Rósavegur þjáningar

Rósavegur þjáningar

Rósir á altari, sem slúta fram fyrir altarisbrún og deyja. Altarið að öðru leyti nakið. Af hverju pína rósir á þessum heilaga og algóða stað – altarinu? Hvað er táknmál þeirra og hvernig varða þær okkar líf og aðstæður? Hugleiðing föstudagsins langa 2006 fer hér á eftir.

DSC00018Altarið strípað! Í lok skírdagsmessunnar voru altarismunir fjarlægðir og bornir úr kirkju til að minna okkur á tæmingu og þjáningu, sem Jesús Kristur leið. Þegar bikar, Biblía og stjakar voru á brott voru fimm rósir lagðar á altarið. Rósir á altari, rósir sem lúta höfði, slúta fram fyrir altarisbrún og deyja. Af hverju rósir, sem er meinað að njóta næringar á þessum heilaga og algóða stað – altarinu? Af hverju pína þær og hvað er táknmál þeirra?

Sár náttúrunnar

Heimspekingurinn Descartes áleit, að ekki væri hægt að meiða dýr, vegna þess að þau hefðu ekki sál. Við vitum þó, að dýr þjást stundum stórkostlega. Spekingurinn Simon Weil sagði: "Allt sem er minna en alheimur þjáist.” Þjáning er ekki aðeins í mannheimi heldur líka í náttúrunni. Jarðarkringlu okkar líður illa í sívaxandi mengun. Þegar náttúran er sködduð blæðir undan og það er líka síðusár Jesú Krists. Þegar blómstur lýtur lágt vegna mengunar og náttúruspjalla er salti stráð í sárið. Náttúran stynur allt til páskadags eilífðar, þegar dauðinn deyr og lífið lifir. Fyrsta rósin á altarinu, fyrsta sárið.

Sár mismunun

Röng skipting gæða veraldar, efnahagskerfi sem deila köku jarðarbarna misjafnt eru þyrnar í heimi manna, sem særa illa, sár Krists. Við þurfum að gera okkur grein fyrir, að raunpólitík er ekki svið utan gæsku Guðs. Guð hefur áhuga á, að bankar geri gott, að kapítalisminn hafi mennskt hjarta, að kaffiframleiðandinn í Afríku njóti ávaxta iðju sinnar. Þegar ríkir verða ríkari og fátækir fátækari fossblæðir úr sári Krists. Önnur rós, annað sár.

Mannréttindabrot eru sár

Í áttunda Davíðssálmi er vegsemd mannsins lofuð, Guð skapaði menn og gaf þeim, körlum og konum guðlegt gildi. Og þar eru gulir, kvíðnir, svartir, glaðir, slétthærðir, brúnir, stórir, samkynhneigðir, hávaxnir, hvítir, já allt þetta fólk, sem gistir þessa undursamlegu veröld. En þegar fólk er svipt gildi sínu, fær ekki að vera, er þaggað, kúgað, vanvirt og heft þá opnast síðusár Jesú. Úr því blæðir, Kristur tárast og lífsrósin líður. Þriðja sárið.

Misgerðir þínar

Ef lífvefnaður veraldar er líkami Krists skelfur hann þegar þú brýtur af þér. Hatursorð, illur hugur, óbeinn stuðningur við kúgunaröfl, laus hönd á heimili, hræðsla við að standa með þeim sem líða, sjálfhverfni eru allt misgerðir, að bregðast þeirri mennsku, sem Guð hefur andað okkur í brjóst. Sárið opnast alltaf þegar þú, ég, við bregðumst köllun okkar. Við erum ekki með einkaleyfi á að pína og meiða. Þegar við særum lítið barn meiðum við Guð. Fjórða sárið – misgerðir okkar.

Þú og Jesús

Þegar þú líður, þegar þú ert að bugast hið innra, þegar þú grætur ástvin þinn, þegar sjúkdómur fer eyðandi um líkama þinn, þegar vonleysið hellist yfir þig, þegar hræðslan og angistin vegna fólksins þíns er að lama þig – blæðir úr síðu Krists. Þú er ekki einn eða ein heldur í fangi Jesú, já hluti af líðan hans. Einn minna minnstu bræðra – systra – það var áhersla hans. Þú ert fimmta sárið hans.

