Far þú í friði og ver heil meina þinna

Far þú í friði og ver heil meina þinna

Talíþa kúm, rís þú upp, þú sem þjáist vegna kúgunar, þú sem ert í fjötrum. Far þú í friði, þú sem finnur lífið renna þér úr greipum og ert við það að örmagnast vegna eigin framkomu eða annarra. Ver heil meina þinna, þú dóttir Guðs sem hefur mátt þola niðurlægingu, misnotkun og áreitni.

Flutt 21. janúar 2018 · Grensáskirkja (útvarpað á Rás 1)

Guð vonar og huggunar, upprisa þín hefur sigrað ofbeldi krossins. Ger þú okkur, fólkið þitt, að sýnilegu tákni þess að ofbeldi heimsins mun lúta í lægra haldi. Þess biðjum við, í nafni hins upprisna, Jesú Krists. Amen.

Í efninu sem kirkjurnar á svæði Karíbahafsins senda frá sér í tilefni alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar þetta árið er mikið talað um hægri hönd Guðs. Þarna er verið að vísa í Davíðssálm 118 og aðra Mósebók, 15. kafla sem við heyrðum lesið úr áðan. Sjötta versið er svona:
Hægri hönd þín, Drottinn,
hefur gert sig dýrlega með afli,
hægri hönd þín, Drottinn,
kremur fjandmenn.

Þetta er hluti af sigursöng Mirjamar og Móse sem fögnuðu því með fólkinu sínu að þau voru laus undan þrældóminum í Egyptalandi. Hægri hönd Guðs táknar þarna styrk og dýrð Guðs sem frelsar undan hvers kyns kúgun. Sú hugsun hefur sérstaka merkingu fyrir trúsystkini okkar sem býr við Karíbahafið því þau þjást enn vegna ofbeldis evrópsku nýlenduherranna sem bæði murkuðu lífið úr heimafólkinu með vinnukúgun og fluttu inn þræla frá Afríku, Kína og Indlandi. Afleiðingar þessa inngrips í daglegt líf fólksins á svæðinu eru enn áþreifanlegar. Óstöðugleiki í efnahag og ranglát löggjöf sem rekja má til nýlenduvaldsins ýtir undir mansal og ofbeldi og fólkið líður vegna fátæktar, skulda og ýmis konar fíknar. Særð þjóðarsál eyjanna við Karíbahaf er orsök margvíslegra félagslegra vandamála sem birtast bæði inni á heimilunum og á götum úti.

Söngur þeirra systkina, Móse og Mirjamar, er lofsöngur til Guðs sem gefur sigur yfir kúgun. Okkur finnst kannski ekkert fallegt að tala um að hægri hönd Drottins kremji fjandmenn: „Hestum og riddurum steypti hann í hafið.“ Þegar jafningjar deila og erfitt að skera úr um hvor hafi rétt fyrir sér er auðvitað út í hött að tala um að Guð haldi með öðrum þeirra á kostnað hins. En þegar valdinu er svo ranglátlega skipt sem raun ber vitni ætti sú hugsun að Guð styðji annan aðilan fram yfir hinn ekki að vekja hneykslun. Það liggur eiginlega í hlutarins eðli að Guð friðar, jöfnuðar, vonar og kærleika sé á bandi þeirra sem þjást vegna ofríkis og kúgunar.
Kirkjufeður og kirkjumæður liðinna alda sáu mörg hver frásöguna af björgun Ísraels við Sefhafið eða Rauðahafið sem myndlíkingu yfir andlegt líf. Til dæmis sá Ágústínus synd en ekki Egypta þar sem rætt er um fjandmennina sem steypt var í hafið. Syndinni þarf að sökkva í sæ, myrku hliðum mannlífsins sem eiga það til að yfirtaka líf okkar, þarf að drekkja í vatni skírnarinnar sem nefna má Rauðahafið sem tilvísun í helgandi blóð Jesú Krists, segir Ágústínus.

