Hin virka umhyggja

Hin virka umhyggja

Í huga Jesú er kærleikur ekki fólginn í orðum einum heldur í verki og sannleika. Hann færir boðið úr upphæðum hugsjónanna og niður í dimman veruleika hversdagsins. Í orðum hans og verkum sjáum við það svo skýrt hvernig boðorð kærleikans birtist í mannlegu lífi og veruleika.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
25. apríl 2010

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands

Gullna reglan þekkist í flestum trúarbrögðum og heimspekikerfum heims, en alls staðar orðuð neikvætt: „Gerðu ekki öðrum það sem þú vildir ekki þola.“ Grísku heimspekingarnir kenndu svo, og einnig rabbíar Gyðinga, já og jafnvel í Indlandi og Kína má finna hina neikvæðu mynd gullnu reglunnar: Þú skalt bara forðast að troða náunganum um tær. Það er hins vegar umhugsunarvert að í munni Jesú er reglan sett fram á jákvæðan hátt sem krafa um virka breytni. Hér er ekki aðeins spurningin að forðast og sneiða hjá náunganum, og sýna fyllstu varkárni, heldur hafa frumkvæði til góðs, auðsýna það viðmót og hjálp sem maður vildi njóta af hálfu annarra. „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra.“ Það sýnir hve Jesús leggur mikið upp úr mannlegum samskiptum. Siðfræði Jesú er samskipta-siðfræði. Farísearnir og fræðimenn töldu hlýðni við forskriftirnar nægja. Jesús leggur þar á móti áherslu á að Guð setti lögmálið mannsins vegna, í þágu lífs og auðnu manns og heims. Það er sett lífinu til varnar en ekki til að kúga það og kremja, þetta líf sem er svo auðsært og brothætt.

Jesús leggur áherslu á að lögmálið og spámennirnir m.ö.o. boðskapur Biblíunnar, boðskapur Guðs orðs, sé til að rjúfa þá firringu og einsemd sem syndin hefur áskapað manninum og leiða mann til samfundar við Guð og náunga sinn. Enginn lifir sjálfum sér. Viðmót mitt vekur andsvar hjá öðrum, fas og framkoma bera oft á tíðum skýrari skilaboð en orðin. Allt sem þú vilt njóta af hálfu annarra skaltu því auðsýna þeim.

Ætlast ég til annars af öðrum að að fá að vera í friði fyrir þeim? Nægir mér að láta náungann í friði? Það er fullkomlega rétt og siðferðilega verjanleg afstaða, og út af fyrir sig alltaf æskileg samfélaginu. En hún nægir ekki að skilningi Jesú Krists. Þar er ekki nóg að fylgja lögum og reglum. Fagnaðarerindi Jesú vill tengja fólk saman í gagnkvæm samskipti sem hlúi að lífinu og því sem lífið eflir og bætir. Dæmisagan um miskunnsama Samverjann (Lúk. 10.25-37) er áhrifarík útlegging þess: presturinn og levítinn sem litu undan og gengu framhjá, jafnvel í hlýðni við forskriftir og lög, og Samverjinn, sá sem hlýddi kröfu hjartans sem knúði hann til að bregðast við til hjálpar. Í huga Jesú er kærleikur ekki fólginn í orðum einum heldur í verki og sannleika. Hann færir boðið úr upphæðum hugsjónanna og niður í dimman veruleika hversdagsins. Í orðum hans og verkum sjáum við það svo skýrt hvernig boðorð kærleikans birtist í mannlegu lífi og veruleika. Þar sjáum við hversdagsleg fyrirbæri eins og tryggð og trúmennsku í hinu litla, hjálpfýsi og örlæti, þar sem ekkert fæst að launum fyrir nema óþægindin og erfiðið. Og svo þetta, sem Jesús segir um þá snauðu, hungruðu, um fangann: „Það allt sem þér gerðuð einu minna minnstu systkina ... það hafið þér gert mér.” (Matt.25. 40) Kærleikur er að sjá Jesú í náunganum, og elska náungann eins og Jesú. Tvíþætta kærleiksboðorðið setur Jesús fram sem samantekt lögmálsins og spámannanna, það er alls sem ritningin kennir: „Elska skalt þú Drottinn Guð þinn ...... og náunga þinn eins og sjálfan þig. “ (Matt.22.37n) Það má reyndar þýða þetta „eins og sjálfan þig” með: „hann er eins og þú”. Það gefur þessu svolítið annan keim. Náungi þinn er eins og þú, manneskja eins og þú. Það er svo auðvelt að horfa fram hjá því. Það er auðvelt að afgreiða náungann með merkimiðum og flokkunarkerfum: „Þetta eru bara ….“ Það er enginn hörgull á merkimiðunum.

Og ekki er síður auðvelt að afgreiða neyð náungans með alls konar skýringum. „Þetta er bara sjálfsskaparvíti,“ „þetta er bara karma,“„þetta er bara…“ osfrv. Kristur gefur ekki skýringar við ráðgátu þjáningarinnar né finnur henni málsbætur, en hann nemur staðar hjá þeim þjáða og reisir hinn lamaða og kennir okkur að gera slíkt hið sama.

Gullna reglan minnir okkur á að náungakærleikur er ekki aðeins tilfinningar, heldur líka viljaákvörðun. Tilfinningar okkar stjórnast að miklu leyti af grundvallar stefnumörkun persónuleikans. Þess vegna er mikilvægt að ala börn upp við traust viðmið og reglur, sem stuðli að sjálfsstjórn og tillitssemi, og svo hitt að temja sér ævina alla kærleika og miskunnsemi, tillitsemi og háttvísi og aðrar dyggðir í umgengni og samskiptum við aðra til að yfirvinna þyngdarlögmál sjálfselskunnar að hver sé sjálfum sér næstur. Óðurinn um kærleikann í 1. Kor. 13 er mikilvæg áminning um það sem mestu varðar í lífi og breytni, „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ Og í brjósti manns býr samviskan og minnir á kröfuna sem rituð er á hjarta manns, kröfuna að elska, virða, koma eins fram við aðra og maður vildi sjálfur njóta. Það varðar miklu að varðveita rödd samviskunnar og fylgja henni.

Gildi, siðgæði, boð og breytni

I: „Ég er á móti boðum og bönnum“ II: Syndin III: Hin góða regla skaparans IV: Siðgæði V: Hin virka umhyggja VI: Hvert er hlutverk kirkjunnar?