Boðin og búin með Ban Ki-moon gegn Trumpi allra Hitlera

Boðin og búin með Ban Ki-moon gegn Trumpi allra Hitlera

„Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins.“ Þegar Jesaja spámaður talar þannig er gaman að vera í Eyrarbakkakirkju og horfa upp til myndarinnar hér eftir Louise drottningu okkar sem þá var og sjá annað sjónarhorn á það að þiggja vatnssopa...
fullname - andlitsmynd Kristján Björnsson
10. október 2016
Flokkar

Náð séð með yður ... „Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins.“ Þegar Jesaja spámaður talar þannig er gaman að vera í Eyrarbakkakirkju og horfa upp til myndarinnar hér eftir Louise drottningu okkar sem þá var og sjá annað sjónarhorn á það að þiggja vatnssopa. Komið til mín og drekkið af þessu vatni og þá mun yður aldrei að eilífu þyrsta. (Hver sem drekkur af því vatni, sem ég mun gefa honum, hann mun aldrei að eilífu þyrsta. Jóh. 4) Þarna í orðum Jesú rætist ritningin, eða eigum við að segja það aðeins öðruvísi: Þá var Jesú að gefa í skyn að með komu hans og orðum hans var spádómur Jesaja að rætast. Við eigum líka svona hefð fyrir tilvitnanir og nægir að minna á hvað það þýðir fyrir Íslendinga þegar einhver segir „héðan renna öll vötn til Dýrafjarðar“ í merkingunni að ég er ekki að snúa við, ég er að fara heim og sinni ekki þessu kalli. Eða ef við tökum Heilaga ritningu og segjum si svona, eftir úrslit einhverra kosninga að margir eru kallaðir en fáir útvaldir, og þá í merkingunni að það komist ekki allir í stól forsetans eða að það geti ekki allir verið í landsliðinu hjá Heimi Hallgríms. Oftast er þar valið eftir einhverri viðmiðun eða eftir því sem þarf fyrir liðið, fyrir landið, fyrir bæinn okkar, fyrir félagið.

Nóg af vatni, komið öll

Ég valdi að byrja á setningunni „Komið öll, sem þyrst eruð, komið til vatnsins,“ og setningunni „margir eru kallaðir en fáir útvaldir,“ af því að þessar setningar eru fyrsta og síðasta versið í ritningarlestrum dagsins, upphafið að kaflanum úr lexíunni frá Jesaja spámanni og niðurlagið að dæmisögu Jesú um brúðkaupsgestina. En ég valdi þessi vers líka af því að það togast svolítið á að segja í sömu andránni „komið öll“ og „margir eru kallaðir og fáir útvaldir.“ Spádómur Jesaja er opinn og býður mikið fyrir alla og það er heldur ekki annað að sjá af guðspjallsmyndinni hér í Eyrarbakkakirkju en að Jesú hafi ætlað að bjóða öllum að koma og þiggja vatn að drekka og það mjög gott vatn fyrir alla þyrsta. Við vitum öll hvernig tilfinning það getur verið að vera mjög þyrstur og það er ekki góð tilfinning. Hér eru víða vötn og tjarnir og dælur margar og langar, en til eru staðir á Íslandi þar sem menn geta orðið mjög þyrstir og ekki nokkur leið að leggjast niður við læk og svala þorstanum. Reykjanesið er til dæmis vatnslaust svæði vestan Skammár, nema á Vatnsleysuströndinni svo undarlega sem það hljómar, og þegar ég var sem oftar á göngu um eyjar, fell og kletta Vestmannaeyja fannst mér alltaf jafn undarlegt að þar er hvergi lækur né lind og menn reyndar svo sparir á vatnið að óvíða er að finna útikrana og ekki einu sinni á golfvellinum eða úti við fótboltavellina. Ein uppspretta er þar reyndar og svolítil tjörn inní Herjólfsdal þar sem einn elsti bær Íslandsbyggðar var reistur en sú tjörn er því miður ekki drykkjarhæf vegna þess að fuglarnir eiga hana og því er þar oft þétt setinn Svarfaðardalurinn. Að tala um vatnsleysi og þorsta á þurrum stígum þorpanna í Bíblíunni er þess vegna svolítið framandi fyrir Ísland fyrir utan þessi fáu dæmi sem við eigum af lækjarlausum svæðum. Það er næstum eins merkingarlaust og að lýsa því fyrir Grænlendingum að það sé heitt í neðra. Satt að segja töldu menn að það yrði næstum því of gott tilboð í köldu landi, svo grænlenskar þýðingar á helgum ritum ku nota orðfærið að í víti sé bölvaður sífreri allan ársins hring þar sem aldrei slaknar á ísnum. Og sjaldan þurfum við hér á landi að leita undan sterkum geislum hádegissólar og skýla okkur um miðjan daginn í forsælu trjánna. Hvorki er sólin það sterk beint að ofan né áttum við lengst af tré sem gátu gefið þessa forsælu. Einhvern veginn var þó ekki farið í það að þýða þessa miðjarðarhafstexta með öðrum hætti hér fyrir okkur þannig að Forsæludalur í Húnavatnsþingi verður að teljast áhrif af biblíumáli. Við höfum einfaldlega gefið þessum myndum eiginlega merkingu um vernd þess Guðs þótt við skiljum þær samt ekki alveg vegna þess hvernig hann talar þarna suðurfrá. En þeir skildu það sem hann var að kalla og við skiljum núna betur og betur að hvorki hefur Drottinn fyrir munn spámanna sinna, né Jesú í eigin nafni og í krafti Drottins, talað nema beint til þeirra sem hann var að ávarpa. Guð talar þess vegna alltaf beint til hjarta mannsins inní þær aðstæður sem maðurinn býr við. Og líkingarnar eru einmitt þess eðlis að þær eru aldrei almennt orðaðar heldur sagðar með myndum sem fyrstu áheyrendur voru líklegir til að kannast við og gátu sett sig inní. En þótt við séum ekki fyrstu áheyrendur eru bæði spámennirnir og Jesú að tala beint til okkar og segja öllum mönnum allra tíma: „komið öll, sem eruð þyrst, komið og drekkið hér af.“

