Tímar hrörnunar

Tímar hrörnunar

Við lifum jú á tímum hrörnunar. Líftími þess sem við neytum og sjáum er sjaldnast langur. Tækin bila, gott ef það er ekki innbyggt í þau að þau missa þrótt og mátt innan ákveðins tíma.

Vorboðarnir björtu setja svip sinn á kirkjur landsins um þetta leyti árs. Fermingar standa yfir og hópar hvítklæddra barna ganga fram fyrir altarið.

Hugmyndir sem endast

Að fornum sið velja þau sér ritningarvers og þar kennir ýmissa grasa. Sum gefa sér greinilega tíma til að finna setningar sem falla vel að réttlætiskennd þeirra, smekk og hugmyndinni um hið góða líf. Önnur skima yfir valkostina og velja svo einstaka orð og hugtök sem tala til þeirra öðrum fremur. Svo eru dæmi um að börnin kjósi texta sem foreldrar eða afar og ömmur völdu á sínum tíma. Mér finnst þetta reyndar allt jafn merkilegt og hvet þau til að gleyma ekki þessum versum sem þau hafa valið og eiga þau einhvers staðar á blaði.

Til áréttingar bendi ég þeim á það hversu gamlir þessir ritningarstaðir eru. Það er merkilegt að lengst uppi á Íslandi árþúsundum eftir að texti var saminn, skuli unglingar brjóta heilann um hann. Þetta eru varanleg gæði, nefni ég og ekkert sem bendir til þess að þau renni út á tíma eins og mjólkin í ísskápnum eða brandarar á samfélagsmiðlum. Já, og flest það sem fer um hendur okkar, kemur okkur fyrir sjónir eða er haldið að okkur.

Tímar hrörnunar

Við lifum jú á tímum hrörnunar. Líftími þess sem við neytum og sjáum er sjaldnast langur. Tækin bila, gott ef það er ekki innbyggt í þau að þau missa þrótt og mátt innan ákveðins tíma. Sorgarsögur úr viðskiptalífinu segja frá framleiðendum sem vönduðu sig um of og kaupendur þurfu ekki að endurnýja fyrr en seint og um síðir. Þá fylltust allar vörugeymslur! Svo er það hin huglæga úrelding. Við fáum í sífellu fréttir um að eitthvað nýtt og betra sé í vændum svo við smám saman missum áhugann á því gamla. Það verður hálfgerð sérviska að halda því til haga.

Hagkerfið byggir á þessu. Það er þessi skipulega hnignun sem tryggir að færiböndin gangi áfram út um allan heim og ljósin logi í búðunum. Já, við þurfum mögulega svolítið átak hugans til að velta því fyrir okkur sem lifir og endist, því sem gleymist ekki og hverfur ekki í sortann undir eins og ný tilboð berast.

Flest er skammlíft á okkar dögum og yfir því öllu trónir hið æðsta boðorð: „skemmtum okkur.“ Ekkert virðist geta haggað þeirri möntru og tilskipun. Eða má ekki annars hæðast að hverju sem er? Ef einhverjar skorður eru settar þá rísa upp prelátar okkar tíma og ráðast gegn þeim sem kemur hópum til varnar sem eiga undir högg að sækja. Þó sýnir sagan okkur að háð og niðrandi tal er oft undanfari ódæðisverka.

Skemmtunin vinnur að sama marki og hin skipulega hrörnun. Gagnsæ íslenskan lætur ekki að sér hæða – skemmtunin gerir stundirnar skemmri. Þær fæðast og deyja enn hraðar en venjulega. Þá veltum við heldur ekki fyrir okkur, drepleiðinlegum staðreyndum heimsins. Leiðindin aftur á móti láta stundirnar líða áfram, hægt og silalega og eins og við séum strönduð á eyðiskeri og sjórinn er allt um kring.

Gerum okkur engar grillur. Við í kirkjunni erum sama marki brennd og aðrir. Allt er skemmtilegt, útfarir eru þar ekki undanskildar. Helgir leiðindardagar eru hluti hins liðna. Föstudagurinn langi líður ekki hægar en aðrir dagar. Þegar við á kirkjuþingi fengum frumvarp í hendurnar um afnám helgifriðar kom hik á fólk. Hver vill rísa gegn þessu æðsta boðorði samtímans? Þó skal tekið fram að stuðningur við frumvarpið helgaðist öðru fremur að því að í samfélagi þar sem greinte á milli ríkis og kirkju á ríkisvaldið ekki að ákveða hvaða daga kirkjan á að halda í heiðri.

En manneskjan þarf grið og jörðin okkar líka: „Hvíldardagurinn er mannsins vegna en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins,“ sagði frelsarinn og þar var tónninn gefinn til framtíðar þar sem mikilvægustu gæði manneskjunnar byggðu á því að lífið allt væri í jafnvægi. Þar væri helst engu ofaukið og einskis vant.

