Þyrnar sorgarinnar

Þyrnar sorgarinnar

Föstudagurinn langi er dagur hinna deyfðu hljóma. Dymbilvika dregur nafn sitt af staðreynd þessa dags. Dauða Drottins Jesú. Við komum fram fyrir altari kirkjunnar djúpt snortin af þessum atburði. Altarið, er tákn Golgata í dag. Það er svið grimmilegra atburða þar sem refsinautn mannsins, breiskleiki og rangsleitni nær fullkomnun sinni. Þar standa nú 7 rósir.
fullname - andlitsmynd Birgir Ásgeirsson
14. apríl 2006
Flokkar

Ó,Jesús, séu orðin þín andláts síðasta huggun mín. Sál minni verði þá sælan vís með sjálfum þér í Paradís. Amen. SB 438

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Föstudagurinn langi er dagur hinna deyfðu hljóma. Dymbilvika dregur nafn sitt af staðreynd þessa dags. Dauða Drottins Jesú. Við komum fram fyrir altari kirkjunnar djúpt snortin af þessum atburði. Altarið, er tákn Golgata í dag. Það er svið grimmilegra atburða þar sem refsinautn mannsins, breiskleiki og rangsleitni nær fullkomnun sinni. Þar standa nú 7 rósir, frammi fyrir krossinum, og minna á þyrnikórónu sem látin var á höfuð Jesú, honum til háðs. Þyrnarnir blæða höfuð hans og hjartað finnur til. “Ó, höfuð dreyra drifið, sem drúpir smáð og pínt.” Sársauki birtist hér í átakanlegri mynd. Krossinn er kvalafullt aftökutæki.. Hinum andlega sársauka, sem læsir sig um æðar hvers ærlegs manns, frammi fyrir þessari mynd, verður ekki jafnað við annað en það, þegar við horfum á eftir ástvini í hin miklu djúp dauðans , ótímabært, eins og okkur oftast finnst, og manneskjan stynur í vanmætti sínum: “Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn”. (Ds. 130:1).

Þyrnirósirnar á altarinu í dag, vitna einnig um þau 7 orð Jesú , sem brenndu sig inn í vitund nærstaddra. Síðustu orð þess sem við elskum skipta miklu. Þau eru eins og yfirskilvitleg og hafa sérstakt gildi. Og María er komin hér aftur til sögunnar, svo skömmu eftir að engillinn boðaði henni fæðingu Jesú. Hversu mikil sjónhending er líf þeirrar móður, sem þarf að sjá á eftir barni sínu í greipar dauðans. María er hér hrelld og hrædd. En hún er jafn trúföst og jafn kjörkuð. Trúfesti manneskjunnar sést best, þegar mikið liggur við. Kjarkur hennar verður aðeins ljós, þegar ógnin er yfirþyrmandi. Og hér er María komin. Ásamt trúföstum skyldmennum og hjartans vinum. Ó, hversu dýrmætt það er að eiga kærleiksvini, sem eru reiðubúnir að fylgja með út á bjarg ógnar og óvissu, vini, sem hvorki telja eftir sér fylgdina, eða láta kringumstæðurnar vinna bug á tryggðinni og samúðinni. Og þarna stendur María og horfir á þessa hörmung og finnur sárlega til grimmdar heimsins. Móðirin sem aldrei bregst. Hver sársaukastuna sonarins gengur henni að hjarta. Dauði Jesú er þó sárastur. Krossinn varð dánarbeður Jesú og María var þar. En ekki ein.

Ég veit ekki hvort þið hafið öll komið að slíkum beði, dánarbeði. Þó veit ég fyrir víst, að það á við ykkur mörg. Það skiptir ekki öllu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá rennur sú stund upp í lífi flestra. Þegar það gerist er það mikil reynsla, og gleymist ekki. Oftast er sú reynsla erfið og átakanleg, þegar allt er breytt og aðskilnaðurinn endanlegur. Það gengur nærri. Stundin við dánarbeð getur þó líka orðið dýrmæt minning, þegar frá líður, ef þyrnar sorgarinnar hafa náðst úr holdi tilfinninganna og sorgin fengið að sefast í faðmi kærleika og trúar.

