Í þágu þolenda

Í þágu þolenda

Samfélagið okkar er að opnast fyrir því að hlusta á raddir þeirra sem voru þaggaðar vegna virðingarleysis og ofbeldis. Samfélagið okkar er að læra að taka á móti sögum þolenda og segja: „Þetta er óþolandi. Við þorum að hlusta. Við verðum ekki heil nema að þolendum sé sýnd virðing.“

Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.

En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“

Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið. Lúk 7.11-17

Elsta dóttirin á heimilinu er í 6. bekk. Þetta árið er samfélagsfræði fyrirferðamikil í námsskránni og þau byrja veturinn á trúarbragðafræði. Búddisminn var fyrstur á dagskrá. Eftir að hafa lesið skólabókina um búddisma, hafði hún fróðleik á takteinunum sem var í það minnsta á miklu djúpi hjá foreldrunum.

Á verkefnablaði sem fylgdi heimalærdómnum í vikunni sem leið var spurt um ýmislegt sem varðar framkomu fólks og hvernig á að koma fram við aðra. Ein spurningin var svona:

„Hvað græða búddistar á því að koma fram af virðingu við gamalt fólk?“

Okkur fannst hún skemmtileg, sérstaklega út frá þeirri hugsun að búddistar græði eitthvað meira á því að vera almennilegir en aðrir. Kennslubókin var auðvitað að fiska eftir því að nemandinn gæti gert grein fyrir siðferðilegum kröfum sem trúaður búddisti tekur alvarlega. Þar á meðal er framkoma við hina eldri.

Við ræddum þetta á heimilinu og umræðan spannst svo út í það hvernig maður kemur fram af virðingu við aðra.

Hvað felur það í sér að koma fram af virðingu við annað fólk?

Hvað heldur þú?

* * *

Við skulum nálgast það úr öfugri átt, með stuttri sögu um skort á virðingu. Hún tengist líka skóla. Meira að segja sama skóla og sama bekk.

Ég var ellefu ára. Staddur heima hjá bekkjarbróður og við vorum að fara út að leika. Og hann var eitthvað að tala við foreldra sína áður en við fórum af stað. Og þeim sinnaðist. Og það skipti engum togum að hann gargaði á mömmu sína: „Haltu kjafti!“ Svo rauk hann út. Og ég á eftir. Það kom á mig. Vegna þess að ég var alinn upp við það að svona talaði maður ekki við foreldra sína. Ég veit ekki hvað varð um strákinn. Eða fjölskyldu hans. Og ég þekki ekki söguna á bak við þetta. Þekki ekki fjölskyldusöguna hans. En ég hugsaði um þetta í vikunni þegar ég sá móður hans á gangi niðri í bæ. Hún er svolítið kreppt í útliti. Gengur um lotin. Beygð. Svona eins og kona sem hefur þurft að bera þunga byrði á ævi sinni. Ég hef séð hana nokkrum sinnum í gegnum árin – og reyndar tvisvar í þessari viku! Og ég hef alltaf hugsað um þetta kvöld. Og ég hef hugsað um það hvernig við komum fram hvert við annað og hvað fólk þarf að bera. Og hverju það þarf að taka á móti. Hvers konar heimilisaðstæður ala af sér svona samskipti? Hvað þarf að gerast í sambandi foreldra og barna til að þau gargi á hvert annað: „Haltu kjafti!“

Ég þekkti sögu þessarar konu, sem ég sá um daginn og vissi hvers konar virðingarleysi hún hafði mátt þola. En oftast þekkjum við ekki sögu þeirra sem við mætum, vegna þess að við berum ekki lífsreynsluna utan á okkur. Stundum segir enginn frá reynslunni sinni. Lífsreynslan verður leyndarmál. Sérstaklega þegar hún hefur gengið svo nærri okkur að við þorum ekki að segja frá. Við þöggum okkur sjálf. Við þöggum og bælum það sem við höfum gengið í gegnum.

* * *

En svo gerist eitthvað sem fær okkur til að horfast í augu við það sem við þurftum að þola – og komumst að því að það var óþolandi. Einmitt núna eru margir í þeim sporum.