Rétt áður en myndin var tekin við brunninn

Við getum ekki alveg sagt skilið við altarismyndina án þess að rifja upp hvað Jesús sagði rétt áður en myndin var tekin (einsog krakkarnir myndu segja núna, því einhver hlýtur að hafa verið með síma og smellt af). Á myndinni er hann að segja þessi fallegu orð sem undir henni standa því með hendina á lofti er hann ekki að taka sjálfu heldur er hann að leggja áherslu á það sem hann vill koma á framfæri, leggja áherslu á boðun sína, með því hálfpartinn að benda til Guðs og segja meðfram því sem hann sagði með orðum að hann væri að tala í nafni „Ástarföður himinhæða“. Skömmu áður var hann hins vegar bara þyrstur maður á ferð og meira að segja orðinn nokkuð ferðalúinn. Hann var þar að auki útlendingur í þessum þorpi og konunni hafði brugðið nokkuð þegar hann ávarpaði hana þarna við Jakobsbrunninn. Hann var dálítið þreyttur og hafði rétt áður sagt við lærisveinana sem voru með honum á göngunni líka að hann ætlaði að setjast þarna niður og hvíla sig en bað þá að fara áfram og finna eitthvað að snæða. Og það er þá sem konan kemur og hún er að koma að sínum brunni og hún tilheyrði ekki þessum Gyðingum því hún var Samverji og löng saga á bak við það af hverju það var svona öðru vísi fólk að henni brá þegar Gyðingurinn og rabbíinn Jesú segir allt í einu við hana: „Kona gef mér að drekka.“ Hann braut ísinn sem átti að vera þarna á milli því Gyðingar og hvað þá rabbíar þeirra áttu ekki að tala við Samverja og enn síður að tala við samverskar konur. Allt þetta braut hann því hann mat manninn mun meira en þessar hefðir allar og mannamun og aðskilnað manna á meðal og bauð öllum að koma til sín, líkt og spámaðurinn hafði boðað 500 árum áður að myndi koma fram. Hann gaf konunni auk þess mun meiri sess en hefðin á þeim dögum sagði en það gerði hann út í gegnum allar frásögur guðspjallanna og hann reisti líka upp þá sem voru beygðir og hann eyddi fyrirlitningunni og fordæmingunni og hann braut niður múra fordómanna. Svo þannig er það í þessari undarlegu dæmisögu sem hann segir í dag af brúðkaupsboðinu að í fyrstu hafði konungur boðið öllum þeim sem venjulega eru túlkaðir sem útvalda þjóðin eða þeir sem höfðu fram að þessu haft Guð Abrahams að guði sínum og kölluðu hann föður á himnum. En svo þegar þeir hundsuðu boðið og veisluna sem boðuð hafði verið í öllum bókum þeirra, spádómsbókunum og sálmunum, og meira að segja farið illa með erindreka konungsins svo ekki sé meira sagt, þá lætur hann til sín taka og býður öllum af götunni úr öllum bæjum af öllum stigum þjóðfélagsins og af öllum trúarhópum. Það gerir hann í anda þess sem áður segir: „Komið öll.“

