltur leiðtogi

 

Móse var ekki konungur, hann er gjarnan nefndur spámaður. En hann var ótvírætt mikill leiðtogi sem, ólíkt fyrrnefndum Sál, var ekki valinn vegna einhverra yfirburða heldur þvert á móti. Hann átti meira að segja í mestu vandræðum með að tjá sig eftir að hafa brennt tungu sína og varir með heitum kolum þegar hann var á barnsaldri.

 

Þegar Móse fékk köllun sína sagði hann:  „Æ, Drottinn, ég hef aldrei málsnjall verið, hvorki áður fyrr né nú eftir að þú fórst að tala við mig, þjón þinn. Mér er tregt um mál og tungutak.“ Litlu síðar segir hann við Drottin: „Ísraelsmenn hlustuðu ekki á mig, hvers vegna ætti faraó að hlusta á mig svo málstirður sem ég er?“

 

Það er einhver grunntónn í Biblíunni þegar leiðtogar eru annars vegar að slíkir einstaklingar eru oftar en ekki með einhverjar hömlur sem ættu að gera þeim nánast óbærilegt að sinna verkefnum sínum.

 

Tengslin við Guð gera Móse að þessum forystustusauði sem hann var var. Við lesum það svo í textum dagsins hversu mikil helgi var um nafn hans og persónu. Eða öllu heldur hversu mjög hún tengdist verkefnum hans og hlutverki. Fræðimenn hafa jú brotið heilann um merkingu þessara orða sem við lásum um í lexíu dagsins: „Geislar stóðu af andlitshörundi hans því hann hafði talað við Drottin.“ Svo ólík hefur túlkun þessara orða verið í gegnum aldirnar að sumir hafa þýtt þessi orð með þeim hætti að Móse hafi haft horn á höfði sér eftir þessi samskipti.

 

Á frægri styttu af Móse sem Michelangelo gerði og finna má í Vatíkaninu í Róm er okkar maður, í anda þeirrar túlkunar, hyrndur. Það er í samræmi við latneskar þýðingar þessara orða sem myndhöggvarinn hafði aðgang að. Þetta orð sem íslenska þýðingin notar: „Andlitshörund“ – queren – gat vísað til þess að húðin hafi verið hrufótt sem sumir túlkuðu sem horn!

 

Hér og reyndar miklu víðar eru orðin þýdd sem geislaflóð. Lýsing þessi er útlegging á því hvernig almættið er og starfar. Móse væri ekki neitt ef ekki væri fyrir köllun hans og hlutverk. Sál með öllum sínum líkamsburðum var léttvægur því hann sótti ekki hlutverk sitt til hins æðsta. Og forysta hans var eigingjörn, dró sífellt dám af því hversu óttasleginn hann var og uggandi um hag sinn og eigin afkomu.


Boðorðin: mannréttindayfirlýsing

 

Boðorðin sem kennd eru við Móse eru í raun yfirlýsing um grundvallarréttindi til handa hverri manneskju. Þau lýsa því hvernig líf fólks, eignir þess, orðstírinn eru friðhelg og ekki megi ganga á þau. Ofbeldismenn vilja vitaskuld ekki lúta neinum reglum.

 

Valdsins menn ætlast til þess að duttlungar þeirra ráði en ekki algild viðmið um þau mörk sem ekki megi stíga út fyrir. Töflurnar sem boðorðin voru skráð á – voru geymdar í hinu allra heilaga í tjaldbúinni og síðar musterinu. Þetta var nefnilega réttur hvers einstaklings og þau sem höfðu ekki auðinn og völdin þurftu mest á honum að halda. Sáttmálinn sem hér er nefndur byggir á því að þjóðin haldi þessi lögmál og njóti þá náðar Guðs.

 

Þegar við lesum Guðspjallið þá birtist okkur þessi sterka tenging við texta Gamla testamentisins. Þessi örssaga lýsir stórbrotnum atburðum í fáeinum málsgreinum en vísar í ýmsar áttir. Pétur býðst til að gera þeim tjaldbúð – aftur erum við komin á slóðir Móse, sem fyrr er getið, þar sem Ísraelsmenn gerðu slíka tjaldbúð utan um sáttmálsörkina með boðorðunum.

