Trúin

Trúin

Trúin er hluti af mannlegri tilveru og fyrir viku lýsti meirihluti þeirra sem neyttu atkvæðisréttar síns í þjóðaratkvæðagreiðslu því, að þau vildu hafa ákveðinn ramma um trúarlíf þjóðarinnar. Sá rammi er hinn sami og verið hefur hér á landi frá árinu 1874. Við verðum að taka taka mark á þessari niðurstöðu og ganga fram í samræmi við hana.

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“

Fólkið svaraði honum: „Við erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þið munuð verða frjálsir?“

Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem drýgir synd er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur á heimilinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir. Jóh 8.31-36

Það er margfalt tilefni til að gleðjast hér í Dómkirkjunni í dag. Tónlistardagar, 200 ár frá fæðingu fyrsta organista Dómkirkjunnar, börn borin til skírnar, kirkjudagurinn.

Síðasti sunnudagur í október er líka sá sunnudagur kirkjuársins þegar siðbótarinnar er minnst, því siðbótardaginn 31. október ber ekki alltaf upp á sunnudag.

Allt þetta minnir okkur á að við erum hluti af sögu, hluti af heild og kirkjan á sér framtíð þegar fleiri bætast í hópinn, við skírnina. Alla tíð hefur tónlist skipað stóran sess í kirkjulegu lífi og verður mikil veisla á tónlistardögum Dómkirkjunnar næstu daga.

Það er gott að minna sig á söguna til að skilja veröldina og sjálfan sig. Á siðbótardegi er vert að minnast þess að þann 31. október eftir 5 ár verða 500 ár frá því Lúther negldi skjal með 95 greinum upp á dyr hallarkirkjunnar í heimabæ sínum þar sem hann mótmælti aflátssölu kaþólsku kirkjunnar. Og þó að hann hafi ekki haft í huga að kljúfa kirkjuna varð það svo að kirkjudeild er við hann kennd, kirkjudeildin okkar, evangelísk lútersk kirkja, sem er Þjóðkirkja hér á landi.

Lúther hafði engan áhuga á því að halda nafni sínu á lofti. Fyrir honum var trúin aðalatriðið. Fagnaðarerindið er aðalatriðið sagði hann og á það við enn þann dag í dag. Þetta skyldum við hafa í huga þegar við tölum um trú og kirkju í orðræðu dagsins. Kirkjan er ekki aðalatriðið, heldur trúin, enda væri engin kirkja til ef trúin væri ekki fyrir hendi.

Trúin er hluti af mannlegri tilveru og fyrir viku lýsti meirihluti þeirra sem neyttu atkvæðisréttar síns í þjóðaratkvæðagreiðslu því, að þau vildu hafa ákveðinn ramma um trúarlíf þjóðarinnar. Sá rammi er hinn sami og verið hefur hér á landi frá árinu 1874. Við verðum að taka taka mark á þessari niðurstöðu og ganga fram í samræmi við hana.

Við Lúther er siðbót kennd. Sú siðbót beindist að kirkjudeild hans og þegar siðbótarinnar er minnst ár hvert síðasta sunnudag í október er gott að staldra við og spyrja þess hvort siðbót eigi aðeins við fortíðina eða hvort okkur sé hollt að líta í eigin barm hverju og einu sem og kirkjunni sem stofnun. Stofnun sem er fjölmennasta almannahreyfing hér á landi.

Siðbótarmaðurinn Lúther átti í mikilli innri trúarlegri baráttu. Hann reyndi svo sannarlega á sjálfum sér það er í heilagri ritningu stendur: Leitið og þér munuð finna. Hann leitaði í Orði Guðs þar til hann fann það sem hann leitaði að og komst að þeirri niðurstöðu að fagnaðarerindi Jesú Krists væri aðalatriði og grundvöllur kirkjunnar en ekki mannsetningar.

Sem lúthersk kirkja er okkur hollt að gera sem Lúther og skoða lífið og allt sem það er og gefur með tilliti til Orðsins, sem varð hold og bjó með oss eins og Jóhannes guðspjallamaður orðar í riti sínu.

