Eldhaf ástar og ógna

Eldhaf ástar og ógna

"Satt er og rétt að börnin, sem eru eða ættu ávallt að vera uppspretta og hvati samkenndar, ástar og elsku, verða harðast úti á flótta undan eldhafi átaka og hamfara." Stjörnugjöf fyrir sýninguna ****
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
17. febrúar 2012

Eldhaf

Með því að setja upp leikverkið Eldhaf eftir líbanska leikskáldið Waydi Mouaward á Nýja sviði Borgarleikhússins sýna stjórnendur þess hve framsæknir þeir eru í verkefnavali og vakandi fyrir samtíðarviðburðum og vilja taka þátt í deiglu samtímans og draga fram átakspunkta hennar. Það gerðu þeir líka með sýningu á leikverkinu ,,Elsku barn” á fyrra leikári sem kom við kviku og hrærði við sáru og viðkvæmu efni og vakti athygli fyrir frumlega og áleitna framsetningu og leikmynd. Leikstjóri er enda sá sami og fyrr, Jón Páll Eyjólfsson, og aðalleikkona einnig, Unnur Ösp Stefánsdóttir, og gera vel sem áður.

Enda þótt leikverkið hefjist í Kanada eru það átök og eldar í Austurlöndum nær sem horft er til og fjallað um. Þar gerist enn margur skelfilegur hildar- og harmleikurinn.  Eldhaf og átök í miðausturlöndum hafa verið svo viðvarandi áratugum saman með ýmsum blæbrigðum að þau teljast nær því hverdagsleg. Undir krauma sem hraunkvika, er brýst upp við minnsta tilefni, illindi og ósætti Palestínu- og Ísraelsmanna.

Borgarastríðið í Líbanon í byrjun níunda áratugar liðinnar aldar var eitt átakanlegasta tilbrigðið.  Ekki fékk dulist að ráðamenn í Ísrael kynntu undir átökin fremur en að slæva eldana. Ísraelsher gerði innrás í landið og hafði varðstöðvar við flóttamannabúðir Palestínumanna en greiddi þó götu Falangista inn í búðirnar, kristinna málaliða í hefndarhug, enda þótt ekki væri við flóttamennina að sakast. Hundruð ef ekki þúsundir þeirra lágu í valnum.

Fréttamyndir lýsa sjaldan öðru en yfirborði átakanna.  Áhrif og afleiðingar fyrir einstaklinga og fjölskyldur með dauða, limlestingum og öðrum skakkaföllum koma sjaldan fram. Það átti líka við um helför gyðinga. Þegar persónu- og  fjölskyldusaga er hins vegar rakin, sönn eða uppdiktuð, eins og gerðist í sjónvarpsþáttunum ,,Helförinni”, sem Ríkissjónvarpið sýndi á sinni tíð, verða áhrifin greinilegri.

Leikritið Eldhaf er þess konar verk. Það lýsir lífsörlögum höfuðpersónunnar Nawal og þeirra sem henni tengjast og gerir átakaatburði miðausturlanda nærtæka og áleitna.

Leikhöfundurinn tekur mið af raunasögu líbönsku baráttukonunnar Suha Bechara svo sem fram kemur í vandaðri leikskrá. Í heimbæ hennar skiptist fólk í fylkingar eftir afstöðu sinni til Ísraels.  Eftir hernámið tók hún þátt í andspyrnuhreyfingu gegn því og fékk það verkefni að gera út af við foringja Falangista sem stýrt hafði drápssveitunum í flóttamannabúðunum. Henni tókst að skjóta á hann tveimur skotum og særa alvarlega. Hún var færð í illræmt fangelsi og pyntuð og látinn dúsa þar í áratug, þar af heil níu ár í örlitlum einangrunarklefa, þangað til að hjálparsamtökum tókst að fá hana lausa. Þegar hún heyrði kvalaóp úr pyntingarklefanum við hlið klefa síns söng hún sér til hugarléttis.

Nawal leikritsins (Unnur Ösp Stefánsdóttir) er þó sett saman úr fleiri persónum og hún er þar fulltrúi kvalinna kvenna sem misþyrmt hefur verið og nauðgað í stríðsátökum fyrr og síðar. Þar er líka þeirri ringulreið lýst sem fylgir þeim og sundrar fólki og fjölskyldum, brenglar og tekur úr sambandi allar heilbrigðar siðrænar viðmiðanir. Enda þótt þess sé ekki getið er það ljóslega Líbanon, sem horft er til sem vettvang baráttusögu Nawal, enda föðurland leikhöfundarins.