Sagan er því hvatning til okkar um að gefa ekki upp vonina, um að halda út, gefast ekki upp heldur lofa Guð fyrir sigur yfir öllu því sem vill fjötra okkur og halda okkur niðri. Í því skyni er samfélagið mikilvægt, samfélagið okkar í kirkjunni, kirkju Krists, hvernig sem við skilgreinum okkur trúfræðilega og skipulagslega. Ísraelsþjóðin sá sjálfa sig sem þjóð Guðs og sótti þangað öfluga sjálfsmynd sem kom best í ljós þegar fólkið stóð saman. Þannig erum við líka, kristið fólk, sterkari saman, öflugri í baráttunni gegn niðurrifsöflum, valdi sem brýtur niður, kúgar og vanvirðir. Því syngjum við saman sigursöng, lofgjörð til Guðs sem eflir okkur og nærir til góðra verka og virðingar hvert fyrir öðru. Og „andinn hjálpar okkur í veikleika okkar,“ (Róm 8.26).

Guðspjallið sem karabísku systkini okkar hafa valið fyrir þessa guðsþjónustu og lesið er víða um heim í dag ásamt bænunum sem hér eru fluttar í dag í íslenskri þýðingu fjallar um tvær konur. Önnur er ung stúlka, tólf ára, og pabbi hennar talar fyrir hana þar sem hún er að dauða komin. Hin er eldri, langveik vegna blóðláta. Lífið bókstaflega streymdi frá henni, lífskrafturinn þvarr. Önnur er við upphaf kynþroskaskeiðsins, hin ef til vill undir lok frjósemisskeiðs.

Báðar eru kallaðar „dætur“. Hún sem er tólf ára er skilgreind sem dóttir foreldra sinna en þá eldri nefnir Jesús sjálfur dóttur: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og ver heil meina þinna“ (Mark 5.34). Það er heiðurstitill að vera dóttir Guðs, virðingarheiti. Dætur og synir Guðs erum við, frjálsborin, virðingarverð, kölluð til heilbrigðis og reisnar.

En það verður svo margt á vegi okkar, svo margt sem fjötrar og rænir okkur lífsþróttinum. Við gerumst sjálf sek um að niðurlægja aðra, stundum óvart í hvatvísi okkar og hugsunarleysi, stundum af ásettu ráði. Og sama gildir um annað fólk. Þau vaða yfir mörkin okkar, gera lítið úr okkur, áreita okkur og meiða á ýmsan hátt.

Nú erum við byrjuð að tala um slíkt atferli meira en nokkru sinni fyrr, þökk sé Me-too byltingunni. Konur í prestastétt taka undir með kynsystrum sínum í öðrum stéttum og birtu síðast liðinn mánudag yfirlýsingu sína, undirritaða af langstærstum hluta vígðra kvenna, og með fylgdu rúmlega 60 sögur. Þetta eru sögur af dónalegum og niðrandi athugasemdum bæði karla og annarra kvenna, ósæmilegri ástleitni kvæntra manna við giftar starfssystur sínar og líkamlegri áreitni bæði sóknarnefndarmanna og karlkyns presta. Okkar sögur, kvenna í prestastétt, eiga það sammerkt með sögum annarra kvenna að komið hefur verið fram við okkur af óvirðingu sem sæmir ekki kristnu fólki.

Því hvað sem öllu líður verðum við að gera þær kröfur til okkar sjálfra sem dætra og sona Guðs að við sýnum öllum sömu virðingu og við eigum sjálf skilið og megum fara fram á. Ofbeldi og kúgun í hvaða mynd sem er á ekki að líðast innan safnaðanna. Við eigum að vera fólk sem leitar friðar og leggur stund á hann, eins og segir í einum ritningartextanum (Sálm 34.15) fyrir fjórða dag alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar. Leiðtogi okkar er friðarhöfðinginn (Jes 9.5) Jesús Kristur sem segir við okkur: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur“ (Jóh 14.27); Jesús Kristur, sem er hirðir okkar og leiðir okkur til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum okkar (OpJóh 7.17).

„Talíþa kúm!“ sagði Frelsarinn við stúlkuna. „Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!“ (Mark 5.41). Og hún sem var í raun dáin, reis upp og fór að ganga um. „Far þú í friði og ver heil meina þinna“ sagði hann við konuna með blóðlátin sem hafði orðið að þola svo margt og kosta öllu til til að halda lífi.

Talíþa kúm, rís þú upp, þú sem þjáist vegna kúgunar, þú sem ert í fjötrum. Far þú í friði, þú sem finnur lífið renna þér úr greipum og ert við það að örmagnast vegna eigin framkomu eða annarra. Ver heil meina þinna, þú dóttir Guðs sem hefur mátt þola niðurlægingu, misnotkun og áreitni.

Kom, Jesús og legg hendur yfir okkur að við læknumst og lifum. Kom.