Úlpa fyrir fimmtíuþúsund

Úlpa fyrir fimmtíuþúsund

Okkur grunar að fátæktarvandinn viðhaldist vegna ákveðinnar nauðhyggju og skorthugsunar sem sé svo inngróin í samvitund okkar og menningu að setningin Það verður alltaf til fátækt fólk er tekin gild í heita pottinum.

 

Við erum ekki bara kristinnar trúar.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram hér í dag sem ég hef raunar gert áður að ég og þú, við sem hér komum saman í kirkjunni á þessum sunnudagsmorgni, séum þegar að er gáð sitthvað fleira en kristin. Það eru önnur trúarbrögð, önnur viðhorf sem móta okkur líka sterkt og hafa mikil áhrif á líf okkar við hliðina á Jesú Kristi og því sem hann sagði og gerði.  Eitt eru t.d. allir eru sammála um; að hver sé sinnar gæfu smiður. Við erum alveg viss um það atriði og þykir það jafn vel ögrun við skynsamlegt jafnvægi í þjóðfélaginu að halda öðru fram. Þó gengur þetta viðhorf  þvert á afstöðu Jesú frá Nasaret. Svo erum við líka sannfærð um að hver sé sjálfum sér næstur. Það var stemmning á Stuðmannatónleikum um daginn þegar snillingarnir vörpuðu fram þessum almæltu sannindum og salurinn söng með svo að þakið ætlaði að rifna: “Hver er sinnar gæfu smiður, hver er næstur sjálfum sér...”  

Annað sem má nefn í þessu sambandi er það að við styðjumst meðvitað stjórnunaraðferðir í daglegu lífi sem eru í beinni andstöðu við allt sem Jesús gerði í mannlegum samskiptum. Og enda þótt við séum núna hætt að hræða börn með tröllum og álfum þá erum við ekkert hætt að hræða þau og ef að er gáð lifir unga fólkið okkar við heilmikla óttastjórnun. Heldur þú t.d. að foreldrar sem kaupa 50 þúsund króna úlpu á unglinginn sinn geri það af því að þau langi til þess og að unglinginn vanti þessa úlpu? Nei, það vantar engan ungling 50 þúsund króna úlpu. Samt er hún keypt. Hvaða tilfinning, hvaða orka, er á bak við kaup á flík sem e.t.v. kostar 1/5 af mánðartekjum fjölskyldunnar?  

Hún Vilborg Oddsdóttir á Hjáparstarfinu sagði hræðilegan sannleika í sjónvarpsfréttum á fimmtudaginn var. Það var rætt við hana í tilefni af útkomu nýrrar skýrslu um fátækt á Íslandi sem Hjálparstarfið og Rauði krossinn í Reykjavík stóðu að og ég er raunar sjáfur einn af höfundum skýrslunnar. (skýrsluna má nálgast hér: http://www.help.is/doc/119) Hún lýsti því hvernig fólk gæti komið fram fyrir alþjóð í fjölmiðlim með alskyns hörmungar sem það hefði gengið í gegnum og jafnvel talað um hræðilega glæpi sem það sjálft hefði drýgt, en það að koma fram og ræða um fátækt sína nálgaðist að vera fullkomið tabú. Það væri skárra að hafa drepið mann en vera fátækur, slík væri skömmin sem við tengdum því ástandi. Ég held að margan hafi sett hljóðan fyrir framan skjáinn.  

Guðspjall dagsins í dag, frásögnin af því þegar Jesús læknar son konungsmansins, er tekið úr fjórða kafla Jóhannesarguðspjalls og það stendur í mjög áhugaverðu samhengi. „Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni.” segir í kynningu og þar er vísað til þess sem gerðist í 2. kafla sögunnar og lesandinn beðinn um að hafa þann atburð í huga þegar hann lifi sig inn í samskipti Jesú við konungsmanninn, hvernig hann hafi áður bjargað heilli brúðkaupsveislu og varðveitt sæmd ungra brúðhjóna og fjölskyldu þeirra þegar þau lentu í þeirri hneisu að vín var þrotið í miðjum klíðum og veislan á leiðinni að renna út í sandinn.  Um daginn var búið að leggja á borð fyrir tíu manns á heimili mínu, tengdasonur minn tilvonandi búinn að steikja þessi fínu heimaslátruðu læri frá Vestmannaeyjum og það var ljúf stemmning í húsinu þegar konan mín spurði: Bjarni hvar er sósan sem ég bað þig að kaupa?  Ég þori ekki alveg að ábyrgjast að aksturslag mitt yfir hraðahindraninar á leiðinni út í Nóatún þetta kvöld hafi verið til sóma. Þetta er það sem maður ekki vill lenda í þegar gestum er boðið.  Og alls ekki ef um brúðkaupsveislu er að ræða.   