Þegar við horfum á okkur, samfélag okkar og samtíma skynjum við að sögulegur arfur hefur haft mótandi áhrif á þetta allt. Við byggjum á sögulegum arfi og horfum til framtíðar en lifum í nútímanum.

Lúther eins og fleiri siðbótarmenn leituðu á vit hinna biblíulegu rita en ekki kirkjulegrar hefðar. Og umhugsunarverð er kenning hans um hinn almenna prestsdóm þar sem hann leggur áherslu á að allir skírðir menn séu í raun prestar. Hafi það hlutverk að boða Krist í lífi sínu og starfi. Að trúin komi fram í daglegum störfum fólks hvort sem það eru prestar, kennarar, verslunarfólk, læknar. Það skiptir ekki máli hvert starfið er, því hver kristinn einstaklingur iðkar trúa sína í verki í þeirri stétt og stöðu sem hann tilheyrir.

Þó kirkjan skipti vissulega miklu máli í samfélagi okkar þá væri hún ekkert án hans sem ber hana uppi jafnt á hversdögum sem hátíðum, Jesú Krists. Það er hann og trúin á hann sem skiptir öllu máli og svo trúarafstaða okkar hvers og eins. Ef við viljum siðbót í kirkju okkar og samfélagi þarf að líta í eigin barm. Siðbótin verður engin ef við hugsum ekki um afstöðu okkar og það hvort við erum tilbúin til að taka þátt í henni. Siðbótin byrjar hjá okkur hverju og einu.

Siðbótin sem kennd er við Lúther hófst ekki sem fjöldahreyfing heldur í huga eins manns sem setti niður á blað það sem honum fannst betur mega fara í kirkju sinni. Atriði sem komu fram í huga hans við rannsókn heilagrar Ritningar, Biblíunnar, þar sem hann komst meðal annars að því að það er trúin sem er aðalatriðið, ekki verkin. Verkin eru afleiðing trúarinnar, en ekki trúin afleiðing verkanna. Hugarafstaðan skiptir máli. Það er fagnaðarerindið sem skiptir mestu máli að mati Lúthers ekki hann sjálfur þó heil kirkjudeild sé við hann kennd.

Við höfum öll áhrif á nánasta samfélag okkar og kristin manneskja á að iðka trú sína í verki þar sem hún er stödd á lífsins leið í þeim hópi er hún tilheyrir. Horfa til Jesú Krists fyrirmyndar okkar og frelsara. Hans, sem er grundvöllur trúar okkar og lífsskoðunar. Skilaboð hans eru skýr í dag: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“

Lífið snýst að hluta til um það að finna sannleikann. Þarna bendir Jesús á leið til þess, enda sagði hann um sjálfan sig að hann væri vegurinn, sannleikurinn og lífið, eins og fram kemur í guðspjalli Jóhannesar. Jesús segir að sannleikurin muni gera okkur frjáls. Það eru góð tíðindi því frelsisþrá okkar kemur mjög snemma fram á lífsleiðinni. Við erum enn ómálga börn þegar hún kemur í ljós.

Lúther hugsaði líka um þetta hugtak, frelsið og skrifaði um það, um frelsi kristins manns. Um frelsið sagði hann: „Kristinn maður er frjáls herra allra hluta og engum undirgefinn. Kristinn maður er þjónustufús þjónn allra og öllum undirgefinn“

Þessi orð hans styðja við þá hugsun hans að hlutverk hins kristna manns í heiminum er að sýna trú sína í verki á sínum stað, í sinni stétt. Maðurinn er engum háður nemi Guði en einnig kallaður til þjónustu í heiminum og skilnings á högum annarra. Þess vegna getur kristin manneskja aldrei verið hlutlaus, því hún er kölluð til ábyrgðar. Okkur ber því er kristin erum að taka þátt í mótun samfélagsins og láta okkur varða heill og hag heildarinnar, jafnt sem einstaklinga. Þetta er brýn áminning á tímum þegar við viljum helst að fáir valdir taki af skarið og finni lausnir á öllum málum er varða líf okkar sem einstaklinga og þjóðar.