Jesús þekkir leiðina

Sárin eru fleiri og þú kannt jafnvel að greina þau. En af hverju þjáning? Til eru guðfræðistefnur, sem tjá, að Guð sé valdur þjáningar til að skóla okkur til, eins og góður faðir vill með áraun efla barn til þroska. Þessa grein guðfræði mætti nefna guðfræði hrottans. Hún stenst ekki að mínu viti. Guð er hrein elska og berst gegn því, sem pínir og deyðir. Í þjáningunni er Guð á þínu bandi, stendur við hlið þér og berst með þér, stendur með þeim stofnunum og hreyfingum, sem vinna að vernd og bótum.

Sá Guð, sem kristinn maður játar, er ekki fjarlægt heimsafl, sem hefur aðeins huga við eðlisfræði vetrarbrauta eða skemmtir sér við astrónómíska ofurhvelli. Sá Guð gengur inn í kjör alls lífs, líka okkar sem gleðjumst, hlægjum, veikjumst, hrífumst, syrgjum og deyjum. Jesús gekk sína þjáningarleið, Guð í mannheimi, hrein elska í neti illskunnar. Og písl hans spannaði alla veru manns og heims. Hann leið andlega skelfingu, fann fyrir nístandi sársauka á líkama sínum, upplifði félagslega illsku, misnotkun valdsins, hvernig náttúrukraftar buguðust í líkama hans – í Jesú varð allt það, sem við göngum í gegnum í sjúkdómum, vonbrigðum, sorgum og dauða. Hann gekk í gegnum þetta allt. Því getur hann samsamað sig reynslu okkar, gengið með okkur þegar við erum strípuð lífsmættinum, þegar okkar sálarölturu eru nakin.

Rósaburður til lífs

Japanska skáldið, Miyasawa Kenji, benti á, að til að vinna sigur á þjáningu megum við ekki flýja hana heldur ættum að umfaðma hana og nýta síðan til lífsbóta. Í þessu er fólginn vísdómur. Miyasawa Kenji setti fram sláandi mynd í ljóði, sem hann samdi um rósaburð. Í minni samantekt og túlkun segir þar: Ímyndaðu þér, að þú haldir á fölnuðum, dauðum rósum. Þyrnarnir stinga og freistandi að sleppa þessum særandi blómum. En í stað þess að gefast upp gengurðu af stað og í átt til eldstæðisins nærri. Þú hendir rósavendinum í eldinn. Í þeim kviknar, eldurinn lifnar, vermir og lýsir.

Í þessu ferli, þessum rósaburði, birtast stig glímu okkar manna við þjáningu og sorg. Í fyrsta lagi að taka eða umfaðma það, sem særir. Það þýðir, að viðurkenna og nefna ógnar- eða sorgarefnið. Síðan tekur við ferðin í og með þjáningunni. Í þriðja lagi, og að lokum, tökum við ákvörðun og vörpum henni frá okkur í eldinn, sem brennir og eyðir, en við það njótum við hita og lífsorku. Arininn er tákn um lífsgæði og orkubúskap okkar.

Rósir á altari

Rósir á altari tjá, að Guð stendur með sköpun sinni, mönnum í veröld. Rósir eru mál elskunnar. Guð elskar þig og alla menn, kom sjálfur, gekk þína leið, með þér og fyrir þig. Í honum er boðskapur um von í aðkrepptum aðstæðum, ljós í myrkri.

Ef við lifum aðeins í þjáningunni, neti mannréttindabrota, samþykkjum efnahagslega mismunun, iðkum syndir okkar í hroka og forherðingu, styðjum þau sem meiða náttúruna - erum við föst í pínu föstudagsins langa. Hvaða líf er það að sætta sig við sárasóttina? Boðskapur kristninnar, hróp himinsins, er að dauðinn þarfnast lífs, að dauðinn dó en lífið lifir. Það er ekki hinsta verk okkar að grafa hin látnu heldur vænta þess, gleðjast yfir, að hann og hún lifa, rísa upp - vegna þess að Jesús vann dauðann, sárin gréru. Tómas fann fyrir þeim, þau voru ekki horfin, en gróin samt.

Rósirnar á altarinu eru allar síðusár Jesú. Og þú ert í þeim öllum. Þær deyja, það er mál þessa dags. En hvað svo? Gróa sárin, verða páskar? Kemur lausnin heims og þín? Lífið, sem Guð gefur er lausnamiðað. Guð leysir allt sjálfur, fór með rósirnar alla leið og eldurinn gýs upp í heimi. Lífið lifir – þú mátt lifa. Amen

Hugleiðing í Neskirkju, föstudaginn langa 2006