Það er einkar merkingarbært og mikilvægt að taka við því að fyrsta kraftaverk Jesú var það að bjarga veislu. Það undirstrikar það að erindi Jesú var eitthvað annað og meira en aumingjagæska. Maður aumkar ekki brúðhjón. Það sem dreif Jesú áfram var ekki gleðin yfir því að vera góður við þau sem minna mega sín og lesandinn er beðinn um að hafa það í huga þegar hann setur sér fyrir sjónir samskipti Jesú við konungsmanninn sem átti veikan son og óttaðist um líf hans. Ef að er gáð eru enda sterk líkindi í viðbrögðum Jesú við bón Maríu móður hans þegar hún ber upp vandræðin við hann í brúðkaupsveislunni annars vegar og svarinu sem hann gefur konungsmanninum hins vegar þegar hann biður hann að koma og lækna son sinn. -  „Þeir hafa ekki vín”  hafði María sagt við Jesú einslega. „Hvað viltu mér kona?” hafði hann ansað hrátt og kalt „minn tími er enn ekki kominn.”   Og angistarfullum föðurnum svarar hann í sama dúr: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Þannig er allur vafi tekinn af um það að Jesús hafi eitthvað verið að gera sig góðan við fólk. “ Hví kallar þú mig góðan? Spyr hann á einum stað. Enginn er góður nema Guð einn.” (Lúk.18.19.)  

Mér liggur á hjarta að tala um þetta vegna þess að ég held, og er ekki einn um þá skoðun, að afstaða okkar til þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu sé á villigötum. Ég held að færa megi gild rök fyrir því að umræðan um fátækt á Íslandi hafi lengi liðið fyrir misskilda gæsku sem gerir ekki annað en að halda hinum fátæku í viðjum fátæktarinnar.  

Skýrsla Hjálparstarfsins og Rauða krossins bendir á þetta og mig langar að segja ykkur stuttlega frá því hvernig hún er til komin því það er merkileg saga.  

Þann 20. janúar sl. kom saman hópur sérfróðra reynslubolta sem verið hafa á vettvangi í sínu fagi í áratugi og þekkja aðstæður fátækra Íslendinga af því þau hafa mætt þeim í störfum sínum og reynt að skilja hvað er í gangi. Og hver veit nema einhver í þessum 24. manna hópi búi sjálf við fátækt? Þarna voru Hjálpræðishermenn og háskólakennarar, embættsmenn hins opinbera og félagsráðgjafar, fulltrúar Öryrkjabandalags og Félags eldri borgara, Rauðakrossfólk,  Hjálparstarfsfólk og Samhjálparfólk, vestfirðingar, eyfirðingar, suðurnesjamenn og reykvíkingar, - og vitið hvað?  Það sem við öll áttum sameiginlegt var ákveðið óþol. Þegar við komum saman og fórum að tala um málefnið skynjum við óþol. Óþol fyrir því að lifa það ár eftir ár og áratug eftir áratug jafnt á veltiárum sem hrunárum að það er alltaf sama fólkið sem er fátækt. Og við fundum að við erum hætt að trúa því að fátæktarvandinn verði leystur með þeim meðölum sem reynd hafa verið.  

