Að vera prestur

Að vera prestur

„Mamma er ekki erfitt að vera prestur?“ Spurði sonur minn mig um daginn. „Jú, það getur verið það,“ svarði ég og hugsaði til þeirra daga þar sem ég hvíli mig þreytt í sófanum og velti fyrir mér hvort ég geti nokkuð staðið upp aftur.
fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
30. apríl 2009

,,Mamma er ekki erfitt að vera prestur?” Spurði sonur minn mig um daginn. ,,Jú, það getur verið það,” svarði ég og hugsaði til þeirra daga þar sem ég hvíli mig þreytt í sófanum og velti fyrir mér hvort ég geti nokkuð staðið upp aftur. En hann átti ekki við það og hélt áfram: ,,Já, einmitt, þú þarft að fara í allar þessa veislur og fitnar svo af því.” Þar með fór umræðan ekki dýpra en þetta. Það getur vissulega oft verið erfitt að vera prestur, að horfa í brostin augu fólks sem til prestsins leitar og hlusta, deila áhyggjum þeirra, reyna að létta undir og bera ljósið og vonina inn í dimmar og þungar aðstæður sem eru af svo margvíslegum toga eins og við manneskjurnar erum mörg. Hversu erfið verkefnin eru þá er það alltaf gefandi að vera prestur. Að njóta þeirra forréttinda að mæta manneskjum á stundum sorga og gleði í krafti Krists. Það eykur kraft og gefur orku að þjóna í athöfnum kirkjunnar, þar sem fjölskyldan öll mætist og biður saman, fyrir skírnarbarni, fyrir brúðhjónum, fyrir fermingarbarni eða fyrir látnum ástvini. Það er alltaf eitthvað sem að mér er rétt og ég fæ að njóta, ég læri svo óskaplega mikið af fólkinu sem ég þjóna, sem ég starfa með, sem ég kynnist.

Nú eru tvær fermingar í mínu prestakalli afstaðnar og fleiri eftir. Fermingarnar eru einstakar stundir, í þeim er svo mikil gleði og eftirvænting. Ég verð svo stolt af fermingarbörnum kirkjunnar sem eru stundum kvíðinn athöfninni af því þau vilja standa sig fullkomlega, þau vilja gera vel og allt rétt því þau koma fram og játa Jesú Krist sem leiðtoga lífs síns í einlægni. Ég verð einnig örlítið klökk því ég hugsa til liðins vetrar, hvað hann var skemmtilegur og gefandi fyrir mig því fermingarbörnin eru svo full af lífsgleði, spurningum og kröftugum vilja til að lifa og starfa, það er ekki annað hægt en að hrífast með. Ég ítreka við ferminguna að þau eru ekki útskrifast úr kirkjunni, hvet þau til að leita til hennar áfram og alltaf. Ég hef gaman af því að fá að koma í veislu fermingarbarnsins og finna gleðina hjá allri fjölskyldunni. Um daginn fór ég í eina slíka veislu og þegar ég kvaddi fermingarbarnið í veilsunni og þakkaði fyrir mig svarði það svo fullorðið og stolt: ,,Já, þakka þér, miklu frekar og þakka þér bara fyrir veturinn og bara allt saman.” Ég fór brosandi inn í sumarið og þakkaði fyrir að fá að lifa, starfa og þjóna í kirkjunni minni því alltaf á ég þar innistæðu og gleði. Jú, jú það er vissulega rétt að aukakílóin geta sagt til sín í veislunum en um leið fitna ég andlega, fæ í lífi og starfi andlega næringu. Það getum við öll er við leggjum líf okkar og starf í hendur Guðs og leggjum okkur fram um að sjá það góða hvert í öðru, vitum að öll getum við gefið og öll getum við lært af öðrum manneskjum sem við lifum og störfum með.