Með höfuðið í skýjunum og fæturna á jörðinni

Með höfuðið í skýjunum og fæturna á jörðinni

Við gætum kannski sagt sem svo að Guð vilji að við åséum með höfuðið í skýjunum, því að hann vill umbreyta okkur en við þurfum að hafa fæturna á jörðinni, því að hann vill líka nota okkur...

Hann var bara níu ára. Hann var einn af Breiðavíkurdrengjunum. Einn af þeim fjölmörgu sem máttu (og mega enn) þola ofbeldi, bæði líkamlegt og kynferðislegt. Hann kom fram í Kastljósinu og lýsti því hvernig hann hefði lifað ofbeldið af, með því að hann upplifði að Jesús kæmi til hans, væri hjá honum og þjáðist með honum, á meðan það versta gekk yfir. Við táruðumst öll yfir vitnisburði hans. Kjarki hans til að koma fram, og þeirri sterku trúarjátningu sem fólst í orðum hans.

Hún var bara 15 ára þegar hún fékk köllun til að berjast gegn óréttlæti í heiminum. Hún var á ferðalagi þar sem hún sá unga konu með lítið barn stunda betl. Barnið var veikt og það fékk mjög á hana að horfa upp á eymd þeirra. Hún hafði alla tíð verið trúuð, en nú upplifði hún að hún þyrfti að gera eitthvað. Henni fannst Jesús segja við hana: Hvað ætlar þú að gera í þessu? Ég þarf á þinni hjálp að halda. Í dag starfar hún sem læknir með læknum án landamæra.

Hann er 32 ára. Hann hafði alla tíð verið til vandræða, byrjaði strax í barnaskóla með hegðunarerfiðleikum, unglingsárin voru hryllingur, endalaus óreiða, árekstrar, vandræði... Hann fór að drekka, reykja hass, eitt leiddi af öðru og um þrítugt var hann orðinn síbrotamaður. Í fangelsi kynntist hann AA samtökunum og fór að kynna sér 12 spora kerfið. Og þvílíkur léttir þegar hann gerði sér grein fyrir því að hann mátti gefast upp! Gefast upp á því að reyna að glíma í eigin mætti við alla brestina sína, ofvirknina, athyglisbrestinn, allt það sem gerði það að verkum að hann rak hornin í allt og alla. Að hann gat falið sig Guði og Guð tók hannn að sér. Í dag er hann á góðum batavegi, sækir AA fundi og hefur með hjálp 12 sporanna tekist að halda sér frá neyslu og smáglæpum.

Ég var 20 ára. Ég var í nánu sambandi við Guð, trúði mjög sterkt á hann, en hafði þá mynd af honum að hann væri strangur og kröfuharður. Mér fannst ég alls ekki standa mig nógu vel. Í rauninni var ég með gríðarlega sektarkennd. Sérstaklega yfir einni synd sem ég hafði drýgt. Hún var verulega stór og ég skammaðist mín óendanlega fyrir hana. Og ég fann að þetta var farið að íþyngja mér. Þetta íþyngdi me´r svo mikið, að mér fannst ég verða að gera hvað sem er til að fá fyrirgefningu. Svo frétti ég af prédikara sem hefði sérstaka náðargáfu frá Guði. Hann gæti séð inn í líf fólks og hefði hjálpað mörgum. Ég ákvað að fara að hitta hann, hann gæti þá séð hvað ég hefði gert og sagt mér hvað ég þyrfti að gera til að fá fyrirgefningu. Þegar ég hitti hann, þá bað hann fyrir mér. Svo sagði hann: ,,Heilagur andi er tillitssamur. Það er eitthvað í lífi þínu sem þér líður illa út af. Guð vill ekki sýna mér hvað það er, en hann vill að þú vitir, að ég hef fyrirgefið þér”. Þvílík upplifun! Þvílík umbreyting!

þegar við mætum Guði, breytir það okkur. Pétur, Jakob og Jóhannes fóru með Jesú upp á fjall. Þar upplifðu þeir það að sjá Jesú umbreytast, og rödd Guðs tala til þeirra. Og þarna vildi Pétur dvelja. Gera tjaldbúð, vera þarna áfram, á fjallinu...

Guð birtist mér ekki uppi á fjalli, heldur á á bænastund með honum Teo. Guð birtist fanganum á AA fundi. Breiðavíkurdrengurinn upplifði Guð í miðju ofbeldisins. Og unga stúlkan sá Guð í andliti betlarakonunnar með barnið.

Hvar svo sem við mætum Guði, hvernig svo sem hann birtist okkur, umbreytir Guð okkur. En Guð ætlast ekki til að við dveljum á fjallinu. Hann vill að upplifun okkar, reynsla okkar, hafi áhrif í okkar daglega lífi, hafi áhrif á það hver við erum, og hvað við gerum. Við gætum kannski sagt sem svo að Guð vilji að við åséum með höfuðið í skýjunum, því að hann vill umbreyta okkur en við þurfum að hafa fæturna á jörðinni, því að hann vill líka nota okkur...

Átt þú einhverja ummyndunarsögu? Sögu af því hvar Guð birtist þér? Mætti þér? Breytti þér? Hvernig leyfirðu þeirri sögu að hafa áhrif á líf þitt? Og ef þú átt ekki slíka sögu. Getur verið að þú sért á leiðinni upp á fjallið með Jesú? Að Guð vilji mæta þér, breyta þér. Hafðu höfuðið uppi í skýjunum, en fæturna á jörðinni. Amen.