Þýðing jólanna

Þýðing jólanna

Öll þráum við frið. Þess vegna á boðskapur jóla svo rík ítök í okkur öllum. Söngur englanna um frið á jörðu snertir hjartastrengi okkar af því að innst inni þráum við heim þar sem vígvélar og morðtól eru ekki lengur til, þar sem ofbeldi og yfirgangur líðst ekki, þar sem réttlætið ríkir, lífið fagnar. Um þessar mundir virðist það fjarlægara en oft áður.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
21. desember 2011

JólaskrautÉg er jólabarn. Ég hlakka til jólanna, elska aðventu og jól og allt sem því tengist. Líka ösina í búðunum og streituna við að koma jólapóstinum frá sér í tæka tíð. Það þykir ef til vill ekki við hæfi að viðurkenna það, en ég geri það samt, það er eftirvæntingin og hátíðaþröngin, þessi almenna löngun að gleðjast og gleðja sem alls staðar ríkir sem mér finnst kátínu ómótstæðileg. Ég hef gaman að jólasveinum og að bregða á leik í ærslum og. Þó að stundum finnist mér þetta verða full fyrirferðarmikið í samfélaginu, vitleysisgangurinn við grýlu og leppalúðafarganið má síst útrýma því blíða og fagra og barnslega tæra sem dylst í kjarna jólanna og jólaguðspjallið tjáir.

Ég elska aðventusálmana, aðventuljósin, viskuna sem býr að baki því að búa huga og hjarta undir komu frelsarans. Ég elska bökunarilminn og stússið. Ég elska jólatónlistina og söngvana, tónleikana þar sem svo ótal margir leggja fram góða krafta til að fæta okkur hinum jólastemningu og gleði. Og jólakveðjan: „Gleðileg jól!“ og brosið sem henni fylgir er óviðjafnanlegt.

Ég er þakklátur fyrir jólaminningarnar um bernskujólin. Ég finn mig hverfa aftur til þeirra í auknum mæli þegar árin líða og þau eru horfin sem kveiktu jólaljósin og sögðu jólasöguna og sungu jólaljóð bernskunnar. Jólin eru ekki síst tími afturhvarfs til minninga, upplifana, reynslu og nándar bernskunnar. Og við reynum að rifja upp, og tengja á ný vináttubönd og ástar. Við reynum að finna barnið í okkur sjálfum og skynja birtuna í heimi sakleysisins, trúartraustsins og hinnar fölskvalausu eftirvæntingar og gleði sem við áttum eða þráðum alla vega sem börn.

Umfram allt elska ég það þegar jólahátíðin gengur í garð, þegar verður heilagt á heimilum og samfélagi. Ég elska þessa einstæðu töfrastund sem aðfangadagskvöldið er á Íslandi og helgin leggst yfir, „engill framhjá fer….“ Og þegar orð jólaguðspjallsins hljóma: „En það bar til um þessar mundir….“ Það er eitthvað við þetta allt sem er einstakt og engu líkt.

Ég var beðinn að svara því hver þýðing jólanna væri. Jólin slá marga og ólíka strengi, harpa þeirra hefur vítt tónsvið og djúpan hljómbotn, eins og ég hef tæpt á.

Einn áleitinn strengur í aðdraganda jólanna er hinn siðferðislegi, eitt meginstef jólaboðskaparins er samstaðan með þeim fátæku, þeim sem heimurinn lokar einatt á og úthýsir. Hjartakuldi og kaldhæðni manna hrópar upp í himininn og hryggir hjarta Guðs. Jesús Kristur sem fæddist utangarðs, í fjárhúsinu í Betlehem, tók sér stöðu með þeim þjáðu og snauðu, og segir:„Það sem þið gerið einum af þessum mínum minnstu systkinum, það gerið þið mér.“ Viðbrögð við ákalli Hjálparstarfs kirkjunnar og annarra líknarsamtaka á aðventu sýna að margir vilja leggja sitt að mörkum til að hjálpa fátækum, heima og erlendis. Jólin bregða upp þjóðfélagssýn og lífsskoðun þar sem hagur hinna varnalausu og snauðu er í fókus. Sjaldan var þýðingarmeira en einmitt nú að halda því á lofti.

Öll þráum við frið. Þess vegna á boðskapur jóla svo rík ítök í okkur öllum. Söngur englanna um frið á jörðu snertir hjartastrengi okkar af því að innst inni þráum við heim þar sem vígvélar og morðtól eru ekki lengur til, þar sem ofbeldi og yfirgangur líðst ekki, þar sem réttlætið ríkir, lífið fagnar. Um þessar mundir virðist það fjarlægara en oft áður.

Boðskapur jólanna er boð um frið ekki aðeins þann innri frið hjarta og sálar sem Guð einn megnar að gefa. Heldur frið milli manna og þjóða, kynþátta og trúarbragða, frið og sátt í samskiptum fólks hér og nú. Sjaldan var þýðingarmeira en einmitt nú að koma þeim boðskap á framfæri.