Sjúkrabeður er annað orð íslenskt, ljóslifandi, gagnsætt, sem er einkennandi fyrir íslenska tungu. Á þeim beði hvílir sá, sem er veikur. Þar er yfirleitt vænst lækningar. En við vitum að það getur brugðið til beggja átta. Þó gleðjumst við yfir því að möguleikarnir eru ótrúlega miklir á okkar dögum og heilbrigðisþekking og þjónusta tekur stöðugt framförum. Við slíkan beð á sér stað mikilvæg návist, og ef vel lætur, samræða. Þegar alvara og óvissa er á ferðum, getur sú samræða þurft að ganga býsna djúpt. Hjá þeim sem bíður dauða síns vakna ýmsar spurningar, áleitnar og erfiðar. “Hvernig er nú komið fyrir mér, hvað hefur gerst, hvað hef ég verið og fyrir hvað hef ég staðið? Hverjir hafa fylgt mér þessa leið og hvernig hef ég reynst þeim - eða þeir mér? Hvað skil ég eftir í þessu lífi, frá hverju fer ég, hvers sakna ég af því sem ég vildi fá að gera, ef mér entist tími til? Þannig ryðjast spurningar fram og efniviður samtalsins bíður þess að orðræðan hefjist. Þá verður líka til býsna ágeng spurning ástvinarins: “Hvaða erindi á ég að þessum sjúkrabeði, sem hugsanlega verður dánarbeður. Vil ég koma á slíkan stað, get ég nálgast beð dauðsjúkrar manneskju. Vil ég taka mér stöðu þar sem möguleikarnir eru hverfandi og “ávinningurinn” sá einn að hlýða á hægjandi hjartslátt og halda í máttvana hönd.” Sumum er það mikil ógn, nánast skelfing, og óþægindi, sem ekki er eiginlega ráðlegt að leggja á sig. Tíðarandinn miðar að því að forðast óþægindi. Sem betur fer er kærleikurinn sterkur og flestum er það dýrmætt að vera nærri ástvinum sínum, þá stundin nálgast og þreyja með honum síðasta skeiðið. Þá verður hver stund mikilvæg og hvert orð fær þunga sem aldrei fyrr. Þá gefst hugsanlega tækifæri til samskipta, sem hafa verið vanrækt eða hafa ekki fundið sér farveg í önn og fyrirgangi hins daglega lífs.

Golgata er staður ömurleikans. Dauði ástvinar er mynd alls þess, sem er ömurlegt í lífi manneskjunnar. Það er hverjum manni raun að vera undir þeim krossi og við þann dánarbeð. En í skugga krossins á Golgata verður vonin til. “Kona, nú er hann sonur þinn” heyrir María. Og Jóhannes fær líka erindi að glíma við: “Nú er hún móðir þín.” Það er eins og orðin sem sögð voru á leiðinni til Jerúsalem ómi á ný: “Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig”. (Jóh. 16:16). Æ, má það vera satt?

Þegar Jesús felur þau Maríu og Jóhannes í hendur hvoru öðru verður til sú fyrirmynd sem felst í versi Hallgríms: Ástkæra þá, ég eftir skil, afhenda sjálfum Guði vil, andvarpið sér hann, sárt og heitt, segja þarf honum ekki neitt. (SB 434)

Þegar þau María og Jóhannes standa saman við krossinn trúir Jesús þeim fyrir hvoru öðru. “Takið hvern annan að yður eins og Kristur tók yður af sér”. Starf huggunarinnar er hafið. Einmitt hér frammi fyrir krossinum. Það er erfitt og reynir á þolgæði og trú. En það starf er eitt af meginverkefnum hvers kristins manns. Slíkt starf fékk tilgang á þessum degi og ef við tökum okkur stöðu á Golgata þessa dags, eigum við ekkert nema þessi orð, stunið upp af krossins dánarbeði: “... nú er hann sonur þinn, nú er hún móðir þín”.