Lýsing leiks langt á veg

Verkið hefst reyndar með fráfalli Nawal, sem hefur dvalist á sjúkrastofnun síðustu fimm árin sín eftir að hún hætti skyndilega að tala eins og mállaus væri en bar þess þó engin önnur merki. Hún hafði árum saman sótt og setið réttarhöld yfir stríðsglæpamönnum, fylgst með þeim og vitnað gegn sakborningum en hætt því skyndilega.

Tvíburar sem hún átti, Jeanne (Lára Jóhanna Jónsdóttir) og Símon (Guðjón Davíð Karlsson) voru rétt 17 ára þegar hún ,,missti málið”. Þeir bera blendnar tilfinningar í brjósti til móður sinnar, sem virðist hafa verið uppteknari af öðru en að sinna þeim, og þykir lítið misst við fráfall hennar.  Símon segir hana hafa verið með múrstein í hjartastað og hafa snúið öllu á hvolf. Jeanne, sem er í doktorsnámi í stærðfræði, er þó viðkvæmari fyrir minningu móður sinnar. Skömmu fyrir andlátið hafði Nawal talað og sagt um miðja nótt. ,,Núna erum við saman og þá er allt betra.”

Lebel, lögmaður og skiptaráðandi (Bergur Þór Ingólfsson), sem talar mikið við sjálfan sig og Nawal starfaði hjá og hann var hrifinn af, gerir tvíburunum grein fyrir erfðaskrá hennar og hinstu óskum. Hún hafi óskað eftir því að verða jarðsett með mjög sérstæðum hætti og að auki, að þau fengju tvö bréf í hendur, er þau mættu þó ekki opna enda ætluð föður þeirra, er Jeanne á að hafa upp á, og bróður, sem Símon er ætlað að finna. Eftir að þeir eru fundnir fái þau þriðja bréfið og megi þá fyrst setja legstein á gröfina með inngreyptu nafni hennar. Systkinin höfðu þó talið föður sinn löngu látinn og vissu ekkert um að þau ættu bróður. Lebel gefur þeim upplýsingar úr rauðri dagbók móður þeirra, sem hann færir Símoni en hann les þó ekki sökum beiskju fyrr en síðar.

Leikverkið rekur síðan sögu Nawal eftir því sem hún afhjúpast og skýrist við leit og könnun Jeanne og síðar einnig Símonar á dularfyllri fortíð og uppruna hennar og uppruna þeirra sjálfra um leið. Verkið gerist á ýmsum tímasviðum, systkinanna, sem rekja slóðina, en lýsir líka fyrri tíð og áhrifaríkum sögubrotum úr ævi móður þeirra, sem raðast upp sem í myndgátu.

Sviðsmyndin er hugvitsamleg og sýnir sveigðan múr þvert yfir mitt sviðið. Hann skírskotar til múrsins, er lokar inni Palestínumenn, og þeirra fangelsa og frelsissviptinga, sem hefta einstaklinga og þjóðir í miðausturlöndum. Múrinn skiptir sviðinu í efra og neðra svið. Á því efra birtast tilteknar svipmyndir úr sögu Nawal í endurliti, en á því neðra eru systkinin sýnd í leit sinni á hennar slóðum, þótt fyrir komi að sú aðgreining hverfi. Á múrinn og efra sviðið er varpað áhrifaríkum myndum af landsvæðum, bæjum og þorpum og fólki lífs og liðnu.

Því er fallega lýst að Nawal er ófrísk enn barnung og fagnar því með Wahab kærasta sínum (Guðjón Davíð) og finnur fyrir bæði hamingju og hræðslu. Barnið er samruni þeirra beggja og þau bæði saman í því. ,,Ástin er þeim sem úthaf eða logandi eldhaf" og enda þótt ,,ekkert sé þeim eins fagurt og að vera saman” er þeim þó hætt við að villast í dimmri þoku.

