Hvar er konungsríki Guðs?

Hvar er konungsríki Guðs?

Guð þinn er sestur að völdum. Hvað þýðir það? Það vísar til konungstignar, að hér sé konungur sem ráði ríkjum.

„Guð þinn er sestur að völdum.“ (Jes.52.7) Þannig voru boð spámannsins um komu Krists. Guð þinn er sestur að völdum. Hvað þýðir það? Það vísar til konungstignar, að hér sé konungur sem ráði ríkjum. Vissulega voru væntingar Ísraelsmanna um að Guð gæfi þeim konung sem myndi leysa þjóðina undan Rómar keisara. En Guð hugsaði hærra og stærra. Hann horfði ekki á frelsun undan veraldlegu heimsvaldi heldur á frelsun allra sálna frá öllu illu. Hann hugsaði ekki eingöngu um Ísraelsþjóðina, hann horfði á alla heimsbyggðina, allt til ystu hafa. Guð horfði líka til íslensku þjóðarinnar. Hann vill frelsa hana úr hafti sjálfrar sín. Hann vill mæta hverju mannsbarni og verða konungurinn sem ríkir í lífi þeirra.  

Skoðum aðeins hvað felst í konungstign. Konungur ríkir yfir einhverju ákveðnu svæði. Það merkir að hann ræður ríkjum þar. Hann setur landslögin, hann fylgist með þegnum sínum, hann sér til þess að réttlæti sé fylgt í landinu o.s.frv. Konungstign hjá Gyðingum hafði á sér upphafna mynd. Konungur í þeirra huga var réttlátur og fylgdi réttlætinu fram. Hann sá til þess að ranglæti yrði leiðrétt. Hann var sérlegur gæslumaður fátæklinga og ekkna. Hann passaði upp á rétt þeirra að þessir hópar væru ekki settir útundan í lífsgæðum samfélagsins. Hann sá líka til þess að stoppa og uppræta ranglæti og hegna þeim sem til ranglætis höfðu unnið. En umfram allt átti konungurinn að sjá til þess að lífið gæti haft sinn framgang. Hann varði þjóðina fyrir áföllum, gaf henni gæði sín í gæðum lands og sjávar. Konungurinn var göfugur og málsvari hins góða í veröldinni. Að vera þegn í ríki þessa konungs er að fylgja lögum og reglum konungsins og þiggja gæðin sem í ríkinu felast. Við erum íslenskir ríkisborgarar og njótum réttar hér og erum skuldbundin að fara eftir íslenskum lögum.  

Þegar Kristur, Drottinn í borg Davíðs var fæddur var Guð sestur að völdum. Konungsríki Jesúbarnsins teygir sig yfir öll landamæri, það er konungsríki sálarinnar. Þegar við byrjum að horfa til barnsins sem lagt var í jötu þá fara áhrif konungsríkis hans að hafa áhrif á okkur. Hugsum um það að Guð kom í heiminn eins og lítið barn, rétt eins og þú og ég. Birtingarmynd Guðs í Jesú Kristi varð að skynja lífið algjörlega út frá okkar hlið. Hann varð að gerast maður, verða einn af okkur til að geta leitt okkur til Guðs. Hugsum okkur það ef Jesús hefði komið svífandi fullþroska af himnum, að himininn um alla jörð hefði logað af birtu Guðs og þannig hefði Kristur svifið niður til jarðarinnar. Hefðum við sama traust á því að hann hefði skilið okkur? Hefði hann ekki verið fjarlægari, upphafnari, ósnertanlegri?  

Maður nokkur hafði lengi velt fyrir sér málefnum trúarinnar án árangurs. Hann hafði ekki náð að botna í Jesú og einréð það við sig að láta allt er hann varðaði afskiptalaust. Kona hans og börn voru því nú orðið vön því að fara ein til kirkju. Líka þetta aðfangadagskvöld. Hann sat heima og las í bók.  

Það hafði snjóað og frost var úti. Hann mundi allt í einu eftir litlu fuglunum og stóð upp til þess að gefa þeim á snjóinn. Meðan hann horfði á litlu greyin í kuldanum fór hann að vorkenna þeim og hugsaði sér hvað hann gæti látið þeim líða vel inn í bílskúrnum. Hann opnaði hann og kveikti ljós og fór að reyna að koma fuglunum inn með ýmsum ráðum, allt án árangurs því fuglar himinsins vilja ekki lokast í húsum inni.  

Og hann komst eftir mikla umhugsun að því að aðeins með einu móti væri það mögulegt að fá fuglana til að fara inn í hlýjan skúrinn: Hann sjálfur yrði að geta gerst fugl og leiða þá inn. Sem honum dettur það í hug hringja kirkjuklukkurnar og þá er sem uppljómun verði í allri hans hugsun. Auðvitað, sagði hann með sjálfum sér, þess vegna varð Guð að gerast maður. Eins og hann sjálfur varð að gerst fugl til að leiða fugla varð Guð að gjörast maður til að leiða mennina og frelsa þá.  

 

En nú gerðist Guð maður í litlu Jesúbarni. Hann kom í heiminn til að tengja okkur beint við Guð. Þegar við beinum sjónum okkar til Jesú þá fer hann að hafa áhrif á okkur. Með skoðunum sínum og reglum bendir hann á að ef  kærleikur mótar framgöngu okkar við náungann þá fer vel. Á þennan hátt hefur hann áhrif á okkur. Og þegar við hugsum um dæmisögur hans eru þær eins og gluggi inn í himininn og þær móta okkur. Í einni þeirra er himnaríki líkt við súrdeig er kona tók og fól í þrem mælum mjöls uns það sýrðist allt. (Matt.13.33) Þessi hversdagslega mynd bendir á að Jesús vill hafa áhrif á hugarfar okkar og líf allt þannig að himnaríkið breiðist út innra með okkur smátt og smátt. Þegar við biðjum til hans opnum við fyrir áhrif Guðs inn í líf okkar og hann verkar í okkur til góðs. Á þennan hátt tekur guðsríkið völd í lífi okkar og við verðum þegnar í konungsríki Krists. Þá er það sem Páll postuli segir: „ Ég fulltreysti einmitt því að hann, sem byrjaði í ykkur góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.“ (Fil.1.6)  

Á jólum varð sá veruleiki að Guð settist að völdum. Það gerist í þessari umbreytingu sem sálmaskáldin túlka, dýrð og lof sé Guði fyrir það. Sá Guð, er hæst á himni situr, er hér á jörð oss nær. Sá Guð, er ræður himni háum, hann hvílir nú í dýrastalli lágum, sá Guð, er öll á himins hnoss, :,: varð hold á jörð og býr með oss. :,:

                        Valdimar Briem sb. 78