Stórir og litlir Hitlerar Trumpast fram í fordómum

Komið öll er boð sem við heyrum að er enn í boði þrátt fyrir alla flokkun og útilokun og jafnvel ofsóknir ráðamanna hjá ýmsum þjóðum á ýmsum tímum. Þær ofsóknir birtast í öllum stórum og litlum Hitlerum í sögu okkar. En þrátt fyrir Hitlerana ber kirkjunni að boða öllum það fagnaðarerindi sem felst í boðskap Jesú Krists. Það hjákátlegasta og líka það hættulegasta þessa mánuðina er að þegar er kominn fram einn Hitlerinn í Bandaríkjunum sem talar um að banna aðra en þau, sem eru þó ein fjölþjóðlegasta þjóð sem til er í veröldinni, beinlínis byggð upp frá grunni af innflytjendum. Þetta mikla góða land getur átt á hættu að Trumpast inn í sögukafla af fordómum, sleggjudómum, fávísi og misnotkun valds og dauðans auðvalds. Við vonum að það verði ekki en hættan er raunverulega til staðar núna vestra. Þar má til með að gilda að margir séu kallaðir en fáir útvaldir og vonandi bara þeir útvaldir sem verðugir geta talist í samanburði við kristilegan kærleika og virðingu fyrir manngildi allra.

Boðin og búin með Ban Ki-moon

Það verðum við líka að hafa í huga hér heima og því þörf að vara við öllum hreyfingum fyrir allar kosningar sem eru nálægt því að ala á fordómum í garð annarra trúarhópa eða innflytjenda eða flóttamanna hér í landi þar sem byggðin hófst einfaldlega með fólki á flutningi í leit að betra þjóðskipulagi og lífsskilyrðum. Og vonandi tekst okkur að halda því við að við byggjum þetta land á gæðum þess að geta lagað þjóðskipulag okkar og réttvísi út frá því sem best má þekkja hjá öðrum þjóðum einmitt af því við erum best í því að virða hvern mann, hvert barn, og lofa þeim að njóta sín eftir þroska sínum og getu á þeim sviðum sem þau geta tileinkað sér og menntað sig til, enda er það svo að hjá fámennri þjóð eru allir kallaðir og allir útvaldir til einhvers hlutverks, allir kallaðir til að koma og þiggja af þessu lifandi vatni ellegar að vera við brunninn og gefa útlendingum að drekka þegar þeir koma þyrstir eftir réttlæti og betra lífi og þar ofaní kaupið eru þeir að koma til okkar þar sem smjörið drýpur af hverju strái og lækirnir eru tærir af lindum jarðar og meira en nóg handa öllum sem vilja koma og þiggja. Það væri gaman ef hádegisverðargestur okkar hér við hliðina núna á Rauða húsinu, Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, heyrði þessi orð og hvernig við prédikum hér. Og ef við verðum einhvern tíma í vanda með þetta mál, innflytjendamálin t.d., eða viðhorf okkar til þeirra sem eru örlítið öðru vísi en við, skulum við bæði minnast þess að hver maður á jörðinni hefur sína eigin rödd sem er aðgreinanleg frá röddum allra hinna, sjö milljarðar af örlítið eða mjög aðgreinanlegum röddum (þannig erum við sköpuð), og minnast þess einnig að ef við heyrum einhvern biðja um vatn að drekka skulum við heyra hann segja með orðum Jesú: „gef mér að drekka“. Ef við nálgumst þetta þannig erum við ekki í nokkrum vafa um hvað til okkar friðar heyrir og hver köllun okkar er gagnvart náunganum. Við skulum bara stefna að því að heyra þessa köllun og vera tilbúin að koma spariklædd í helgidóminn í hvert sinn sem boðið er hér til veislu hjá Drottni, því hann býður öllum og vill samt að allir geri sig klára til þess að reynast þess verðugur að sækja þetta boð, rækja þetta fagnaðarboð í orði og verki, eða einsog við segjum á fallegri íslensku, við skulum vera boðin og búin. Þá mun það rætast á okkur að við látum það sem Kristur segir rætast gagnvart öllum öðrum.

Jes 55.1-5 Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins og þér sem ekkert fé eigið, komið, komið, kaupið korn og etið, komið, þiggið korn án silfurs og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk. Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður? Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu og endurnærist af feitmeti. Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa. Ég ætla að gera við yður ævarandi sáttmála og miskunn mín við Davíð mun stöðug standa. Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnanda þjóðanna. Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels, því að hann hefur gert þig vegsamlegan.

Pistill: Ef 5.15-21 Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists. Sýnið Kristi lotningu og hvert öðru auðsveipni.

Guðspjall: Matt 22.1-14 Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum. Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“