Ástin og barnið hitta fyrir þröngsýni og fordóma. Wahab er hrakinn á brott og Nawal heyrir frá móður sinni að barnið í hennar ,,sauruga kviði”  muni ekki koma henni neitt við. Amma hennar er skilningsríkari. Það gengur þó eftir sem hún sagði fyrir, að Elhame, hin aldna ljósmóðir þorpsins (Birgitta Birgisdóttir), tekur nýfætt sveinbarnið frá Nawal og ber á brott í fötu til að gefa það.

Dagar líða og mánuðir hverfa sem Nawal gengur um í þoku saknaðar og sorgar og reynir að ,,bernskan er henni sem hnífur er situr í hálsi og ekki er auðvelt að draga út.” Amma hennar hvetur hana þá til að fara úr þorpinu, læra að lesa, skrifa, telja, tala, læra að hugsa, til að geta sigrast á fátæktinni, andmælt ofríki og rofið reiði- og kúgunarfjötrana, koma svo aftur að henni látinni og grafa nafn hennar á legstein. Eftir lát hennar hellir Nawal vatni úr fötu yfir lík hennar og gröf og fer.

Tvíburasystkinin hitta fyrir Antoine, hjúkrunarmann (Jörundur Ragnarsson), sem hefur látið sér annt um móður þeirra, dansað við hana en líka tekið upp á segulband þögn hennar og andardrátt í von um að hún myndi rjúfa þögnina.

Nawal kemur aftur í heimaþorpið eftir að hafa lært og menntað sig og uppfyllir loforð sitt við ömmu sína. Sawda (Birgitta Birgisdóttir), ung stúlka komin að sunnan, þar sem stríð herjar með hörmungum, fylgist með Nawal við gröfina og óskar eftir því að læra af henni og fara á burt með henni og finna með henni barnið, sem hún leitar að. Sawda segist kunna að ferðast, þær verði sterkari saman og hún geti líka sungið fyrir hana.

Saman halda þær suður og hitta fyrir lækni (Bergur Þór) á munaðarleysingjahæli og vonast til að geta fundið þar son Nawal, sem muni þá vera 4 ára. Þeim verður þó lítt ágengt enda börnin farin þaðan vegna stríðsátakanna. Læknirinn lýsir þeim sem vítahring hefnda og illvirkja með morðum og nauðgunum, húsbrunum og uppskerueyðingu.

Jeanne finnur ljósmynd af Nawal og annarri konu og sýnir Antoine. Þegar hann stækkar myndina sést að þær eru með skammbyssur á sér. ,,Þær hafi ef til vill verið fangaverðir.” Systkinin hitta Label fyrir sem útskýrir fyrir þeim hví Nawal hafði illan bifur á strætisvögnum. Vegna þess að hún gat sýnt fram á að hún væri kristin, hafi hún fengið að fara úr strætisvagni, sem síðan var skotið á og kveikt í með bensíni og fuðraði upp í logandi eldhafi. Gamalmenni, mæður og börn hafi látist. Jeanne er staðráðin í því að taka áhættuna og láta sig falla í það hyldýpi sem þögn móður hennar hafi verið og fljúga til þeirra átakasvæða þar sem hún hafðist við.

Eftir hlé, sem er kærkomið á langri sýningu, æsist leikurinn. Nawal og Sawda fara um ófriðarsvæði, sprengjudrunur heyrast á sviðinu, steinar hrynja úr múrnum. Þær reyna að virði mannslífs er svo lítið að myndavél er metin meira en það.  Blaðamenn eru líflátnir, prentsmiðjum lokað, blöðum brennt.

Jeanne hittir fyrir sögumann í heimaþorpi Nawal móður hennar.  Hann segir að ýmsar sögur hafi gengið af henni, hún hafi átt kærasta en þau verið skilin að. Í endurliti birtast Nawal og Wahab á sviðinu rétt áður en þeim var stíað í sundur. Hann gefur henni rautt trúðsnef úr farandleikhúsi sem þau hafa sótt. Nefið gegnir síðar lykilhlutverki í leikritinu. Jeanne er sagt að stríðsátökin hafi borist að þorpinu eftir að Nawal fór þaðan. Jeanne hringir í Símon og segir honum frá því.

Nawal og Sawda verða á vegi tveggja hermanna, sem eru að leita kvennanna, sem kunna að lesa og skrifa. Þeir eru í skóm manna, er þeir hafa líflátið. Þeim hafi í fyrstu þótt erfitt að drepa en það svo orðið þeim lítið mál, alltaf léttara í hvert skiptið. Þeir ætli nú að skera þær á háls, en vilji fyrst heyra þær syngja. Sawda verður fyrri til og skýtur þá.

