Kirkja og skóli í upphafi nýrrar aldar

Kirkja og skóli í upphafi nýrrar aldar

Um aldir runnu kirkja og skóli í einum farvegi. Áhersla siðbótarmanna á alþýðumenntun olli byltingu í menntamálum á sinni tíð. Sú áhersla skilaði sér hingað til Íslands í ríkum mæli og nægir að nefna Guðbrand Þorláksson og útgáfustörf hans sem dæmi.
fullname - andlitsmynd Sigurður Pálsson
22. október 2002

Um aldir runnu kirkja og skóli í einum farvegi. Áhersla siðbótarmanna á alþýðumenntun olli byltingu í menntamálum á sinni tíð. Sú áhersla skilaði sér hingað til Íslands í ríkum mæli og nægir að nefna Guðbrand Þorláksson og útgáfustörf hans sem dæmi. Undir áhrifum pietismans og í samfloti við upplýsingastefnuna var hrundið af stað hér menningarbyltingu og gegndu prestar víða lykilhlutverki, sem forystumenn, fræðarar og tilsjónarmenn. Í þriðja bindi hinnar nýju kristnisögu, Frá siðskiptum til upplýsingar, segir Einar Sigurbjörnsson m.a: „Í krafti hinnar píetísku lagasetningar var hrundið af stað réttnefndri herferð til þess að útrýma ólæsi meðal uppvaxandi kynslóðar. Að baki lá sú sannfæring píetista að viðunandi árangur næðist ekki með kristindómsfræðslu nema hún byggðist á eiginlegri bóklestrarkunnáttu." Á grunni hinnar píetísku lagasetningar hvíldi íslensk alþýðufræðsla allt þar til lög um alþýðufræðslu voru sett 1907.

Umsjón með alþýðufræðslu

Með þeirri lagasetningu færðist yfirumsjón alþýðufræðslunnar alfarið á hendur veraldlegra yfirvalda, enda þótt prestar gegndu eftirlitshlutverki enn um sinn af hagkvæmnisástæðum. Þegar frumvarp til þessara laga var lagt fram á Alþingi kviknaði umræða um hvort rétt væri að kristin fræði væru námsgrein í hinum nýja skóla. Spurningunni var fylgt eftir með vísan í lagaákvæði um trúfrelsi. Enda þótt samþykkt væri að kristin fræði skyldu vera á námskrá skólans og kenna skyldi „það sem heimtað er eða heimtað kann að verða að börn kunni í þeirri grein til fermingar," djarfar þá þegar fyrir þeim ágreiningsefnum sem reglulega hafa skotið upp kollinum síðan: Á að kenna kristin fræði í skyldunámsskólanum? Og ef svo, hvað á að kenna og á hvaða forsendum.

Á liðinni öld hafa kristin fræði þokað frá því að vera ein af höfuðgreinum skyldunámsskólans og til þess að vera í hópi þeirra sem þrengstur stakkur er skorinn og dæmi eru um að hún hafi verið sniðgengin í einstaka skólum. Í gildandi viðmiðunarstundaskrá hefur hún nú ekki sérstaklega tilgreindar stundir en deilir tilteknum kennslustundafjölda með samfélagsgreinum. Inntakið hefur einnig tekið miklum breytingum. Við stofnun alþýðuskólans var litið svo á að kristindómsfræðsla skólans væri þáttur í fermingarundirbúningi barnanna og kirkjan hefði þar með allt um inntakið að segja. Færa má rök fyrir því að löggjafinn hafi ætlað að formlegri aðild kirkjunnar að kristindómsfræðslunni lyki með lagasetningunni 1926. Sömuleiðis má færa rök fyrir því að hvorugur aðilinn hafi til fulls tekið mark á því, og enn ríki óvissa bæði í hugum kennara og presta. Hvað sem því líður er óhætt að fullyrða að skólinn sem stofnun hefur afhelgast á liðinni öld eins og aðrar stofnanir samfélagsins.

Inntak greinarinnar og heiti hefur einnig tekið breytingum. Í námskrá sem út var gefin 1999 heitir greinin Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði og hefur hlutur almennra trúarbragðafræða og siðfræði vaxið verulega frá námskránni 1976 er þessir þættir voru fyrst orðaðir í námskrá. Skýrt er kveðið á um að hlutverk skólans sé að miðla þekkingu um kristna trú og kristinn menningararf auk þess að upplýsa um önnur trúarbrögð, en hann sé ekki trúboðsstofnun.

