Má stela?

Má stela?

Í raun skipta verkfærin engu máli, það má einu gilda hvort notað er kúbein eða tölva, auðvitað má enginn brjótast inn og stela því, sem öðrum tilheyrir.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
23. janúar 2018

Við fyrstu sýn þá virðist auðvelt að svara þessari spurningu; auðvitað má ekki stela því, sem aðrir eiga eða öðrum tilheyrir. Eitt af Boðorðunum tíu hljóðar svo: Þú skalt ekki stela! Engu að síður fékk biskup Íslands bágt fyrir nú í byrjun vetrar þegar hann sagði það rangt að stela. Að vísu var spurningin á þessa leið: Má stela upplýsingum? Það er því rétt að velta því fyrir sér hvort önnur rök gildi um upplýsingar heldur en aðra hluti. Má kannski stela upplýsingum?

Richard Nixon og félagar hans í Hvíta húsinu spurðu sig að þessari spurningu. Og þeir virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri allt í lagi að stela upplýsingum, - ef það kæmist ekki upp um þá. Þess vegna brutust skósveinar þeirra inn í Watergate-bygginguna að nóttu til þann 17. júní árið 1972. Vopnaðir kúbeinum og öðrum verkfærum brutust þeir inn á skrifstofu demókrata til að ná í leyndar upplýsingar, sem þeir töldu að gætu tryggt endurkjör Nixons forseta. En stuldurinn komst upp. Böndin bárust að forsetanum og hann varð að segja af sér. Þetta var gríðarlegt hneykslismál í henni Ameríku.

Í bókum Stieg Larsons er sagt frá blaðamanninum Mikael Blomkvist og vinkonu hans, Lisbeth Salander. Lisbeth hakkar sig inn í tölvur glæpamanna og þannig tekst þeim skjötuhjúum að upplýsa leynda glæpi. Fyrst ekki má nota gamla góða kúbeinið þá er spurning hvort það sé hugsanlega í lagi að nota tölvu og hakka sig inn í síma eða tölvur annarra í þeim göfuga tilgangi að upplýsa mál, sem full ástæða væri til að fletta ofan af og varða almannahagsmuni? Sannarlega er það hverju samfélagi til góðs að snjallir blaðamenn upplýsi okkur borgarana um það, sem er að gerast. Mega blaðamenn kannski stela upplýsingum?

Árið 2005 var hrundið af stað rannsókn í Bretlandi á starfsháttum blaðsins News of the World. Rannsóknin þótti sýna fram á það að blaðamenn og hakkarar á þeirra snærum hefðu brotist inn í og hlerað síma fræga fólksins, stjórnmálamanna og bresku konungsfjölskyldunnar. Þrátt fyrir þessar upplýsingar var lítið aðhafst í málinu, - kannski fannst bara öllum svolítið gaman að lesa um hneykslismál kóngafólksins og þotuliðsins. En árið 2011 snarsnérist breska þjóðin. Þá kom nefnilega í ljós að skósveinar blaðsins höfðu hakkað sig inn í síma skólastúlkunnar Milly Dowler, sem síðar kom í ljós að hafði verið myrt. Einnig höfðu þeir hakkað sig inn í síma fórnarlamba hrykjuverka og aðstandenda látinna hermanna. Breska þjóðin sagði hingað og ekki lengra. Umrætt blað hætti að koma út því eftir þetta vildi enginn kaupa þennan snepil og alls enginn vildi heldur auglýsa í honum.

Í raun skipta verkfærin engu máli, það má einu gilda hvort notað er kúbein eða tölva, auðvitað má enginn brjótast inn og stela því, sem öðrum tilheyrir. Hvorki forseti né blaðamaður, hvorki ég né þú megum brjótast inn á einkasvæði fólks eða fyrirtækja og stela þaðan upplýsingum. Jafnvel lögrelgan má ekki stela upplýsingum, hún þarf að fá dómsúrskurð til að mega hlera síma fólks.