Jeanne kemur að fyrrum fangelsi þar sem hún telur móður sína kunna að hafa unnið. Leiðsögumaður (Jörundur) segir henni að alræmdasti klefinn sé nr. 7. Þar hafi ,,konan sem syngur” verið fanginn. Hún hafi komið í fangelsið nokkru eftir fjöldamorð þjóðvarðliða í flóttamannabúðum. Fólk komi í pílagrímsferðir í fangelsið einkum til að skoða þennan klefa.

Sawda kemur örvingluð úr flóttamannbúðum eftir innrás í þær og lýsir skelfilegum misyndisverkum fyrir Nawal, sem þar voru framin, drápum og níðingsverkum á konum, börnum og unglingum, svo að von er að spurt sé um tilgang þess að fæða líf í heiminn upp á slík býti.  Sawda hefur misst vandamenn og vini og þótt hún geti sungið lætur hún ekki huggast og vil geta svarað fyrir þessi ógnarverk og ekki aðeins með máttlitlum orðum og stöfum.

Nawal segir að slíkar hörmungar séu ofvaxnar öllum skilningi en ráðið við þeim sé ekki að auka við hryllinginn og bæta við þjáningum. ,,Við erum ekkert fyrir stríð en neyðumst til að taka þátt í því, viljum ekki óhamingjuna en erum í henni miðri.”  Hún hafi annað hvort orðið að ráðast á heiminn, þegar sonur hennar var tekinn frá henni eða reyna að finna hann. Fram kemur í þessari áhrifaríku senu, að mörg ár hafa liðið frá því að sú leit hófst. Og átökin hafa stigmagnast.

Nawal áréttar við Sawda, að hún hafi gefið loforð um að læra og komast úr fátækt og hatri, en tekur þó ákvörðun um að ráðast til atlögu, ekki þó tilviljunarkennt, heldur vega sjálfan leiðtoga innrásarliðsins og sýna að hann sé ekki óhultur. Hún viti hvernig hægt sé að komast að honum og sé við því búin að hætta lífi sínu til þess. Vinkonurnar kveðjast með þeim orðum, að þær muni vera rödd hvor annarrar. Nawal muni synga og Sawda breiða út stafrófið.

Jeanne hittir fyrir húsvörð, sem starfaði í fangelsinu, og spyr hann um þýðingu tölunnar 72,  sem jakki móður hennar var merktur með. Hann kannast við að það númer hafi átt við ,,konuna sem syngur” en Jeanne hafði talið þá nafnbót tilheyra samstarfs- og vinkonu móður sinnar. Hann segir að ,,konan sem syngur” hafi verið í klefa nr.7, sú sem myrt hafi foringjann með tveimur kúlum. Illræmdur fangavörður og böðull hafi nauðgað henni svo sem tíðkaðist og hún hafi orðið ófrísk. Hún hafi fætt alein og hjálparlaust. Hann kveðst hafa farið með nýfætt barnið í fötu niður að ánni en eitthvað við grát þess hafi snert hann. Því sneri hann við og rakst á bónda og afhenti honum fötuna og sagði honum hver sú væri sem hefði fætt barnið.

Jeanne segir Símoni í símtali að móðir þeirra hafi sætt pyntingum og nauðgunum og eignast bróður þeirra í fangelsi. Hann vill ekki hlusta en hún fer fram á það, að hann sæki rauðu dagbókina og afli sér upplýsinga úr henni.

Jeanne hittir fyrir aldraðan mann, er henni var sagt að hefði alið upp barn ,,konunnar sem syngur.” Hann kannast við það og segir, er hann heyrir að Jeanne sé dóttir hennar, að börn konunnar sem söng hafi orðið til með skelfilegum hætti en þau rjúfi hljómfall gráts barnanna sem fleygt var í ánna.

Sýnt er frá því, að Nawal talar í réttarhöldum til og ákærir níðinginn, barnsföður sinn úr fangelsinu, og kýs að horfast beint í augu við hann, svo að hann viti að hún kannist vel við hann. Hún mælir til hans af efra sviðinu og áhorfenda um leið. Margir hafi hræðst hann líka illvirkjar, nafn hennar segi honum ekkert né númer, en hann gleymi ekki hljómnum í eyrum sér frá rödd og hljóðum ,,konunnar sem syngur.”  Hann hafi hengt hana upp á fótunum, gefið henni rafstraum, rifið af henni neglur og borið að henni skotvopn og skotið púðurskotum til að skelfa hana og maginn á henni orðið fullur af þessum pyntingum.

