Stofnanir og síbreytilegur veruleiki I

Stofnanir og síbreytilegur veruleiki I

Allt síðasta ár hefur mikið verið fjallað um kirkju og kristni í dagblöðum landsins. Menn hafa kynnt og varið kristnar skoðanir og aðrir hafa ráðist gegn þeim. Í gagnrýni á íslensku Þjóðkirkjuna hafa verið notuð hugtök eins og vísindaleg hugsun, umburðarlyndi, mannréttindi, frelsi og upplýsing.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
09. apríl 2008

I

Allt síðasta ár hefur mikið verið fjallað um kirkju og kristni í dagblöðum landsins. Menn hafa kynnt og varið kristnar skoðanir og aðrir hafa ráðist gegn þeim. Í gagnrýni á íslensku Þjóðkirkjuna hafa verið notuð hugtök eins og vísindaleg hugsun, umburðarlyndi, mannréttindi, frelsi og upplýsing. Þeir sem hafa beitt þessum hugtökum hafa þar af leiðandi álitið sig sjálfa vera umburðarlynda, réttsýna og réttláta frelsisverjendur á meðan kirkjunnar þjónar hafa oftar en ekki átt að vera fulltrúar afturhaldssemi, ranglætis og ítroðslu. Óneitalega vekur þessi málflutningur upp spurningar. Það er erfitt að fullyrða mikið um það hvað veldur þessu. Í leit að svari við því getur verið ágætt að huga að sögu kirkjunnar og hugmyndasögunni almennt til að athuga hvort þar sé ekki finna einhverjar hliðstæður. Við gætum jafnvel rekið okkur eftir henni og reynt finna einhverja þróun sem þessu veldur.

II

Maðurinn hefur frá örófi aldar leitað að tilgangi og að merkingarbæru lífi. Hann hefur ætíð fundið fyrir þeim oft skelfilega mun sem er á von og veruleika. Maðurinn hefur auk þess reynt að hann vill eitt en gerir annað, hann veit í hjarta sér hvað er rétt en brýtur samt gegn betri vitund. Maðurinn upplifir daglega að hann lifir ekki einungis í þverstæðufullum heimi heldur er sjálfur þverstæðufull vera. Í þessari stöðu sinni leitar hann að lausn, réttara sagt endurlausn, hjálpræði eða með málfari kristinnar trúar: að fyrirgefningu synda sinna og náð Guðs. Kirkjan á Vesturlöndum hefur um aldir svarað þessum spurningum og þessari þörf mannins með boðun fagnaðarerindisins. Hún miðlar þar kenningu sem gerir manninum mögulegt að skilja heiminn sem heild þrátt fyrir þverstæður sínar og andstæðurnar í sálarlífi mannins. Kirkjan hefur kennt að í Kristi sé að finna sættina milli þeirra. Kristnir menn hafa bent til kross og upprisu Krists þar sem tekist er á við þverstæðuna og hún yfirunnin. Krossin skilgreinir þverstæðuna sem synd og í upprisunni er vísað til þess hvernig Guð hefur yfirunnið hana. Um leið vísar upprisan til þess veruleika sem allt stefnir til. Prestar og aðrir kennimenn, leiknir sem lærðir, hafa í gegnum aldirnar reynt að miðla fyrirgefningarboðskap fagnaðaerindisins um Krist einstaklingum og samfélaginu öllu. Óhætt er að segja að til langs tíma hafi sá boðskapur meira eða minna mótað allt þjóðfélagið. Kirkjan var lengi vel eina stofnunin innan samfélagins sem veitti heildstætt svar við hjálpræðispurningu manna.

Það má vissulega setja spurningamerki við þessa framsetningu en ég held að hún standist samt í megin dráttum. Þessi afgerandi staða kirkjunnar breytist frá og með upplýsingunni eða upp úr miðri 17 öld. Þá hefst merkileg þróun sem tengist m.a. mótun þjóðríkja í Evrópu.

III

Sagnfræðingar jafnt hér á landi sem úti í heimi hafa undafarna áratugi beint sjónum sínum að tilurð þjóðríkja.(1) Við erum vön að álita að það sem einkenni þjóð sé að fólk tali sama mál, búi í sama landi og eigi sameiginlega menningararfleið. Sagnfræðingar hafa bent á að svo einfalt sé þetta nú ekki. Frá og með upplýsingunni byrji þau ríki sem við þekkjum sem þjóðríki að mótast. Í kjölfar deilna kirkjudeildanna eflist miðstýring í samfélaginu, þjóðhöfðingjar fá meiri völd og öflug embættismannastétt kemur fram á sjónarsviðið. Þjóðfélög byrja að afmarka sig meira gagnvart öðrum samfélögum og almennt er lögð áhersla á að efla einingarvitund samfélagsins. Þegar líða fer á 18. öldina kemur fram mikil áherslan á sérstakan uppruna þjóðarinnar og menn byrja að taka saman efni sem styrkir þá mynd. Fornkvæði, sagnabálkar og sögur eru nýttar til þessa. Það nægir að huga að Íslendingasögunum og frásagnum um Alþingi Íslendinga á Þingvöllum til að átta okkur á vægi slíks fyrir íslenska þjóðarvitund. Þessar athuganir sagnfræðinganna eru stórmerkilegar.

