Fjölbreytni og eining á heimsþingi Lúterska heimssambandsins

Fjölbreytni og eining á heimsþingi Lúterska heimssambandsins

Styrkur Lúterska heimssambandsins liggur m.a. í nánd og sterkum tengslum við samfélög í fjölda landa en 145 lúterskar kirkjur í 98 löndum eru aðilar að sambandinu. Enda er fjölbreytnin áberandi á þessu þingi. Mikil fjölbreytni en algjör eining um að standa saman um að gera heiminn betri fyrir ALLA.
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
15. maí 2017

Á 12. heimsþingi Lúterska heimssambandsins í Windhoek í Namibíu 10.-16. maí er fjallað um fjölbreytt starf sambandsins um allan heim. Eins og áður hefur komið fram snýst megin starfið um þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, 92% af öllu fé sem ráðstafað er. Hjálparstarf kirkjunnar hefur til fjölda ára verið í samstarfi við Lúterska heimssambandið.

Í Úganda eru tvö þróunarsamvinnuverkefni, annað snýr að ungmennum í þrem fátæktarhverfum í höfuðborginni Kampala, hitt er í Rakaí-héraði og beinist að börnum sem misst hafa foreldra úr alnæmi.

Kampala verkefnið hófst í byrjun þessa árs en þungur straumur ungs fólks liggur til borgarinnar í von um betra líf. Því miður bíður flestra þeirra hins vegar atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum og mörg ungmenni leiðast út í smáglæpi og vændi til að lifa af. Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það geti nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Rakaí verkefnið hefur verið í gangi í meira en 7 ár. Munaðarlausbörn sem lifa í hreysum við slæmar aðstæður fá nýtt húsnæði, vatnstank, eldunaraðstöðu og kamar. Þau fá fræðslu um hreinlæti og smitleiðir sjúkdóma og stuðning til skólagöngu.

Í Eþíópíu er umfangsmikið þróunarsamvinnuverkefni í Sómalíufylki í austurhluta landsins sem hófst 2007. Svæðið er mjög þurrt og lífsafkoma erfið. Verkefnið snýst um að tryggja aðgang að vatni með því að grafa brunna og vatnsþrær sem safna rigningarvatni, bæta fæðuöryggi með bættum ræktunaraðferðum og vald efla konur með örlánum.

Hjálparstarfið hefur veitt mannúðaraðstoð í gegnum Lúterska heimssambandið vegna ófriðar og náttúrhamfara m.a. á Haítí, Nepal, Úganda, Eþíópíu og Sýrlandi.

Lúterska heimssambandið hefur áratuga reynslu og mikla fagþekkingu í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Á heimsþinginu er mikil áhersla á að vinna að markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (Sustainable Development Goals).

Styrkur Lúterska heimssambandsins liggur m.a. í nánd og sterkum tengslum við samfélög í fjölda landa en 145 lúterskar kirkjur í 98 löndum eru aðilar að sambandinu. Enda er fjölbreytnin áberandi á þessu þingi. Mikil fjölbreytni en algjör eining um að standa saman um að gera heiminn betri fyrir ALLA.