Selma Lagerlöf, sá ágæti höfundur, sagði nokkrar sögur, legendur, sem voru nokkurs konar ljósbrot frá tímum Jesú og birtu viðhorf og viðmót samtímans, án þess að sagan væri í sjálfri sér sönn, þ.e. byggð á staðfestum heimildum, heldur táknræn og flutti nútímanum sannleika, sem er algildur. Þar segir af fugli, rauðbristingi. ‘Skaparinn gaf öllum líf og gjörði fuglana og öll dýrin, hvert með sínu móti og með sínu nafni. Rauðbristingurinn, sem bar þetta fagra nafn, var hins vegar alveg grár, og hann fór til skaparans og kvartaði yfir því að vera ekki eins fallega fjaðraður og ýmsir aðrir fuglar. Guð brosti og sagði að hann myndi finna út úr því sjálfur einn góðan veðurdag. Síðan liðu ár og öld, en ekki fékk rauðbristingurinn rauðar fjaðrir, eins og hann vonaðist til. Sögnin gekk fram fugl af fugli og vonin um rauðar fjaðrir hélst frá einni kynslóð til annarrar. Einu sinni gerðist sá atburður að rauðbristingur gerði sér hreiður í þyrnirunni nokkrum utan við stóra borg. Þegar hann var dag einn að sinna ungum sínum sá hann mikla mannfylkingu koma út úr borginni og ganga fram hjá þyrnirunnanum. Hann kúrði sig hræddur og varði unga sína. Þegar fylkingin fór hjá, sá rauðbristingurinn þrjá menn, kvalda og hrjáða, einn þeirra bar kórónu af þyrnum og það blæddi úr sárum hans. En hvað litli rauðbristingurinn fann til með þessum mönnum, einkum þeim sem bar þyrnikórnónuna, því rauðbristingurinn vissi, hversu sárir þyrnarnir gátu orðið. Hann flögraði að krossinum, óttasleginn, en fullur samúðar, hringsólaði stundarkorn, þar til hann öðlaðist kjark til að nálgast þyrnikórónuna og dró einn þyrni úr höfði hins krossfesta, ef það mætti sefa sársaukann ögn, og flaug síðan rakleiðis í hreiður sitt. Á leiðinni draup blóðdropi af þyrninum á brjóst rauðbristingsins. Ungarnir sögðu við móður sína: Þú hefur rauðar fjaðrir. Og það var rétt. Hvernig sem rauðbristingurinn strauk fjaðrir sínar, hélst liturinn áfram, rauður og skær. Síðan hafa rauðbristingar verið rauðir á brjóstið.’

Þyrnar sorgarinnar svíða. Hver sá, er dregur einn slíkan úr sári syrgjanda og leggur það græðandi orði og fyrirbæn gengur í lið með þessum litla rauðbristingi. Það er að leggja sköpuninni lið. Það er að leggja lið því orði, sem Kristur ber með sér í þetta líf og í þennan heim. Það er að leggja þeim lið, sem tóku líkama Jesú af krossinum, smurðu það smyrslum, vöfðu það líni og lögðu það í gröf. Það er að leggja þeim lið, sem héldu heim og héldu í vonina af trúmennsku sinni og tryggð og hlýddu orðum af krossi sögð: ...nú er hann sonur þinn, ...nú er hún móðir þín. Það er að leggja fórn Jesú lið og gangast við henni, auðsýna umhyggju og gefa af sjálfum sér í kærleika og trú. Þá getur huggunin af sér von og endurnýjun lífsgleðinnar. Og brjóstið verður rautt og heitt.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.