Fötluð ferðaþjónusta

Fötluð ferðaþjónusta

Við framkvæmdir á íslenskum ferðamannastöðum virðist hafa gleymst, að hreyfihamlaðir hafa líka ánægju af að koma þangað og njóta.
fullname - andlitsmynd Stefán Már Gunnlaugsson
03. desember 2014

Við Dettifoss

Stórbrotin náttúra Íslands er margrómuð og hver staður af öðrum laðar að með tign og fegurð. Það er yndislegt að ferðast um landið og njóta, auk þess að fara á söfn og staði, kynnast sögu og menningu í samfélagi með ættingjum og vinum.

En þetta er ekki fyrir alla. Hreyfihamlaðir gleymast. Þeir rekast á stöðugar hindranir, m.a. illa gerða eða ófæra göngustíga, - og endalaus þrep. Hindranir sem oft væri afar auðvelt og einfalt að laga, en er ekki gert.

Við framkvæmdir á íslenskum ferðamannastöðum virðist hafa gleymst, að hreyfihamlaðir hafa líka ánægju af að koma þangað og njóta. Benda má á nýjar framkvæmdir og byggingar á ferðamannastöðum án aðgengis fyrir hreyfihamlaða, þrátt fyrir að reglugerðir kveði skýrt á um það, en ekkert mark á því tekið. Oft er viðkvæðið fjárskortur, en oftast virðist það hreinlega hafa gleymst.

Dettifoss í Vatnajökulsþjóðgarði er einn vinsælasti og fjölfarnasti ferðamannastaður landsins. Þar eru góð bílastæði og með sérmerktum bifreiðarstæðum fyrir fatlaða. Göngustígur var lagður fyrir nokkrum árum að fossinum, en aðeins nokkrum metrum frá útsýnispallinum verður stígurinn ófær. Þar má samt finna og heyra drunurnar frá fossinum, en hreyfhamlaðir mega ekki sjá hann. Dæmin eru mörg af slíkum toga, og auk þess viðvarandi skortur á merkingum og leiðbeiningum um hvort aðgengi sé fyrir hreyfihamlaða eða ekki.

Víða eru aðstæður þannig á fallegum stöðum í náttúru landsins, að hreyfihamlaðir komast ekki og engar framkvæmdir í mannlegu valdi geta breytt því. En þar sem það er mögulegt, og er mjög víða, og sérstaklega þar sem lagt er í mikinn kostnað af almannafé til framkvæmda, þá verður að gera ráð fyrir að hreyfihamlaðir eigi þar greiðan aðgang, en gleymist ekki.