Menntun kennara í kristnum fræðum

Menntun kennara í kristnum fræðum hefur tekið miklum breytingum á þessu sviði sem öðrum. Lengst af voru kristin fræði skyldunámsgrein kennaranema en urðu síðan sjálfstæð valgrein og eru nú nýverið orðin hluti af námi í samfélagsgreinum, ásamt almennum trúarbragðafræðum. Samfélagsgreinar eru valgrein í kennaranámi þannig allt frá því að kristin fræði urðu valgrein og fram á þennan dag hefur meirihluti kennaranema enga fræðslu fengið í kristnum fræðum eða trúarbragðafræðum, né í kennslufræði þessara greina. Eftir því sem næst verður komist er þessi fræðsla enn rýrari í roðinu við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Með tilliti til þess að það heyrir til undantekninga að framhaldsskólanemum gefist kostur á að afla sér þekkingar um trúarbrögð, kristinn dómur þar með talinn, er ljóst að stærstur hluti kennara hefur ekki stundað formlegt nám í kristnum fræðum síðan þeir gengu til prestsins sem unglingar og ekki fengið neina formlega fræðslu um önnur helstu trúarbrögð nema þeir sem á síðustu árum hafa hlotið þá fræðslu í 8. bekk grunnskólans.

Staða og hlutverk kristinsdóms- og trúarbragðafræðslu

Spurningin um stöðu og hlutverk kristindómsfræðslu og fræðslu um önnur helstu trúarbrögð í grunnskólum verður áleitnari eftir því sem börnum foreldra frá öðrum menningarsvæðum fjölgar, auk þess sem samtök sem aðhyllast guðlausan húmanisma brýna raustina reglulega. Almenn umræða um stöðu þessarar fræðslu er tæpast hafin hér á landi þótt hún hafi staðið lengi í nágrannalöndum okkar með virkri þátttöku stjórnmálamanna, kirkjuyfirvalda, kennarasamtaka og yfirstjórnar menntamála. Að minni hyggju þarf íslenska Þjóðkirkjan nú í upphafi nýrrar aldar að marka sér stefnu um fernt:

  • Hvað hyggst hún gera til að koma til móts við kennara í kristnum fræðum, svo þeir geti betur sinnt því starfi sem skólinn hefur falið þeim, þ.e. að miðla þekkingu á kristnum trúar- og menningararfi?
  • Hvað hyggst hún gera til að styðja kennara í því starfi sínu að temja börnum og ungmennum umburðarlyndi gagnvart þeim sem sem hafa önnur lífsviðhorf.
  • Hvernig hyggst kirkjan beita rödd sinni í umræðu um mótun menntastefnu almennt þannig að hún heyrist og sé trúverðug.
  • Hvað hyggst kirkjan gera á eigin vettvangi til að styrkja börn og ungmenni þannig að þau geti varðveitt eigin trúarsannfæringu en læri jafnframt að virða þá sem hafa aðra trúarsannfæringu.

Þjónusta við kennara

Þjóðkirkjurnar, einkum í Noregi og Danmörku hafa komið sér upp öflugri þjónustu við kennara sem hvílir á traustum faglegum grunni, bæði guðfræðilega og uppeldis- og kennslufræðilega. Sannfæring mín er sú að íslenska Þjóðkirkjan eigi greiðan aðgang að kennurum standi hún faglega að verki í samvinnu við kennarasamtök og Félag kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum.

Sá tími er liðinn að kirkjan sem stofnun stýri því sem kennt er í skólum landsins, hvort heldur er almennt eða hvað trúfræðsluna varðar. Að láta sem svo sé eru mistök sem rugla rímið um hlutverk skóla annars vegar og kirkju hins vegar. Kirkjan hefur hins vegar alla burði til að mæta skólanum sem samstarfsaðili, hvort heldur er verið að marka menntastefnu almennt eða fræðslu um trúarbrögð sérstaklega. Til að nýta sér þá burði þarf hún að beina starfskröftum og fjármunum í þann farveg.

Í formála að Aðalnámskrá grunnskóla, almennum hluta, 1999 segir Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra: „Skólarnir hafa vaxið úr jarðvegi kristninnar og þær rætur mega aldrei slitna."

Þekki kirkjan ekki sinn vitjunartíma slitna þessar rætur.