Undursamlegt samhengi náðarinnar

Undursamlegt samhengi náðarinnar

Í pistli þessa Drottinsdags eru yndisleg orð úr upphafi fyrra Korintubréfs. Ekki er hægt að hugsa sér betra orð í nesti frá stund sem þessari en þessa hlýju hvatningu postulans: „Ávallt þakka ég Guði mínum fyrir þá náð sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú. ... Trúr er Guð sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns, Jesú Krists, Drottins vors.“(1.Kor.1.4-9)

Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú. Í honum eruð þér auðgaðir orðnir í öllu, í hvers konar ræðu og hvers konar þekkingu. Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar, svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists. Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists. Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors. (1.Kor.1.4-9)

Í pistli þessa Drottinsdags eru yndisleg orð úr upphafi fyrra Korintubréfs. Ekki er hægt að hugsa sér betra orð í nesti frá stund sem þessari en þessa hlýju hvatningu postulans: „Ávallt þakka ég Guði mínum fyrir þá náð sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú. ... Trúr er Guð sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns, Jesú Krists, Drottins vors.“(1.Kor.1.4-9)

Ég veit að í eyrum margra hér inni hljóma þessi orð sem sérstök kveðja kirkjunnar til þín, kæri vígsluþegi. Við viljum gera þau að okkar orðum, játningu og bæn. Við þökkum Guði fyrir þá náð sem þú hefur þegið í Kristi Jesú. Við þökkum Guði trúfesti hans sem hefur kallað þig til þjónustu. En orðin eru áminning og blessunarbæn yfir okkur öllum. Öll erum við þiggjendur óumræðilegrar náðar, öll höfum við fengið að njóta þeirrar trúfesti og kærleika sem borið hefur okkur á ástarörmum allt til þessarar stundar. Á þá arma minnir skírnarfonturinn hér í Dómkirkjunni, á ævimorgni varst þú helguð Kristi, eins og við öll, þú varst vatni ausin af föður þínum á vígsludegi hans, á allra heilagra messu. „Trúr er Guð sem þig hefur kallað til samfélags sonar síns, Jesú Krists, Drottins vors.“

Þegar rithöfundurinn J.M. Coetzee tók við Nóbelsverðlaununum í fyrra, hélt hann athyglisverða ræðu. Hann sagði þar meðal annars að rithöfundar og fræðimenn vinni afrek sín alla jafna og yfirleitt fyrir mömmur sínar. Í huga hans hljómar þetta svona: „Mamma, ég fékk Nóbelsverðlaun!“ - „Jæja, já, - kláraðu nú kartöflurnar þínar!“

Ég held hann hafi verið að segja með þessu að í augum mömmu ertu alltaf barnið hennar, þú vinnur þig ekki upp í áliti, jafnvel ekki með Nóbelsverðlaunum. Ást mömmu, já og pabba, er skilyrðislaus. Fagnaðarerindið sem þú ert helguð og frátekin til að vitna um, miðla, boða, fjallar um þessa skilyrðislausu elsku, náð.

Ég veit, Sigríður Munda, að þú hugsar á þessari stundu með þakklæti og gleði til foreldra þinna, hans föður þíns, blessuð sé minning hans, og móður þinnar, sem leiddu þig, studdu og beindu á veg góðs og gæfu, og umvöfðu elsku sinni. Guð blessi þau. Og eins hugsum við hin til okkar eigin feðra og mæðra með þökk og kærleika. Guð blessi það sem til var sáð af bæn og ást og trú. Ljós tendrast af ljósi, líf af lífi og eins kviknar trú af trú og von af von, kærleikur af kærleika. Þetta er allt undursamlegt samhengi sem við stöndum í. Samhengi náðarinnar. Öll iðkun og atferli kristinnar kirkju er mynd þeirrar náðar. Umfram allt skírnin. Barnið litla á ástvinarörmum, vanmegna, varnalaust barnið. Og Kristur Drottinn, sem tekur á móti því, nefnir með nafni og segir við það: „Þú ert mín, þú ert minn!“