Frásagan af barninu í jötunni, mynd hirðanna sem krjúpa við jötuna, og lömbin, uxinn og asninn þar hjá, þetta snertir djúpan hjartastreng. Vistkreppan sem sóun og rányrkja okkar stuðlar ekki síst að er einhver mesta vá sem blasir við lífinu á jörðu. Það hryggir hjarta Guðs. Og hvað getum við gert? Við getum látið gott af okkur leiða með því að temja okkur hugarfar hófsemi og hógværðar. Jólaguðspjallið bregður upp þeirri sýn, þýðingarmeiri nú en nokkru sinni: virðing og lotning fyrir öllu sem lifir.

Sem kristinn maður sem elska ég hina kristnu sögu, jólaguðspjallið og þá andlegu merkingu sem það hefur. Mér mun ekki endast ævin til að kafa ómælisdjúp þeirrar visku, en einfaldleiki hinnar barnslega tæru sögu um Betlehem er ætíð jafn áleitinn og hrífandi.

Í mínum huga er hinn trúarlegi strengur ómissandi, fagnaðarboðin um frelsarann, návist Guðs í þessum friðvana heimi okkar. Þegar mörgum finnst Guð svo fjarri þar sem neyðin er yfir og allt um kring og þegar sorgin ber að dyrum. En jólin fullyrða að einmitt þar sé frelsarinn. Jatan var fyrsta hæli hans á jörðu, og krossinn hið hinsta. Hér þjáist Guð með okkur, finnur til með okkur í myrkri okkar, sorg og vonleysi. Guð er að verki í þessum sundraða særða heimi, og leitar hugar þíns og hjarta, munns og handa að leiða málefni friðar, frelsis, sannleika og umhyggju til sigurs. Í ljósum og hljómum og helgu orði jólanna er Kristur að kalla á þig, á þín viðbrögð, þína trú og kærleika. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Þetta er hið kristna svar við spurningunni um þýðingu jólanna.

Það er frekar ósennilegt að við fáum heimsókn engla eða heyrum himneska hljóma. Í okkar tilviki er ekkert öruggt, engin skínandi stjarna, engir ótvítræðar draumsýnir sem fullvissa okkur, hughreysta eða vara við. Hirðunum á Betlehemsvöllum barst frétt og þeir hlutu svör við spurningum sem þeim hafði áreiðanlega aldrei til hugar komið að spyrja. Þeim var sagt hvert þeir ættu að fara og hvað þeir ættu að hafa til marks: Ungbarn reifað og lagt í jötu. Við fálmum okkur áfram á dimmri slóð, án stjörnuskins og englabirtu og finnst einatt fátt um svör. En í jólaguðspjallinu finnum við samt hver við erum og hvar hjálpina og vonina er að finna: Kristur Drottinn. Frelsari heimsins, frelsari þinn.

Sú trú sem í auðmýkt og hógværð lýtur barninu í jötunni og í hverju barni sér hans mynd, sú trú er lotning fyrir lífinu og elska til náungans, mildi og miskunnsemi, fyrirgefning og friður. Það er trú sem veit og vogar að treysta því að Guð elskar heiminn og elskar okkur og vill okkur allt hið besta. Kristur er lifandi frelsari og Drottinn. Ekki aðeins fögur mynd á vegg eða í huga og hjarta. Hann er ekki hetja liðins tíma. Hann er lifandi raunveruleiki. Hann er ekki persóna á bók, jafnvel þótt sú bók sé sú mesta og merkasta í heimi heldur lifandi návist. Það segja jólin. Hann vill fá að fæðast í hjarta þínu og opna huga þinn til skilnings á verki Guðs og áformum, opna augu þín fyrir neyð og þörf náungans, opna vilja þinn til fylgdar við hið góða og fagra og bjarta.

Hver er þýðing jólanna? Ég hef haldið jól í framandi löndum og lifað ólíka jólasiði og hefðir. Mér finnst magnað að hugsa til þess að jól skuli haldin um allan heim. Það er sem öllum sé ljóst að jól eru tími gleði, jafnvel þótt menn eigi ef til vill ekki auðvelt með að svara því hvers vegna. Það er sem að djúpt inni búi vitneskjan um að jólin séu tími til að leita hins góða og laða fram hið góða, og stuðla að því góða í sjálfum sér, í öðru fólki, í heiminum. „Á jólunum er gleði og gaman“ segir einn af jólasöngvunum skemmtilegu. Og það er svo satt, og þannig á það að vera, og það er merking jólanna og boðskapur: Gleði og gaman. „Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð…!“ segir engillinn í jólaguðspjallinu. Við bjóðum gleðileg jól, við gefum gjafir og höldum hátíð, og bregðum við á leik eins og börn. Þetta gerir fólk jafnvel óháð trúarskoðunum, fagnar gjöfum og gjafmildi og hverskonar tjáningu umhyggju og kærleika í barnslegri einlægni. Og það er svo dásamlegt. Þetta vil ég leggja áherslu á, vegna umræðunnar um trú og trúariðkun sem jólum tengjast. Jólaandinn er víða til staðar, jafnvel þar sem jólaguðspjallið heyrist ekki eða menn vilja ekki af Guði vita. Ég er sannfærður um að Guð er þar líka að verki til að gefa gleðina barnslega tæru. Þó svo að skoðanir séu skiptar og við eigum kannski ekki svo margt sameiginlegt. Við leyfum okkur eitt andartak að verða aftur börn, leika frið á jörðu, takast í hendur, gleðja aðra, að gleðjast yfir lífinu. Og ég er alveg viss um að það gleður Guð.

Gleðileg jól.