Sannleikurinn sé beiskur en hann geti ekki flúið réttlætið. Börnin séu sprelllifandi, gáfuð og tilfinningarík. Einn daginn muni þau standa frammi fyrir honum í klefanum. Ef hann geti séð fegurðina sem þau búi yfir sé enn von en ef ekki skyggi hann á og lítilsvirði ávöxt þrautanna. Hver þjóð og samfélag beri ábyrgð á böðlum sínum og líka fórnarlömbum, ,,þannig ber ég ábyrgð á þér og þú á mér”, ef hún þegði væri hún þátttakandi í glæpum hans. Hún tali til hans vegna loforðs sem hún hafi gefið.

Fram kemur, að jafnframt því sem Nawal flytur magnþrungna ákæru sína á efra sviðinu, les Símon hana á því neðra upp úr rauðu dagbókinni. Hann afræður loks að fara á vettvang og hafa upp á bróður sínum. Label hjálpfús og uppörvandi sem fyrr fer með honum enda fari brátt að ,,sjást í ljósið við endann á göngunum.”

Leyniskytta, sem heldur sig í fjallaskarði, kemur hrollvekjandi við sögu og fyllir mjög upp í myndagátuna. Hann er vopnaður bæði voldugum riffli og ljósmyndavél og sönglar ameríska slagara og slettir enskunni (Þórir Sæmundsson). Hann skýtur á fréttaljósmyndara og særir (Jörundur), tekur af honum myndir og skýtur til bana. Skýtur fleiri, deyðir og myndar. Engu skiptir hann hvort það er hermaður, kona eða barn sem fellur. Myndir af þeim látnum birtast á veggnum. Skyttan fagnar ljóðrænum myndum sínum sem “are like poems as his bullets are.” Þær verði hvað bestar eftir barsmíðar og nauðganir. Hann viðurkennir þó að ef það væri sjálf Elisabeth Taylor eða einhver áþekk þokkagyðja, sem væri í færi, myndi hann hika við að skjóta.

Símon og Label hitta fyrir andspyrnuforingjann Chamsedine, er fagnar Símoni vel sem syni ,,konunnar sem syngur.” Hann segir honum frá fyrri tíð og afhjúpar svo mikið og margt, að nú er það Símon sem missir málið að minnsta kosti í bráð.

Lokaþátturinn leitar og leiks er þesslegur að ekki er vert að greina frá honum. Hann á erindi við áhorfendur í leikhúsinu. Er öll brotin í myndagátunni koma í ljós breytist verkið og leysist upp í harmleik á forngríska vísu. Við það missir það trúverðugleika en verður sígildara fyrir bragðið, eins og táknmynd um bjargarleysi gagnvart illum örlögum.  ,,Kannski var gengið of langt í leit að sannleikanum”, þegar það sýnir sig að andstætt hreinni stærðfærði, sem Jeanne tekur mið af, geta dæmin í lífinu verið svo flókin og sérstæð, að 1+1 séu ekki 2 heldur 1. Svo sem fram kemur í einu bréfi Nawal, sem lesið er upp í lokin ,,Sannleikann er stundum ekki hægt að segja fyrr en hann hefur verið uppgötvaður.”

Leiksýning og leikarar

Þrátt fyrir grafalvarlegt söguefni er sýningin alls ekki þrúgandi. Mergjaður textinn í vandaðri þýðingu, hljómfagur og áheyrilegur, veldur því og góður leikur. Hlutverkin eru mun fleiri en leikararnir, sem er bæði kostur og galli. Jörundur er með þau flest og gerir vel þó að erfitt geti verið að aðgreina þau öll. Á móti kemur að með því er sem komi fram, að manneskjan er mjög söm við sig hvar sem er, en mótun, aðstæður og kjör valda því að hún er í afar mismunandi sporum.

