Sannleikur, frelsi og verðbréf

Sannleikur, frelsi og verðbréf

Mesti vandi nútímafólks á Íslandi er ekki fjárskortur, heldur andleg fátækt. Nútímafólk vantar ekki upplýsingar, heldur sannleika, ekki möguleika, heldur tilgang. Aflátssölur nútíðar munu aðeins opinbera hrörnun, spillingu og að lokum dauða. Á siðbótardegi var rætt um sannleika, frelsi og mismunandi verðbréf veraldar.

Hornsteinn Alþingis prédikar

“Sannleikurinn mun gjöra yður frjáls.” Þessi orð guðspjallsins í dag voru skráð á blað og komið fyrir í hornsteini þess húss, sem byggt var fyrir Alþingi Íslendinga. Þáverandi biskup, dr. Pétur Pétursson, klappaði á steininn við húsblessunina og sagði: “Í nafni heilagrar þrenningar.”

“Sannleikurinn mun gera yður frjáls” segir Jesús. Við spyrjum eins og Pílatus í öðru samhengi: “Hvað er sannleikur?” Að því þarf stöðugt að spyrja Alþingi Íslendinga hvort það fari leið sannleikans. Þess þarf að spyrja í lífi okkar manna, hvort við göngum götu sannleikans eða ekki. Hver er þinn sannleikur? Hvaða leið ferð þú?

Himneskt verðbréf?

Kona skósmiðs í Þýskalandi dó og maður hennar ákvað að engin kirkjuleg útför skyldi fara fram heldur skyldi hún grafin. Hvorki prestar né borgaralegir aðilar komu að verki. Yfirvöldum fannst þetta einkennilegur ráðahagur. Svo kölluðu þeir og geistleg yfirvöld ekkilinn fyrir og vildu vita af hverju hann hefði ekki veitt konu sinni hefðbundna útför.

“Hvað hefur þú gert?” spurðu þeir. Maðurinn svaraði: “Ég gróf konu mína og fól Guði sál hennar. Áður en hún dó var hér farandsali, sem seldi bréf frá páfanum, sem tryggir að sál konu minnar fari beint til himna. Það er ekki nauðsynlegt að hún sé jarðsungin frá kirkju. Nóg þurfti hún að borga fyrir bréfið þó ekki komi auka-fyrirhöfn og kostnaður fyrir.”

Til að sanna mál sitt dró hann hann síðan upp skjalið og las. Þar var sagt, að um leið og konan dæi myndi sál hennar ekki lenda í hreinsunareldinum, heldur fara beina leið inn í himininn.

Síðan sagði ekkillinn við þá, sem yfirheyrðu hann. “Ef þið kirkjunnar menn segið að sálumessa í kirkju sé nauðsynleg hefur fulltrúi páfans blekkt konu mína. Ef þið hafið hins vegar rétt fyrir ykkur hefur fulltrúi páfans logið. Einhver kirkjuaðili er sekur og ég er því saklaus.”

Yfirvöldin skildu stöðuna, dómgreind skósmiðsins opinberaði þær ógöngur, sem kirkjulíf 16. aldar í Evrópu var komið í. Þessi saga er ein af mörgum, sem varðveist hafa um þau himnesku hlutabréf sem voru seld víða í Evrópu á þessum tíma.

Fall á markaðnum

Hlutabréfin á verðbréfamarkaði á Íslandi snarféllu nú í vikunni. Vissulega sáu fjármálaspekingarnir fallið fyrir vegna langtímaþenslu. Allir vissu, að miðað við þróun erlendis gat uppsveiflan ekki staðið endalaust.

Það hafði líka verið þensla á hlutabréfamarkaði 16. aldar. Hinir fjárgírugu fulltrúar páfans höfðu farið um, ekki vílað fyrir sér að gefa út rosaleg bréf, sem gáfu eftir syndir og gerðu upp sekt. Spenna leiðir stundum til yfirkeyrslu og hruns. Yfirvöldum, prestum, góðviljuðum mönnum og upplýstum trúmönnum blöskraði fjársóknin og mótmæltu að lokum.

Siðbótardagur

Í dag er siðbótardagur. Á þessum degi, 31. október 1517 stóð munkurinn og háskólakennarinn Marteinn Lúther við kirkjudyrnar í Wittenberg og negldi á þær 95 tesur sínar eða kenningar. Kirkjuhurðin var auglýsingaskilti eða heimasíða þess tíma og var við aðalgötuna þar sem allir áttu leið um. Lúther hafði gert sér grein fyrir að hann gæti aldrei orðið nægilega góður til að ávinna sér eitthvert innlegg á himnum. Hversu ágætur sem hann nú yrði myndi hann aldrei verða nægilega hreinn eða verðugur til að Guð vildi taka við honum.