En það sem þeim hefur yfirsést í framsetningu sinni er að athuga hve mikið af kristnum hugmyndum sem voru bundnar við kirkju og kristni voru yfirfærðar á þjóðríkið.(2)

Fyrst ber að nefna hugmyndin um kirkjuna sem útvalda þjóð Guðs, en hún byggir á kenningum úr Gamla og Nýja testamentinu sem voru nú notaðar til að skilgreina þjóðríkið. Þegnar þess eiga samkvæmt þessu ekki einungis sameiginlega arfleið, heldur eru vegna hennar sérstakir og bera jafnvel af öðrum. Þessi útvalningarhugmynd sem er nú færð í búning þjóðríkisins veitir þegnum ríka samkennd og samvitund. Þjóðin og þjóðernisvitundin sem er ræktuð á sérstökum hátíðisdögum þjóðarinnar gefur fólki safnaðarvitund sem er einna þekktust úr samfélaginu innan safnaða kirkjunnar. Það kemur því ekki á óvart að í kringum þjóðríkið mótist helgisiðir um hátíðisdaga, innsetningu manna í æðstu embætti, upphaf þings, að ekki sé minnst á atferli sem snertir fána landsins, texta, lög o.s.frv. Í löndum þar sem tvær eða fleiri kirkjudeildir eru til staðar er hamrað á því, að þjóðernisvitundin eigi að vega meira en hlutdeild í trúfélag. Fylgifiskur þessarar þróunar er annars vegar einkalífsvæðing trúarinnar og hins vegar öflug tenging hennar við ræktun þjóðernisvitundar innan samfélagsins. Kirkjan er oft límið sem heldur öllu saman.

Annað atriðið er að ýmislegt sem áður var alfarið bundið við hjálpræði mannsins í Kristi, eru nú fært yfir á þjóðríkið. Ríkið fær endurlausnarhlutverk. Það veitir þeim sem því tilheyra þá lífsfyllingu sem maðurinn þarfnast. Píslavættishugmyndir eru nú tengdar við þjóðríkið sem menn eru eða eiga að vera tilbúnir að þjóna og jafnvel fórna lífi sínu fyrir.

Þriðja atriðið eru framfarir í vísindum. Fram á miðja 18. öld var flestum háskólum meira eða minna stjórnað og þeir reknir í tengslum við kirkjuna. Þegar ný fög og þeir einstaklingar sem eru að ryðja þeim leið innan fræðasamfélagsins koma fram á sjónarsviðið, þá vilja þeir fá þau völd innan fræðasamfélagsins og í menntakerfinu sem kirkjan hafði. Kirkjunnar menn tapa ekki einungis embættum innan háskólasamfélagsins heldur einnig stöðu sinni. Segja má að vísindin taki auk þess yfir hjálpræðishlutverk kirkjunnar innan samfélagsins. Það virðist ekki skipta máli hvaða vandamál kemur upp, vísindin virðast nú þegar hafa lausnina eða hún er á næsta leiti. Náttúruvísindin eru sigurvegararnir í þessari þróun. Vísindunum er skipt í tvö megin svið: náttúruvísindi og hugvísindi. Þau fyrrnefndu bera höfuð og herðar yfir þau síðarnefndu. Innan hugvísinda er keppast fræðimenn við að réttláta tilvistrétt sinna fræðigreina með þeim aðferðum nátturúvísindin setja og með málfari sem þau nota. Það gefur að skilja að áhrif kirkjunnar innna háskóla hverfa og guðfræðideildir eiga í nú vök að verjast.

Síðari hluti þessa pistils birtist föstudaginn 11. apríl.

Tilvísanir

(1) Guðmundur Hálfdánarsson Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk Reykjavík 2001. Sigríður Matthíasdóttir Hinn sanni íslendingur Reykjavík 2004.

(2) Friedrich Wihelm Graf, Die Wiedekehr der Götter – Religion in der Modernen Kultur 4. útgf. München 2007, 111–136.