Nýlunda er að sjá Guðjón Davíð í átakahlutverki en ekki í trúðs- eða gamanleik. Hann kemst vel frá því og á eflaust eftir að dýpka túlkun sína enn í slíkum gerfum. Honum fylgir sá léttleiki og þróttur sem gerir bærilegt að fylgjast með grimmum örlögum. Lára Jóhanna sýnir vel bæði þrönga stærðfræðihugsun Jeanne og staðfestu hennar, einlægni og umhyggju í leit sinni að horfinni sögu og uppruna. Bergur Þór gefur persónu Lebels það hlýja og kátlega yfirbragð og jafnfram bjartsýni, sem réttir sýninguna af, þegar alvaran er farin að sliga hana.

Þórir leikur leyniskyttuna með þeim krafti að ný vídd bættist líkt og við sýninguna. Svo glöggt birtir hann vitfirrta brenglun og siðblindu, andleysi og sálarmyrkvun, að þau ná langt út yfir þröngt sögusvið og alveg inn í vestræna skemmti- og dægurmenningu.  Birgitta sýnir vel baráttuhug og ákafa Sawdu, sem myndar mótvægi við ígrundun Nawal, sem Unnur Ösp gerir góð skil. Hún sýnir vel þrá og hugsjón Nawal, þolgæði hennar og þrautseigju, þroska í þrautum allt frá unglingsaldri, ákall hennar um upplýsingu, sannleika og réttlæti, trúfesti hennar og kjark, von, trú og elsku á hverju sem gengur. Elskuna sem skuldbindur, endist og umber allt. Vönduð og hugmyndarík leikstjórn, lýsing og leikhljóð, leikmynd og umgjörð öll gera sýninguna kröftuga og áhrifaríka.

Trúarlegt og siðferðilegt samhengi

Hvers má sín vanmáttugt mannslíf, sem þarfnast öruggs skjóls og aðhlynningar allt frá fæðingu, hlýs hjarta, nærandi brjósts og faðms, þegar fáviska og fordómar ráða viðhorfum og viðbrögðum hvað þá ef átakaeldar brenna og eyða lífi og lífsrétti?  Hvers mega sín háleitar hugsjónir, vonir og þrár gagnvart illum örlögum, er umbreyta þeim í harmleik og sorgarsögu? ,,Eldhaf” spyr þessara áleitnu spurna, er alls ekki er hægt að vísa frá þótt ekki komi nær en sem tíðindi og fréttir á sjónvarpsskjá.

Er hægt að rjúfa vítahring haturs og hefnda? Það reynist erfitt. Líkamssár og sálarkvalir geta í angist og örvæntingu myrkvað ljós skynsemi og vits, viðhaldið og magnað hringiðuna illu. Kristnir menn eru ekki aðeins fórnarlömb í hildar- og harmleikjum. Því verður ekki neitað, að þeir eru þar einnig gerendur, vinna böðuls-, haturs- og hermdarverk og hvetja til þeirra leynt og ljóst. Múslímar og tilheyrendur annarra trúarbragða eru ekki einir sekir um slíkt athæfi. Hversu marktæk er þá kristnin sem leiðarvísir á ljóss og sannleiks vegi?  Risti hún grunnt og sé aðeins á yfirborði getur hún komið fram sem verðlaust auðkenni, krosstákn og skart, jafnvel sem bandalag hagsmunaaðila er vinna misyndisverk.

Nasistar síðari heimsstyrjaldar voru flestir skírðir og fermdir sem kristnir menn en sóttkveikjur og illgresi öndverðra sjónarmiða náðu yfirtökunum og kæfðu sáðkornin góðu svo að þeir gerðust þjónar hörmunga og helfarar. Afkomendur fórnarlamba þeirra í miðausturlöndum virðast oft feta áþekka braut og tapa trúarljósi og siðviti. Kristnir menn kunna að gera það líka og reyna, að erfitt er að deyða í fyrstu en við endurtekningu verður það auðveldara og myrkvunin eykst í hjarta og huga, ljósskiman dofnar og samkenndin þverr.

Kristin trú, sem djúpt ristir, er þó allt önnur. Hún höndlast í hjarta af ljósi Guðs og anda, sem opinberast hefur í lífi, vitnisburði og verkum hins krossfesta og upprisna Jesú Krists og fylgir honum, líka í nístandi raun og þraut. Hann gefst ekki upp fyrir grimmd og illsku, lætur ekki bugast af henni heldur gengur alla leið inn í myrkvun hennar, angist og þjáningu kvalakross, sólmyrkvunar og heljardýpis í trúnni á Guð, veru hans og sannleiksljós. Þannig kemst hann fyrir rætur illskunnar og yfirvinnur hana sem þó úr annarri vídd og veruleika en sést í fljótu bragði. Sjálfur Guð sigrar í honum og fær að lyktum endurheimt syndugan mann og heim.