Hvað var til ráða? Sannleikurinn dagaði á hann, að það væri ekki á valdi manns að ávinna sér inneign á himnum. Verðbréf mannsins væru einskis virði. Þess vegna hefði Jesús komið, dáið, brotið múra dauða, sektar og opnað nýjar dyr himins, búið til nýjan gjaldeyri og kúrs fyrir mannkyn. Þessi guðfræði, sem Páll postuli kenndi t.d. í Rómverjabréfinu, hafði fallið í skuggann í miðaldaguðfræðinni. Efi Lúthers hafði síðan sópað burt gróminu og hann hafði sannfærst um að hvorki mannlegar stofnanir eða puð megnuðu að opna himinleiðina. Aðeins hið guðlega framtak í Jesú Kristi dygði. Sá sannleikur gerði Lúther frjálsan.

Þegar svo aflátssali seldi góðhjartaðri skósmiðskonu bréf uppá að hún fengi örugga VIP – hraðferð inn í himininn var Marteinn Lúther löngu búin að móta sína skoðun um trúna. Hann ætlaði ekki að láta fjárplóga rugla saklaus sóknarbörn sín. Það var því bæði guðfræðingurinn og sálusorgarinn Lúther, sem reis upp gegn óprúttinni sölu á bréfum að lyftuför í Paradís. Lúther vissi að athæfið og réttlætingarnar átt sér ekki stoð í Biblíunni. Hann sýndi líka að Biblíutúlkun kirkjunnar var á villigötum. Sannleikurinn mun gera yður frjáls.

Guðsverkið og mannsverkið

Lúther hafnaði því, að það væri mannsins verk að vinna sér inn höfuðstól á himnum. Hann setti fram kenningu um hvernig maðurinn nær himnavist. Frelsun mannsins og lausn hans úr fjötrum syndar og dauða væri Guðsverk en ekki mannsins.

Páfavaldið brást hart við Lúther og útskúfaði honum að lokum. Slagurinn varð alger, mannslífum var fórnað og eftir nokkra áratugi urðu íbúar norðurhluta Evrópu það sem kallað hefur verið mótmælendur, sem og meirihluti íbúa Norður Ameríku. Kirkjudeildir um allan heim, hvort sem þær eru lútherskar eða eiga sér aðra sögu, rekja upphaf til munksins sem negldi bréf á kirkjudyr í Wittenberg.

Sannleikurinn mun gera yður frjáls

“Sannleikurinn mun gjöra yður frjáls,” segir Jesús í guðspjallinu. Það er þessi sístæða barátta við hvað sé rétt og hvað til blessunar mannfólki. Ræða Jesú er okkur áminning um, að við þurfum að vanda leit okkar.

Hvaða sannleikur er til gagns? Eru það allar áróðursupplýsingarnar, sem dynja á okkur. Eru það upplýsingar, sem flæða yfir okkur úr fréttamiðlunum. Er það sannleikurinn um ótrúmennsku ástvina okkar, fals kunningjanna eða brot barna okkar? Hvaða sannleikur verður þér til hamingju? Eru það trúverðugar upplýsingar um þróun fjármálamarkaðarins eða hvísl um fjárfestingamöguleika?

Hvaða sannleikur verður þér til hjálpar? Er það ný slökunaraðferð? Eða er það trúarhópurinn eða kúltgrúbban sem sló í gegn? Er það kannski sannleikurinn um að aðferðir þínar duga ekki, hamingjan er önnur og annars konar? Hvað hvíslar samviska þín?

Íslensk aflátsbréf og íslenskar kröfur

Lúther brást við þeirri kenningu, að menn gætu keypt sér himnavist? Heimurinn er breyttur frá tíð Lúthers. Það tekur enginn grafalvarlega brandaragjörning myndlistarmannsins, sem seldi aflátsbréf í Kringlunni. Hugmyndaheimur miðalda er að baki.

En getur verið að það sé eitthvað í samfélagi okkar, sem líkist heimi miðalda? Hvað dynur á okkur alla daga? Hvaða kröfur eru gerðar til ungs fólks? Er því ekki ætlað að líta út eins og kvikmyndastjörnur?Á ekki nefið og andlitið að vera með ákveðnu móti? Er ekki eitthvert hart lögmál, sem skipar öllum börnum, yngri og eldri, að ganga um í merkjavörum tískuhúsunna, hegða sér svona en ekki hinsegin? Verða ekki allir að eiga tæki og tól, tölvur og síma, eins og allir hinir? Eru ekki sömu velsældarkröfurnar, sem hrína á okkur sem eldri erum, með stöðutáknum okkar? Verðum við ekki að eiga svo margt og meika það?

