Lýðræði og jöfnuður

Lýðræði og jöfnuður

Kristnar kenningar um lýðræði og jöfnuð eiga að byggjast á róttækum hugmyndum Jesú Krists um jafnan rétt allra manna, karla sem kvenna, til kærleika, virðingar og síðast en ekki síst, til áhrifa.

Messa við lok landsmóts æskulýðsfélaga kirkjunnar

C.S. Lewis segir um lýðræði í bók sinni „Mere Christianity“ (í lauslegri þýðingu)

Ódauðleikinn er annar greinarmunur á milli alræðis og lýðræðis. Ef manneskjur lifa aðeins í sjötíu ár, þá eru ríki eða þjóðir, eða menningarsamfélög, sem geta enst í þúsundir ára mikilvægari en manneskjan. En ef kristindómurinn er sannur, þá er manneskjan ekki aðeins mikilægari, heldur ólýsanlega mikilvægari, því hún er þá eilíf og líf ríkis eða menningarsamfélags, í samanburði, aðeins eitt andartak.

Í þessum orðum sínum dregur Lewis upp mannsskilning sem er grundvallandi þegar við hugsum um hugtökin lýðræði og jöfnuður út frá kristinni trú. Mannsskilning sem grundvallast m.a. á því hvernig Jesús Kristur leit á manneskjur og hvernig hann umgekkst þær. Mannsskilning sem gengur út frá því að manneskjan sem einstaklingur sé alltaf mikilvægari en hópar fólks, ríki eða þjóðir.

Þegar við tölum um þjóðgildi eða dyggðir gerir kristin trú alltaf ráð fyrir því að slíkt byggist á trúarlegum grunni, það hvort eitthvað er gott eða slæmt er metið út frá þeim mælikvarða sem Guð hefur gefið, frekar en út frá manninum sjálfum eingöngu. Þessi hugsun grundvallast á þeirri trú að manneskjan er sköpuð í Guðs mynd, við erum að einhverju leyti ófullkomin endurspeglun Guðs í þessum heimi. Þetta felur í sér að við höfum í okkur visku Guðs (McGrath bls. 424), hugur okkar virkar á einhvern hátt eins og hugur Guðs, en einnig gefur þessi hugmynd okkur þann skilning að sérhver manneskja búi yfir reisn og verðgildi sem er grundvallað í henni sjálfri og hluti af hennar innstu veru. Þar með er það grundvallar mannsskilningur kristinnar trúar að allar manneskjur séu jafn dýrmætar. Kenning þessi, um Imago Dei - mynd Guðs - byggist m.a. á frásögn 1. Mósebókar þar sem segir: Þá sagði Guð: ,,´Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.” Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.

Hugmyndin um Imago Dei undirstrikar það að allir menn eru jafnir. Við erum öll sköpun Guðs á sama hátt, og við erum öll jafn gild í hans augum. Og öll berum við jafna ábyrgð þegar kemur að syndinni, öll berum við í okkur tilhneiginguna til að hafna dyggðunum og velja að gera rangt.

Þegar við tölum um jöfnuð og lýðræði út frá kristinni trú þurfum við að skoða hvað Jesús hafði um þessi gildi að segja. Í Matteusarguðspjalli, 20. kafla kallar Jesús lærisveinana til sín í kjölfarið á deilum þeirra í milli um það hverjir séu þess verðir að hljóta heiðurssæti á himnum. Jesús segir við þá:

,,Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar, heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vela meðal ykkar sé þræll ykkar. Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla”

Þarna birtist róttækni Jesú mjög vel, hann dregur upp mynd af því sem eðlilegt þykir, að höfðingjar láti menn kenna á valdi sínu, en bendir lærisveinunum á að á meðal þeirra sé það þjónustan sem sé lykilatriði. Mörg önnur dæmi þekkjum við úr guðspjöllunum, Jesús sem ræddi guðfræði við samversku konuna við brunninn og uppskar undrun lærisveinanna vegna þess að hann skyldi tala við konu, Jesús sem tók börnin í fangið og blessaði þau og lýsti því þar með yfir að þau væru jafn verðugir einstaklingar og fullorðið fólk, og meira en það, fyrirmynd okkar hinna þegar kemur að trúartrausti. Jesús sem umgekkst tollheimtumenn og bersynduga á sama hátt og þau sem hærra voru sett í samfélaginu, öll þessi dæmi segja okkur það að Jesús virti allar manneskjur til jafns, burtséð frá kyni, samfélagsstöðu, þjóðerni eða nokkru öðru. Gullna reglan: ,,Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra” og tvöfalda kærleiksboðorðið: ,,Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og náungann eins og sjálfan þig” segja okkur líka hvaða afstöðu Jesús vildi að við hefðum til meðbræðra okkar og systra, afstöðu sem grundvallast á kærleika og því hugarfari að allir menn eru jafnir, allir menn eru náungi okkar. Arfleifð Jesú til frumkirkjunnar varðandi lýðræði og jöfnuð finnum við í frásögn Postulasögunnar af hinum fyrstu kristnu þar sem segir: Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Menn seldu eigur sínar og muni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. Daglega komu menn saman með einum huga í helgidóminum, brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim er frelsast létu” (Post. 2: 44 – 47.

Guðfræði jöfnuðar kemur einnig skýrt fram hjá Páli postula. Þekkt eru orð hans úr Galatabréfinu, þriðja kafla þar sem hann segir: Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.

Þarna er það skírnin sem gerir okkur öll jöfn, Páll hafnar í sjálfu sér ekki því að það sé munur á stöðu okkar í samfélaginu, en í trúnni á Jesú Krist, og með skírninni, erum við öll jöfn frammi fyrir Guði. Síðar í sama bréfi talar Páll í sama anda og Kristur í Matteusarguðspjalli þegar hann segir: ,,Bræður og systur, þið voruð kölluð til að vera frjáls. Misnotið ekki frelsið í þágu eigin girnda heldur þjónið hvert öðru í kærleika. Allt lögmálið felst í þessu eina boðorði: ,,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig”.

Ég hef reynt að skjóta hér stoðum undir þá fullyrðingu sem ég ætla að leyfa mér að halda hér fram, sem er að kristnar kenningar um lýðræði og jöfnuð eigi að byggjast á róttækum hugmyndum Jesú Krists um jafnan rétt allra manna, karla sem kvenna, til kærleika, virðingar og síðast en ekki síst, til áhrifa. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Jesús gekk hér á meðal okkar en boðskapur hans er enn í fullu gildi, og við byggjum á honum enn þann dag í dag þegar við ræðum um gildi og dyggðir.

Vissulega hafa kristnir menn ekki alltaf borið gæfu til að hafa þennan boðskap um jöfnuð að leiðarljósi, og lýðræði hefur oft verið , og er enn, ábótavant, bæði í kristnum samfélögum og innan kirkjunnar. En þegar við ræðum um þessi gildi, tel ég óhjákvæmilegt að við vinnum út frá boðskap Krists og Biblíunnar og reynum að gera hann að raunveruleika í okkar lífi. Því að það er jú það sem skiptir öllu máli. Ekki hvað hópar fólks gera þegar kemur að pólitískri kenningasmíð eða hvaða guðfræðikenningar hafa verið smíðaðar í gegnum aldirnar, heldur að við tökum þá ábyrgð á okkar herðar að vinna að lýðræði og jöfnuði í hvívetna, m.a. með því að hafa að leiðarljósi gullnu regluna og tvöfalda kærleiksboðorðið.

Megi Guð gefa okkur visku og náð til þess.

Ljósmynd með pistlinum: Ármann H. Gunnarsson.