Nawal fetar í raun þessa slóð nema þegar hún lætur tilleiðast að vega mann, ef til vill þó til þess að hlífa fleirum. Enda þótt grimmdin sé skilningi hennar ofvaxin er lestur og skrift, menntun og upplýst hugsun og tal henni leiðarmerki og fela í sér siðvit og trúmennsku við háleitar hugsjónir um raunsönn verðmæti lífsins. Jafnframt því, sem hún reynir hve þrúgandi umhverfi og niðurdrepandi aðstæður myrkva og vega að lífsgæfu og vonum, veit hún að hvert mannslíf er óskýranlegt verðmæti, líka börn nauðgara, getin og fædd í fangelsum og þrælkunarbúðum. Ljós og von lifir í miðri myrkvuninni, ef fegurð þeirra sést og er viðurkennd.

Það er rétt sem Nawal segir, að þjóðir og samfélög bera ábyrgð bæði á böðlum sínum og fórnarlömbum, því að skilyrði fyrir slíku hlutskipti og hátterni þrífast þá innan þeirra vébanda og aðstæður og kjör fá þar að dafna fyrir illskuna og miskunnarleysið, sem breytt getur saklausu barni í leyniskyttu og siðblindan morðingja. En eru þjóðir og samfélög eitthvað annað en samnefnari einstaklinganna sem mynda þau? Því fer fjarri að miðausturlönd séu einangruð frá umheiminum. Margir utanaðkomandi sækjast þar eftir áhrifum, seilast í olíugróða og auð, líka framleiðendur og seljendur vígtóla og vopna. Eldhaf og ófriður eru þeim að skapi og freistandi er fyrir þá að ala á óvild og glæða bálin.

Lifandi, virk og róttæk kristni kemst ekki hjá því að viðurkenna þetta samhengi og ráðast að rótum vandans í nafni friðar, réttlætis og sannleika. Til þess þarf heiðarleika og virka og fórnfúsa elsku, það ,,ástar eldhaf”, sem nærist af lifandi trú og sýnir mátt sinn í sannleiksþrá, staðfestu og kjarki í knýjandi, ábyrgri og árangursríkri þjónustu við lífið.

Sannleikurinn er oft sár og bitur og getur valdið þrúgandi þögn. Rétt kann að vera að stundum megi satt kyrrt liggja, en sannleikurinn er þó jafnan sagna bestur, þegar afhjúpa þarf meinsemdir, sem skaða líf og samfélög, svo að hægt sé vinna á þeim, hreinsa upp og lækna svöðu- og sálarsár og endurhæfa og- byggja á tryggum grunni. Sannleikurinn verður oft ekki sagður í hugmyndum og kenningum, lifa verður hann og ,,uppgötva.” Það gildir líka um sannleika kristninnar. Feta verður slóð hans í trú og lifa hann sem umbreytandi reynslu.

Satt er og rétt að börnin, sem eru eða ættu ávallt að vera uppspretta og hvati samkenndar, ástar og elsku, verða harðast úti á flótta undan eldhafi átaka og hamfara. Komist þau upp er hætt við ,,að hnífur sitji líkt og þeim í hálsi” frá dapurri bernsku ,,er erfitt reynist að draga út.”  Rótfesta losnar, átthagar og uppruni týnast. Hvötin er þó sterk í brjósti, er leitar upprunans á ævileið og þráir að þekkja hann. Leit manns í dýpsta skilning að uppruna sínum, sem oft virðist hulinn, er líka knýjandi. Kristin trú vísar þar á uppsprettur lífsins Guði hjá, í elsku hans og ljósi, er sýnir sig í Jesú Kristi og skín handan alls og líka gegnum hvaðeina sem myrkvar og skyggir á líf manns og heims.

Faðerni hans er æðra öllu faðerni á jörðu og himni.  Hans vegna fær hver fæðing, hvert mannslíf gildi. Og öðru er dýrmætara að glæða þá vitund, treysta henni og fylgja ekki hvað síst á slóðum ógna og eldhafs. Stjörnugjöf ****