Fólk á flótta

Fólk á flótta

Aldingarðurinn er réttlátt samfélag, þar sem við miðlum öðrum af þeim gæðum sem við höfum svo mikið af. Hann er hluttekningin með hröktum systkinum okkar sem þurfa á okkur að halda. Hann er umhyggjan sem býr í brjósti okkar og meinar okkur að snúa bakinu við þeim sem þurfa á okkur að halda.

Fólk á flótta. Hópar yfirgefa heimkynni sín, tefla lífi sínu í hættu og halda á vit óvissu á framandi slóðum. Flóttamenn hafa verið í umræðunni undanfarin misseri og er þess að vænta að straumur fólks frá stríðshrjáðum svæðum aukist fremur en hitt á komandi tímum. Vart getum við sett okkur inn í hugarheim þessara einstaklinga sem horfa á eftir ættlandi sínu, eigum sínum og baklandi og veit ekkert hvað bíður.

Útlegð

Útlegð, er nöturlegt hlutskipti og nú á fyrsta sunnudegi í föstu má segja að textarnir fjalli um það að standa utangarðs, dvelja fjarri þeim slóðum þar sem fólk finnur sig heima. Adam og Eva er fyrsta flóttafólkið sem sagt er frá í Biblíunni og þar erum við bara á fyrstu síðunum. Karlinn og konan, þannig þýðum við nöfn þeirra, og í hinni ævafornu frásögn er því lýst hvernig þau glata stöðu sinni, eru hrakin á brott úr aldingarðinum þar sem þau lifðu í friði og sátt við náttúru og hvort annað. Utan þessa garðs er lífið erfitt og hættulegt en í minningunni eiga þau mynd af hinu iðjagræna umhverfi þar sem jafnvægi ríkti og sátt.

Frásögnin af því rótlausa ferðalagi verður að einhvers konar lýsingu á sögu mannkyns, þar sem hópar hrekjast frá einum stað til annars og há lífsbaráttu í stríði við náungann og umhverfi sitt. Og útlegðin birtist með ýmsum hætti. Hún getur lýst sér í því að fólk fer á mis við köllun sína og tilgang, glatar uppruna sínum og gefur sig á vald skaðlegum öflum.

Hernumið fólk Allt bendir til þess að þau sem upphaflega fluttu frásögnina um syndafallið hafi sjálf verið flóttafólk. Hún varð til í Babýlón, á sjöttu öld fyrir Krists burð. Þar dvaldi hrakinn hópur við hin verstu kjör, fjarri heimkynnum sínum. Ísraelsmenn höfðu fyrir þann tíma notið blómaskeiðs um langa hríð en fóru illa að ráði sínu. Um það lesum við hjá spámanninum Jesaja, sem vandar yfirvöldum ekki kveðjurnar í góðærinu. Þau kæri sig kollótt um réttindi þeirra sem minnst máttu sín og samfélagið var sundrað milli stétta og þjóðarbrota. Enginn uggði ekki að sér og voldugur nágranni, Babýlóníumenn réðist inn fyrir landamærin og gersigraði Ísraelsmenn. Að sið þess tíma tók sigurvegarinn sem hluta af herfangi stóran hóp þjóðarinnar, þann sem líklegur var til að hefja endureisn landsins. Þar mátti fólkið þræla á ökrum hansl.

Aldingarðurinn í sögunni er því eins og minning um heimkynni sem eitt sinn voru. Orðin sem Guð segir við Adam verða ef til vill skiljanlegri ef þau eru lesin í því samhengi: ,,Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar.”

Þakkir

Já, ekki er nú bjartur tónninn í mér nú þegar þessi fallegi dagur er runninn upp og samfélagið hér í Neskirkju býður mig velkominn í embætti sóknarprests. Einhverjum kann að þykja það stílbrot að færa þakkir í kjölfar þessara þanka. En það er hluti af boðun okkar hér í helgidómnum að benda á víddir lífsins í öllum sínum margbreytileik. Öllu er afmarkaður tími eins og segir í Predikaranum í Gamla testamentinu. Að vaxa hefur sinn tíma og að fagna hefur sinn tíma. Að syrgja hefur sinn tíma og að íhuga breyskleika sína og lesti á líka að fá sitt tóm mitt í erli daganna.