Guðrún Jónsdóttir, sem er talskona Stígamóta, segir í Fréttablaðinu í gær:

„Þjóðfélagsumræðan að undanförnu um ofbeldi hefur hreyft mjög við fólki sem í áratugi hefur burðast eitt með leyndarmál sín. Það er eins og fólki sé að detta í hug í fyrsta skipti að það geti átt rétt á uppreisn æru. Það leyfir sér að þrá staðfestingu á að brotið hafi verið á því.“

Hún heldur svo áfram og segir:

„Mörg málanna eru fyrnd og sumir þeirra ofbeldismanna sem um ræðir eru dánir en eftir sitja konur og karlar sem að umræðan að undanförnu hefur hreyft við þannig að þetta fólk er í uppnámi. Það er langt síðan að ég minnist þess að samfélagsumræða hafi skilað fjölgun á borð við þessa inn til okkar.“

Það sem við heyrum hana segja er að samfélagið hefur, í gegnum umræðu og upplýsingar um kynferðisbrot, opnað sig þannig að þolendum kynferðisofbeldis finnst að þeim sé sýnd virðing. Virðing gagnvart þeirri reynslu sem í lengri eða skemmri tíma hefur valdið sársauka og kreppt. Virðing gagnvart reynslu sem er óþolandi. Og núna ætlum við að hlusta. Við ætlum ekki að láta þig, sem brotið var á, bera byrðina ein eða einn.

Þess vegna segjum við – sem samfélag – við þig sem hefur orðið fyrir ofbeldi: Gefðu þig fram, segðu söguna þína, leyfðu okkur að bera sársaukann þinn með þér. Við getum ekki sett okkur í þín spor því virðingarleysið sem þér var sýnt beindist ekki að okkur, en við viljum hlusta á þig og sýna þér þá virðingu að trúa þér. Við viljum standa með þér.

* * *

Þegar Jesús stóð andspænis ungmenninu sem lá lífvana í borginni Naín, mætti honum samfélag sem var í sársauka og samlíðan með sorginni sem móðir unga mannsins upplifði vegna andláts einkabarns síns. Dauðinn og sorgin settu mark sitt á líf og líðan allra. Samfélagið sýndi samhygð.

Þegar Jesús hafði gefið unga manninum lífið aftur, áttu nokkrir hlutir sér stað. Þegar hann settist upp og byrjaði að tala, greip um sig ótti. Ótti vegna þess að sá sem átti ekki að tala, hóf upp raust sína og sagði frá. Hvað ætli hann hafi sagt?

Á eftir óttanum greip um sig fögnuður. Samfélagið fann gleði og styrk yfir því að röddin sem hafði verið þögguð heyrðist á ný. Í kjölfar gleðinnar barst fregnin um hið lífgefandi kraftaverk út um allt. Vegna þess að sá sem hefur upplifað lausnina og gleðina sem er fólgin í því að eignast frelsi eftir dauða og sorg, getur ekki annað en sagt frá því.

* * *

Samfélagið okkar er að opnast fyrir því að hlusta á raddir þeirra sem voru þaggaðar vegna virðingarleysis og ofbeldis. Samfélagið okkar er að læra að taka á móti sögum þolenda og segja: „Þetta er óþolandi. Við þorum að hlusta. Við verðum ekki heil nema að þolendum sé sýnd virðing.“

Sem samfélag er kirkjan á sama stað og allir hinir. Þegar þolendur kynferðisofbeldis kirkjunnar manna stigu fram og sögðu sögu sína, voru fyrstu viðbrögð ótti og afneitun. En þegar við fórum að hlusta, áttuðum við okkur á að við urðum vitni af kraftaverki – eins og í guðspjallinu – sem felst í því að líf leysir af dauða, gleði leysir af sorg. Þannig á kirkjan að taka á móti þolendum kynferðisbrota. Þannig sýnir kirkjan þeim þá virðingu sem þeim ber.

Kæri söfnuður, við viljum að þið vitið og munið þrennt um kirkjuna þegar þið farið héðan frá kirkjunni í dag:

Í þögn þolenda deyjum við. Í þrótti þolenda verðum við heil. Í þágu þolenda lifum við.

Það er að vera kirkja.

Og svo skulum við líka muna eftir kennslubókinni í samfélagsfræði í 6. bekk: Við græðum öll á því að sýna þolendum virðingu.