Er neyslusamfélagið risastór aflátssala?

Hvað verður um velferðina, rósemina, hin einföldu gildi, samfélag, vináttu, hógværð - já hamingjuna? Staldraðu við. Getur verið að kröfurnar á fólk samtíðar séu úr hófi? Getur verið að fólk sé að brotna undan þessu oki? Getur verið að þarna sé krafa, sem er hliðstæð miðaldakröfunum?

Eru í kröfunum fólgnar lögmálsok? Er fólk að reyna að kaupa sér leið til hamingjunnar, kaupa sér leið úr krísunni með ótrúlega flóknu og margvíslegu móti? Ég held það. Þjónustu-aðilar og kerfi samfélagsins eru góð, en margir leita þangað, langt yfir skammt, þegar betra hefði verið að biðja bæn heima.

Merking og meining

Við lifum ekki á tímum Lúthers, en við þörfnumst jafn lifandi boðskapar. Dýpsti vandi nútímafólks á Íslandi er ekki skortur á efnislegum gæðum, heldur að búa við andlega fátækt. Nútímafólk skortir ekki upplýsingar, heldur sannleika. Nútímafólk skortir ekki möguleika, heldur tilgang, meiningu sem ristir djúpt, veruleika sem varðar líf og dauða. Dansinn með efnisleg gæði leiðir ekki til annars en hruns. Aflátssölur nútíðar munu aðeins opinbera hrörnun, spillingu og að lokum dauða.

Samfélag okkar þarf að íhuga boðskapinn í hornsteini Alþingis. Trúarstofnanir eins og þjóðkirkjan, einnig þessi söfnuður, þarf stöðugt að endurnýjast.

Hvað er þér kærast? Farðu heim og íhugaðu í dag gæðin þín. Hvað viltu síst að fari? “Sannleikurinn mun gera yður frjáls.” “Hvað er sannleikur?” spurði Pílatus. Jesús svaraði sjálfur: “Ég er sannleikurinn og lífið.” Lúther endurtók þennan boðskap.

Trúartesa, frelsi og sannleikur

Hver er þín trúartesa? Ertu í aflátsbransanum eða viltu þetta frelsi, sem Jesús talaði um? Það er í boði, í kirkjunni, í trúnni. Boðskapur þess hljómar innan í þér í samviskunni. Sannleikurinn kom og kemur, alltaf til þín og hönd sannleikans laumast í þína og býður nýja leið, nýja von, nýja sýn, þessa himnesku. Þar verður aldrei hrun því gjaldmiðillinn er betri en gull og aðferðirnar guðlegar en ekki mannlegar.

Í nafni heilagrar þrenningar: Sannleikurinn mun gera þig frjálsan og frjálsa. Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda. Amen.

Siðbótardagur, 31. október 2004.

Textar dagsins:

Jer. 31.31-34; Róm 3.21-28. Jóh. 8.31-36

Athugasemd varðandi málfar:

Mér er í mun að málfar trúar og kirkju sé málfar beggja kynja. Í prédikuninni nota ég ekki hefðbundna þýðingu, hina karllegu, sem bætir við "a" aftan við frjáls. Þannig útgáfa er einnig í hornsteini Alþingishússins. Ég held að orðum Jesú hafi ekki verið beint til karla heldur einnig kvenna, þótt viðmælendur hans hafi sjálfsagt flestir verið karlar. Ég tel karlkynsnotkunina ekki vera kvöð, nema til að mál sé málfræðilega rétt og eðlilegt. Inntak skiptir meira máli en umbúðirnar, eða hvað?! Til að öllu sé til skila haldið er þessa getið hér, svo heimildameðferðin sé skýr!

Lexía

Jeremía 31:31-34

31. Sjá, þeir dagar munu koma segir Drottinn að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús,

32. ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra segir Drottinn.

33. En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.

34. Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: Lærið að þekkja Drottin, því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.

Pistill

Rómverjabréfið 3:21-28

21. En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls.

22. Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur:

23. Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,

24. og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú.

25. Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir,

26. til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.

27. Hvar er þá hrósunin? Hún er úti lokuð. Með hvaða lögmáli? Verkanna? Nei, heldur með lögmáli trúar.

28. Vér ályktum því, að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka.