Borgin logar!

Borgin logar!

Það þurfti samt engar stympingar eða læti til að koma þeim skilaboðum á framfæri og mótmælendur höfðu sig hæga á meðan á athöfninni stóð. Ekki skorti virðingu fyrir aðstandendum og hinum látna, enda væri nú fokið í flest skjól ef það hefði ekki verið raunin.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
22. janúar 2009

Bálköstur við styttu Jóns Sigurðssonar

Þar sem leikskólabörn dansa gjarnan í kringum jólatréð á aðventunni, eftirvæntingarfull eftir jólahátíðinni loga nú eldar og jólatréð frá Osló er efniviðurinn á bálköstinn. Bjarminn hefur lýst upp styttuna af Jóni Sigurðssyni og ópin frá mótmælendum eru afdráttarlaus og þau hljóma ,,vanhæf ríkisstjórn".

Borgin logar í mótmælum

Það er sérstakt ástand sem hefur ríkt í samfélaginu undanfarnar vikur. Mótmælin virðast stigmagnast og eru skiljanleg. Samfélagið krefst réttlætis og þess að ráðamenn axli ábyrgð og sumir vilja að þeir taki pokann sinn. Réttvísin verður að ná til þeirra sem ábyrgð bera á hruni bankanna en dyggðir mannhelgis og virðingar verða að vera í bland við það uppgjör og kærleikurinn einnig svo farsæl sáttagjörð náist til framtíðar.

Mótmæli og mannlegar sorgir

Það var athyglisvert að sjá mótmælendur og syrgjendur mætast á sama punkti á miðvikudegi mótmæla. Í Dómkirkjunni fór fram útför á sama tíma og mótmælin voru að magnast. Á slíkri sorgarstundu er jafnan söknuður, afneitun, doði og jafnvel reiði sem syrgjendur glíma við og missirinn alltaf svo endanlegur. Mannleg neyð og sorgin mikil.

Virðing fyrir lífi og dauða

Í öllum látunum áttuðu sumir mótmælendur sig ekki á því hvers konar athöfn var í gangi í næstu byggingu. Það þurfti samt engar stympingar eða læti til að koma þeim skilaboðum á framfæri og mótmælendur höfðu sig hæga á meðan á athöfninni stóð. Ekki skorti virðingu fyrir aðstandendum og hinum látna, enda væri nú fokið í flest skjól ef það hefði ekki verið raunin.

Vonandi mun virðing fyrir mannhelgi og lífi áfram vera sameiginlegt gildismat í samfélaginu, því rúm þarf að vera fyrir okkur öll, dansandi leikskólabörn, mótmælendur, syrgjendur og þau öll hin og okkur hvar sem við mætumst á lífsins leið. Og vonandi styttist í að við sjáum ástæðu til að syngja einhvað annað á Austurvelli en „vanhæf ríkisstjórn“!