Það eru ekki bara kjörnir stjórnmálamenn eða forstjórar fyrirtækja sem eiga að láta alla hluti ganga vel fyrir sig í þjóðfélaginu og í fyrirtækinu sem þau stjórna. Það eru allir kallaðir til ábyrgðar og ætlast til þess að hver gæti að hlutverki sínu hver á sínum stað. Heimilishald gengur ekki vel í nútímaþjóðfélagi þar sem fyrirvinnur utan heimilis eru oftast allar vinnufærar hendur, nema allir leggi sig fram um að láta það ganga og hafi sín hlutverk og ræki þau af samviskusemi. Kirkjan er eins og stórt heimili. Heimili, þar sem allir hafa sitt hlutverk og sinna því af kostgæfni og ábyrgð. Lúther lagði áherslu á söfnuðinn, samfélag kristinna manna. Kirkjan er því í huga hans ekki stofnun heldur fólkið sem tilheyrir henni og samfélagið sem það á í nafni Jesú Krists. Hins vegar er það svo að allt hefur tilhneigingu til að mótast og hafa skipulag. Það á einnig við um kirkjuna. Til að tryggja það að allir eigi greiðan aðgang að boðun trúarinnar í orði og verki hefur orðið til skipulag sem nær til alls landsins. Þannig hafa allir íbúar þessa lands aðgang að Orðinu og sakramentunum og annarri þjónustu kirkjunnar hvar sem þau lifa og starfa.

Að mati Lúthers er Biblían hið endanlega kennivald, en ekki yfirvöld kirkjunnar eða þjóðfélagsins. Það skal því engan undra að hann lagði áherslu á að fólk gæti nálgast hana á sínu móðurmáli, lesið hana á sínu móðurmáli, hlustaða á Orðið á sínu móðurmáli. Eftir tvö ár eru 200 ár frá stofnun elsta félags hér á landi, Biblíufélagsins, sem hefur alla tíð lagt sig fram um að fólk eigi greiðan aðgang að Orði Guðs og séð til þess að Biblíurannsóknir og Biblíuþýðingar væru aðgengilegar hverjum samtíma. Síðasta heildarþýðing Biblíunnar á íslensku kom út árið 2007.

Endurnýjun byrjar í eigin ranni. Endurnýjun byrjar innan frá. Það á einnig við um kirkjuna og samfélagið. Ef við viljum nýtt Ísland eins og oft hefur verið talað um síðast liðin ár verðum við að byrja á því að vita hvað við viljum og á hverju við viljum byggja. Þjóðin kaus fyrir viku að hluta til um það og ljóst er að margir vilja að grunngildi kristinnar trúar móti áfram þjóðfélag okkar. Ef við sem einstaklingar tileinkum okkur þau ekki er þess ekki að vænta að þau móti samfélag okkar og séu grunnstoðir í mótun þess.

Jesús segir í guðspjalli dagsins: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“

Jesús sjálfur er sannleikurinn. Hann mun gera okkur frjáls ef við fylgjum honum. Að fylgja Jesú er að framganga í nafni hans og bindast sáttmála kærleika og fyrirgefninar. Að þekkja Jesú, fara eftir orði hans og líkjast honum í samskiptum við annað fólk. Að eiga samfélag við hann í bæn og lofgjörð. Að fara eftir Orði hans en ekki ótryggum mannasetningum. Við eigum að varast óréttlæti, kúgun og ofbeldi hvers konar í nafni trúarinnar. Sú trú er á villigötum og ekki frá Guði komin. Jesús barðist gegn slíku og það eigum við einnig að gera. Biðjum þess að trúin á Jesú Krist fái verkað í daglegu lífi okkar sem einstaklinga og þjóðar og móti kirkju okkar og samfélag.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen. Prédikun flutt í Dómkirkjunni 28. okt. 2012. Jer. 31:31-34; Róm. 3:21-28; Jóh. 8:31-36.