Hraunbæjarkarlinn

Hraunbæjarkarlinn

Trúin er þessi innri glóð, sem hvetur þig að verki og skapar lífsins list sem er samansafn tilfinninga þinna og vitsmuna. Draumheimur svefns og vöku, morgunroðans og næturinnar, dauðans og upprisunnar, þar sem raunveruleikinn verður til.

Heiðrekur Guðmundsson ljóðskáld á þessi orð í ljóði sínu Mynd og minning:

Skynjar þú best Á einu andartaki Umhverfi þitt Og festir þér í minni Er ungur hugur Eftir ljúfan draum, Opnast sem blóm Að morgni, fyrsta sinni.

Sú eina mynd Er ætíð glögg og skýr, Þótt allar hinar dofni, Og á þær flestar Falli ryk og gróm. Það gildir jafnt Um götu í stórri borg Og gamalt hús í bænum Sem tæran læk Og lítið sumarblóm.

Á heimilinu mínu þegar ég var yngri voru til þó nokkuð af afsteypum af verkum Einars Jónssonar myndhöggvara. Langafi minn Bjarni Jónsson frá Galtafelli var bróðir Einars og verk hans bárust þannig í arf inn á heimilið í gegnum móður mína. Skynjun barnsins á þessum verkum var ólík því sem upplifunin er í dag en til var á heimilinu stór afsteypa úr gifsi, máluð brún, af Ingólfi Arnarsyni, höggmyndinni sem nú stendur á Arnarhóli í Reykjavík.

Ég man að við systkinin áttum það til að gera höggmyndina af Ingólfi að leikmynd þar sem strumpar, playmókallar og barbiedúkkur fengu rými. Jafnvel var styttan ekki réttnefnd fyrr en löngu síðar því í huga bróður míns var Ingólfur blessaður alltaf Hraunbæjarkallinn, en þá bjuggum við í Hraunbænum í Reykjavík og styttan hluti af þeirri tilveru, leikmynd frekar en höggmynd.

Á heimilinu voru til fleiri verk, ég man eftir Nóttinni og Morgunroðanum, sem nú prýða stofuvegginn hjá mér og minna á þessar myndir út bernsku þó að í dag eigi þær sér aðra merkingu en ég lagði í þær ung að árum.

Síðar á ævinni þegar ég fór að skynja og skilja þann fjársjóð sem býr í verkum Einars, hugsunina, hugrekkið og listina sem í honum bjó, þá þykir mér óendanlega vænt um þá bernskumynd sem hugurinn geymir og festi í minni, barnsleg frumskynjunin af þessum verkum og um leið þakklæti fyrir fá að alast svo náið upp með hans arfleið og verkum.

Nú í dag finnst mér ekkert notalegra en að ganga um garðinn í kringum safnið, þar ríkir alveg einstök kyrrð og verkin þrungin merkingu þar sem Alda Aldanna rís hæst og minnir okkur á sögu kynslóðanna, forgengileikann og framtíðina sem er óskrifað blað hjá hverju og einu okkar.

Um Einar Jónsson er þetta skrifað í bók sem gefin var út af Skuggsjá um ævi hans og verk:

„Slík listaverk skapar enginn, nema listamaður, sem það hefur sannreynt, að guðsneistinn í mannsálinni er hið skapandi hugarflug, sem sífellt leitar að nýjum leiðum, nýju útsýni, listamaður sem hefur gert sér þess alvarlega grein, að sú hætta er ávallt fyrir dyrum, að láta flækjast í veiðinet vanans og missa þar víðsýni og mátt til hins frjálsa flugs.“

Það er ljóst að trú hefur getu til að skapa nýjan veruleika, nýja sýn á lífið og umhverfið, nýja skynjun, birtir okkur nýjar myndir sem hugurinn fóstrar úr umhverfi okkar. Guðsneistinn sem hvert og eitt okkar geymir, leitar út fyrir sig, er sístætt skapandi og mótandi og hvetur okkur til að leita nýrra leiða, út fyrir okkur sjálf, út fyrir vanann til að kenna okkur víðsýni og efla persónulegt frelsi. Við erum fædd til að skapa og með frelsi til að velja. Trú er listform, tjáning á veruleika sem er okkur æðri og sá háttur hvernig við tjáum hann, er jafn ólíkur og við erum mörg. Trú sem listform, er brautryðjandi bæði í persónulegu lífi fólks og þannig að hún hefur krafta sem rutt hafa áfram mannkynssögunni á tímabilum stöðnunnar og framkallað einhver mögnuðustu listaverk sem sagan geymir.

