Svona biskup viljum við

Svona biskup viljum við

Á málþingi um biskupsþjónustuna sem framtíðarhópur kirkjuþings hélt í Neskirkju fyrir stuttu, var meðal annars spurt hvernig biskup við þurfum, hvaða hæfileika hann eða hún þarf að búa yfir - og hverjar fyrirmyndir biskupsins eiga að vera.

Nú stendur yfir vígslubiskupskjör í Skálholtsstifti þar sem í kringum 150 kjörmenn fá að greiða þeim/þeirri atkvæði sem þeir álíta hæfasta/hæfastan í að vera einn af þremur biskupum þjóðkirkjunnar í byrjun 21. aldar.

Á málþingi um biskupsþjónustuna sem framtíðarhópur kirkjuþings hélt í Neskirkju fyrir stuttu, var meðal annars spurt hvernig biskup við þurfum, hvaða hæfileika hann eða hún þarf að búa yfir - og hverjar fyrirmyndir biskupsins eiga að vera.

Í erindi mínu í Neskirkju nefndi ég sex fyrirmyndir sem biskupinn þarf að eiga til að vera biskup í kirkju sem byggir á fagnaðarerindinu og á í kröftugu samtali við samtímann. Þessar fyrirmyndir eru bæði nálægar og fjarlægar okkur í sögunni og koma úr ólíkum áttum.

Fyrstu þrjár fyrirmyndirnar sem biskupinn hefur eru úr hópi kirkjufeðranna. Mjög snemma í kirkjusögunni þróuðust hugmyndir um biskupsþjónustuna eftir þremur módelum, kenndum við höfuðkennimenn síns tíma. Fyrsta módelið er kennt við Ignatíus frá Antíokkíu sem var uppi frá ca. 35 til ca. 107. Það gengur út frá því að staður biskupsins sé við altarið í kirkjunni, þar sem máltíð Drottins er veitt hinum trúuðu. Ignatíus byggði mikið á líkingunni um kirkjuna sem líkama Krists sem tengdist líkama Krists í altarissakramentinu og þessi tenging gerir kirkjuna sem samfélag trúaðra mjög sakramental.

Annað módelið er kennt við aðra fyrirmyndina sem er Íreneus frá Lyon. Hann lifði ca. 130 til ca.  200 og lagði höfuðáhersluna á hlutverk biskupsins sem verndara og kennara trúarinnar. Samhengið hans tíma var karpið við gnóstíkerana og fyrir Íreneusi var rétt þjónusta biskupsins fólgin í því að boða hina postullegu trú samkvæmt vitnisburði postulanna um líf og starf Jesú Krists, og nauðsynleg til að tryggja postulleika safnaðanna.

Þriðja módelið og þriðja fyrirmyndin er Kypríanus frá Karþagó sem lést árið 258. Þar er hlutverk biskupsins meira á sviði sem nær út fyrir líf og starf hins staðbundna safnaðar, því biskupinn verður tákn og tæki fyrir einingu hinnar einu heilögu og almennu kirkju. Ásamt öðrum biskupum gegnir hann því hlutverki að tryggja postulleika kirkjunnar með því að taka höndum saman á kirkjuþingum og ráðstefnum þar sem trúin og kenningin er rædd og varin.

Fjórða fyrirmynd biskupsins er Rósa Parks. Hún lifði og dó í Alabama í Bandaríkjunum 1913 til 2005. Rósa Parks varð táknmynd friðsamlegrar réttinda baráttu litaðra í mannréttindavakningu sjötta áratugarins, þegar hún neitaði að standa upp í almenningsvagni fyrir hvítum karlmanni, sem samkvæmt reglunum átti rétt á að sitja. Rósa er fyrirmynd biskupsins vegna þess að hún er hugrökk og dýrmæt fyrirmynd þegar hún setur eigin þægindi og öryggi neðar en það góða sem hún getur komið til leiðar með því að standa fyrir réttlætinu.

Fimmta fyrirmynd biskupsins finnst mér vera Lína Langsokkur. Því að Lína er sanngjörn, sterk og hjartagóð og óhrædd að fara eigin leiðir. Það er mjög vont ef biskup vantar allt þetta. Þess vegna er Lína Langsokkur dýrmæt fyrirmynd sem leiðtogi.

Sjötta og síðasta fyrirmynd biskupsins er hin búrmíska Aung San Suu Kyi, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir friðsamlega stjórnarandstöðu sína árið 1991. Hún fæddist árið 1945 og hefur setið lengi í stofufangelsi samkvæmt vilja herforingjastjórnar Burma sem líður ekki frjálsa umræðu um stjórnmál og lífsgæði í landinu. Aung San Suu Kyi er fyrirmynd vegna þess að hún er leiðtogi með sterkar hugsjónir sem hún selur ekki fyrir málamiðlanir og er tilbúin að taka afleiðingunum á eigin skinni.

Þetta eru fyrirmyndirnar sex sem biskupinn þarf að hafa. Þær standa fyrir einingu kirkjunnar í altarissakramentinu, samfellu í postullegri trú og kollegial eða sameiginlega yfirsýn. Þær standa líka fyrir leiðtoga sem eru röggsamir og dugmiklir, hjartagóðir og sterkir, hugrakkir og þora að berjast fyrir hugsjónum sínum.

Mættum við velja Skálholtsbiskup sem hefur þetta allt í sér!