Rétt verðmerking

Rétt verðmerking

Hvar fiskum við? Við ruglum stundum, víxlum miðum, grípum hið ómerkilega og sjáum ekki dýrmætin. Kierkegaard er ekki einn um að minna okkur á víxlmerkingar.

Tvö hundruð ár eru liðin frá fæðingu guðfræðingsins og heimspekingsins Sören Kirkegaard. Hann fæddist í maí 1813, skrifaði mikið á stuttri æfi og hafði mikil áhrif á vestræna menningu og hefur enn. Hann var ekki sjómaður en setti sig í spor sæfarans og þegar hann talaði um trú og Guðsafstöðu þá líkti hann því við að leggja á djúpið - á sjötíu þúsund faðma dýpi. Samkvæmt honum og raunar fylgdi hann Jesú Kristi í því: Líf fiskimannsins og trúmannsis er líkt. Í dag langar mig að miðla viskusögu sem Sören Kirkekgaard bjó til. Hún fjallar ekki um fiskveiðar en hvað merkir þessi saga? Sagan er í endusögn svona:

Víxlun Nótt eina brutust þjófar inn í skartgripaverslun. Í stað þess að stela dýrgripunum víxluðu og rugluðu þeir öllum verðmiðum. Því vissi enginn með vissu næsta dag hvort rétt væri merkt. Ódýru skartgripirnir höfðu skyndlega hækkað í verði og hinir dýrustu eitthvað verðbreyst. Og það makalausa var að hinir efnaminni gátu allt í einu keypt dýrgripi fyrir lítið fé en hinir fjársterku keyptu jafnvel glingur á okurverði. Glópagullið var dýrt en dýrmætin voru á kostakjörum. Þau sem töldu sig vera að kaupa vandaða dýrgripi keyptu drasl.

Hvað vakti fyrir höfundinum með svona sögu? Auðvitað er þetta kennslusaga og til íhugunar. Hún merkir að við menn eigum stundum erfitt með að greina hvað er mikilvægt frá hinu sem er lítilfjörlegt. Við ruglum oft gildum, víxlum miðum, grípum hið ómerkilega og sjáum ekki dýrmætin. Kierkegaard er ekki einn um að minna okkur á víxlmerkingar. Spekingar aldanna og allra menningarhefða hafa löngum bent á hið sama og hvatt menn til að róa á djúp gilda, trúar, speki og gæsku. Jesús Kristur talaði oft um hvað skipti fólk og líf máli og hvað ekki. Hvað setjum við í forgang, hvað þykir fólki eftirsóknarvert? Hver eru raunveruleg og varanleg gildi og hver ekki?

Og guðspjallssaga dagins er um að fólk geri ekki gull að guði sínum, rugli ekki merkimiðum lífsins. Og í smásögu Jesú í guðspjalli dagsins - sem er systursaga Kirkegaardsögunnar - segir Guð við hinn sjálfsörugga og sjálfsánægða auðmann: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Eiga eða vera Einn af þeim sem lærði af Sören Kierkegaard - stóð í þakkarskuld og hefð hans og naut þar með spekinnar - var sálgreinirinn Erich Fromm. Ég las á sínum tíma bók hans Að eiga eða vera. Bókarheitið gefur vel til kynna til efni ritsins. Fromm greindi á milli tvenns konar afstöðu eða veruleikanálgunar manna. Annars vegar er sókn fólks í eignir og að verða ríkt. Það fólk vill eiga - vera eignafólk. Hins vegar er sú lífsafstaða sem ekki er upptekin af eignasókn og eignahyggju, heldur því fremur að vera og þá óháð ytri verðmætum eða eignum. Vera eða eiga: Þetta eru stórflokkar sem við menn flokkumst í. Við sem einstaklingar tilheyrum flest báðum en í mismiklum mæli eða hutföllum.

Eignahyggjan snýst um efnisleg gæði og það sem eignarrétturinn getur tryggt. Grundvöllur eignarhyggjunnar er jafnan græðgi og aðferð hennar árásargirni samkvæmt Fromm. Veruhyggjuna segir hann hins vegar grundvallaða á elsku og aðferð hennar er að deila reynslu og samþætta krafta einstaklinga.

Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir, að eignahyggjan sé drottnunargjörn en veruhyggjan samráðsleitandi, eignahyggjan leiti að skýru og þrepskiptu valdi en veruhyggjan hvetji til aðildar sem flestra til ákvarðana og valda. Af þessari einföldu skiptingu má draga mjög róttækar ályktanir. Frumástæðu mengunar og hernaðar gegn náttúrunni taldi Fromm fundna í eignarhyggjunni, sem engu eirði fyrr en búið væri að brjóta og ná nokkru valdi á.