Það er tímanna tákn að verkalýðsforystan skilur mikilvægi þess að hægja á hraða færibandanna. Á umbótatímum stóð kirkjan við hlið alþýðunnar og í sameiningu unnu þessir hópar að því að verkalýðurinn fékk lögboðna frídaga sem áttu sér flestir rætur í kristninni.

Með sama hætti hefur baráttukonan Greta Thunberg hvatt börn um allan heim til að skrópa í skólanum. Tilgangurinn er að mótmæla því hvernig komið er fyrir móður jörð og hversu skeytingarlaust við fullorðna fólkið erum þegar kemur að umhverfismálum. Skammsýni okkar í þeim efnum á sér vart nokkra hliðstæðu í sögunni þegar. Er við öðru að búast í menningu sem byggir á því að ekkert endist og vari?

Blessunarlega verður vart mótvægis og við vonum að það nái breyta því hvernig við hugsum og erum. Greta er glögg og hún spyr hvers vegna við ættum að halda áfram þessum eltingaleik ef framtíðin er jafn óviss og myrk og spár benda til. Nei, það þarf að bregðast við þeirri hrörnun og því sem skemmir og gerir stundirnar skemmri og mögulega framtíðina líka.

Hið skamma og hið eilífa

Textar pálmasunnudags fjalla um hið skamma og hið eilífa. Þeir hampa því sem endist og lifir áfram. Spámaðurinn Jesaja talar um kærleika Guðs sem stenst allan ágang tímans. Hvernig fær Guð gleymt þeim sem Guð elskar?

Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.

Hér er ekki ort til lofs og dýrðar því sem endist skammt. Nei, önnur gæði eru til umfjöllunar – sjálf hamingjan, farsældin og það sem við köllum blessun hér í kirkjunni. Þannig má lýsa tilgangsríku lífi. Þar er ekki tómarúm sem sífellt þarf að fylla með einhverju því sem styttir stundirnar. Nei, þar ríkir jafnvægi þar sem fólk lifir í sátt við sinn innri mann og umhverfi sitt. Spámaðurinn líkir huga Guðs til okkar við samband móður og brjóstmylkings. Víst mættum við leiða meir hugann að þeim skyldum sem við berum gagnvart börnum okkar og þeim heimi sem við færum þeim.

Smyrslin dýru

Guðspjall þessa pálmasunnudags er í senn flækjusaga og lykilsaga sem við getum kallað svo. Við getum auðveldlega skilið afstöðu þeirra sem hneyksluðust á því þegar konan hellti rándýrum smyrslum yfir höfuð Jesú. Fjármunina hefði víst má nota á skilvirkari hátt. Jesús kemur henni til varnar og þar horfir hann til ókominna daga og allrar framtíðar. Framundan voru stærstu atburðir hjálpræðissögunnar. Litlu síðar áttu konurnar eftir að smyrja líkama Jesú eftir að hann hafði verið tekinn niður af krossinum. Þessi texti kallast á við þá frásögn.

Guðspjallið fjallar ekki um græðgi í þeirri mynd sem okkar kynslóðir þekkja svo vel og hefur skapað áður óþekkta vá í heiminum. Nei, það snýst um hið óforgengilega. Það bendir það fram til atburða sem við minnumst á komandi dögum þar sem við horfum fram til hinna æðstu gilda.

„Sannlega segi ég ykkur: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“

Textar dagsins eru óður til þess sem varir og lifir áfram hvað sem á dynur. Enn ræðum við gjörð þessarar konu sem vakti svo blendnar tilfinningar að því ógleymdu að þarna var einstaklingur af því kyni skyndilega kominn í sjálfa kviku hjálpræðisfrásagnarinnar. Það lýsir vel þeirri byltingu sem fagnaðarerindið boðaði, þótt önnur öfl ættu eftir að tefja það og draga í lengstu lög að hún ætti eftir að ná fullnustu sinni.

Vorboðarnir í kirkjunni

Vorboðarnir í kirkjunni, fermingarbörnin, eru stundum vænd um að fermast fyrir gjafirnar. Það var líka sagt þegar ég fermdist og ég skal fúslega játa að ég gladdist mjög þegar pakkarnir birtust: Lundia hillusamstæðan og hnattlíkanið að ógleymdum Atlasinum, svefnpokanum og heilum sex þúsund krónum í peningum. Ég er samt ekki viss um að þetta sé börnum nútímans svo mikið hjartans mál. Þau eiga jú æði mikið nú þegar, eða það sýnist manni. Það er ekki eins mikið kappsmál að nálgast eitthvað nýtt eins og áður var.

Mögulega eru þau líka farin að sjá í gegnum mistur þeirrar menningar sem þau eru hluti af. Mögulega leitar hugur þeirra í átt til hins sígilda og eilífa, þess mun endast þótt afurðir okkar séu komnar á öskuhauga, eins og þeim er ætlað að gera. Við vonum að þau fylgi kalli nýrra tíma og rísi upp gegn samfélagi sem hampar hinu forgengilega en forðast það sem endist og lifir. Ritningarversin þeirra sem boða réttlæti, huggun, kærleika, gott mannorð og ærlegt líf gætu nýst þeim vel þeirri vegferð.