Blaðamenn verða því að leita annarra leiða til afla sér upplýsinga um það, sem leynt á að fara en ætti samt fullt erindi fyrir sjónir almennings. Og sem betur fer þá eru til aðrar leiðir heldur en að stela. Algengast er sú að tala við mann og annan og afla þannig upplýsinga. Það eru alltaf einhverjir, sem vita og luma á upplýsingum. Og svo eru þeir líka til, sem ákveða að brjóta trúnað og afhenda blaðamönnum upplýsingar, sem þeir búa yfir eða hafa undir höndum. Og það er ekki það sama og að stela. Að vísu kann trúnaðarbrot stundum að varða við lög en við skulum láta það liggja milli hluta að svo stöddu.

En af hverju skyldi svo margir þá hafa orðið reiðir, sárir og hneykslaðir í vetrarbyrjun þegar blessaður biskupinn sagði að það væri ljótt að stela upplýsingum? Líklega stafaði upphlaupið af því að þetta var skömmu fyrir Alþingsiskosningar og lögbann hafði verið sett á fréttaflutning Stundarinnar af fjámálagjörningum og -vafningum stjórnamálamanns eins, sem stundum er kenndur við efnið teflon. Kannski sýnir þetta dæmi að það skiptir ekki öllu máli hvað sagt er heldur hitt inn í hvaða samhengi er talað. Orð virðast þannig ekki hafa neina merkingu heldur ræðst merking orða alfarið af samhenginu. Ef til vill var hneysklunin sú að fólki fannst að biskupinn væri að andmæla rannsóknarblaðamennsku? En biskup getur trauðla sagt að það sé í lagi að stela, - eða hvað? Tökum dæmi! Þann 1. febrúar 2010 birtist eftirfarandi frétt á Vísi: „Karlmaður á tvítugsaldri var handtekinn og yfirheyrður í síðustu viku vegna gruns um að hafa stolið trúnaðargögnum frá lögfræðingi Karls Wernessonar, eiganda Milestone ehf., og Eiðs Smára Guðjohnsen. Pilturinn á að hafa selt þær fjölmiðlum samkvæmt heimildum Vísis. Yfirlögregluþjónninn Friðrik Smári Björgvinsson staðfestir að mál af þessum toga sé til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.“ Meira að segja íslensku blöðin vita að það er lögbrot að stela upplýsingum. Þau mega flytja fréttir af slíku en biskupinn má samt ekki segja það, - skrýtið!

Má stela? Höfundur þessa pistils hafði einu sinni tónfræðikennara, sem sagði það við bekkinn að það væri allt í lagi að stela bók úr bókabúð ef bókin væri góð og ef maður læsi bókina. Einhvern veginn efast ég um að bóksalinn hefði samþykkt þessa siðfræði.

Má stela? Í svipinn man ég ekki eftir nema einum hlut, sem fólk virðist almennt sammála um að megi stela. Og það er grænmeti úr görðum. Fullorðið fólk virðist ekkert skammast sín fyrir að segja frá þeim bernskubrekum að það hafi einhvern tíma nappað grænmeti úr garði nágrannans. Fín frú hélt því meira segja fram í mín eyru að slíkt grænmeti smakkaðist alltaf betra en keypt grænmeti. Um þetta kann ég eina sögu.

Prestur einn var með matjurtagarð í garðinum bak við prestssetrið. Hann tók eftir því að stundum var verið að stela gulrótum úr garðinum og tína rifsber og jarðarber. Og hann ákvað að setja upp skilti og reyna að höfða til siðferðiskenndar þjófanna. Presturinn setti upp skilti og á því stóð: Mundu það að Guð sér til þín! Daginn eftir að skiltið góða hafði verið sett upp þá gekk klerkur út í garðinn og hann veitti því strax athygli að nú hefðu þjófar tekið grænmeti úr garðinum hans. Hann leit á skiltið og þá sá hann að undir orðin um að Guð fylgdist með hafði verið skrifað með barnalegri rithönd: En hann kjaftar ekki frá!