Getur verið að fátæktin sé svo ill upprætanleg sem raun ber vitni vegna þess að hún eigi dýpri rætur en hingað til hefur verið bent á? Okkur grunar það. Okkur grunar að fátæktarvandinn viðhaldist vegna ákveðinnar nauðhyggju og skorthugsunar sem sé svo inngróin í samvitund okkar og menningu að setningin Það verður alltaf til fátækt fólk er tekin gild í heita pottinum. Sá sem segir Það verður alltaf til fátækt fólk þykir vera að segja eitthvað sjálfsagt um leið og orð hans lýsi yfirvegun.  En er það yfirvegun? Jörð hefur skolfið norður á Siglufirði og víðar nýlega. Það lýsir yfirvegun að segja Það munu alltaf koma jarðskjálftahrinur, því þá erum við að tala um atburði tengda beinum náttúrulögmálum. En er fátækt náttúrulögmál?  Hópurinn sem stendur á bak við skýrslu Hjálparstarfsins og Rauða krossins hafnar því og hann hafnar um leið þeirri viðteknu hugmynd að fátækt stafi af aumingjaskap og að helsti bandamaður okkar í baráttunni gegn fátækt sé aumingjagæska almennings sem höfða megi til með hæfilegri skemmtun og stemmningu í fjölmiðlum til þess að kría fé út úr fólki.  

Fátækt er flókið samfélagsmein sem takast þarf á við með skýrum rökum og umræðan um þennan vanda þarf að komast frá því að vera upphrópanakennd og villandi en verða gagnrýnin, uppbyggileg og markviss svo það takist að útrýma langvarandi fátækt einstaklinga og fjölskyldna með samstilltu hugarfari og almennri þekkingu á velferð.  

Barn sem fæðist inn í fátæka fjölskyldu og elst upp við fátækt skaðast jafn mikið af fátækt sinni þótt við og við hlaupi einhver til og gefi því skólatösku eða ókeypis tannlæknatíma. Það er jafn fátækt eftir sem áður.  

Nítján ára unglingurinn sem er dottinn út úr skóla, vakir á nóttinni en sefur á daginn og fær engin skilaboð úr umhverfinu um það að hann sé eftirsóknarverður til nokkurs hlutar, hann lifir við sára fátækt enda þótt nóg sé af mat í ískápnum hjá mömmu.  

Útlenska fjölskyldan sem nær að nurla saman því sem telja mætti nóg til að lifa en á engin innihaldsrík samskipti við nokkurn lifandi mann nema einhverja fáa landa sína og fattar oftast eftir á hvað var í gangi, hún býr við fátækt. Svo bilar bíllinn og það er enginn til að binda spottann í ...  

Fátækt er svo margræð. Það er hægt að skorta svo margt.  

Í stað þess að líta á fátækt sem náttúrulögmál og veðja á ölmusugjafir hinna beturmegandi eigum við að viðurkenna mannréttindi fólks. Fátækt í íslensku samfélagi er brot á mannréttindum.  

Í stað þess að aumka hinn fátæka eigum við að efla hann að völdum í eign lífi með því að gefa honum tækifæri til virkrar þátttök í mannlífinu á eigin forsendum. Við eigum að valdefla hina fátæku.  

Í stað þess að horfa á fátækt persónunnar eigum við að horfa á gæði hennar og sjá það sem Jesús guðspjallanna var alltaf að benda fólki á; að hver einasta persóna er uppspretta gæða. - Hvað vilt þú og getur lagt af mörkum í því skyni að bæta kjör þín? er spurningin sem á að mæta hinum snauða. Við eigum að hugsa með skapandi hætti og virkja félagsauðinn í þágu hinna fátæku.  

Hugtakið örorka er líka hluti af vitleysunni. Hvers vegna í ósköpunum mælum við örorku en ekki starfsorku? Vegna þess að við einblínum á vanmátt fólks en ekki gæði þess og erum föst í nauðhyggju og skorthugsun í stað þess að horfa til mannréttinda, valdeflingar og félagsauðs. Þannig missir íslenskt samfélag af fjölda fólks og fer á mis við gæði þess haldandi því föstu í ástæðulausri fátækt.   

Far þú, sonur þinn lifir! Mælti Jesús við angistarfullan föður í guðspjalli dagsins og hann valdi að treysta orðum hans. Þorum við að treysta og ganga fram í þeirri vissu að lífið er ríkt og gott og að það er fætt til að sigra?  

Amen.  

Textar:

Jes 51.11-16 Ef 6.10-17 Jóh 4.46-53