Undursamlegt er samhengið, samhengi náðarinnar. Hetjan stóra og máttuga, leiðtoginn djarfi, andans jöfurinn öflugi var eitt sinn ambrandi ungbarn, öðrum háð um allt, bókstaflega allt. Já, undir skrúða prestsins, virðingartitli, hefðum og hátíðleika, er manneskja, mannsbarn. Á bakvið sérhverja manneskju, bakvið sérhverja hetju og sigurvegara er móðurskaut og móðurmund, og ótal ákvarðanir ástvina og samferðarfólks og samfélags. Öll eigum við sameiginlegt að það var annað fólk sem gaf forsendurnar fyrir því sem við erum og gerum. Og skaphöfn og dyggðir eins og góðvild, réttlæti, hugrekki eða óeigingirni eru ekki meðfæddar. Þær eru áunnar, þeim er miðlað, til þeirra sáð og að þeim hlúð af foreldrum og ástvinum, og þær ræktar í iðkun og ögun, bæn og trú. Þegar frá líður geta margir séð æsku sína og uppvöxt og ævibraut með augum trúarinnar og séð og þakkað náð Guðs og trúfesti við sig, séð og þakkað handleiðslu Guðs og hlífð. Já, allt er náð.

Í frásögnum hinnar helgu bókar um lífið, kærleikann, dauðann, og um Guð, er að finna uppistöðu sem ekki breytist og sem heldur öllu saman. Það er þessi undursamlega náð og trúfesti. „Ég þekki þig með nafni, þú ert minn!“ Eiginlega geymir bókin helga rauðan þráð slíkra ástarjátninga, þótt okkur finnist á stundum æði margt í þeirri bók snúast eitthvað annað. Og stundum finnst okkur jafnvel sem Guð láti sér fátt um finnast um okkur, um afrek okkar og gjörðir. En bókin helga segir, og tilvera kirkjunnar vottar og játar: Ástaraugu hvíla á þér, kærleikshönd umlykur þig. Og allt er náð. Þú kaupir þér ekki velþóknun Guðs, ást og umhyggju, eilíft líf. Allt er náð, Guðs gjöf, sem við fáum að þiggja í trú. Og „ Trúr er Guð sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns, Jesú Krists, Drottins vors.“

Sigríður Munda, hér muntu innan stundar krjúpa milli skírnarfontsins og altarisins og þiggja heilaga vígslu. Á ævimorgni varstu lögð í faðm frelsarans í heilagri skírn. Borin móðurörmum, ausi vatni úr föður hendi. Á bak við það voru ósýnilegir armar. Þeir ósýnilegu armar Drottins hafa umvafið þig frá móðurlífi, og föðurhöndin hans milda, sterka, hefur leitt þig og blessað. Nú muntu gefa heilög heit og helgur skrúði mun skrýða þig og vígðar hendur verða yfir þig lagðar til marks um að heilög kirkjan kallar þig og tekur frá og sendir til þjónustu orðs og sakramenta. Ég veit þú munt aldrei gleyma því andartaki. Né heldur því að hinn vígði þjónn er sérstaklega frátekin til þess að birta það sem sérhver manneskja er helguð í heilagri skírn: Að tjá kærleika Guðs, vera auglit og hendur Krists í heiminum, boða Jesú trú, vitna um huggun og von og vísa veginn rétta. Þú ert frátekin til að vera vitnisburður um trúfesti Guðs og náð, og næra, uppörva, styrkja, kalla aðra til þess að lifa sína kristnu köllun á grundvelli skírnar sinnar.

Við samfögnum þér, kæra Sigríður Munda. Eftir andartak verðurðu séra.

„Jæja, já,“ segir Drottinn, - eins og mamma hans Coelzee´s - „en kláraðu nú kartöflurnar þínar!“ Það er: Gleymdu nú ekki að vera manneskja! Þú ert frátekin og send sem prestur, jú, en umfram allt sem manneskja. Þú ert kölluð af söfnuðinum til að þjóna Guði og af Guði til að þjóna söfnuðinum, til að þjóna í nafni og umboði þess Guðs sem varð maður, mannsbarn á jörðu, því svo elskaði Guð heiminn. Og allt er náð. „Trúr er Guð sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns, Jesú Krists, Drottins vors.“

Prestsvígsla, 10. okt. 2004- 18. sd eftir. trin. Sigríður Munda Jónsdóttir vígð til Ólafsfjarðarprestakalls