 

Það mannvirki skiptist í minni hólf, hið allra heilaga þar sem örkin var og svo smám saman vék helgin fyrir hinu almenna. Það er í raun svipað og þessi helgidómur hér. Kristnar kirkjur hafa sótt fyrirmynd í hina fornu tjaldbúð.


Blindandi birta

 

En allt um lykjandi er þessi tenging á milli blindandi birtunnar og helgi Guðs. Guðspjallamaðurinn lýsir því sem björtu skýi sem í hinu biblíulega samhengi var tákn um guðlega nærveru. Og orðin eru þau sömu og óma í sögunni af því þegar Jesús var skírður í ánni Jórdan. Þar sem talað er um elskaðan son Guðs, er enn rifjað upp sígilt stef.

 

Sonur Guðs er umbjóðandi Guðs. Konungar voru stöku sinnum sæmdir þessari nafnbót eða einkar spakir menn. Í kristnum skilningi birtir Jesús okkur það hvernig Guð starfar, sem fórnar sjálfum sér í skilyrðislausum kærleika til mannanna.

 

Þetta er litrík frásögn, við gætum kallað hana leiðslusögu sem er á mörkum tveggja heima. Og það er hún. Þarna renna hefðirnar saman í eitt. Frumherjinn sjálfur, þessi málhalti leiðtogi sem Móse var og svo Jesús frá Nazaret – frá þessum afkima í landinu sem þótti svo lítils virði að fólkið spurði: „Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?“

 

Hún hefur þar að auki að geyma hugtök og orð sem tengjast hugmyndum okkar um gott og illt. Hún vísar sannarlega aftur fyrir sig með fjölmörgum skírskotunum í Gamla testamentið. En undir þessu glampandi yfirborði leynist forspá um hina komandi tíma sem biðu þess sem þarna var hafinn upp til skýjanna með hinum æðstu. Hlutskipti þess sem þarna var sagður vera sonur Guðs áttu síður en svo eftir að verða þrautarlaust. Hans áttu eftir að bíða svik og einsemd.


Fyrir hverju berst leiðtoginn?

 

Og þar finnum við annað leiðarsef um leiðtoga í Biblíunni. Þeir spretta ekki fram í velsæld og öryggi. Þeir eru þvert á móti mest áberandi á þeim tímum þar sem Guð hefur hulið auglit sitt og myrkrið hellist yfir sálirnar. Þeir stíga upp í þrælabúðum, þeir vísa veginn í eyðimörkinni, þeir blása þjóðinni kjark þar sem hún var í útlegð eftir herfilega ósigra. Já, og þeir lesa yfir auðmönnum og yfirstétt sem mökuðu krókinn meðan aðrir sultu.

 

Eftir stendur boðskapur sem á erindi til okkar á öllum tímum, markalína sem dregin er á milli þeirra leiðtoga sem eiga sér raunverulega köllun um að þjóna fólkinu og leiða það inn í betri heim og svo hinna horfa ekki lengra en sem nemur þeirra eigin skinni.

 

Ljóminn frá Móse, sem myndhöggvarinn túlkaði sem horn, kallast á við þessa hugsun. Frá honum stafar orka sem kemur ekki frá honum sjálfum. Hún er guðleg og undirstrikar hlutverk hans og köllun. Hann vísar fram til hins fyrirheitna lands, hann á að koma hugsjónum í verk, honum er ætlað að vekja fólkið og fá það með sér í lið og loks eru það breytingarnar sem starf hans miðar að.

 

Enn í dag greinum við þessa þætti í fari leiðtoga. En þetta er auðvitað ekki nóg. Að baki þarf að búa einlægur vilji til þess að hlúa að fólki. Boðorðin sem kennd eru við Móse eru sú yfirlýsing að mannréttindi eigi að ríkja í samfélaginu. Þau eru algild, eiga jafnt við um þau sterku og voldugu sem og hin sem standa höllum fæti.

 

Boðorðin eru yfirlýsing um siðferði, grunngildi sem ekki má stíga út fyrir. Í því umhverfi birtist leiðtoginn okkur hvað skýrast. Boðskapurinn sem við tökum með okkur er á þá leið að mannkostir, líkamsburðir, mælska og gáfur hafa lítið að segja ef markmiðið er ekki annað en að auka vægi leiðtogans sjálfs. Hinn málhalti stendur slíkum einstaklingum langtum framar ef orð hans og erindi eru grundvölluð á æðri gildum.