Við bíðum bjartra tíma

Við bíðum bjartra tíma

Við höfum það gott hér á landi miðað við margar aðrar þjóðir. Það er því óásættanlegt að allt fólk hér á landi skuli ekki búa við öryggi, húsaskjól og nægar vistir. Við berum okkur gjarnan saman við aðra.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Þó ekki sé komið nýtt ártal er nýtt ár hafið í kirkju okkar. Kirkjuárið hefst 1. sunnudag í aðventu eða jólaföstu eins og þetta fyrsta tímabil kirkjuársins var oftast nefnt hér á árum áður. Það er fátt sem bendir til þess í þjóðfélagi okkar að fasta sé framundan því jólafundir eru víða haldnir á aðventunni með miklum og góðum veitingum og margir nota þetta tíma ársins til að hittast og gleðjast saman.

Við höfum það gott hér á landi miðað við margar aðrar þjóðir. Það er því óásættanlegt að allt fólk hér á landi skuli ekki búa við öryggi, húsaskjól og nægar vistir. Við berum okkur gjarnan saman við aðra. Í samanburði við aðra höfum við það svona og svona eftir því hver samanburðurinn er. Hér á landi berum við okkur gjarnan saman við frændur okkar á norðurlöndunum og viljum lifa við svipuð lífsgæði og þeir.

En hvað eru lífsgæði? Heimili, fæða og klæði koma fyrst upp í hugann. Því næst auraráð til að kosta menntun, tómstundir og áhugamál. Jöfn réttindi þegnanna og jafn aðgangur að stofnunum og jafn aðgangur að menntun. Misskipting er því miður daglegt brauð í heimi hér, mismikil, bæði innanlands og þegar horft er á heiminn í heild.

Hafandi komið á slétturnar í suðurhluta Malawí og til norð-vesturhluta Kenýu og séð fólkið þar og heyrt af daglegu lífi þess, erum vandamál okkar hér á landi ekki mikil. Við höfum nóg vatn, við höfum vel byggð hús, við höfum aðgang að heilbrigðisþjónustu, skólum og samgöngutækjum. Við höfum góðar aðstæður til ræktunar og fæðuöflunar. Við búum við frið og getum valið um lífsleið. Samt líður okkur ekki alltaf vel og það eru margar ástæður fyrir því. Fyrsti sunnudagur í aðventu er eins og mörg undanfarin ár, upphafsdagur jólasöfnunar Hjálparstarfs Þjóðkirkjunnar. Hjálparstarfið styrkir einstaklinga, fjölskyldur og verkefni innanlands sem utan. Í ár er yfirskrift jólasöfnunarinnar „Hreint vatn breytir öllu“. Hafandi staðið við brunn í Malawí sem byggður er fyrir framlag sem fermingarbörn á Íslandi hafa safnað, er ég þess fullviss að hreint vatn á þessum slóðum gjörbreytir lífi fólks á stöðum sem þessum. Nú hvetur Hjálparstarfið okkur til að hjálpa þeim að hjálpa bræðrum okkar og systrum í Uganda og Eþíópíu sem ekki hafa aðgang að hreinu vatni nema ná í það nokkra tugi metra ofan í jörðina. Þar er það og ef borað er nógu djúpt fæst hreint vatn sem dælt er upp til daglegra nota.

Í fréttatilkynningu frá Hjálparstarfinu kemur fram að „Stærsti þátturinn í verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda og Eþíópíu er að byggja brunna, grafa vatnsþrær og reisa vatnssöfnunartanka. Þannig tryggjum við fólki aðgang að hreinu vatni. Markmið Hjálparstarfsins er að létta undir með fólki sem býr við fátækt og efla virðingu fyrir mannréttindum þeirra. Við höfum að leiðarljósi að starfið leiði til sjálfshjálpar, virkni og sjálfbærrar þróunar í samfélögunum sem við störfum með. Með aðgengi að hreinu vatni hefur allt líf möguleika á að vaxa og dafna. Fæðan verður næringarríkari með fjölbreyttari jarðyrkju og búfjárrækt. Hreinlæti eykst og það leiðir aftur til aukins heilbrigðis. Börn geta farið í skólann í stað þess að sækja vatn um langan veg og konum gefst tími til að afla tekna með því að selja afurðir. Allt leiðir þetta til virkari þátttöku fólks í samfélaginu og til sjálfbærrar þróunar samfélaga. Samt er það svo að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að nú hafi 748 milljónir jarðarbúa ekki aðgang að hreinu vatni og 2,5 milljarðar manna hafi ekki aðgang að salerni“. Fréttabréfið „Margt smátt“ fylgdi Fréttablaðinu í gær og þar má lesa athyglisverðar og fróðlegar upplýsingar. Allt starf Hjálparstarfs Kirkjunnar sem og Þjóðkirkjunnar er byggt á kristnum grunni. Trúin er ekki bara iðkuð með orðum hún er ekki síður iðkuð með verkum. Það er skylda okkar og muna eftir bræðrum okkar og systrum, hvort sem þau búa í næsta húsi við okkur eða í annarri heimsálfu. Við erum hluti af heiminum og nú til dags ættum við að vera meðvitraði um neyð náungans en nokkru sinni í sögu mannkynsins. Fréttir berast okkur daglega, jafnvel oft á dag. Á dögum Jesú voru aðrar aðstæður, en langanir og þrár fólksins þær sömu og allra manna fyrr og síðar. Við lifum og við hugsum um tilgang lífsins eins og allar kynslóðir á undan okkur. Að láta gott af sér leiða og gera gagn er tilfinning sem býr í brjósum manna. Þegar eitthvað bjátar á í lífi okkar finnst okkur gott að vita af samferðafólki okkar og þeim úrræðum sem það og þjóðfélagið býður.

