Hrúturinn Hreinn, úlfar og sauðir!

Hrúturinn Hreinn, úlfar og sauðir!

Kristinn maður má/á að taka heiminum með opnum huga. Maður á heldur ekki að vera eins og sauður. Jafnvel þó að hirðirinn sé góður. Maður á eða má allaveganna vera hugsandi og leitandi. Best er að vera eins og hrúturinn Hreinn sem allir ættu að kannast við úr Sjónvarpinu.

Textar nýliðins sunnudags í Lúthersk evangelísku þjóðkirkjunni okkar fjalla um góða hirðinn sem er Jesú Kristur. Góði hirðirinn gætir sauða sinna m.a. fyrir úlfunum og leggur líf sitt í sölurnar fyrir þá. Í spádómsbók Esekíel lýsir sjálfur Drottinn því yfir að hann ætli sjálfur að leita sauða sinna og líta eftir þeim. ,,Þið eruð hjörð mín sem ég held til haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.”

Það er ekki sjálfgefið að svona lærdómstextar höfði jafn vel til okkar og þeir gerðu áður fyrri. Fólk áður fyrr tók sérstöku ástfóstri við þessa texta vegna þess að því þótti vænt um sauðfé og lifði í nánu samfélagi við það. Það var talið prestum til tekna ef þeir bjuggu með sauðfé og voru þeir margir góðir sauðfjárræktendur og nægir að nefna séraGuðmundarkynið í Sjálfstæðu fólki því máli til stuðnings.

En þó að sú væntumþykja sem kemur aðeins með umgengni sé kannski ekki til staðar þá veit fólk á öllum aldri að úlfa ber að varast. Það veit líka að sauðfé er meinlaust og varnarlaust. Úr því má spinna hinar prýðilegustu ráðleggingar til okkar sem bjástrum nokkuð varnarlaus við að halda sjó í tilverunni og færa líf okkar til nokkurrar fullkomnunar á stuttum og misvindasömum tíma sem æviskeið okkar er. Þessum textum má til að mynda auðveldlega snúa uppí aðvörun til unglinga, nú á vortímum ferminga, að gæta sín á eiturlyfjaúlfunum og öðrum þeim úlfum sem mæta ungu fólki og eru tilbúnir til að rífa í tætlur framtíð þess.

Og það eru margskonar úlfar sem við ættum að gæta okkur á Einn þeirra er græðgisúlfurinn. Annar er úlfur félagslegrar íhaldssemi sem þarf síður en svo að fylgja kristindómi. Þannig er heimskulegt að hrópa úlfur úlfur hvenær sem maður sér eitthvað nýtt og framandi. Kristinn maður má/á að taka heiminum með opnum huga. Maður á heldur ekki að vera eins og sauður. Jafnvel þó að hirðirinn sé góður. Maður á eða má allaveganna vera hugsandi og leitandi. Best er að vera eins og hrúturinn Hreinn sem allir ættu að kannast við úr Sjónvarpinu. Hann er sjálfstæður, leitandi, uppfindingasamur, öðruvísi en hugsar þó fyrst og fremst um hag rolluhópsins sem hann tilheyrir.

Og hrúturinn Hreinn sem er eftir sömu höfunda og skópu Wallace og Gromit kemur ýmsu góðu til leiðar í samstarfi við sauðahirðinn (jesúmyndin) sem á að gæta sauðanna. Hirðirinn og hrúturinn fara svona stundum hálfpartinn á bak við bóndann (guðsmyndin), sem er svolítið gamall og íhaldssamur (guð Gamla testamentisins). En samt góður inn við beinið (guð Nýja testamentisins).

Það er margt sem kemur upp þegar skyggnst er um texta og óþarfi að fara alltaf út í meintan einn grundvallarboðskap textans í samhengi sínu. Í hverjum texta eru fjölskrúðugar vísbendingar, samlíkingar og tilvísanir sem gera Biblíuna að alveg einstakri bók.