Krossins orð

Krossins orð

Kvalavein. Blót og formælingar. Skvaldur, hróp, harmatölur og óp. Háðsglósur ... Við berumst með straumi fjöldans sem þrengir sér nær til að sjá þessa þrjá sakamenn, afmyndaða af kvölum, neglda á kross. Þetta tætta hold og blæðandi undir, afskræmdu andlit. Ég veit að tveir þessara manna eru ræningjar og manndráparar, sem taka út makleg málagjöld. Hvað er annars makleg málagjöld?
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
14. apríl 2006

Kvalavein. Blót og formælingar. Skvaldur, hróp, harmatölur og óp. Háðsglósur ...

Við berumst með straumi fjöldans sem þrengir sér nær til að sjá þessa þrjá sakamenn, afmyndaða af kvölum, neglda á kross. Þetta tætta hold og blæðandi undir, afskræmdu andlit.

Ég veit að tveir þessara manna eru ræningjar og manndráparar, sem taka út makleg málagjöld. Hvað er annars makleg málagjöld?

Hann er saklaus. JESÚS. Hver þeirra er hann? Ég sé það ekki.

Og ég sem var alveg viss um að himneskt ljós myndi leika um hann, yfirnáttúrleg birta, ólýsanleg tign, konungleg ró, að ekki færi milli mála. Ég sem var alveg viss um að eitthvað myndi gerast, að englasveit myndi birtast og frelsa hann og refsa böðlum hans, opinbera í eitt skipti fyrir öll þennan herfilega glæp að saklaus er dæmdur, að Guðs sonur, frelsarinn er pyntaður, deyddur.

Ekkert slíkt gerist.

Hann talar. Hver? JESÚS. Jú, víst það er hann. Jesús. Hvað segir hann?

FAÐIR FYRIRGEF ÞEIM, segir hann. ÞEIR VITA EKKI HVAÐ ÞEIR GJÖRA!

Nú sé ég! Þetta er hann! JESÚS. Enginn myndi segja svona nema hann! Hann einn. Ég veit það, vegna þess að ég hef svo oft séð það. Ég hef svo oft heyrt það. Ég hef svo oft fundið þessa fyrirgefningu, mildi, náð.

Ég ætla að færa mig nær. Ég ætla að hlusta eftir rödd hans, gegn um skarkalann og ófriðinn. Ég ætla að hlusta ... og sjá.

NÚ ER HANN SONUR ÞINN. NÚ ER HÚN MÓÐIR ÞÍN!

Við hverja er hann að tala?

Er þetta ef til vill móðir hans, þessi bugaða kona sem í þessu hallar sér að ungum manni sem horfir til krossins í svo mikilli sorg og örvinlan?

Samt finnst mér sem þessi orð séu líka ætluð mér, til að beina athygli minni að þeim sem umhverfis mig eru og til kalla mig til samstöðu og umhyggju, að halda áfram verki hans.

MIG ÞYRSTIR! Hrópar hann. Það er eitthvað í þeim orðum sem nístir mann. Ég sé að það er ekki bara sollinn tungan, skorpnar varir, ofþornun líkamans sem hrjáir hann og þjakar og vekur ópið af vörum hans. Ég heyri bergmál í orðum hans, enduróm neyðarópa allrar angistar, alls ótta, alls vonleysis guðvana mannkyns. Og þetta er þorsti Guðs sem þyrstir eftir að mannkyn heyri, og hlýði rödd mildi og miskunnsemi, umhyggju og samstöðu, fyrirgefningar og friðar.

Svo hrópar hann hárri röddu. Var það neyðaróp, eða sigurs? Ég heyrði það ekki. Ég sé bara að hann gefur upp öndina. Og ég heyri einhvern í mannfjöldanum segja: "Sannarlega var þessi maður sonur Guðs." Og það bergmálar í hjarta mér er ég ber mér á brjóst og held á braut. Sannarlega er hann sonur Guðs.

Ég ætla að muna það hvenær sem þjáningin verður á vegi mínum. Þegar myndir hörmunganna birtast á skjánum, þegar ótíðindin berast að eyrum, þegar ég þarf að líða og þjást, þá ætla ég að hlusta eftir rödd HANS, og reyna að koma auga á HANN og halda mig nálægt HONUM - sem tók á sig mannsins mein og sorg, þjáning og dauða - til að leysa, líkna, gefa líf.

Því ég veit, að þegar ég heyri óminn af orði hans, þegar ég sé skuggann af krossi hans - þá sé ég um leið bjarma af degi vonar, framtíðar, lífs, upprisu - PÁSKUM