Í dag var, eins og aðra sunnudaga lesið úr Gamla-testamentinu og Nýja-testamentinu sem og úr guðspjalli dagsins. Í dag, fyrsta sunnudag í aðventu fjölluðu textarnir um það sem koma skal, eitthvað nýtt er í vændum. Aðventa þýðir koma. Við undirbúum okkur fyrir þann sem koma skal. Drottin hefur gefið fyrirheit, sem rætist. Jesús segir í guðspjalli dagsins að orðin sem hann hafi lesið úr spádómsbók Jesaja hafi ræst í áheyrn viðstaddra. Jesús er sá sem sendur er til að „flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins“. „Andi Drottins er yfir mér“ segir Jesús líka. Í krafti Drottins er Jesús sendur og í krafti Drottins erum við send út í heiminn til að gera öðrum gott, hvort sem náungi okkar er nær eða fjær. Við fetum í sporin hans sem sendur var til að flytja gleðilegan boðskap og leysa fjötra ranglætis og fátæktar. Nýjir tímar fara í hönd þar sem miskunnsemi og góðvild eru leiðarljós á lífsins vegi. Nú, á þessum dimmasta tíma ársins horfum við til jólanna þar sem við minnumst fæðingar frelsarans, komu hans sem sagði: Ég er ljós heimsins. Örn Arnarson orti:

Þótt dauf sé dagsins skíma / og dimma okkur hjá, við bíðum bjartra tíma / því bráðum kemur sá sem ljós af ljósi gefur,/ nú lífið sigrað hefur! Við lofum hann Guðs son / sem gefur trú og von. Ljósin sem bætast við á aðventunni allt í kringum okkur, er tákn vonarinnar sem býr í brjóstum manna. Vonarinnar um lausnir í erfiðum málum eða veikindum og von um áframhaldandi gott líf hjá þeim sem búa ekki við erfið kjör. Við Íslendingar vonum að eldgosið í Holuhrauni valdi ekki skaða á landi eða hjá fólki og við vonum að betri tímar séu framundan í efnahagsmálum okkar. Kristin trú leyfir okkur að lifa í voninni. Hjálpar okkur að takast á við erfiðleika og hættur. Hjálpar okkur að treysta því að allt fari vel að lokum og gefur okkur kraftinn til að halda áfram þrátt fyrir mótbárur og erfiðleika. Jesús sagði lærisveinum sínum að hann myndi ekki skilja þá eftir eina þegar hann væri farinn frá þeim. Hann sendi þeim andann heilaga, sem hann nefndi líka hjálparann og huggarann. Við megum treysta því að andinn heilagi er raunverulegur í heimi hér og hjálpar okkur að vinna gegn böli og óréttlæti. Hann kemur til þeirra sem eru órétti beittir. Hann kemur til þeirra sem búa við fátækt, kvíða, veikindi, vonleysi, ráðaleysi og vansæld. Hann kemur með fólki og í fólki sem kallað er til að hjálpa og líkna. Hjálparstarf kirkjunnar vinnur að því að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Það er gert með hjálp okkar allra og þess vegna er hjálparstarfið að minna okkur á þau sem þurfa hjálp til sjálfsbjargar. Við viljum öll vera sjálfbjarga. Það kemur snemma fram hjá börnum að þau vilja hjálpa sér sjálf og vera ekki uppi á aðra komin. Þannig er það líka hjá fullorðnu fólki. Við fullorðna fólkið viljum vera fær um að vera til staðar fyrir þau sem þurfa á okkur að halda. Nýtt kirkjuár er hafið. Úr spádómsbók Jesaja las Jesús um þann sem koma á og muni kunngjöra náðarár Drottins. Í honum rættust þessi orð. Hann kunngerði náðarár Drottins. Kunngerði að nýir tímar væru framundan. Kunngerði að við getum bætt heiminn, gert hann betri og réttlátari með hjálp andans, hjálparans og huggarans sem hann sendi okkur. Trúin á Krist gefur okkur kraftinn til að halda áfram, til að takast á við erfiðleika, sjá bjarta tíma framundan, líta á neyð náungans sem tækifæri til að láta gott af okkur leiða og til að sjá og þakka fyrir allt það góða sem lífið færir okkur. Njótum aðventunnar og undirbúum okkur fyrir hátíðina sem í hönd fer. Aðventan gefur okkur tækifæri til að hugsa um það sem gefur lífi okkar gildi og hvers vegna við þurfum á Jesú að halda og boðskap hans. Tækifæri til að hugsa inn á við um leið og við undirbúum komu frelsarans í heiminn á heimili okkar og í umhverfi okkar. Guð gefi okkur nýtt náðarár, í Jesú nafni. Amen. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.