Fjársjóður og hjartað Það er einföld ástæða þess, að Kirkegaard og Fromm eru tilkvaddir sem vitni í erfðamáli guðspjalls á þessum sunnudegi. Kristnin kennir að líf sem snýst um eigur og ytri gæði leiðir ekki aðeins til tortímingar einstaklinga heldur einnig mannfélags. Og kristnin er ekki ein, boðskapur Jesú á sér samhljóm í Islam, Gyðingdómi einnig, norrænni speki og öðrum viskuhefðum einnig.

Þegar ytri gæði ráða hug og sókn fólks mun allt líða og bera skaða af, samfélag, þjóðfélag, verkmenning, já líka náttúran. Allt flekkast. Fyrsta boðorðið varðar þetta ofurmál. Hver meginafstaða fólks er varðar annað hvort heilsu og heill eða bölvun í heimi og mannfélagi. Siðferði og líf fólks er háð hver afstaðan er.

Er ástin til lífsins það sem einkennir þig, hefur þú smekk fyrir djúpferðum og fiskar þú á dýpi eða heldur þú þig bara á grunnsævi í öllum efnum? Ef eignasóknin nær að stjórna fólki og ráða er afleiðingin víxlun merkimiða, haldið fram hjá Guði. Þegar menn ætla að ná valdi á og sölsa undir sig hverfur auðmýkt gagnvart undri veraldar sem trúarhefðirnar kenna til Guðs.

Eiga - vera - trúa Jesús benti, á að menn gætu ekki þjónað mörgum herrum. Mammon þolir ekki annað en að vera miðjan í vitund og lífi aðdáenda sinna. Hlaupamaðurinn, sem kom til Jesú til að afla stuðnings í erfðabaráttu, hafði gleymt sér á hlaupum eftir eignum. Jesús hafði aldrei neitt á móti fjármunum sem slíkum heldur var umhugað um innri heilindi, innræti fólks og frumafstöðu. Francis Bacon tjáði jesúlega afstöðu þegar hann orðaði svo hnyttilega að auðævin væru góður þjónn en afleitur húsbóndi. Skáldið Einar Benediktsson minnti á: “Hver laut sínum auði var aldrei ríkur/ Öreigi bar hann purpurans flíkur.” Í Sólarljóðum segir “margan hefur auður apað.” Alþýðuviskan minnir á, að á líkklæðunum séu engir vasar – speki sem var notuð í nýliðinni kosningabaráttu!

Jesús minnir okkur á að illa sé komið fyrir eignamanni sem á engin hlutabréf eða höfuðstól á himnum. Með hliðstæðum hætti segir Fromm: „Ef ég er það sem ég á og missi það, hvað er ég þá?“ Hann bætti við: „Á nítjándu öldinni var vandinn sá að Guð væri dauður. En á tuttugustu öldinni var vandinn að maðurinn væri dauður!“ Verkefni okkar á okkar tíma – 21. öldinni - er að lágmarka skefjalausa eignahyggju sem deyðir, en efla veruhyggju og líka trúna. Vegna hvers – vegna lífsins.

Aurasál og aðalgæðin Sören Kierkegaard skrifaði: „Ef ég myndi óska mér einhvers myndi ég ekki óska mér auðs og valda heldur að ég skynji djúpt möguleika... ...Ánægjutilfinning er hverful en möguleikar valda engum vonbrigðum. Hvaða vín freyðir eins fagurlega, ilmar svo vel eða hrífur eins stórkostlega og möguleikinn.“

Stöðugt er verið að víxla gildum - verðmiðum í samfélagi okkar. Okkar er að staldra við og meta sjálf, hugsa sjálf, taka sjálf ákvarðanir um hvað skipti máli. Okkar er að halda út á sjötíu þúsund faðma djúp eigin sálar og meta hvernig veiðiskapur okkar skuli vera, hver lífsgæði okkar við viljum halda í. Í samfélagi okkar er veiðiskapur stundaður og hann á að vera til heilla og í þágu allra. Þegar þú verður veiddur eða veidd upp úr trolli lífsins, hvaða merkimiða færðu þá. Það er ekki gott að þá verðir þú merktur sem heimskingi. Reyndar er á okkur strikamerki skírnarinnar. En látum ekki glepjast af glingrinu. Það er nú raunar æviverkefni og varðar útgerð til lífs.

Amen.

Textaröð: B Lexía: Mík 6.6-8 Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin, fram fyrir Guð á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með veturgamla kálfa? Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta og tugþúsundum lækja af ólífuolíu? Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar? Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.

Pistill: 1Tím 6.17-19 Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.

Guðspjall: Lúk 12.13-21 Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum. “ Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé. “ Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð. En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“