Sumardagur í fangelsi

Sumardagur í fangelsi

„Sumarið er alltaf kuldalegt í fangelsinu,“ sagði fanginn. Hann sagðist losna út i vetrarbyrjun og þá myndi hann ganga út í sumarið. Sumarið sitt. Það sumar yrði engu öðru líkt.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
16. júlí 2008

„Sumarið er alltaf kuldalegt í fangelsinu,“ sagði fanginn. Hann sagðist losna út i vetrarbyrjun og þá myndi hann ganga út í sumarið.

Sumarið sitt.

Það sumar yrði engu öðru líkt.

Það yrði sumar allra sumra.

Manneskjan lifir í tímanum sem hún hefur skipt niður í sumar, haust, vetur og vor. Hver tími hefur sín einkenni og taktur samfélagsins mótast af honum. Hver árstíð tekur við af annarri og umvefur manneskjuna ýmist með svölum gusti vorsins eða sumarheitum höndum. Hauströkkrið leggst síðan yfir og rámur veturinn er skammt undan fylltur tíma sem seint virðist ætla að líða.

Manneskjan er oft öryggislaus í heiminum og reynir að ná tökum á tímanum með því að hólfa hann niður. Sumarið er eitt þessara hólfa. Gróðurreitur sem bíður þess að í hann sé sáð. En allir gróðurreitir þurfa umönnunar við. Reita þarf illgresi, vökva blóm og verja á alla lund. Uppskeru er fagnað. Blóm brosir mót sólu og grænkan gefur von um þroska.

Sól skín hátt á lofti og öll náttúran ilmar af krafti og fegurð. Manneskjan gengur út í sumarið og vill eiga þátt í fegurð þess og vexti. Hún er líka í heiminum til þess að blómgast og bera ávöxt. Kannski er engin árstíð jafnmikill boðberi frelsisins eins og einmitt sumarið með angan sinni og tækifærum til vaxtar og þroska.

Sumarið er sá tími þegar manneskjurnar fara á kreik. Strjúka af sér vetrardoða og fleygja vorkvíðanum út um opinn gluggann. Halda út í náttúruna, skunda upp hlíðar og fjöll. Fljúga yfir hafið til fjarlægra stranda. Endurnýja líkama og sál fyrir komandi vetur.

Langþráð sumarfrí gengur í garð. Grár hversdagsleikinn er yfirgefinn um stund – reyndar í þeirri sterku trú að hann komi aftur! Sumarfríið er ekki annað en hlé milla þátta í leikritinu Hversdagsleiki þar sem við öll höfum eitthvert hlutverk. Já, hvað væri lífið annars ef enginn væri hversdagsleikinn?

En í fangelsi er ekkert sumarfrí...í rauninni aðeins einn tími sem hefur gróið fastur á dagatalið og sá dagur er hvorki rauður né svartur heldur grár og ber nafnið afplánun. Ein árstíð sem umlykur allt eins og krumla trölls í fjalli.

Fanginn sagði ekki bara að sumarið væri kuldalegt heldur þyrfti hann líka að taka á því með sínum hætti til að lifa af. Umbera þennan dag sem fastur væri á dagatalinu og héti afplánun. Enda hver sá staður undarlegur þar sem tíminn hreyfist ekki. Fanginn og þeir sem í væru í kringum hann biðu þess eins að fara út. Engu að síður væri stundum hægt að leika á tímann, láta hann fljúga með ógnarhraða en það gerðist sjaldan.

En fanginn sagðist líka reyna að varðveita sumarið í sjálfum sér. Það væri reyndar erfitt og þó hann hefði stungið því í frystikistu huga síns til að geta tekið bita og bita upp þegar þannig stæði á væri það nú svo undarlegt að eitt og annað vildi hverfa úr henni. Og hann sem hélt að fangelsið væri öruggur staður.

Sumarið í sjálfum þér – ekki hægt að lýsa því frekar en listaverki sem hver og einn verður að upplifa og skynja á sinn eigin hátt. Sumarið sem kemur í fang þér þegar út í frelsið er gengið og gildir þá einu hvaða árstíð prýðir dagatalið.

Kannski er engin árstíð jafn kjörin til að láta í ljós vonir sínar og þrár eins og sumarið. Sumarið kallar það besta fram í hverri manneskju – og manneskjan er tilfinningavera. Það hefur aldrei þótt gott að byrgja inni tilfinningar sínar og langanir: Láta þær hvíla á sér eins og farg sem þrýstir öllum lífskrafti út í veður og vind. Best er að deila þeim með öðrum og vinna þannig bug á félagslegri einangrun og kuldalegu þunglyndi. Vinur sem veit hvernig öðrum líður er fljótur að rétta fram hjálparhönd sem getur breytt vonlitlum aðstæðum á augabragði. Þessi vinur getur verið nær þér en þú heldur.

Sjáðu bara hvar hann horfir á þig á miðjum sumardegi.