Trúin er þessi innri glóð, sem hvetur þig að verki og skapar lífsins list sem er samansafn tilfinninga þinna og vitsmuna. Draumheimur svefns og vöku, morgunroðans og næturinnar, dauðans og upprisunnar, þar sem raunveruleikinn verður til.

Raunveruleikinn er á ströndinni í lok Jóhannesarguðspjalls. Þar sjáum við einhverja litríkustu og mennskustu mynd guðspjallanna. Þar er að finna allt tilfinningalegt litróf, frá sorg og vonleysi yfir í undrun og að lokum gleði yfir lífinu og von sem vísar til framtíðar. Myndin sem blasir við er listform, sjónlist, gjörningur sem boðar hin dýpstu lífssannindi sem eru til þess fallin að vekja hugann og hreyfa við og snerta á innstu kviku mannlegs lífs, hvað er það sem skiptir mig máli í lífinu, hver er mín hamingjuleið og er ég ein á þeirri leið eða gengur Guð með mér og býður mér til samfélags við sig þar sem við brjótum saman brauð, deilum þannig kjörum og flytjum þakkir. Við sköpum þannig list í mannlegum samskiptum sem tengir okkur við hvert annað og við Guð og þann neista sem hann hefur sáð í huga okkar allra og okkar er að velja hvort við vökvum hann eða ekki. Við gerum hann þannig að lifandi sköpunarkrafti sem hreyfir við tilverunni svo um munar.

Trú er lifandi vatn, vatn sem flæðir í gegnum allar sprungur og sem holar steininn. Lífsins vatn sem brýtur allar varnir og streymir fram í óteljandi lindum að okkar dýpstu sárum og sárustu þörfum. Þessi lind gerir okkur heil, líkt og listin og sköpunin gerir okkur heil. Við þurfum á listinni að halda líkt og við þurfum á trúnni að halda. Við þurfum á hvert öðru að halda í samfélagi líkt og Jesús stofnaði til á ströndinni eftir upprisuna, þar sem við vökvum hvort annað og einungis þannig fáum við vaxið saman í einingu og friði. Þegar við skynjum slíkt í eigin lífi, þá er það sem andartak sem festist í minni, líkt og í draumi um nótt og sem blóm að morgni fyrsta sinni.

Í sálmi 139 standa þessi orð:

Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. Og þótt ég segði: „Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,“ þá mundi myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

Yfir stofusófanum mínum vaka eins og ég sagði í upphafi Nóttin og Morgunroðinn. Eftirmyndir úr gifsi af frummyndum Einars Jónssonar. Þær eru minnisvarðar um bernskuskynjun mína á list Einars, hvernig höggmynd varð leikmynd og Ingólfur Arnasson varð Hraunbæjarkallinn sem hýsti kynjaverur og dúkkur.

Hvernig löngunin eftir að vita meira um líf þessa mikla listamanns varð meiri og hvernig verk hans halda áfram að vekja hjá mér undrun, lotningu og vitund um að frumkraftar trúarinnar geta skapað og framkallað list sem hefur vekjandi áhrif á hugann og hrífur hvern sem sér. Og það er það sem við gerum í Kirkjulistaviku, þá verðum við vitni að sköpun og list sem kallar okkur til samfélags við Guð og hvert annað og fyrir það og framlag þeirra sem koma að þeirri sköpun þökkum við fyrir hér í dag. Þessi verk eru líka tákn um dauða og upprisu. Um morgunroðann og nóttina sem á sér stað í lífi okkar allra. Á ströndinni stendur Jesú og kallar. Hann er brunnur hins lifandi vatns þar sem engan þyrstir eða hungrar sem til hans kemur. Á þeim stað myndast list hins lifandi samfélags í átökum ljóss og myrkurs, í vöggu sköpunarinnar. Það er á þeim stað sem við finnum frið og til verður mynd sem verður að minningu.

Amen.