Hinn heilagi laugardagur

Hinn heilagi laugardagur

Það er laugardagur fyrir páska. Sabbatum sanctum. Þetta er dagurinn þegar Drottinn hvílir í gröf sinni. Þetta er dagurinn þegar Drottinn dvelur með hinum látnu. Þetta er dagurinn þegar Drottinn predikar fyrir öndunum í varðhaldinu og leysir þá. Drottinn dvelur í gröf sinni. Í dag er kyrrasti dagur hinnar kyrru viku. Sabbatum sanctum - hinn heilagi hvíldardagur.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
15. apríl 2006

Það er laugardagur fyrir páska. Sabbatum sanctum.

Þetta er dagurinn þegar Drottinn hvílir í gröf sinni. Þetta er dagurinn þegar Drottinn dvelur með hinum látnu.

Þetta er dagurinn þegar Drottinn predikar fyrir öndunum í varðhaldinu og leysir þá. Drottinn dvelur í gröf sinni. Í dag er kyrrasti dagur hinnar kyrru viku. Sabbatum sanctum - hinn heilagi hvíldardagur.

Þögnin ríkir. Innan skamms verður henni létt af og fögnuður páskahátíðarinnar brýst út. Hvað færir þögnin okkur? Hvert leiðir hún?

Í dag er hulin dýrð Drottins.

„Herra minn, þú varst hulinn Guð, þá hæðni leiðst og krossins nauð, þó hafðir þú með hæstri dáð, á himnaríki vald og ráð”. segir Hallgrímur Pétursson.

Í myndverkum kirkjunnar má sjá hvar Drottinn brýtur hlið Heljar og kallar fram hin látnu - eins og hann reisti upp Lasarus. Þar ganga fremst Adam og Eva, - því að sigrari dauðans hefur leyst þau öll sem dauðraríkið geymdi á öllum tímum, og einnig mig og þig, - þegar sú stund kemur.

Aðrar myndir sýna að á hausaskeljastað eða Golgata er krossinn reistur á þeim stað þar sem hauskúpa Adams leynist í jörðu. Helgisögnin segir að hauskúpa Adams hafi farið á flakk í Nóaflóðinu og sest að á Golgata, þars sem kross Krists var reistur. Blóð hins krossfesta Krists fellur á hana. Þannig leysir hinn nýi Adam hinn gamla Adam.

María stendur undir krossinum. Móðir hins nýja manns tekur við af Evu móður alls mannkyns. Og María verður fyrirmynd kirkjunnar, og trúarinnar:

Verði mér eftir orði þínu, segir María - segir trúin í brjósti þínu.

Jesús minn dvelur í ríki dauðans í dag til þess að vera þar þegar ég kem þangað, til þess að fylgja mér heim til himna, með englum sínum, svo ég geti starfað meðan dagur er enn hér meðal bræðra minna og systra í fullvissu þess að hann „sigrarinn dauðans sanni, (sem) sjálfur á krossi dó, mér svo aumum manni, eilift líf víst til bjó“.

Þú Drottinn Guð og Herra hár ert hjálp mín ein um æviár og huggun best í heimi Mín stoð og vörn í veröld hér sé vilji þinn, hann lýsi mér, þín gæskan svo mín geymi. Loks þegar ævin endi fær þá ertu mér sem bróðir nær, og fyrir degi dimman flýr í dauða þínum lausn mín býr. Heyr, Jesú minn, þá bæn ég bið við banahlið að hljóti ég þinn helga frið.

Þín líknarhöndin lífið mitt mér léði fyrr, og orðið þitt er svölun sálu minni. Á kærleiksveg er kallar mig þinn kross, gef störf mín lofi þig og fyrirgefning finni. Mig allri villu vernda frá, lát vonsku ei mér búa hjá, en hald mér við þinn helga kross sem heiminn vann og leysti oss. Þú Herra, Guð, ert hjálp í neyð og huggun greið. Vort líknarskjól í lífi og deyð.

Ó, Drottinn, lát, er lýkur hér því lífi sem þú gefur mér, þinn engil burt mig bera, að hvílist ég í helgum frið uns hljóminn dóms ég vakna við sem allt mun endurgera. Og laus frá dimmum dauða þá á dýrðarstól þig fæ að sjá, Guðs einkason, því elskan þín er endurlausn og huggun mín. Þér Drottinn Guð, og Herra hár og hjálpin klár, sé lof og dýrð um eilíf ár. Amen.