Fastan sem nú er gengin í garð, er hvorki tími vaxtar né gleði. Hún er frá fornu farin ætluð þeim þáttum tilverunnar sem tengjast iðrun og vitund fyrir því að heimurinn er langt frá því að vera sá aldingarður sem við myndum kjósa. Illska, breyskleiki, mistök, sóun, allt á þetta sinn stað í ritningunni. Sjálfur krossinn birtir okkur innsýn í það hvernig Guð birtist manninum í hinu fullkomna umkomuleysi, þáningu og dauða en rís svo upp úr myrkrinu og við fögnum sigri ljóssins.

Víst er það svo, að stór hluti af iðnaði samtímans byggir á því að framleiða hávaða og markleysu sem fær fólk til að líta framhjá þessum hliðum lífsins. Það má þó aldrei eiga sér stað í kristnum söfnuði. Allt á sér skuggahlið. Gleðin og þjáningin eiga hvor um sig sína þætti í lífi okkar og raunsæ sýn á tilveruna gefur hverjum hluta sálarinnar sinn skammt. Á gleðitíma má vel hugleiða fallvaltleika lífsins. Þá erum við síður líkleg til að taka gæðum tilverunnar sem gefnum. Miklu nær er að mæta þeim í þakklæti og auðmýkt og við vinnum ljóssins verk á meðan dagur er.

Minning af aldingarði Gyðingarnir sem þræluðu í útlegð við Babýlónsfljót sögðu hver öðrum söguna af Adam og Evu sem voru hrakin úr hinum græna aldingarði. Þeir geymdu í minningunni mynd af ástandi sem syndin hafði spillt og hrakið þau frá. Sagan, sem er jú eins og óður til veikleika mannsins, lýsir því hvernig við villumst af leið og glötum því sem okkur er dýrmætt. Það sem ekki má verður svo miklu meira spennandi en það sem má.

Sjálf dveljum við í okkar aldingarði og þangað leitar fólk í stórum hópum. Þessir einstaklingar eiga minningar um sín gömlu heimkynni en sá staður er nú sundurtættur eftir sprengjuregn og hörmungar. Framkoma okkar við þessa hópa er prófsteinn á gæði okkar og upplegg. Því aldingarður er ekki ofgnógt allra hluta, dægradvöl sem sogar til sín stundirnar okkar og við vitum ekki fyrr en hún hefur hindrað okkur í því að láta drauma okkar rætast.

Aldingarðurinn er réttlátt samfélag, þar sem við miðlum öðrum af þeim gæðum sem við höfum svo mikið af. Hann er hluttekningin með hröktum systkinum okkar sem þurfa á okkur að halda. Hann er umhyggjan sem býr í brjósti okkar og meinar okkur að snúa bakinu við þeim sem þurfa á okkur að halda.

Freistingin er að vanrækja þessa skyldu. Það er að neyta þeirra ávaxta sem svipta okkur mennskunni, ræna okkur tilganginum og gera okkur að þrælum þeirra afla sem ekki eiga að stjórna okkur. Gera okkur að útlögum frá því sem okkur er dýrmætt og kært. Þegar Kristur mætti freistaranum í eyðimörkinni stóð honum til boða að varpa því öllu frá sér sem honum var ætlað að sinna. Með því að njóta allsnægta þeirra sem í boði voru þurfti hann að afneita sjálfum sér og tilgangi sínum. Lokasvar hans rammar inn hvernig við stöndumst þær freistingar sem geta gert okkur að útlögum í eigin lífi. „Drottin Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“

Þetta er köllun hvers kristins safnaðar og lofgjörðin birtist á svo margvíslegan hátt í allri okkar þjónustu. Það er þetta sem skilur á milli feigs og ófeigs. Hverjum þjónar þú? Hverjum helgar þú lífi þínu? Eru það forgengilegir hlutir, fallvaltar hugmyndir, er það innihaldslaus dægrastytting? Eða er það Guð kærleikans sem skapar þig og fyllir lífi þínu innihaldi og tilgangi? Svar okkar við sömu spurningu á að beinast að náunga okkar og með þeim hætti sem Kristur svaraði. ,,Lofa Drottin þinn” - sem á hebresku er einmitt: hallelujah.